Mikilvægasta ætt trjáa í ræktun á norðurslóðum er án efa þallarættin, Pinaceae. Innan þeirrar ættar eru flestar tegundirnar sem mynda barrskógabeltið. Þöll (Tsuga spp.), fura (Pinus spp.), þinur (Abies), greni (Picea spp.) og lerki (Larix spp.) eru öll innan ættarinnar. Tré vikunnar er það líka. Ekki nóg með það. Á hinum ýmsu tungumálum má tengja það við allar ofangreindar tegundir.
Á latínu heitir það Pseudotsuga menziesii. Ættkvíslarheitið Pseudotsuga er samsett úr orðunum pseudo og tsuga. Pseudo merkir gervi eða falskur, en tsuga er nafnið á ættkvísl þalla. Latínuheitið merkir því fölsk þöll, eða gerviþöll.
Í enskumælandi löndum gengur viður þessa merkilega trés undir nafninu Oregon Pine. Pine er fura á því tungumáli. Aftur á móti er heitið Douglas Fir gjarnan notað yfir sjálft tréð. Fir er enska heitið á þin.
Á frændtungum okkar í Danmörku, Svíþjóð og Noregi kallast tréð sem merkir douglasgreni. Það heiti hefur stundum verið notað yfir þessa tegund á íslensku. Gildir þá einu hvort við viljum skrifa douglas eða doglas fyrir framan greniheitið.
Svo hafa erfðafræðingar bent á að þrátt fyrir að vera kennd ýmist við þallir, greni eða furur er það þróunarfræðilega skyldast lerkinu. Í Hallormsstaðaskógi má t.d. finna sömu sveppi, t.d. hinn bragðgóða lerkisúlung, Suillus grevillei, jafnt með lerki og degli.
Þjóðverjar nota jöfnum höndum Douglasie (degli), Douglasfichte (douglasgreni) og Douglastanne (douglasþinur) yfir tegundina. Það má því með sanni segja að nafn þessarar tegundar, eða tegundin sjálf, tengist allri þallarættinni á einn eða annan hátt.
Horft upp eftir stofni deglis í Svartaskógi í Þýskalandi. Þetta mun vera stærsta tré Þýskalands. Árið 2017 var það 66,58 metrar á hæð. Eins og sum önnur merkistré hefur það fengið sérnafn. Það heitir Waldtraud. Um það má lesa nánar hér.
Hver er þessi Douglas?
Eins og glöggir lesendur hafa eflaust áttað sig á nú þegar er býsna algengt á granntungum okkar að kenna tréð við mann að nafni Douglas. Má bæta við þá upptalningu að Finnar kalla tegundina douglaskuuset og Hollendingar Douglasspar. Sjá Orðabanka Íslenskrar Málstöðvar. Því er við hæfi að skoða þennan merka mann aðeins nánar.
Degliskógur á Vancouvereyju undan strönd Bresku Kólumbíu í Kanada. Þarna nær deglið einna mestum þroska.
Myndin fengin héðan en hana tók Gerry Ellis.
David Douglas var skoskur grasafræðingur. Hann varð fyrstur manna til að koma með fræ af þessu tré til Evrópu og sagði frá því svo eftir var tekið. Þess vegna er það kennt við hann á mörgum tungumálum. Reyndar nær öllum tungumálum. Hann var samt ekki sá fyrsti sem lýsti trénu. Douglas fæddist árið 1799 og starfaði sem garðyrkjumaður í heimalandi sínu og skrifaði um gróður í skosku hálöndunum. Síðan fór hann á flakk. Hann rannsakaði gróðurfar í vesturhluta Norður-Ameríku og fór þangað í þrjár rannsóknar- og söfnunarferðir frá Bretlandseyjum. Voru það miklar svaðilfarir sem hann lýsti náið í dagbókum sínum. Þegar David Douglas rannsakaði þessa tegund árið 1825 mældi hann tré sem var 70 metra hátt og tæpir 15 metrar í þvermál (Tudge 2005). Ekki gekk honum vel að nálgast könglana á þessum risa eða öðrum risum í nágrenninu. Það tókst þó fyrir rest og fóru fræin til Englands ásamt fræjum ýmissa annarra trjáa. Samtals voru það 125 pund af fræjum og bárust þau til Englands árið 1827. Seinna fór hann til Hawaii til að rannsaka gróður. Þar lést hann í slysi árið 1834 aðeins 35 ára að aldri, Þá var hann klífa eldfjallið Mauna Kea en varð fyrir því óláni að falla ofan í dýragildru. Bar þá að naut sem stangaði hann til bana. Á stuttri ævi sinni afkastaði hann ótrúlega miklu en nafn hans lifir í nafninu á þessu stóra tré. Hann hvílir í ómerktri gröf í Honólúlú. Þess má geta að döglingskvistur, sem var tré vikunnar í ágústmánuði 2021, heitir eftir þessum sama grasafræðingi.
