top of page

Furuættkvíslin

Updated: Jul 14, 2023

Í þessum pistlum #TrévikunnarSE höfum við áður fjallað um þallarættina (Pinaceae) sem sumir vilja frekar kalla furuætt á íslensku. Innan ættarinnar eru fjölmargar ættkvíslir (Genus í erlendum bókum) en þeirra stærst er furuættkvíslin (Pinus). Tegundafjöldi innan ættkvíslarinnar er nokkuð á reiki en er sagður vera á bilinu 100 til 175. Mismunurinn liggur í því að ekki eru allir sáttir við hvað kalla skuli tegund og hvað afbrigði eða undirtegund. Um þau vandkvæði var fjallað í síðustu viku. Aðeins lítill hluti þessa fjölda þrífst á Íslandi en á heimasíðu Lystigarðsins á Akureyri eru nefndir tveir tugir tegunda og afbrigða sem eru í garðinum. Lætur nærri að hátt í 20% tegundanna séu í ræktun hér á landi en að minnsta kosti 30 tegundir hafa verið reyndar hérlendis.

Vistfræði

Furuættkvíslin er ekki aðeins sú stærsta innan þallarættarinnar heldur er hún stærsta ættkvísl allra berfrævinga í heiminum. Mikill fjölbreytileiki er innan ættkvíslarinnar. Innan hennar eru hávaxin og beinvaxin tré, fremur lágvaxnir runnar með marga stofna og allt þar á milli. Ættkvíslin á sér einnig fjölbreyttara kjörlendi en aðrar ættkvíslir þallarættarinnar. Á það við um hitakröfur, kröfur til jarðvegs, ljóss og næringarefna svo dæmi séu tekin. Sumar tegundir eru ljóselskir frumherjar í gróðurframvindu (eins og stafafuran) en aðrar eru meiri skógartré og þola nokkurn skugga. Hið fyrrnefnda er þó mun algengara og til eru sendin svæði í heiminum þar sem fá önnur tré geta vaxið. Þar hjálpar mikið til að flestar furur hafa djúpastætt rótarkerfi. Því geta stórar furur náð í vatn og næringu á meira dýpi en margar aðrar trjáplöntur. Það má einnig nefna að margar tegundir fura eru háðar hverskyns raski til að þær geti endurnýjað sig. Sumar opna ekki köngla sína nema í skógar- eða gresjueldum og aðrar nema land hratt eftir fellibylji eða annað rask. Furur finnast allt frá trjámörkum við freðmýrar og háfjöll og allt suður í regnskóga í Mið-Ameríku. Þó er það svo að aðeins ein tegund vex villt sunnan við miðbaug. Hún vex í Indónesíu og kallast Pinus merkuasii á latínu. Sumar furur kjósa sér að vaxa nærri sjó og teljast saltþolnar á meðan aðrar vaxa í hálfgerðum eyðimörkum og mynda þar runna.


Verðmæti

Engin ein ættkvísl trjáa skiptir efnahag heimsins jafn miklu máli og fururnar. Þær eru víða um heim ræktaðar til viðarframleiðslu og sennilega eru Pinus caribaea (ræktuð í mið- og suður-Ameríku) og P. Radiata (ræktuð víða um heim) meðal mikilvægustu viðartegundanna innan ættkvíslarinnar. Hvorug þeirra þrífst á Íslandi. Á norðlægari slóðum eru ýmsar furutegundir ræktaðar vegna viðarins og þrífast þær sumar ágætlega á Íslandi. Stafafuran er þeirra þekktust. Af öðrum nytjum furunnar má nefna að terpentína er unnin úr harpix-furukvoðu.Reyndar eru ýmiss önnur efni unnin eru úr kvoðunni og þekkja handboltamenn vel til harpixins, sem og fiðluleikarar. Þeir fyrrnefndu nota það til að ná betra taki á boltanum en hinir síðarnefndu bera það á fiðlubogann.

Stöku furur hafa verið nýttar til matar, einkum í hallærum. Svokallaðar furuhnetur fást oft keyptar í kjörbúðum enda eru þær gómsætar. Það eru alls engar hnetur heldur fræ lindi- eða sembrafurutrjáa.


