top of page

Tinnuviður

Updated: Jun 12, 2023

Þann 29. mars 1982 gaf Paul McCartney út lag sem hann söng með Stevie Wonder. Lagið heitir Ebony and Ivory og var mjög vinsælt á sínum tíma enda alger eyrnaormur. Síðar kom lagið út á plötunni Tug of War með Paul. Lagið náði fyrsta sæti á vinsældarlistum bæði vestan hafs og austan, en var bannað í Suður-Afríku þar sem aðskilnaðarstefnan, Apartheit, var enn í fullum gangi. Lagið er myndlíking um að þjóðir heims eigi að lifa saman í sátt og samlyndi eins og svörtu og hvítu nóturnar á lyklaborði píanós. Hvítu nóturnar eru sem fílabein (ivory) en svörtu nóturnar sem tinnuviður (ebony). Það er þó fremur ólíklegt að þessi efni séu í raun notuð á lyklaborð píanóa á okkar dögum. Fyrr á dögum voru þessi efni samt einmitt notuð á þennan hátt.

Umslag smáskífunnar frá 1982.


Fílabein er í raun ekki bein úr fílum, heldur skögultennur þeirra. Þar sem fílabein er ekki úr tré verður ekki mikið fjallað um það hér. Öðru máli gegnir um tinnuviðinn. Þó er ekki auðvelt að fjalla um annað án þess að nefna hitt.

Skjáskot út tónlistarmyndbandi með laginu Ebony & Ivory.


Samræmi

Löngu áður en dúettinn með Paul MacCartney og Stevie Wonder var gefinn út höfðu menn spyrt þessi tvö hugtök rækilega saman. Það er meira að segja gert í Gamla testamenti Biblíunnar (Esekíel 27;15, sjá síðar) og í ýmsum skáldsögum allt fram á okkar daga.


Sólsetur og tinnuviðartré. Myndin fengin héðan. Þar má finna fleiri myndir.


Tinnuviðurinn, dekkstur viða, og hið ljósa fílabein (Ebony & Ivory) harmónera vel saman. Hugtökin lýsa tvennu sem er ólíkt en samt svo líkt. Bæði efnin eru hörð en mjúk viðkomu og eins konar tákn fyrir andstæður sem samt mynda fullkomið samræmi, rétt eins Jin og Jang.


Jin og Jang (eða Yin & yang) eru andstæður sem ekki geta án hvors annars verið. Jin og Jang minna dálítið á tinnuvið og fílabein.


Bæði efnin eru dýr og hafa alla tíð talist til lúxusvarnings. Samt eru þau bara náttúruleg efni, tréni og hyrni. Grunnefnið er hið sama; kolefni. Að auki virðist sem þau eigi sér sameiginlegan orðstofn í mörgum málum. Rót orðsins ebu (ebony) kemur úr grísku og merkir fíll. Það mikla dýr heitir ebenos á grísku.

Mynd af tinnuviðartré fengin héðan.

Það verður því að teljast einstaklega vel til fundið hjá gamla bassaleikara Bítlanna að nota hugtökin í textann sinn. Hann er birtur hér í viðauka. Boðskapurinn á ekkert síður við í dag en fyrir 40 árum þegar hann var bannaður í Suður-Afríku. Löngu áður var Tómas Guðmundsson ef til vill í svipuðum hugleiðingum þegar hann orti: Hve hjörtu mannanna svipar saman í Súdan og Grímsnesinu“.

Fílastyttur úr tinnuvið og fílabeini. Myndin er héðan.


Svartviður

Eins og vikið verður að hér á eftir eru til nokkur heiti yfir tinnuvið á íslensku, bæði að fornu og nýju. Til eru aðrar tegundir sem einnig hafa nánast svartan, eða alveg svartan við. Þær tegundir eru nýttar á sama hátt. Samheiti þeirra allra er svartviður. Tilheyra þær ekki færri en þremur ættum trjáa. Ekki getum við fjallað um tinnuvið án þess að nefna þær. Fyrst ber að nefna belgjurtir, Fabaceae. Á þessum síðum hefur áður verið fjallað um trjátegund sem kallast dalbergia sem einmitt er þekkt fyrir sinn dökka við. Svo er það Mahoníviðarætin, Meliaceae, en Mahoní, Swietenia mahoganii, myndar einmitt dýran og dökkan við. Sá viður er meðal annars nýttur í rándýr húsgögn. Að lokum er það svo ættin sem þessi tegund tilheyrir; Ebenaceae. Okkar tegund er megintegundin í þeirri ætt. Innan hverra þessara þriggja ætta eru fleiri en ein tegund sem myndar dökkan við. Allar eiga þær það sameiginlegt að eiga undir högg að sækja, í bókstaflegri merkingu.