Fræðiheitið
Á latínu er tréð kennt við allt annan mann. Sá var einnig skoskur og kom við meðal annars við sögu apahrellis eins og hér er greint frá. Archibald Menzies lýsti þessu tré þegar hann fór á skipinu Vancouver í gegnum Pugetsund árið 1791 eða 1792 (heimildum ber ekki saman), sem skilur stóra eyju frá meginlandinu. Það var eitt af afrekum þessa leiðangurs að finna þetta sund. Eyjan heitir nú eftir skipinu. Þetta var sjö eða átta árum áður en Douglas fæddist. Aftur á móti reyndi Menzies ekki að rækta þetta tré eins og hann gerði með apahrellinn nokkru síðar. Hann flutti hvorki fræ né lifandi plöntur með sér af þessari tegund. Menzies safnaði engu að síður sýnishornum af þessu tré og reyndar mörgum öðrum tegundum. Flutti hann safn þetta allt til Englands. Þegar þangað var komið tók við efniviðnum maður að nafni Lambert. Hann var á seinni hluta 18. aldar talinn einn mesti fræðimaður Evrópu í barrtrjám. Honum tókst samt ekki betur til við greininguna en svo að hann taldi þetta vera nýja furutegund. Var hún kölluð Pinus taxifolia. Viðurnefnið taxifolia er dregið af heitunum Taxus og folia. Taxus er ættkvíslarheitið á ývið en folia merkir lauf (í þessu tilfelli barr). Latínuheitið merkir því fura sem er með barr eins og ýviður. Þetta ber grasafræðingnum Lambert ekkert sérstaklega gott vitni en þess ber að geta að efniviðurinn, sem hann notaði til að lýsa tegundinni, var nokkra ára gamall. En á þessu sést, enn og aftur, að þessi tegund hefur ruglað margan manninn og hlotið merkileg nöfn, víða úr þallarættinni.
Þegar Davið Douglas sá þessi tré fyrst skráði hann sýnishorn sýn undir þessu nafni. Það var svo árið 1867 sem nafninu var breytt í Pseudotsuga menziesii (Wells 2010) til heiðurs grasafræðingnum sem fyrstur lýsti tegundinni.
Eins og áður segir merkir ættkvíslarheitið Pseudotsuga fölsk þöll en það er ekki nokkur ástæða til að rugla þeim tegundum saman.
Þéttur degliskógur í Kaliforníu. Myndin fengin héðan.
Íslenska heitið
Hér á landi hefur tegundin lengst af gengið undir nafninu döglingsviður eða douglasgreni. Í seinna tilfellinu er auðvitað verið að kenna tréð við áðurnefndan Douglas en stundum er það íslenskað og kallað doglasgreni. Döglingsviður gæti verið af sömu rót runninn og er þá einskonar hljóðlíking. En það er dýpri pæling þarna að baki. Orðið döglingur er gamalt heiti í íslenskum skáldskaparkenningum og merkir konungur. Döglingsviður merkir því konungatré og er það vel til fundið.
Þormóður Kolbrúnarskáld orti margar vísur um Stiklastaðaorrustu sem hann tók þátt í. Þar á meðal er þessi:
Haraldr var bitr að berjast
böðreifr með Óleifi.
Þar gekk harðra hjörva
Hringr og Dagr að þingi.
Réðust þeir und rauðar
randar prútt að standa,
fékk benþiður blakkan
bjór, döglingar fjórir.
