top of page

Döglingskvistur

Updated: Jul 7, 2023

Döglingskvistur (Spiraea douglasii) fellur undir hið grasafræðilega hugtak „hálfrunni“ Það merkir að hann stendur mitt á milli þess að vera fjölær jurt og runni. Greinarnar lifa af veturinn, eins og hjá runnum en gildna ekki með árunum eins og greinar hjá trjám og runnum. Greinarnar hafa að auki mjúkan merg. Strangt til tekið er hann því ekki tré, en við hjá Skógræktarfélaginu látum ekki slíka smámuni standa í vegi fyrir því að velja hann sem #TrévikunnarSE. Þessi kvistur kemur alla leið frá Oregon og Kaliforníu en stendur sig mjög vel á okkar svala landi.Greinaþykkni

Döglingskvistur er einn af fjölmörgum tegundum kvista sem ræktaðir eru á Íslandi. Hann verður um 100 til 200 cm á hæð erlendis en hér á landi fer hann sjaldan yfir 150 cm. Hann myndar venjulega upprétt þykkni með rauðleitum stönglum eða greinum. Stönglarnir eru hærðir í fyrstu en verða svo hárlausir þegar líður á sumarið. Þykknið myndast auðveldlega vegna þess að þessi kvistur setur töluverð rótarskot. Hann vex frá miðju og út til hliðanna og bætir þannig smám saman við veldi sitt. Eins og margir aðrar jurtir sem vaxa svona frá miðju ber stundum á einskonar jarðvegsþreytu hjá honum. Þá fer miðjan smám saman að líta verr út.


Döglingskvistur í skógarjaðri. Einnig má nota hann til að loka skjólbeltum að neðan.

Ræktun

Vel fer á því að rækta hann þar sem hann má skríða um og mynda þykkni eins og honum líkar best. Hann þrífst best í frjórri jörð og er þakklátur fyrir góða umhirðu og klippingu þegar þess þarf. Í görðum er algengt að halda honum ferskum og frískum með því að stinga hann upp á fárra ára fresti og skipta honum. Hirða þá ystu greinarnar en fórna miðjunni. Ef þessi aðferð er nýtt getur verið gott að gera þetta á vorin og klippa allar greinarnar niður og setja skít eða moltu með nýju plöntunum. Hann mun þá blómgast árið eftir.

Döglingskvistur er gjarnan nýttur í raðir eða limgerði. Einnig getur verið heppilegt að rækta hann í kerjum eða einhverju álíka þar sem hann má fylla út í það rými sem honum er ætlað. Einnig getur verið gott að afmarka rýmið sem honum er ætlað með hellum eða grasflöt.


Hér er það svæði sem döglingskvisturinn fær mjög vel afmarkað. Hann vex þarna með gráelri. Sennilega er þessi staður þó ekki sérlega frjór og blómgunin því fremur lítil enn sem komið er.


Erfiðara er að rækta hann með öðrum gróðri nema tryggt sé að sá gróður þoli samkeppnina. Því er hann alveg tilvalinn í náttúrugarða og hálfvillt sumarbústaðalönd þar sem hann fær að skríða um. Rótarkerfið og greinaþykknið gera það að verkum að vel má nýta döglingskvist til að binda jarðveg til dæmis í bröttum brekkum. Oft má sjá döglingskvist í skógarjöðrum og stundum sem undirgróður í skjólbeltum. Á slíkum stöðum er sjaldan gert nokkuð í því að klippa hann til. Þá fær hann bara að haga sér eins og náttúran ætlaðist til. Hann stendur sig vel í samkeppni við gras, lúpínur og ýmsan hávaxinn gróður.


Döglingskvistur með öðrum öflugum runnum. Fura neðst til vinstri og yllir til hægri. Eldri blóm á kvistinum farin að brúnka.


Blómgun

Blómin eru rósrauð eða rauðbleik í þéttum og uppréttum keilulaga klasa sem verður um 10-20 cm langur. Blómklasarnir birtast venjulega í ágúst og í köldum sumrum jafnvel ekki fyrr en líða tekur verulega á ágúst. Þau standa oftast langt fram í september. Þegar þeir eldast tapa þeir lit og verða brúnir. Svo þorna þeir upp og þurrir klasarnir standa á nöktum greinunum fram á vetur. Blómin birtast á árssprotunum. Því er það svo að ef plantan er klippt á vorin, eftir að hann fer að vaxa, myndast ekki blóm á þeim greinum sem klipptar eru. Ef ekki er verið að yngja upp runnann með því að klippa hann alveg niður er því betra að klippa hann á haustinn eða snemma vetrar eftir að blómgun lýkur. Í garðrækt er hann gjarnan klipptur niður í svona 50-60 cm. Vorið eftir myndar hann nýjar greinar og blómstrar á þeim í ágúst til september.

Þegar þessi orð eru skrifuð stendur hann víða í fullum blóma.


Fræflarnir standa vel út úr blómskipaninni á fullþroska blómum svo þau líta út fyrir að vera loðin. Yngri blóm sjást einnig á myndinni. Þau eiga eftir að opnast betur. Til hægri er brúnleitt blóm sem lokið hefur sér af.


Þrif

Það er ákaflega sjaldgæft að sjá einhver meindýr herja á döglingskvist og hann virðist með öllu laus við sjúkdóma. Hann er ótrúlega harðgerður miðað við uppruna sinn og þolir hálfskugga. Best blómstrar hann þó í góðri birtu.

Ýmsir frjóberar sækja mjög í blómin á honum og er gaman að fylgjast með iðnum humlum í blómunum.


Humla og geitungur fá sér í svanginn


Döglingskvistur er einn af þeim kvistum sem vel má nýta meira en rétt er þó að hafa eðli hans í huga og haga ræktuninni eftir því.

303 views

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page