top of page
Writer's pictureSigurður Arnarson

Sögufræg furutegund

Updated: Feb 19

Í skógrækt á Íslandi eru notuð tré sem eiga sér fjölbreyttan uppruna. Mest er ræktað af birki sem er íslenskt. Hér má einnig finna lerki frá Rússlandi, furur og fleiri tré frá Ölpunum, greni frá Norðurlöndum og furu, ösp og greni frá vesturhluta Norður-Ameríku svo það helsta sé nefnt.

Merkilega lítið af trjám er hér frá austurhluta Norður-Ameríku. Það er eins og trén frá vesturhlutanum henti mun betur. Samt vaxa margar forvitnilegar tegundir í Vínlandi hinu góða og nálægum landsvæðum. Eitt þeirra er sandfura, Pinus strobus. Þegar landnám Evrópubúa hið síðara hófst í álfunni myndaði þessi furutegund stærstu samfelldu skógana á þessum slóðum. Þeir hafa nú flestir þurft að víkja en enn er tegundin til. Heppileg kvæmi hennar fyrir Ísland hafa ekki enn fundist en lengi má furuna reyna. Saga hennar er mjög forvitnileg.


Barr og könglar á sandfuru. Myndina tók Glenn Dreyer.


Lýsing

Sandfuran fellur í þann hóp sem kallaðar eru fimm-nála-furur. Sjá hér. Það merkir að nálarnar sitja alltaf fimm og fimm saman í hverju nálaknippi. Sandfura líkist öðrum fimm-nála-furum svo sem lindifuru (Pinus sibirica), balkanfuru eða silkifuru (P. peuce) og sveigfuru (P. flexilis). Greiningalyklar (Cleave 1994) segja að öruggasta greiningaratriðið sé hæring neðan við nálaknippin sem ekki sjáist á öðrum, líkum furum.


Sandfura í Arnold Arboretum í Boston árið 2012. Mynd: Sig.A.


Sandfura vex ekkert mjög hratt framan af ævinni en getur orðið ákaflega hávaxin. Áður fyrr myndaði hún mjög stóra, samfellda, villta skóga í Norður-Ameríku. Greinarnar eru oftast láréttar út frá stofni og mynda nánast 90° horn við stofninn. Þetta einkenni sést jafnt á ungum trjám sem eldri trjám ef trén vaxa ekki of þétt saman. Í villtum skógum fellir tréð gjarnan neðstu greinarnar þegar þær lenda í skugga af öðrum trjám og greinum sem vaxa hærra uppi. Áður fyrr voru til skógar sem voru allt að 45 metrar á hæð og nánast engar greinar á neðstu 25 metrunum. Um slíka skóga var hægt að ganga og skoða þessa stóru og þráðbeinu, þykku stofna. Eða höggva þá niður og nýta timbrið. Einstök tré gátu þó orðið enn stærri og til eru mælingar á 73 metra háu tré. Það er nánast sama hæð og á Hallgrímskirkjuturni. Svo stór tré vaxa almennt ekki í austurhluta Norður-Ameríku á okkar dögum en vestar í álfunni eru til svona stór tré, en þau eru af öðrum tegundum. Þessi mæling er talin áreiðanleg en við munum aldrei vita hversu stór önnur tré voru sem ekki voru mæld.

Viður trjánna er mjög léttur og mjúkur. Ekkert annað barrtré í austanverðri Norður-Ameríku hefur jafn mjúkan og léttan við. Að auki er viðurinn mjög sterkur miðað við léttleikann. Aftur á móti er hann ekkert sérstaklega endingargóður.


Teikning eftir Matt Srieby frá 2021 sem sýnir helstu einkenni strandfuru. Myndin fengin héðan.


Uppruni

Tegundin er frá Norður-Ameríku, einkum austan til og tilheyrir skógum norðursins. Vex villt allt frá Nýfundnalandi í austri, allt í kringum vötnin miklu á landamærum Kanada og Bandaríkjanna og til Manitoba í vestri og suður til Iowa og í Appalachiansfjöllum allt suður til Georgíu. Áður fyrr var hún mjög útbreidd á öllu þessu svæði og myndaði víða nánast samfellda skóga þar sem fáar aðrar trjátegundir uxu.

Það hefur heldur betur breyst.


Kort frá Wikimedia af útbreiðslu sandfuru.


Fyrstu kynni

Auðvitað er það svo að frumbyggjar Norður-Ameríku þekktu vel þessa trjátegund, enda ekki annað hægt. Aftur á móti þótti hún nokkuð framandi í augum landnema frá Evrópu.