Samkvæmt þessari vísu voru fjórir konungar í orrustunni (döglingar fjórir). Þar voru staddir Haraldur harðráði (fyrstur í vísunni) og frændur hans tveir; Hringur og Dagur. Fjórði konungurinn var svo auðvitað Ólafur helgi, sem féll í orrustunni. Myndin hér til hliðar á að sýna þann atburð. Samkvæmt vísunni stóðu þeir döglingar allir hraustlega undir rauðum skjöldum en hrafninn; þiður sáranna (benþiður) fékk blakkan bjór að smakka. Sá drykkur var auðvitað blóð þeirra sem féllu. Af þessu má sjá hversu stórmannlegt það er að kalla þetta konunglega tré döglingsvið. Íslensk málstöð heldur sig við það nafn, enda er það ljómandi gott og á vel við.
Hin síðari ár hefur heitið degli unnið á enda stutt og þjált. Það er dregið af ofangreindum heitum en hefur ekki vísun í neitt annað, svo vitað sé. Sumir taka þessu nafni fagnandi á meðan aðrir láta eins og þeim sé strokið andhæris þegar það ber á góma. Höfundur nafnsins er Axel Kristinsson.
Til eru fleiri tillögur að nöfnum á þetta tré. Bent hefur verið á að á skoskri gelísku merkir sérnafnið Douglas eitthvað svipað og Myrká. Ef við viljum heiðra þennan ágæta Skota með því að nefna þetta tré eftir honum, rétt eins og gert er hjá nágrannaþjóðum okkar, mætti því kalla tréð myrkárþöll. Tréð er jú af þallarætt.
Degli á Akureyri sem nú er fallið. Tegundin hentar ekki vel sem garðtré. Mynd: Pétur Halldórsson.
Ekki er þó mælt með því að auka á ruglinginn með því að nota þetta myrkárþallarnafn. Það er þó stundum notað af skógræktarmönnum eins og hver annar brandari. Í þessari grein er farið eftir heimasíðu Skógræktarinnar og tréð kallað degli. Þar með er þó ekki verið að leggja mat á hvort heppilegra sé að kalla tréð degli eða döglingsvið. Bæði heitin eru jafngild.
Lýsing
Degli er að jafnaði stórvaxið sígrænt barrtré með beinan stofn og keilulaga krónu. Það getur orðið allt að 100 metrar á hæð og eftir því svert. Algengt þvermál í brjósthæð á slíkum trjám er um 2,4 metrar. Þessi tré geta orðið mörg hundruð ára gömul og jafnvel allt að 1300 ára að því að talið er. Svona risa er fyrst og fremst að finna þar sem vaxtarskilyrði eru óvenjugóð og ársúrkoma mikil. Víða má þó finna teiga af þessum trjám sem náð hafa að minnsta kosti 60 metra hæð þótt skilyrðin séu ekki jafn góð. Þetta eru því sannir konungar þallarættarinnar. Aðeins risafururnar, Sequoiadendron giganteum, sem tilheyrir allt annarri ætt, ná meiri hæð í Norður-Ameríku. Ef tréð stendur stakt eða þannig að sól nær að skína á það heldur það greinum sínum allt niður til jarðar. Ef tréð vex í þéttum skógi tapar það neðstu greinunum sem gefur kvistlítinn úrvalsvið.
Fornt degli í lundi sem kallast Cathedral Grove eða Dómkirkjulundur. Lundurinn er í MacMillan Provincial Park á Vancouvereyju. Fyrir um 300 árum varð þessi lundur skógareldi að bráð en nokkur tré lifðu eldana af og mynda þennan lund. Undirgróðurinn er því allt að 300 ára gamall, en trén miklu eldri.
Myndin og upplýsingar fengnar héðan en myndina tók Phillip Colla.
Barr
Degli er sígrænt barrtré. Barrið er mjúkt og dökkgrænt eða blágrænt. Á neðra borði nálanna eru tvær hvítar rendur. Barrið stendur nánast jafnt út til allra hliða og vex alltaf eitt og eitt út úr greinunum en ekki í vöndlum eins og þekkist hjá furum og lerki. Sami háttur er hjá þin, greni og þöll. Ef nálarnar eru nuddaðar gefur það frá sér sæta lykt.