Rysja tinnuviðar er ljós en vel afmörkuð frá dökkum kjarnviðnum.

Myndin er héðan.

Latínuheitið; Diospyros ebenum

Furðumargar tegundir hafa verið nýttar sem tinnuviður. Sumar þeirra eru nefndar hér að framan og kallast einu nafni svartviður. Hinn eini rétti tinnuviður heitir Diospyros ebenum á latínu. Ættkvíslarheitið: Diospyros er sett saman úr orðunum Dios og pyros. Samkvæmt Wells (2010) merkir það guðafæða. Það er sama merking og á ættkvísl kakóplöntunnar, Theobroma. Innan ættkvíslarinnar Diospyros eru fleiri tegundir en okkar tré. Sum þeirra bera æta og góða ávexti og latínuheitið vísar í það. Má þar nefna tegundir eins og persímónutré, D. virginia og gallaldintré, D. kaki. Nöfnin eru fengin héðan, en á ensku kallast þessi tré persimmon.


Diospyros kaki er ekki sígrænt eins og D. ebenum. Myndin er fengin héðan.


Aldinið á tinnuvið er líka ætt en það er lítið og tréð er ekki ræktað þeirra vegna. Um tíma töldu menn reyndar að tréð væri eitrað. Kemur það meðal annars fram í verkum Shakespeares (sjá hér á eftir).

Aldin tinnuviðartrés. Myndin fengin héðan.


Viðurnefnið ebenum vísar einfaldlega í alþjóðlega nafnið á við trjánna; ebony. Hér ofar er greint frá því að stofn orðsins gæti verið ebu og er þá úr grísku.


Diospyros kaki er ræktað vegna ávaxtanna. Sama ættkvísl og tinnuviður. Myndin fengin héðan.


Íslensk heiti

Samkvæmt Íðorðabanka Árnastofnunar heitir tréð tinnuviður og er það heiti notað í þessari grein. Þar eru gefin upp samheitin svartviður, íbenviður og íbenholt. Svartviður er óheppilegt heiti því það er notað sem samheiti yfir allan svartan við eins og frá er greint hér ofar. Orðið tinnuviður á sér langa sögu í íslensku og alþekkt er að Þyrnirós var „svört á hár sem tinnuviður.

Íbenviður og íbenholt eru alveg ágætis heiti og vísar í heiti sem notuð eru í öðrum tungumálum. Íbenviður er heitið sem notað er í skáldsögunni Guðsgjafarþulu eftir Halldór Laxness og í íslenskri þýðingu á Biblíunni. Í eldri þýðingar hennar var notast við heitið hebenviður. Það nafn er nánast alveg dottið úr tísku. Orðið íbenholt er greinilega á sömu bókina lært og íbenviður. Orðið holt, sem þarna er notað sem viðskeyti, merkir upprunalega skógur. Þá fæst botn í málsháttinn „Oft er í holti heyrandi nær“ sem fær nútímamenn til að klóra sér duglega í hausnum þegar þeir hugsa um holt nánast sem andstæðu skóga. Orðið er samstofna þýska orðinu Holz sem merkir viður. Íbenholt og íbenviður eru því augljós samheiti. Samkvæmt leit með algengri leitarvél á netinu er íbenholt algengasta orðið yfir þessa tegund, en hér förum við eftir tillögum Árnastofnunar.

Það þarf ekki mikið hugmyndaflug til að átta sig á af hverju þetta kallast tinnuviður. Myndin fengin héðan.