Sagt er að skógarnir hafi verið svo miklir þegar bleiknefjar fóru að leggja undir sig álfuna að íkornar hefðu getað lifað allt sitt líf í furutrjánum og stundað langferðir án þess að fara nokkurn tímann niður á jörðina. Þegar skógarnir voru sem mestir er sagt að frjó karlblómanna hafi stundum náð að mynda þykk gullin ský sem bárust langar leiðir með vindi. Til eru frásagnir sjómanna sem botnuðu ekkert í þessu gula ryki sem lagðist á skip þeirra úti á rúmsjó.


Stafafura losar sig við frjó í Kjarnaskógi. Sandfuruskógar losuðu gríðarlegt magn af frjói þegar þeir voru upp á sitt besta. Mynd: Sig.A.


Nú eru sumir þessara skóga alveg horfnir en sums staðar eru komnar aðrar tegundir norrænna skóga. Þeirra tækifæri kom þegar fururnar voru markvisst högnar niður. Ýmist til viðarframleiðslu eða til að rýma til fyrir ræktarlandi. Sumt af því ræktarlandi reyndist hreint ekki heppilegt og þar eru nú aðrir skógar sem vaxið hafa upp í kjölfarið.

Sagan segir að indíánahöfðinginn Dekanawidah hafi á 15. öld myndað bandalag með nágrannaættbálkum sínum til að tryggja frið. Því til staðfestingar grófu höfðingjarnir örvar sínar í jörðu og létu þær vísa í allar höfuðáttirnar. Þar ofan á var gróðursett sandfura. Síðan hafa frumbyggjar af ætt Iroquoia kallað hana friðartré. Myndin er fengin héðan. Þar má lesa meira um þennan atburð.


Fljótlega eftir komu Englendinga og annarra bleiknefja á þessar slóðir varð viður þessarar trjátegundar mesta verðmætið sem í boði var, ásamt feldum villtra dýra og fiskum sem veiða mátti. Þetta þrennt var aðalútflutningsvara landnemanna í Nýja Englandi. Fyrsta sögunarmyllan var stofnsett í York í Maine árið 1623 og í fyrstu héldu menn að þessi auðlind væri óendanleg. Trjáviðurinn var ekki bara seldur til heimalandsins (Englands) heldur einnig til Spánar, Afríku, Vestur-Indía og meira að segja til Madagaskar. Sjálfsagt klóra sér margir í hausnum yfir því hvernig það gat svarað kostnaði að selja timbur til frumskógarlanda og hagnast á því. Ástæða þess er sú að viður frumskógartrjánna er oftast töluvert þyngri og harðari en furan er létt og mjúk. Það var eiginleiki sem sóst var eftir. Að auki voru skipin hvort eð er að fara á þau svæði til að ná í verðmæti.


Sandfurur í Michigan. Myndin fengin héðan.

Mesta verðmæti trjánna var hversu hentug þau voru sem mastur skipa. Eitt tré dugði vel í eitt mastur sem var létt og sterkt miðað við þyngd. Á þessum tíma höfðu Englendingar ekki aðgang að svona stórum trjám sem hentuðu í möstur skipa án þess að vera skeytt saman. Þar sem Englendingar voru herrar hafsins á þessum tíma og að auki nær alltaf í stríði, var þetta mjög mikilvæg auðlind fyrir konungsríkið. Oftast var skógarfura, Pinus sylvestris, notuð í möstur á þessum tíma en á enskri grund var lítið af nægilega stórum fururm fyrir stór möstur. Prússar, Rússar og Svíar áttu þennan markað þar til þessi auðlind uppgötvaðist.


Breskt herskip. Möstrin úr sandfuru. Myndin fengin héðan.


Áhrif á sögu

Óhætt er að fullyrða að engin önnur trjátegund tengist sögu og sjálfstæðisbaráttu Bandaríkjanna jafn mikið og þessi tegund. Heilu flotarnir voru smíðaðir úr þessari tegund og hún var í stórum stíl notuð undir járnbrautarteina og í brúarsmíði auk annars. Aðallega var það vegna þess hve auðvelt var að ná í tegundina.


Horft upp eftir stofni hæstu sandfurunnar í Itasca State Park í Minnesota. Það er sagt vera rúmir 34 metrar á hæð. Myndin er fengin héðan en hana tók Travis Novitsky.