Neðra borð barrnálanna. Myndin fengin héðan en hana tók Alexey Zinovjev.
Eldra degli má þekkja langar leiðir á barrinu. Það myndast á smágreinum sem hanga áberandi mikið á greinunum. Þetta einkenni er ekki eins auðséð á ungum trjám. Þeir sem séð hafa degliskóga nálágt hafi í vestanverðri Norður-Ameríku hafa lýst ótrúlega fallegum bylgjuhreyfingum þegar vindar Kyrrahafsins leika við þessar hangandi smágreinar.
Degli í Kænugarði í Úkraínu. Sjá má hvernig barrið hangir á trjánum. Myndin fengin að láni hjá Kew Gardens.
Smágreinar á degli hanga gjarnan niður eins og hér má sjá. Myndin fengin frá Wikipedia.
Könglar deglisins hanga á greinum trjánna eins og algengt er innan ættarinnar (þótt þinur hafi annan háttinn á) en eitt einkenni gerir þá gjörólíka öðrum könglum. Út á milli mjúkra, breiðra köngulhlífa standa ummynduð laufblöð sem mynda þrjá brodda. Líkist þetta töluvert þríforkum þeim sem sjávarguðinn Posidon notaði gjarnan, nema hvað miðbroddurinn er lengstur. Það þekkist hjá sumum þintegundum að svona ummynduð blöð myndi eins konar brodda, en aðeins deglið myndar svona þríforka.
Þroskaðir könglar deglis.
Myndin fengin af vef Cambridge University Botanic Garden
Ungir könglar á lerki í Kænugarði. Myndin fengin af vef Kew Gardens.
Heimkynni
Tré þetta vex í öllum vestustu ríkjum Bandaríkjanna og einnig í Kanada og Mexíkó. Þótt það nái mestum þroska þar sem ársúrkoma er mikil má einnig finna það á þurrari stöðum í suð-vestur ríkjum Bandaríkjanna. Á slíkum stöðum vex það aðeins til fjalla þar sem hitinn er ekki eins óbærilegur.
Sérstakt strandafbrigði vex allt frá Kaliforníuflóa og norður til Bresku Kólumbíu en í Klettafjöllunum má finna tré frá Kanada til Mexíkó. Lýsingarnar, sem finna má í þessum pistli, eiga fyrst og fremst við um strandafbrigðið.
Olíumálverk frá 1875 eftir Marianne North sem ber heitið Rainbow over the Bridal Veil Fall, Yosemite, California. Í forgrunni má sjá degli ásamt elri, sýprusviði og blómstrandi mjallhyrni. .
Afbrigði
Fræðimenn hafa skipt tegundinni í tvö meginafbrigði. Sumir vilja bæta því þriðja við. Eitt þeirra verður að teljast líklegast til að þrífast best hér á landi. Kallast það P. menziesii var. menziesii og vex það næst ströndinni af þessum afbrigðum. Þetta er það tré sem vex hraðast og mest af þeim öllum. Hin tvö eru P. menziesii var. glauca sem vex í Klettafjöllunum og hefur ljósara yfirbragð. Það vex ekki eins hratt og nær ekki jafn háum aldri. Hið þriðja á sennilega enga möguleika hér og kallast P. menziesii var. lindleyana og vex aðeins í Mexíkó. Sumir flokka það með klettafjallaafbrigðinu.
Klettafjallaafbrigðið af degli. Myndin fengin héðan.
Útbreiðsla deglis. Hér er tegundinni skipt í þrjú afbrigði en algengara er að hafa þau tvö.
