top of page

Hrymur

Í vetur stefnum við að því að birta þennan þátt einu sinni í mánuði. Í sumar ætlum við að hafa þættina vikulega líkt og síðasta sumar.


Í heiminum eru mörg tré og það er gott. Lerki er ættkvísl trjáa sem vex víða um heiminn t.d. vex japanslerki í Japan, rússalerki í Rússlandi og evrópulerki í Evrópu og risalerki vex í Ameríku en það er önnur saga. Hér á Íslandi hafa menn prófað að gróðursetja allar heimsins lerkitegundir og sumar hafa staðið sig vel, sérstaklega rússalerkið og evrópulerkið. Rússalerki er sú trjátegund sem mest er gróðursett af á Norður- og Austurlandi og er þeirrar náttúru að geta vaxið öðrum trjám betur í rýru landi. Í skógrækt eins og í t.d. hrossarækt vilja menn gjarnan reyna að bæta stofninn (í bókstaflegri merkingu þegar er verið að rækta tré) og halda góðu tré undir annað ekki síðra. Upp úr 1990 fóru menn út í skóg og fundu nokkur einstaklega flott rússalerkitré, klipptu af þeim greinar og komu til inni í gróðurhúsi. Í fyllingu tímans mundu svo þessi úrvals tré æxlast saman og gefa okkur fyrsta flokks afkomendur. Auk þess að velja úrvals rússalerki í húsið var líka komið til einu evrópulerki. Svo eins og gerist í allri ræktun þá verður stundum til fyrir hálfgerða tilviljun, af slysni, eitthvað sem menn sáu ekki fyrir í upphafi. Rússalerkið og evrópulerkið eignuðust saman afkvæmi sem óx það vel að eftir var tekið. Vegna kraftalegs útlits og vaxtargetu fékk það nafnið Hrymur. En Hryms nafnið kemur úr Snorra Eddu og er nafn á þursi einum sem kom úr austri eins og foreldranir. Þegar mönnum varð ljóst að lerkiblendingurinn Hrymur óx jafnvel tugum prósentum hraðar á alla kanta en hreint rússalerki sáu menn að það væri eina vitið að rækta meira af honum. En það er ekki allveg einfallt að búa til Hrym því foreldranir þurfa að eiga heima í gróðurhúsi þar sem hægt er að sjórna loftslagi og ræktunaraðstæðum þannig að þau blómstri öll mikið á sama tíma. Nú og svo að frjóduft af karlbómum evrópulerkis berist á kvennblóm rússalerkis (og svo öfugt) þarf mannshöndin að bregða sér í hlutverk bíflugunnar og safna saman frjóduftinu og bera á kvenblóm hinnar tegundarinnar með pensli. Frá 2011 hafa árlega verið gróðursettir fáeinir tugir þúsunda Hrymplantna um allt land. Á næstu árum eru líkur á að framleitt verði meira af Hrymi og þessi planta sem flestir líta á sem sjalgæfan eðalstein í dag gæti þá orðið eins spennandi og blátoppur.



185 views

Recent Posts

See All
bottom of page