Þegar kom að sjálfstæðisbaráttunni skipti verslun með furuna miklu máli. Sérstaklega í New Hampshire og Maine. Eins og áður segir leit breski sjóherinn hýru auga á þessa tegund vegna þess hve heppileg hún var í skipsmastur. Landnemarnir ruddu skóganna til að búa til landbúnaðarland en heimsveldið var ekki hrifið af því að tilvonandi skipsmöstur voru eyðilögð á þann hátt. Því voru sett lög sem áttu að koma böndum á þessa skógareyðingu, en ekkert gekk. Landnemarnir héldu áfram að ræna landi frumbyggjanna (ekki svo að skilja að það hafi valdið enskum áhyggjum), höggva niður skóga og fleyta drumbunum eftir ánum og selja þá ólöglega. Svo var það að árið 1774, tveimur árum áður en sjálfstæðisyfirlýsingin var undirrituð, settu íbúar í Maine ný lög. Þau bönnuðu að viður, hentugur í skipsmöstur, væri seldur til Bretlandseyja. Var þetta liður í sjálfstæðisbaráttu íbúanna á svæðinu. Þessi furutegund var svo mikilvæg fyrir landnámsmenn í Vesturálfu að einn fyrsti fáni byltingarmanna var fáni sem hafði táknmynd af furunni. Þann 1. nóvember 1777 hélt skip að nafni Ranger úr höfn. Það var ári eftir að Bandaríkin lýstu yfir sjálfstæði sínu frá Bretum. Hvorki fyrr né síðar hefur skip verið útbúið með þremur jafn stórum möstrum úr sandfuru og þetta skip. Það er þó ekki það sem skipið er þekktast fyrir. Það er enn þekktara að skipverjar drógu að húni á stærsta furumastrinu nýjan fána sem var röndóttur og með stjörnum. Þar með var hætt að nota fururfánann. Eftir því sem ríkjum Bandaríkjanna hefur fjölgað hefur stjörnunum fjölgað en rendurnar eru 13 eins og fjöldi þeirra ríkja sem stofnuðu hið nýja sambandsríki.


Dæmigerð mynd úr bandarískri skólabók um fána landsins. Efst til vinstri er furufáni.


Verður það að teljast nokkuð táknrænt að þegar fáni sem kenndur er við „stjörnur og rendur“ tók við af furufánanum var sá fyrrnefndi dreginn að húni á mastur úr furuvið.

Sandfuran er samt ekki gleymd heimamönnum og telst hún vera ríkistré í Maine.


Sandfuran er ekki gleymd í Maine og má sjá á allskonar varningi.


Útbreiðsla og ofnýting

Sandfuruskógar fyrri alda voru ótrúlega stórir og gróskumiklir. Í rúmar þrjár aldir var gríðarlegt magn þessara trjáa fellt. Stundum til að búa til beitiland og akra, stundum til að selja til útlanda eða til smíðar á heimamarkaði. Viður trjánna flæddi nánast um álfuna eftir því sem landnámi bleiknefja óx fiskur um hrygg. Hinar stóru sléttur miðríkjanna voru nánast alveg trjálausar. Í kjölfar endurtekina þjóðarmorða á frumbyggjum álfunnar voru bolir sandfuru fluttir til þessara trjálausu svæða til að hægt væri að byggja bjálkahús sem við þekkjum svo vel úr kúrekamyndum. Kom sér þar vel hversu léttur viðurinn er miðað við styrk.


Greinarnar á þessum stofni trufla ekki mikið. Myndin fengin frá Wikipedia.


Ýmsar stórar ár þurfti að brúa á þessum tíma og var langalgengast að nota sandfurur í þær. Kom sér þá vel að auðvelt var að ná í stóra stofna þannig að byggja mátti mjög langar brýr. Að auki var viðurinn nýttur til hvers kyns smíða. Alls konar húsgögn, hurðir og gluggar, sem landnámsmenn þurftu að koma sér upp, var að mestu úr við sandfurunnar. Enn í dag má víða um Bandaríkin sjá þakskífur sem unnar eru úr sandfuru. Þannig hefur það verið um aldir og ekki líklegt að það breytist að ráði. Þessir stóru risar voru einnig nýttir til að búa til jafnlitla muni og eldspýtur!