Ættfræði

Tinnuviður, Diospyros ebenum, tilheyrir ættbálknum Ericales. Innan hans eru um 9450 tegundir í 24 ættum. Ein þeirra, tinnuviðarætt eða Ebenaceae, er nefnd eftir tinnuvið. Innan þeirrar ættar finnast bæði tré og runnar í nær öllu hitabeltinu og örfáar tegundir finnast einnig í heittempraða beltinu. Þess vegna er tilgangslaust að reyna tegundirnar hér á landi, nema í stórum gróðurhúsum. Stærsta og merkasta ættkvíslin er Diospyros spp. Innan hennar eru taldar vera 450 tegundir. Þar af um 200 frá Malasíu, þónokkrar í regnskógum Afríku, færri í Mið- og Suður-Ameríku, nokkrar í Ástralíu og Indlandi og örfáar sem finna má nálægt Miðjarðarhafinu, syðstu ríkjum Bandaríkjanna (sem sumir vilja reyndar kalla Sundrungarríki um þessar mundir) og jafnvel í Japan. (Tudge 2005). Til eru tegundir af þessari ættkvísl sem mynda dökkbrúnan kjarnvið með brúnu eða svörtu mynstri. Tinnuviðurinn, sem er nánast alveg svartur, þykir þó bera af. Aðrar tegundir ættkvíslarinnar eru samt einnig seldar sem tinnuviður.

Helstu einkenni plöntunnar. Myndin fengin héðan.


Lýsing

Hinn eiginlegi tinnuviður, Diospyros ebenum, vex villtur um Indland, Indónesíu og Sri Lanka. Hann er sígrænt og hægvaxta tré sem getur orðið tæpir 20 metrar á hæð. Samkvæmt Tudge (2005) er algengast að tréð verði um 15-18 metrar á hæð með stofn sem getur orðið um 60 cm þykkur. Viður hans er svo harður að vonlaust er að negla í hann og erfitt að vinna á honum almennt. Aftur á móti má pússa hann og verður hann þá svo glansandi fínn að hann lítur hreint ekki út eins og viður. Viðurinn er það þungur að hann flýtur ekki í vatni. Eðlisþyngd hans er 1,19g/cm3. Náskyldar tegundir, sem oft ganga undir sama nafni, vaxa í Austur-Afríku.


Tinnuviðartré. Myndin fengin héðan.


Notkun

Tinnuviður hefur alla tíð verið dýr lúxusvarningur. Aðeins hinn dökki kjarnviður er nýttur en utan um hann er ljósari, vel afmörkuð rysja sem ekki er nýtt. Mynd af þessu má sjá hér ofar. Dökki viðurinn er meðal annars nýttur í dýr hljóðfæri. Stundum eru dökk tréblásturshljóðfæri, eins og klarinett, að hluta til úr tinnuviði. Annars er hverskyns svartviður nýttur í þessi hljóðfæri. Í gítarheiminum þykir tinnuviður fínni en rósaviður, sem mikið er notaður og hefur svipaða eiginleika. Allra fínast þykir að hafa fingraborð úr tinnuviði. Gítarframleiðandinn Gibson gengur skrefi lengra og notar heitið á tinnuvið sem heiti á litnum á svörtum gíturum sem þeir framleiða. Þeir selja einnig gítara sem eru nánast hvítir. Þann lit kalla þeir ebony.


Gibson Les Paul Custom með tinnuviðarfingraborði fæst í tveimur litum. Alpine White og Ebony. Verð: $4999. Myndin og upplýsingar fengnar héðan.

Hér að ofan er stærð trjánna lýst. Þau eru að jafnaði hvorki þykk né mjög há. Þess vegna er timbrið aðeins selt í stuttum lengdum og fyrst og fremst nýtt í fremur litla hluti. Áður fyrr voru stærri gripir smíðaðir úr tinnuvið. Viðurinn þykir óhemju fallegur í hverskyns skúlptúra og í smáa hluti eins og hurðarhúna. Hann er einnig nýttur í billjardkjuða og fleira.

Armbönd úr tinnuvið og kýrhorni. Það er mun umhverfisvænna en fílabein. Myndin fengin héðan.


Handgerðir billjardkjuðar úr tinnuviði og silfurhlyni (Acer saccharinum). Myndin fengin frá framleiðanda.