Ræktun
Í hinum stóra heimi er þetta tré töluvert ræktað. Einkum til viðarframleiðslu. Mest er það ræktað á heimaslóðum í Ameríku. Þar myndar það jafnan mikið fræ og sáir sér út. Því er vel hægt að nýta tegundina á sjálfbæran hátt, jafnvel þótt ekki sé plantað nýjum trjám. Aðeins þarf að gæta þess að skilja eftir heppileg frætré. Skuggþolnar tegundir, svo sem þallir, eiga auðvelt með að vaxa upp í degliskógum. Reyndar eru ungar degliplöntur skuggþolnar en þurfa samt meira ljós en þallir. Skyggja þær svo mikið á skógarbotninn að deglið á litla möguleika til að endurnýja sig. Það er reyndar ekki svo slæmt þar sem tegundin er langlíf og vænta má tækifæra fyrr eða síðar. Aftur á móti er það svo að þegar skógarnir eru nýttir og tré tekin í burtu skapast mjög heppilegt set fyrir fræin af þeim trjám sem skilin eru eftir. Því auðveldar skógarhöggið í raun endurnýjun þessara risa.
Sennilega hefur þessi risi verið skilinn eftir við skógarhögg. Afkvæmi hans eru allt í kring. Myndina tók Tammy Pangle í Wenatchee Mountains í Washingtonríki.
Sérstök deglibjalla Dendroctonus pseudotsugae veldur skaða í ræktun trjánna. Myndin er fengin héðan en hana tók William M. Ciesla.
Víða í Evrópu er þessi tegund ræktuð til viðarnytja. Hér er grein fyrir áhugasama um ræktun deglis í álfunni. Í austurhluta Bandaríkjanna og í Evrópu eru trén að auki ræktuð í almenningsgörðum en þau eru einfaldlega of stórvaxin fyrir litla einkagarða. Sem dæmi má nefna að hæsta tré Þýskalands er einmitt af þessari tegund og er mynd af því hér ofar. Sjálfsagt á það við um fleiri Evrópulönd. Samkvæmt þessum lista myndar ættkvíslin Pseudotsuga, sem deglið er af, næsthæstu trén í Evrópu. Aðeins ein ættkvísl, tröllatré, Eucalyptus spp. nær meiri hæð í álfunni. Innan þeirrar ættkvíslar eru reyndar tvær tegundir sem ná meiri hæð. Samkvæmt listanum eru að minnsta kosti þrjú degli sem ná yfir 67 metra hæð í álfunni. Tvö þau hæstu eru nálægt Waterloo brú við Ford Craugkab Road á Bretlandseyjum, svona ef einhver vildi fara að skoða þau. Hæst þessara trjáa er sagt vera 67,5 metrar á hæð árið 2016.
Í þessum lundi eru hæstu degli Evrópu. Þau eru yfir 67 metrar á hæð.
Vetrarmynd af degli í Finnlandi. Myndin fengin héðan.
Ræktun á Íslandi
Það er engum blöðum um það að fletta að hér á landi getur þessi tegund orðið að minnsta kosti 30 metrar á hæð í innsveitum. Mælt er með að tréð fái gott skjól í uppvexti en reynslan á berangri er ekki góð. Í góðu skjóli má búast við að vaxtarhraðinn verði allmikill þegar tréð hefur komið sér fyrir. Best hefur reynst að planta degli í grisjaða lerkiskóga.
Lítið og nett degli eftir einn vetur úti. Plantan kann vel að meta skógarskjólið. Sjá má að toppbrumið var óskemmt eftir veturinn svo það vex eðlilega. Myndina tók Ari Egilsson, en hann stakk upp á tegundin yrði fyrir valinu sem tré vikunnar.
Reynsla af ræktun tegundarinnar er enn ekki mjög mikil. Hætt er við haustkali en með réttu kvæmavali má eflaust laga það. Að auki hefur hamfarahlýnun á jörðinni gert sumrin lengri og hlýrri en þau áður voru. Þá minnka líkurnar á haustkali. Í Kristnesi í Eyjafirði hefur Helgi Þórsson ræktað talsvert af degli. Er mikill munur á milli einstaklinga og trén koma víða að. Næstu þrjár myndir sýna dæmi úr þessari ræktun. Eins og sjá má er munurinn sláandi.
Þetta degli var gróðursett í Kristnesi árið 1995. Það hefur vaxið mikið á nánast hverju ári en jafnan kalið. Því er það með kræklóttan og gildan stofn og ýmist með engan topp eða marga. Hún þakkaði fyrir hlýja sumarið í fyrra með því að koma með köngla núna í sumar. Er það í fyrsta skiptið sem hún gerir það. Mynd: Helgi Þórsson.