Ekki verður fram hjá því litið að illa var gengið um auðlindina. Eins og áður segir er furan dugleg við að losa sig við neðri greinarnar sem lenda í skugga. Þennan eiginleika nýttu skógarhöggsmennirnir sér. Þeir voru duglegir að höggva skógana en þegar trén voru fallin var oft einfaldara að fella fleiri tré en að standa í þeirri vinnu að fjarlægja greinar af efri hlutanum. Þannig var aðeins hluti skógartránna nýttur. Aðeins neðri hluti bolanna, sem gat þó verið allt upp í 25 metrar. Einnig kom fyrir að tré brotnuðu þegar þau féllu. Þá var alltaf hægt að byrja aftur. Hvoru tveggja leiddi til lélegrar nýtingar skóganna. Hefur verið reiknað út að sums staðar hafi menn aðeins notað 1/15 hluta þess viðar sem felldur var, en 14 hlutar af hverjum 15 hafi verið skildir eftir í skóginum til að rotna.


Bjálkahús úr sandfuru. Sjá nánar hér.


Til að koma þessum stofnum á markað voru árnar nýttar. Eftir þeim var trjábolunum fleytt til strandar þar sem sögunarmyllur tóku við. Svo margir unnu við skógarhöggið að hætta var á að trjábolum yrði ruglað saman þegar öllu var fleytt eftir sömu ánum. Til að koma í veg fyrir það tóku skógarhöggsmenn upp á því að brennimerkja bolina. Þá mátti á leiðarenda sjá hver átti hvað. Þessi athöfn, að merkja sér trjáboli, var þó engin nýung á þessum tíma. Má sem dæmi nefna að í 54. kafla Landbrigðisþáttar Grágásar, sem er lagasafn íslenska þjóðveldisins, segir frá því að hægt sé að merkja rekavið með viðarmarki sínu „enda á hann þá viðinn þótt út fljóti og komi á annars manns fjöru“ (Grágás bls. 352).

Það getur verið vandasamt að koma stórum stofnum að næstu á. Þess vegna var skógarhögg fjær stóránum oftast stundað á veturna. Auðveldara var að draga stofnana á sleðum í snjónum að næstu á. Til þess voru notaðir uxar eða hestar. Kom sér þá vel að viður sandfurunnar er fremur léttur.


Mynd af sandfuru eftir Randy Schaetzl. Myndin fengin héðan, þar sem talað er um skógarhögg.


Það þarf því ekki að koma á óvart að nýtingin var heldur meiri en skógarnir þoldu. Þjóð, sem grundvölluð var á þjóðarmorðum vílaði ekki fyrir sér að ganga rösklega fram við eyðingu skóga. Furuskógarnir eru nú horfnir af stórum svæðum. Hávaxin, villt tré í líkingu við það sem fyrstu landnemarnir sáu eru löngu horfin. Þjóðirnar sem ólu aldur sinn í þessum sömu skógum eru líka horfnar. Furutegundin sjálf er samt ekki talin í útrýmingarhættu en indíánaþjóðirnar frá austanverðum Bandaríkjunum eru horfnar að eilífu.



Sandfurulundur í Minnesota. Myndin fengin héðan.


Lærdómur

Örlög skóganna í norðanverðum austurhluta Bandaríkjanna fóru ekki fram hjá mörgum. Eyðing þeirra var svo hröð að margir urðu til að klóra sér í hausnum. Talið er að einmitt þess vegna hafi menn áttað sig á gildi þess að hafa stóra almenningsgarða í mörgum ört vaxandi borgum. Þannig mætti jarðtengja borgarbúa við náttúruna. Þess vegna eru til frægir garðar vestan við Atlantshaf eins og Miðgarður í Nýju Jórvík.

Þegar bleiknefjar komust í hina stóru skóga í vesturhluta landsins sáu margir gullin tækifæri á að nýta sér þá til að fá skjótfengin gróða, rétt eins og menn nýttu sandfuruna áður. Sem betur fer var þó til framsýnt fólk sem lærði af ofnýtingu hinna horfnu skóga. Örlög þeirra urðu til að margir vildu stöðva ofnýtinguna. Þannig tókst að friða og bjarga mörgum af hinum fornu skógum í fjöllunum nærri vesturströndinni frá sömu örlögum og skógarnir nær austurströndinni urðu að sæta.

Vonandi getum við, íbúar þessa heims, lært af því og gripið í taumana áður en það er um seinan. Í næstu viku fjöllum við um trjátegund sem nú er nýtt á sjálfbæran hátt í Norð-Austur ríkjum Bandaríkjanna í stað rányrkjunnar sem eyddi fururskógunum.


Skógarhöggsmenn fleyta trjábolum. Sjá nánar hér.