Jarðsagan

Vísindamenn telja furur vera elstu ættkvísl þallarættarinnar. Flestar ættkvíslir ættarinnar virðast hafa komið fram á tertier tímabilinu fyrir einum 60 milljón árum eða jafnvel síðar. En steingervingar af furum eru þekktir löngu fyrir þann tíma. Á sumum tímum jarðsögunnar virðast furur hafa verið enn útbreiddari en þær eru í dag. Hið sama á reyndar við um margar aðrar tegundir berfrævinga, enda eru þeir eldri í þróunarsögunni en dulfrævingar. Furan hefur þó ekki hörfað jafn mikið og mörg önnur barrtré, þótt yngri séu í jarðsögunni (Heimild: Colin Tudge 2005 The Tree. A Natural History of What Trees Are, How They Live, and Why They Matter).


Tveggja- og fimm nála furur

Eins og áður greinir eru furur af þallarætt en nokkur atriði eru frábrugðin öðrum ættkvíslum innan ættarinnar. Eitt er það að furunálarnar eru að hluta umluktar einskonar hlífðarblöðum. Það þekkist ekki innan annarra ættkvísla þallarættarinnar. Annað einkenni er hvernig nálarnar vaxa út úr greinunum. Það gera þær helst í knippum sem á Íslandi innihalda ýmist 2, 3 eða 5 nálar saman í hverju knippi. Til hægðarauka má gjarnan skipta furum á Íslandi í tvo meginflokka. Annars vegar furur sem hafa 2 (stundum 3) nálar í knippi og hins vegar þær sem hafa fimm nálar í knippi. Þær fyrrnefndu mætti kalla tveggja nála furur en hinar fimm nála furur. Nokkur munur er að jafnaði á þessum hópum og oftast auðvelt, jafnvel fyrir byrjendur, að greina furur í þessa tvo flokka. EIna sem þarf til er að geta talið upp að fimm. Innan hvors flokks fyrir sig geta tegundirnar verið vandgreindar. Verða hér nefnd fáein dæmi um mun þessara hópa en á þessu öllu saman eru undantekningar. Tveggja nála fururnar eru að jafnaði meiri frumherjar en fimm nála fururnar sem gjarnan þiggja frjórra land. Fimm nála fururnar hafa oft langar nálar (þó ekki broddfura) og virka einhvern vegin þokkafyllri og mýkri en aðrar furur. Vöxtur fimm nála furutrjáa er hægari en tveggja nála furatrjáa (runnarnir ekki meðtaldir) og eru meira eins og skraut í skógrækt eða sem garðtré. Greinar þeirra eru oftar nýttar í jólaskreytingar en greinar tveggja nála fura. Af tveggja nála furum má nefna tegundir eins og stafafuru (Pinus contorta) sem er mest ræktaða fura landsins, bergfuru (P. uncinata) sem stundum er talin til tveggja eða þriggja tegunda, skógarfuru (P. sylvestris) og gráfuru (P. banksiana) sem er náskyld stafafuru. Listinn er ekki tæmandi. Af fimm nála furum má nefna lindifuru (Pinus siberica) og hina náskyldu sembrafuru (p. cembra) sem af sumum er talin sama tegund, balkanfuru eða silkifuru (P. peuce), broddfuru (P. aristata) með sínar harbix útfellingar, bosníufura (P. heldreichii) en af þeirri tegund er elsta þekkta tré Evrópu, runnafura (P. pumila) frá austurhluta Asíu, klettafuru (P. lbicaulis) og sveigfuru (P. flexilis). Elsta lífvera í heimi, að því að talið er, er einnig fimm nála fura. Hún er af tegundinni P. longaeva sem er náskyld broddfurum og var áður talin til hennar. Talið er að þær geti vel náð 4500 ára aldri og stöku tré verður enn eldra. Listinn er ekki tæmandi.


Fjölbreytni

Myndin sem hér fylgir er tekin í desembermánuði árið 2018 í Grasagarðinum í Edinborg. Þar má skoða margar tegundir af furum sem og ýmiss yrki sem sum hver hafa sérkennilegan vöxt, lit eða eitthvað annað merkilegt. Á myndinni má sjá að minnsta kosti þrjár eða fjórar tegundir af furum. Sem dæmi má nefna að þessi gula til hægri á myndinni er skógarfuruyrkið ´Aurea‘. Myndin sýnir vel hvað furur geta verið fjölbreyttari í útliti og vexti.Mynd og texti: Sigurður Arnarson.


447 views0 comments

Recent Posts

See All

Comentários


bottom of page