Það fer um mig unaðshrollur þegar tækifæri gefst til að fjalla um lerkifræ frá trjásafninu í Mustila í Finnlandi. Þetta fræ hefur verið mér hugleikið í nokkra áratugi og nú held ég að mörg kurl séu komin til grafar enda hef ég farið í sérstaka sendiferð til að rannsaka málið.
Maður er nefndur A. F. Tigerstedt. Hann stofnaði trjásafnið í Mustila um aldamótin 1900. Hann hafði brennandi áhuga á trjám og ekki síst lerki. Hann sá strax að lerki voru frábær skógartré, með mörgum góðum kostum. Að sjálfsögðu safnaði hann lerkitrjám héðan og þaðan úr heiminum og tók fljótlega eftir því að lerki frá Kúrileyjum og Sakalín var sérlega efnilegt (Larix gmelinii var. japonica eða kúrileyjalerki). Ekki nóg með það hann tók líka eftir því að þegar hann safnaði fræi af lerkinu sínu í Mustila þá leyndust í hópnum blendingar sem voru enn öflugri en hreina óblandaða lerkið. Þessum blendingum plantaði hann út og safnaði að öllum líkindum aftur fræi af þeim. En eins og þeir sem stúderað hafa blendingsþrótt vita, þá er hann ekki eins sterkur í annarri blöndu eins og þeirri fyrstu.
Í litlum leiðarvísi um Mustila frá 1990 má finna þessa klausu „Þeir lerkiblendingar sem orðið hafa til fyrir tilviljun í Mustila eru mjög áhugaverðir, kúrileyjalerki sem blandast hefur síberíulerki gæti verið spennandi fyrir skógræktina“. Önnur tilvitnun hljómar svo: „Kúrileyjalerkið er mjög hraðvaxið og við fjögurra ára aldur oft helmingi hærra en aðrar lerkitegundir“. Þá má geta þess að ein gróðursetning í safninu frá því 1930 inniheldur lerkiblendinga sem urðu til fyrir tilviljun en eru að mestu taldir vera Kúrileyjalerki X evrópulerki.
Af kúrileyjalerkigróðursetningum í Mustila er farið fögrum orðum um gróðursetningu frá Iturup á Kúrileyjum plantað 1919 og aðra frá suður Sakalín plantað 1929.
Jæja svo var það árið 1951 að Skógrækt ríkisins á Íslandi bárust tveir fræpakkar frá Mustila annar merktur Larix gmelinii var japonica (fræ nr. 511008) en hinn Larix „X“ (fræ nr. 511007. Er talinn vera Larix gmelinii X sukaczewii). Þetta var náttúrulega nokkuð ruglingslegt og skýrsluhaldarar Skógræktarinnar fóru allir í uppnám. Þessu var sáð á Tumastöðum og plantað 1954. Af þessum plöntum eru tré við skógarvarðarbústaðinn á Hallormsstað, norðan undir lýðveldislundi á Tumastöðum, líklega á Skógum undir Eyjafjöllum og Miðhálsstöðum í Öxnadal.
Núnú þegar við Beggi bróðir vorum þarna að ræða við starfsmenn í Mustila um ágæti lerkisins fyrir heimsbyggðina og stemmingin var að ná hámarki, þá dregur hann Beggi bróðir minn höfðinglega gjöf upp úr hatti sínum. Glænýtt fræ af hinum Íslenska ´Hrym´. Viðbrögðin létu ekki á sér standa:
„EKKI MEIRA LERKI, ekki meira lerki“ stundu þeir upp allir í kór.
HÞ.
Kúrileyjalerki í Mustila, ca 100 ára gamall lundur. Takið eftir löngum grófum lóðréttum greinum. Mynd: Helgi Þórsson.
Kort Helga Þórssonar af Miðhálsstöðum þar sem helstu lerkigróðursetningar eru merktar inn. Eins og sjá má er kúrileyjalerkið syðst í reitnum.
Kúrileyjalerkið á Miðhálsstöðum
Skógurinn á Miðhálsstöðum í Öxnadal í Hörgársveit á sér merkilega sögu. Inngangskaflinn hér að framan er frásögn Helga Þórssonar í frægarðinn í Mustila en þaðan eru tré vikunnar að þessu sinni ættuð. Annars má lesa meira um Miðhálsstaðaskóg hér. Þarna kemur fram að svæðið hefur verið í umsjá Skógræktarfélags Eyfirðinga síðan 1951 en umfangsmestu gróðursetningarnar eru frá 1952-1965. Því má segja að nú séu 70 ár frá því að gróðursetningar hófust þarna að einhverju marki. Því er sjálfsagt og eðlilegt að fjalla aðeins um þau tré sem þar má finna.