Þegar kom að því að mönnum þótti ráð að endurnýja þessa furuskóga af ýmsum ástæðum var ekki sjálfgefið að sandfura yrði fyrir valinu. Hún vex hægar en margar aðrar barrtrjátegundir sem ræktaðar eru til viðarnytja og nú er ekki lengur þörf á risastórum skipsmöstrum úr viði. Því fór svo að í flestum tilfellum urðu aðrar trjátegundir fyrir valinu. Samt er það svo að furan er enn ræktuð en það er langt frá því að þessir stóru, samfelldu sandfuruskógar, sem eitt sinn voru til, muni sjást í náinni framtíð.


Sandfura setur enn svip sinn á landið þótt stóru, samfelldu skógarnir séu horfnir. Myndin fengin héðan.


Nafnið

Árið 1605 kom enskur skipstjóri til Bandaríkjanna að nafni George Weymouth. Hann sigldi skipi sínu upp eina af ánum í Maine ríki. Má vera að hann hafi verið fyrsti Englendingurinn til að skoða þessi tré í návígi nema þau sem uxu alveg við ströndina. Hann undraðist hæð trjánna og sá að þau mætti nota sem mastur á skipum. Hann lét höggva niður tré í þeim tilgangi og tók að auki með sér fræ af ungu tré. Þetta flutti hann með sér aftur til Englands. Fræin spíruðu og plöntunum var plantað sunnan við bæinn Bath í Suð-vestur Englandi. Síðan hefur þetta tré verið nefnt eftir skipstjóranum og kallað Weymouth fura í Englandi og svo er enn. Í Bandaríkjunum er furan kölluð hvítfura (white pine) en á sér að auki fleiri nöfn. Nöfnin , Northern White Pine, Eastern White Pine, Cork Pine og Soft Pine hafa öll verið notuð yfir tegundina í Ameríkuhreppi.

Á latínu heitir þessi fura Pinus strobus. Sennilega eru bæði orðin ættuð úr grísku. Pinus er notað yfir alla furuættkvíslina og er að líkindum dregið af gríska orðinu pitus sem merkir fura. Seinna orðið, strobus, er líka úr grísku. Þýðingarvélar segja að orðið merki grein og má vel vera rétt. Ritaðar heimildir segja að það merki snúinn toppur og á að vísa í vaxtarlag krónunnar.

Á tungumálinu Ojibwe, sem frumbyggjar í kringum Vötnin miklu töluðu, heitir tréð biisaandago-zhingwaak, svona ef einhver er að velta því fyrir sér.


Sandfurur við sólarupprás. Myndin fengin héðan.


Reynsla á Íslandi

Árið 2005 fór hópur Íslendinga til Nýfundnalands að skoða skóga. Úr þeirri ferð kom Árni Þórólfsson með fræ af sandfuru til landsins sem sáð var í gróðrarstöðinni Þöll. Reynslan af þeim trjám er, því miður, ekki góð. Þær hafa smátt og smátt týnt tölunni.

Undantekning sem sannar regluna? Þessi fura er frá Þöll, sem Skógræktarfélag Hafnarfjarðar rekur. Hún er í ræktun í Nátthaga í Ölfusi og stendur sig vel. Að vísu hefur hún aðeins verið utandyra í eitt ár og fór þá í kaf í snjó.

Mynd: Ólafur Sturla Njálsson.


Á heimasíðu Skógræktarinnar er umfjöllun um helstu skógartré á Íslandi. Þar er ekki fjallað um sandfuru. Það segir töluvert um hversu illa hún hefur reynst á Íslandi. En það gerir mikilvægi hennar í sögu Bandaríkjanna ekkert minni. Myndin sem hér er fyrir neðan sýnir eina efnilega sandfuru í Kristnesi. Þannig að enn er ekki öll von úti um ræktun hennar á Íslandi.

Sandfura í Kristnesi í Eyjarfirði, gróðursett 2016. Henni hafði ekki orðið misdægurt fyrr en í vetur en þá drápust flestar yngri hliðargreinar. Ekki var ástæðan vor- eða haust-kal. Og þá er eiginlega aðeins eftir veðurálag að vetri til. Ef til vill var það óvenjulegir stormar á útmánuðum sem er orsökin. Öll endabrum voru á lífi og plantan heldur ótrauð áfram. Mynd: Helgi Þórsson.


Heimildir:

Munnleg heimild: Steinar Björvinsson framkvæmdarstjóri Skógræktarfélags Hafnarfjarðar.


Cleave Andrew (1994):Field Guie to Trees of Britain, Europe and North America. D & N Publishing.

Donald Culross Peatti (2007): A Natural History of North American Trees. Trinity University Press, San Antonio, Texas.



365 views0 comments

Komentarze


bottom of page