Köngull á trénu hér að ofan. Eitthvað er málum blandið að broddarnir mynda ekki þrífork. Má vera að þeir eigi eftir að myndast, eða að eitthvað er hér ekki eins og það á að vera. Mynd: Helgi Þórsson.
Sjö ára gömul planta frá Kamloops í miðhluta Bresku Kólumbíu í Kanada. Kamloops er nafn á litlum bæ sem stendur við samnefnt vatn við Thompson-á. Þetta tré hefur aldrei kalið, heldur vaxið áfallalaust og lofar mjög góðu. Mynd og upplýsingar: Helgi Þórsson.
Ólafur Sturla Njálsson hefur lengi fengist við ræktun deglis og er með þrjú eða fjögur kvæmi í ræktun núna í ræktunarstöð sinni í Nátthaga. Samkvæmt hans reynslu er meiri munur á milli einstaklinga en milli kvæma. Munurinn sést meðal annars á því að eftir fimm ára ræktun halda í sumum tilfellum aðeins um 20% plantnanna alltaf toppi og verða því þráðbeinar og flottar. Hinar eiga það til að verða fyrir toppkali á haustin sem aflagar vöxtinn (Ólafur Sturla, 2022)
Degli úr ræktun Ólafs í Nátthaga. Kvæmið er Flathead í Montana. Aðeins þær sem halda toppi fá náð fyrir augum ræktandans. Myndir: Ólafur Sturla Njálsson.
Stærsta tréð af þessari tegund á Íslandi er í Hallormsstaðaskógi þar sem það náði 20 metra hæð árið 2009 og er enn í góðum vexti. Það tré var gróðursett árið 1940.
Hundurinn Kári situr við hæsta degli landsins í Hallormsstaðaskógi. Mynin tekin fyrir um áratug. Mynd: Þröstur Eysteinsson.
Tegundin er til í skógum víðar um landið. Má vel vera að degli verði mikilvægt tré í framtíðarskógum landsins. Það er náskylt lerkinu og með því að gróðursetja degli í grisjaða lerkiskóga er því séð fyrir heppilegum uppvaxtarstöðum með réttum jarðvegslífverum. Það mun hjálpa þessari glæsilegu tegund.
Degli á Atlavíkurstekk í Hallormsstaðaskógi hefur náð yfir 20 metra hæð.
Mynd: Þröstur Eysteinsson.
Á Akureyri var lengi vel til stórt og mikið tré af þessari tegund. Það var valið sem tré vikunnar í júli 2019. Þetta fræga tré fyllir nú hópinn „horfin tré“
Eins og sjá má á myndunum var þetta tré ekki einstofna eins og það á að vera, en það var mjög stórt og glæsilegt.
Deglið við Bjarmastíg á Akureyri. Mynd: Pétur Halldórsson
Í Vaðlareit má einnig finna degli. Það var líklega gróðursett 1937 eða 1939. Lengi voru þau fleiri en í dag. Einhver hafa brotnað undan snjó enda hafa trén kalið og myndað óheppileg greinahorn sem eykur hættuna á snjóbroti. Talið er að þessi tré hafi verið lengi að taka við sér. Svo var það að árið 1951 var lerki gróðursett í nágrenni þess. Þegar lerkið fór að skýla deglinu fór það að vaxa, að því að talið er. Eflaust hefur það einnig hjálpað að heppilegar jarðvegslífverur hafa borist með lerkinu.
Deglið í Vaðlareit árið 2017. Eins og sjá má hefur það þurft að þola töluvert. Myndina tók Helgi Þórsson og fyrirsæturnar eru synir hans,
þeir Haraldur og Árni.
Um aldamótin plantaði Bergsveinn Þórsson þessu tré sunnan og ofan við hin nýju Skógarboð í Vaðlareit. Tréð er nú um sjö metrar á hæð.
Mynd og upplýsingar: Helgi Þórsson.
Sama tré og hér að ofan. Fyrirsætan fullvissar sig um að barrið er mjúkt. Mynd: Helgi Þórsson
Efnilegt degli í Haukadalsskógi. Myndina tók Pétur Halldórsson.