Fornar heimildir

Hinn svarti litur tinnuviðarins hefur lengi verið tengdur bæði fegurð og myrkum öflum og jafnvel dauða. Þannig var kóróna Plútós, sem var konungur undirheima, sögð búin til úr tinnuviði. Þetta er sá sami Plútó og 9. pláneta sólkerfisins var nefnd eftir vegna þess eilífa myrkurs er þar ríkir. Seinna lækkaði plánetan í tign og telst ekki lengur með sem slík. En það er önnur saga. Vel má einnig halda því fram að undirheimaguðinn Plútó hafi lækkað verulega í tign. Nú er algengara að upp í hugann komi hundur úr draumaverksmiðju Disneys en konungur undirheima.

Egyptar til forna þekktu þennan við og nýttu hann í musterum sínum. Faróar þeirra áttu húsgögn úr tinnuviði, glansandi svört að lit. Tinnuviður vex samt ekki í Egyptalandi. Þangað hefur hann verið fluttur inn. Annað hvort frá Asíu eða náskyldar tegundir frá Austur-Afríku.

Í Gamla testamentinu er minnst á tinnuvið. Í flestum þýðingum er þó notast við annað heiti: Íbenvið.

Í 27. kafla Esekíel segir í 15. versi: „Ródosbúar versluðu í umboði þínu. Margir á fjarlægum eyjum voru kaupmenn í þjónustu þinni og guldu þér í fílabeini og íbenviði“. Sennilega er hér komið elsta dæmið um þetta tvennt saman, sem þeir McCartney og Wonder sungu svo eftirminnilega um.

Í Guðbrandsbiblíu er þetta orðað svona: „Þeir af Dedan voru þínir kaupmenn og alla vegana hefur þú haft þinn kaupskap í eyjunum, þeir seldu þér fílabein og hebenvið“.

Ef við færum okkur ögn nær í tíma má geta þess að Marco Polo, sem ferðaðist um Asíu 1271 til 1295, (sá hinn sami og spilaði aldrei nóló samkvæmt Felix og Gunna) sagði frá því að hann hafi í þeirri álfu séð tré með svartan við sem kallast tinnuviður og sé nýttur í taflmenn og hulstur utan um penna. Enn eru til dæmi um taflmenn úr tinnuviði og fílabeini, en þeir eru varla framleiddir lengur.

Hollenskur tinnuviðarstóll frá seinni hluta 17. aldar. Myndin fengin héðan.


Shakespere og tinnuviður

Í Hamlet, eftir Shakespeare, kemur þetta tré fyrir. Vofa föður Hamlets heldur því fram að eitrað hafi verið fyrir honum með tinnuvið. Vofan segir að hún hafi verið drepin með einskonar galdri með „cursed Hebenon“ eða hebenvið í álögum, svo notað sé heiti tinnuviðar úr Guðbrandsbiblíu. Eitri úr þessum hebenvið var hellt í eyra konungsins. Á þeim tíma sem Shakespeare var uppi töldu menn ekkert eðlilegra en að svart tré hlyti að tengjast dauðanum.

Teiknimyndaútgáfa af Hamlet þar sem vofan segir frá dauða sínum. Í fjórða ramma er talað um hebenviðinn.

Myndin er fengin héðan og er sögð eftir Honeypot.

Þrátt fyrir tenginguna við dauða, eða einmitt þess vegna, þótti tinnuviður sérlega fallegur og spennandi. Shakespere nýtir þessar andstæður og lætur Berowne lávarð segja:

Is ebony like her? O wood divine

A wide of such wood were felicity.“

Þessu mætti snara svona:

Er hún sem tinnuviður? Ó, guðlegi viður! Breiður af slíkum viði veita unað.“

„Is ebony like her? O wood divine"

Myndin er eftir Alastair Muir og er fengin héðan.


Glæsilegur tinnuviður. Ó, guðlegur viður! Myndin fengin héðan.