Bergsveinn Þórsson (sem nefndur er Beggi bróðir í inngangskaflanum), þreyttur eftir grisjun á kúrileyjalerki á Miðhálsstöðum. Mynd: Helgi Þórsson
Ungir grisjunarmenn taka sér kaffipásu í skóginum. Mynd: Helgi Þórsson.
Uppruni
Sunnarlega í skóginum er að finna eina af þeim merkilegu gróðursetningum sem finna má í skóginum. Þar var plantað sérstöku lerki árið 1954. Fræið kom frá trjásafninu í Mustila í Finnlandi og voru tekin af trjám sem kallast kúrileyjalerki. Aftur á móti er það svo að lerkiættkvíslin er alveg sérlega lausgirt og blandast tegundirnar auðveldlega saman. Í inngangskaflanum kemur fram að í Mustila ægir saman lerki frá öllum heimsálfum og frjókorn geta borist ýmsar leiðir með vindi milli trjánna.
Kúrileyjalerki af fræi frá Miðhálsstöðum. Tréð er ríflega tvítugt og með bugðóttan stofn en ágætis vöxt. Mynd: Helgi Þórsson.
Ættfræði
Skipting lerkis í tegundir og afbrigði er nokkuð breytileg eftir heimildum og hefur í gegnum tíðina verið á nokkru flakki fram og til baka. Nú er almennt talið að dáríulerki, Larix gmelinii taki við af síberíulerki, Larix siberica, austan frá fljótinu Lenu og allt austur að Kyrrahafi. Engin önnur lerkitegund vex lengra í norður, eða allt að 73° norðlægrar breiddar. Tegund með svo víðfeðma útbreiðslu má gjarnan skipta í nokkur afbrigði. Þannig er því einmitt háttað með þessa lerkitegund. Má þar nefna afbrigði sem ganga undir nöfnum eins og L. gmelinii var. principis-rupprechtii, L. gmelinii var. olgensis og L. gmelinii var. japonica auk aðaltegundarinnar; L. gmelinii var. gmelinii. Þarna er efniviður í margar ráðstefnur og allskonar rifrildi lerkifræðinga á komandi árum sem þeir er þetta rita í bróðerni hlakka til að fylgjast náið með. Sérstaklega í ljósi þess að evrópskir grasafræðingar hallast flestir að því að fækka tegundunum á meðan rússneskir og japanskir kollegar þeirra hallast að því að greina í sem flestar tegundir.
Kúrileyjalerkið hefur stundum verið talin sérstök tegund; Larix kurilensis. Oftar er það þó kallað afbrigði dáríulerkis og þá stundum kallað Larix gmelinii var. kurilensis. Þó eru þeir til sem segja afbrigðið ekki nógu frábrugðið aðaltegundinni til að geta talist sérstakt afbrigði. Enn er ónefnt að um tíma gekk þetta lerki undir heitinu Larix cajanderi en nú er það heiti ekki lengur viðurkennt.
Kúrileyjalerkið er nú talið tilheyra einu af þessum afbrigðum dáríulerkisins og er kennt við Japan. Larix gmelinii var. japonica.
Þeir sem vilja lesa meira um lerkitegundir á Íslandi er bent á þessa stuttu samantekt félagsins.
Framkvæmdarstjóri SE snyrtir myndarlegasta Mustilalerkið á Miðhálssöðum. Könglar þess eru í stærri kantinum fyrir hreint kúrileyjalerki.
Mynd: Helgi Þórsson.
Nafnið
Tegundin sem nú er nefnd Larix gmelinii var. japonica er notað á þau afbrigði dáríulerkis sem vex villt á Sakhalin, eyjunni Iturup og Kúrileyjum sem nú tilheyra Rússlandi að mestu. Það finnst einnig á japönsku eyjunum Etoruofu og Shikotan sem eru í Kúrileyjaklasanum. Fram til loka síðari heimsstyrjaldar réðu Japanir yfir fleiri eyjum í klasanum en nú er. Þess vegna var viðurnefnið var. japonica valið, þótt það eigi ekki endilega vel við í dag. Aftur á móti er eðlilegt að kenna afbrigðið við Kúrileyjarnar og er það gert á íslensku og mörgum öðrum tungumálum.
Tréð lengst til vinstri er af fræi af kúrileyjalerkinu í Miðhálsstaðaskógi.
Eins og sjá má er það ekki alveg þráðbeint, en fallegt er það.
Fremstu tvö trén eru fjallalerki. Mynd: Helgi Þórsson.
Lýsing
Kúrileyjalerkið í Miðhálsstaðaskógi hefur sérkennilegt vaxtarlag. Það verður seint notað í borðvið en er alveg sérlega líklegt til að draga að sér klifrandi gesti af öllum aldri. Það vex út og suður og hefur marga stofna. Slíkt er gjarnan merki um endurtekið kal í trjánum þannig að það hafi oft misst ársprota sína. Svipað vaxtarlag má oft sjá á evrópulerki, Larix decidua, hér á Íslandi, enda hættir því við haustkali.