Degli á Mógilsá gróðursett 1994. Mynd: Pétur Halldórsson.
Þessar þrjár myndir voru teknar á Hafnarsandi fyrr í vikunni. Fyrir 18 árum var þarna að mestu ógróinn sandur. Árið 2004 gróðursetti Aðalsteinn Sigurgeirsson þarna blæöl og sitkaöl, með ívafi af birki og víðitegundum. Vorið 2013 gróðursetti hann í rjóður örsmáar Degliplöntur af kvæminu Blackwater BC. Þarna hefur deglið allt lifað og er farið að ná ágætum þroska. Vel má sjá á myndunum hversu sendinn jarðvegurinn er, enda vex melgresið með ágætum. Elrið bindur nitur með aðstoð rótarhnýðisgerla og sér deglinu fyrir nauðsynlegum næringarefnum. Þarna nálægt eru nokkrar lerkitegundir sem geta einnig hjálpað en enn sem komið er virðist nærvera elrisins vera enn hjálplegri. Myndir og upplýsingar: Aðalsteinn Sigurgeirsson.
Degli í uppeldi í gróðurhúsi hjá Sölva Snæ Jökulssyni. Sölvi tók myndina.
Notkun
Þegar hin sögufræga freigáta USS Constitution, sem einnig gengur undir nafninu Old Ironside, fór í sína jómfrúarferð árið 1797 voru möstrin þrjú úr sandfuru eins og vænta mátti. Hvert mastur úr einu tré. Um þá merkistegund er fjallað hér. Freigátan er enn til. Árið 1925 þurfti þó að endurnýja möstrin. Kom þá í ljós að svona stórar sandfurur voru ekki til í austurhluta Ameríkuhrepps. Í stað þeirra var notaður viður úr hinu konunglega degli. Það er nógu stórt og sterkt til að gegna þessu hlutverki. Þannig er það enn í dag og freigátan er nú sýningargripur í Boston (Tudge 2005).
Old Ironside er nú með möstur úr degli. Nú eru ekki lengur til nægilega stórar sandfurur. Myndin fengin héðan.
Þegar skipið var upphaflega smíðað hafði enginn svo mikið sem heyrt um þessa tegund nema innfæddir frumbyggjar í norð-vestur héruðunum. Þegar skipið fékk sín nýju möstur hafði deglið algerlega tekið við af sandfurunni sem stærsta og mikilvægasta timburtréð í allri Ameríku. Það gerðist eiginlega í lok 19. aldar. Þá voru sandfururnar að mestu horfnar en hið konunglega degli vex hraðar og hefur enn betri við en fururnar. Fyrsta sögunarmyllan í vesturríkjunum, sem vann við úr þessari tegund var reist árið 1828. Var þar að verki Skoti að nafni John McLoughlin. Það var þó ekki fyrr en strandfurunni hafði næstum verið útrýmt, við lok þeirrar aldar, að nýting trjáa í Norð-vesturríkjunum varð almenn. Að stórum hluta var það gerlegt þegar járnbrautarlestir tengdu saman vestur- og austurströndina. Þá var hægt að senda timbur þvert yfir álfuna. Með tilkomu Panamaskurðsins (1914) var hægt að sigla með timbur hvort heldur sem var til Evrópu eða austurstrandarinnar. Sú leið er enn í dag notuð.
Degliskógur. Myndin fengin af síðu Paxcific Forest Trust.
Samkvæmt Tudge (2005) er nú svo komið að fjórðungur alls timburs sem unnið er úr skógum Bandaríkjanna er degli. Er það talið betra timbur en annað timbur þar í landi og gengur undir nafninu Oregon pine eins og áður segir. Norðan við landamærin, í Kanada, gengur það reyndar oft undir nafninu fir, sem merkir þinur. Þar nýta menn hvort eð er ekki þin til viðarframleiðslu að neinu marki. Ef Kanadamenn telja hættu á ruglingi segja þeir Douglas fir.
Viðurinn af degli er sérlega góður smíðaviður. Hann er endingargóður, sterkur, vinst lítið sem ekkert og heldur sér vel. Hann er því tilvalinn í allskonar smíði og er mikið notaður. Hann er vinsæll af bæði smiðum og arkitektum um allan heim. Viðurinn er notaður í nánast allt sem viður er á annað borð notaður í.