Laxness og tinnuviður

Fyrst við höfum nefnt höfuðskáld enskrar tungu, Shakespere, getum við ekki sleppt því að nefna kollega hans íslenskan, Halldór Laxness. Sá síðarnefndi fæddist á dánardegi þess fyrrnefnda, 23. apríl. Munaði þar ekki nema 314 árum. Síðasta skáldsaga Halldórs, Guðsgjafarþula, kom út árið 1972 þegar skáldið stóð á sjötugu (seinna komu minningabækur). Þar segir frá síldarspekúlantinum Bersa Hjálmarssyni eða Íslands-Bersa. Hann var maður sem barst mikið á og hvað er betra til að sína það en tinnuviður, sem skáldið frá Laxnesi kallar íbenvið? Í fyrsta kafla þeirrar sögu er Íslands-Bersi kynntur til sögunnar. Dugar ekki minna en að nefna stafinn í tvígang í þeim kafla. Íslands-Bersi bar íbenviðarstaf með fílabeinshnúð. Enn og aftur er þarna sama kombó og hjá bassaleikara Bítlanna. Það er alveg ljóst af sögunni að Íslands-Bersi þarf ekki að nota stafinn vegna vandræða með gang. Hann studdi sig aldrei við hann heldur þrýsti honum með olnboganum upp að síðunni og lét hann mynda 30° horn við sjálfan sig, miðað við hryggsúluna, eins og segir í sögunni. Lestur Halldórs á sögunni má hlusta á hér.


Svona gæti stafur Íslands-Bersa hafa litið út. Myndin fengin héðan.


Verndun

Á erlendum tungumálum er þessi tegund ýmist kölluð sannur tinnuviður eða Seylontinnuviður (Ceylon ebony) en Seylon er eldra heiti á eyjunni Sri Lanka þar sem tréð nær hvað mestum þroska.

Árið 1994 setti International Union for Conservation of Nature and Natural Resources (IUCN) tegundina á svokallaðan rauðan lista. Það er listi yfir tegundir í útrýmingarhættu. Það var vel við hæfi að þá var tegundin friðuð á Sri Lanka áður en framtakssamir skógarhöggsmenn gengu að tegundinni dauðri. Á Indlandi var hún einnig friðuð í kjölfarið. Síðan gerðist það að tegundin var tekin af rauða listanum árið 1998 af sömu samtökum og færð á lista yfir tegundir sem ekki eru nægar upplýsingar um til að hægt sé að fullyrða um stöðuna. Tegundin gæti því enn verið í hættu.

Á okkar tímum ættum við til öryggis að taka Paul MacCartney til fyrirmyndar og syngja „Live together in perfect harmony“ Ef við viljum fara eftir þessu heilræði þá forðumst við bæði fílabein og tinnuvið.

Ungur skógur af tinnuviðartrjám á Indlandi. Myndin fengin héðan.


Heimildir

Hið íslenska Biblíufélag: https://biblian.is/


Diana Wells (2010) Lives of the Trees. An Uncommon History. Algonquin Books of Chapel Hill. Chapel Hill, North Carolina.


Colin Tudge (2005): The Tree: A Natural History of What Trees Are, How They Live, and Why They Matter. Crown Publishers, a division of Random House, Inc, New York.


Örn Arnarson (2022): Munnleg heimild um gítara og ýmsar ábendingar.


Viðauki I

Hér er tengill á myndband með laginu Ebony and Ivory frá 1982


Viðauki II

Textinn við Ebony and Ivory eftir MacCartney. Fenginn af þessari síðu


[Chorus] Ebony and ivory Live together in perfect harmony Side by side on my piano keyboard Oh Lord, why don't we? [Verse] We all know that people are the same where ever you go There is good and bad in everyone And we learn to live, we learn to give each other What we need to survive together alive

[Chorus] Ebony and ivory Live together in perfect harmony Side by side on my piano keyboard Oh Lord, why don't we? [Bridge] Ebony, ivory Living in perfect harmony Ebony, ivory, ooh

Verse] We all know that people are the same where ever you go There is good and bad in everyone We learn to live when we learn to give each other What we need to survive together alive [Chorus] Ebony and ivory Live together in perfect harmony Side by side on my piano keyboard Oh Lord, why don't we? Side by side on my piano keyboard Oh Lord, why don't we?

[Outro] Ebony, ivory Living in perfect harmony Ebony, ivory Living in perfect harmony Ebony, ivory Living in perfect harmony Ebony, ivory Living in perfect harmony Ebony, ivory Living in perfect harmony Ebony, ivory Living in perfect harmony

201 views0 comments

Recent Posts

See All

Kommentare


bottom of page