top of page

Lystigarðsrandi

Updated: Jul 9, 2023

Sú trjátegund sem setur hvað mestan svip á Akureyri er alaskaösp. Sumum er vel við hana en öðrum ekki. Þannig er t.d. búið að höggva niður þetta #TrévikunnarSE sem einmitt var alaskaösp. Hún var stakstæð og þannig aspir geta verið alveg sérlega tilkomumiklar. Ein glæsilegasta öspin á Akureyri er alaskaösp í Lystigarðinum. Hún stendur þar stakstæð og fær að njóta sín til fulls. Öspin er af yrki sem kallast ´Randi´ og er víða til í bænum. Nánar má lesa um Randa hér.


Þessari tilteknu plöntu var plantað í garðinn árið 1956 og eins og sjá má er hún falleg allan ársins hring. Um miðja síðustu öld var skráningin í Lystigarðinum e.t.v. ekki eins nákvæm og hún er í dag. Því er ekki vitað hversu gömul öspin var þegar henni var plantað né hvaðan hún kom. Þó er talið líklegast að hún hafi komið frá Fífilgerði. Þar ræktaði Jón Rögnvaldsson þennan klón og skráði árið 1951. Líklegt er að öspin glæsilega sé úr því safni. Ef það er rétt á öspin 70 ára afmæli núna í vor og því fullt tilefni til að velja hana sem #TrévikunnarSE þessa vikuna. Ef við miðum við gróðursetningaárið er hún 65 ára sem er líka ágætis tilefni!


Að sjálfsögðu eru mörg önnur glæsileg tré í Lystigarðinum. Eitt þeirra hefur áður verið valið tré vikunnar. Er það glæsilegt reynitré sem stundum hefur verið kallað Beinteinn. Sjálfsagt verða fleiri tré valin úr garðinum síðar og full ástæða fyrir allt áhugafólk um tré að heimsækja garðinn sem oftast.



Texti og myndir: Sigurður Arnarson.

210 views

Recent Posts

See All
bottom of page