Viður deglis. Myndin fengin af vef Byko. Við hana stendur: „Óheflað ofnþurrkað Oregon Pine 63x75 mm“.
Macoby (1991) bendir á að milljónir barna treysta á að gjafir birtist undir þessum trjám árlega og milljónir manna hafi tekjur sínar af að höggva, selja eða smíða úr viði þessara trjáa. Svo mikilvæg eru þau.
Opinber mynd af síðasta jólatrénu í Hvíta húsinu í tíð Obama sem forseta. Fyrir valinu var degli samkvæmt þessari heimild.
Til gamans má geta þess að í Kew Gardens er til rúmlega 60 metra há flaggstöng úr einu, stöku degli. Þegar hún var reist var hún stærsta flaggstöng í heimi.
Þessi flaggstöng er úr aðeins einu tré. Myndin fengin af vef Kew Gardens.
Mynd frá árinu 1958 þegar verið var að ná í efnivið í Copper Canyon á Vancouvereyju. Tréð var 371 árs og bolurinn var 225 fet eða 68,6 metrar Þetta varð síðan að stærstu fánastöng í heimi. Fleiri myndir og lesefni má nálgast hér.
Skyldar tegundir
Þótt deglið, sem þessi pistill fjallar um, sé þekktasta tré ættkvíslar sinnar er það ekki það eina. Til eru að minnsta kosti fjórar til sex tegundir af ættkvíslinni Pseudotsuga. Tvær af þeim vaxa í Norður-Ameríku og hinar í austurhluta Asíu. Þær finnast í Kína, Japan og Tævan. Er það eitt af fjölmörgum dæmum um skyldar plöntur á vesturströnd Norður-Ameríku og austurströnd Asíu.
P. macrocarpa finnst eingöngu í fjallendi í suð-austur Kaliforníu. Viðurnefnið macrocarpa vísar í það að tegundin hefur óvenjustóra köngla, enda er tegundin stundum nefnd bigcone spruce á ensku. Það er auðvitað afar óheppilegt því spuce merkir greni. Könglarnir á þessu degli geta orðið frá 11-17 cm stórir og tréð nær um 30 metra hæð.
Vaxtarstaðir Pseudotsuga macrocarpa (rauðgult) samkvæmt þessari skýrslu sem fjallar um ræktun deglis í Evrópu. Einnig sést hversu langt er í annað degli á kortinu.
Asísku tegundirnar eru ekki eins stórgarðar og frænkur þeirra í Ameríku. Þær vaxa einkum í fjalllendi í blandskógum með ýmsum lauftrjám og eru hvergi mjög algengar.
The World Flora on Line gefur upp eftirfarandi þrjár asískar tegundir, auk afbrigða. P. Carrière, P. sinensis og P. japonica. Önnur nöfn tegunda eru ekki tekin gild á þeirri síðu.
Könglarnir á japanska deglinu eru mjög spes. Myndin fengin héðan.
Þakkir
Skógræktarfélag Eyfirðinga þakkar öllum þeim sem veittu okkur myndir og upplýsingar við gerð þessa pistils.
Heimildir
Aðalsteinn Sigurgeirsson: Munnleg heimild 10.08. 2022.
Helgi Þórsson: Munnleg heimild 07.08. 2022.
Ólafur Sturla Njálsson: munnleg heimild 06.08. 2022 Vefur Skógræktarinnar (án ártals) https://www.skogur.is/is/nyskograekt/trjategundir-og-trjaheilsa/barrtre/deglitegundir/degli Sótt 04.08. 2022.
Stirling Macoboy (1991): What Tree is that? Crescent Books, New York.
Colin Tudge (2005): The Tree: A Natural History of What Trees Are, How They Live, and Why They Matter. Crown Publishers, a division of Random House, Inc, New York.
Diana Wells (2010) Lives of the Trees. An Uncommon History. Algonquin Books of Chapel Hill. Chapel Hill, North Carolina. Ýmsar upplýsingar voru einnig teknar af Facebooksíðu trjáræktarklúbbsins.
Comments