top of page

Reynir í Lystigarði

Updated: Sep 21, 2023

Eins og áður hefur komið fram munum við í vetur tilnefna tré vikunnar einu sinni í mánuði. Nú er komið að tré vikunnar fyrir nóvember. Þeð er tré í Lystigarðinum á Akureyri. Tréð er reynitré (Sorbus aucuparia) og má sjá það á meðfylgjandi myndum. Það er þráðbeint og minnir á ljósastaur. Stundum er það jafnvel kallað Ljósastaurinn þótt það sé ekki opinbert heiti. Tréð stendur skammt frá lítilli brú í garðinum sem margir þekkja. Hún sést á sumum myndanna og gæti það auðveldað fólki að finna tréð.



Þráðbeinn stofn.

Þegar íslenskur reyniviður er borinn saman við erlendar lýsingar á tegundinni kemur í ljós að sá íslenski er ekki endilega alveg dæmigerður fyrir hina útbreiddu tegund. Íslenskur reynir hefur oft á tíðum mun hvassara greinarhorn en frændur hans annars staðar í norðurhluta Evrópu og Asíu. Því verður reyniviður á Íslandi stundum frekar eins og margstofna runni en stæðilegt tré. Hann getur þó orðið býsna hár miðað við villt tré á Íslandi og vex gjarnan upp úr birkiskógunum. Þegar trjárækt á Íslandi var að slíta barnsskónum í upphafi síðustu aldar var dálítið flutt inn af allskonar trjátegundum. Þá veltu menn uppruna ekki svo mikið fyrir sér og sum trén voru af heldur suðlægum kvæmum fyrir okkar breiddargráður. Meðal annars voru fluttir inn danskir reyniviðir. Svo er að sjá að þeir falli betur að lýsingum tegundarinnar en sá íslenski og greinarhornið er mun gleiðara en á innlendum reynitrjám. Hinn suðlægi uppruni hafði þau áhrif á trén að þau haustuðu sig fremur seint. Það gat leitt til endurtekins kals en sumir einstaklingar sluppu þó betur en aðrir. Þeir fóru samt heldur seinna í haustliti en þau tré sem fyrir voru í landinu og stundum fóru þau hreint ekki í haustliti. Þessi innflutti reyniviður var vel frjór og gat auveldlega eignast afkvæmi með þeim trjám sem fyrir voru í landinu. Þau tré sem bera þetta erfðaefni geta erft þessa eiginleika og hafa oft gleiðara greinarhorn eða fara seinna í haustliti.


Tré vikunnar er allsekki dæmigert fyrir íslensk reynitré. Það er beinvaxið og með mjög gleitt greinahorn og fer seint eða ekki í haustliti. Það er því ekki óvarlegt að ætla að það kunni að hafa eitthvað af dönsku erfðaefni í sér þótt ekki sé hægt að fullyrða það. Tréð er samt ekkert verra fyrir það. Þvert á móti. Tréð er einkar glæsilegt og verðskuldar að vera útnefnt #TrévikunnarSE í nóvember.



Reyniröð í Lystigarðinum. Tré vikunnar er eins og ljósastaur og stendur lengst til vinstri á myndinni. Í forgrunni er lítil brú sem gæti auðveldað áhugasömum að finna tréð.











Til vinstri við reyninn stóð lengi tré sem nú hefur verið fjarlægt. Því er krónan heldur minni þeim megin. Þarna sést vel að það er lengur grænt á haustin en tréð sem nú stendur næst því.

Litla brúin yfir litlu tjörnina sést neðst á myndinni.










Tré vikunnar er þarna hvanngrænt þótt annar reyniviður á myndinni sé farinn að sýna haustliti. Trén sem eru næst þessu eina eru reyndar ekki komin í mikla haustliti en það vottar þó fyrir þeim.






Vetrarmynd af tveimur reynitrjám. Annað er með gleitt greinahorn, hitt hvasst.

50 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page