Á vefsíðu sem Ameríska barrtrjáafélagið (American Conifer Society) heldur úti er að sjálfsögðu fjallað um kúrileyjalerki. Þar segir að munurinn á því og venjulegu dáríulerkis megi finna jafnt í könglum, ungum sprotum og laufi (barrnálum).
Könglarnir eru stærri og meiri um sig á breiddina en lengdina. Stærð þeirra er sögð vera um 1,2-1,5 cm á lengd en 1,5-1,8 cm á breidd. Hver köngull er með um 15-25 köngulskeljar
Dæmigerðir kúrileyjalerkikönglar á Miðhálsstöðum. Mynd: Helgi Þórsson.
Ungir sprotar hafa annan lit en aðaltegundin. Þeir eru sagðir dökk purpurabrúnir og ögn hærðir í fyrstu. Þessi lýsing á mjög vel við um lerki sem barst til Íslands frá miðjum Kamtsjatkaskaga árið 1993. Þau hafa einmitt áberandi fallega árssprota en vaxtarlag þess er allt annað en trjánna í Miðhálsstaðaskógi eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Lerkið af Kamtjakaskaga er að minnsta kosti í meira en 600 km fjarlægð frá næsta lerki á meginlandi Asíu og því við því að búast að einhver munur sé á þeim og öðru lerki. Í umfjöllun Ameríska barrtrjáafélagsins, sem áður er nefnd, er þetta lerki ekki nefnt. Í ágætri bók eftir þekktasta barrtrjáafræðing heims, Aljos Farjon; A Natural History of Conifers, segir hann að lerkið á skaganum sé L. gmelinii en afbrigði ekki nefnt.
Lerki ættað frá Kamtsjatka austur í Skriðdal. Þráðbeint og fallegt en vex hægar en rússalerkið. Lerki úr sömu fræsendingu er til fram á Hálsi í Eyjafirði en er ekki eins beinvaxið. Er þetta líka kúrileyjalerki eða er rétt að kalla það eitthvað annað? Mynd: Sigurður Arnarson.
Dökkir sprotar Kúrileyjalerkis á moti hálmgulum sprotum rússalerkis. (Karlblóm rússalerkis að opnast) Mynd: Helgi Þórsson.
Þriðja atriðið sem sagt er að skilji á milli er að nálarnar eru styttri eða 1,5-3 cm á lengd. Varasamt getur verið að taka lengd barrnála mjög alvarlega því aðrir þættir geta haft áhrif á hana en bara uppruni. Aftur á móti er það alveg rétt að nálar þessa lerkis, bæði dáríulerkis og kúrileyjalerkis, eru minni en á síberíulerki (rússalerki) sem algengt er í ræktun á Íslandi. Þá má nefna að nálar geta haft örlítinn blágrænan tón og greinar gjarnan nokkuð kröftugar og áberandi láréttar og aðeins örlítið uppsveigðar.
Helgi Þórsson stendur hér við kúreileyjalerki. Áberandi er hversu greinarnar eru láréttar. Tilvalið klifurtré en ekki heppilegt timburtré.
Mynd: Samson Bjarnar Harðarson.
Kúrileyjalerkið á Miðhálsstöðum haustar sig seinna en rússalerkið í kring. En það gerir líka Evrópulerkið frá Graubunden sem stendur norðarlega í skóginum, upp í brekkunni. Þetta er áberandi þegar ekið er til Reykjavíkur í október. En munum að skógarskoðun skal aldrei framkvæma á mikilli ferð. Sérstaklega ef skógarskoðarinn og ökumaðurinn er einn og sami maðurinn.
Við hliðina á lundinum á Miðhálsstöðum er þetta sjálfsáða lerki. Það er með rauðgula sprota kúrileyjalerkisins og litla köngla. Hins vegar er það þráðbeint og hefur vaxið gríðarlega hratt sem er ekki stíll gömlu trjánna. Hugsanlega er þetta blendingur rússalerkis, sem er þarna í grennd, og kúrileyjalerkisins. Þarna er þessi margfrægi blendingsþróttur að gera sitt gagn. Mynd: Samson Bjarnar Harðarson.
Að lokum
Kúrileyjalerkið er aðeins ein tegund af mörgum sem finna má í Miðhálsstaðaskógi. Skógurinn er öllum opinn en aðgengi mætti vera betra. Vonandi tekst okkur að laga það í vor og sumar. Þú, lesandi góður, ert velkominn í skóginn og mátt alveg reyna að finna þessi tré og klifra í þeim eins og þú vilt. Sigurður Arnarson Helgi Þórsson
Комментарии