Fyrir 15 milljónum ára var landslag og gróður allt öðruvísi en seinna varð á því landsvæði sem við nú köllum Ísland. Á þeim hluta tertíer var í gangi það jarðsögutímabil sem kallað er míósen. Engar ísaldir höfðu þá mótað landið, grafið dali og firði eða sorfið berg. Atlantshafið var miklu minna en nú er og hugsanlegt er að landbrú frá hinu íslausa Grænlandi þess tíma, yfir Ísland og Færeyjar til Skotlands hafi ekki að fullu verið horfin. Ef marka má steingervinga hefur veðurfar verið svipað og nú er á heittempruðum Miðjarðarhafssvæðum og meðalhiti ársins verið nálægt 10°C. Trjágróður var miklu fjölbreyttari en síðar varð og lítil hjartardýr fóru um skógana. Sjálfsagt hafa hér einnig verið rándýr sem komu í veg fyrir að stofnar gras- og laufbíta hafi orðið of stórir. Eitt af þeim trjám sem uxu á þessum tíma á Íslandi kallast hjartatré af ættkvíslinni Cerxidipyllum. Þegar tók að kólna breyttist allt. Að lokum huldi ís landið og þá var ekki pláss fyrir þessa fornu skóga. Síðan hafa náttúrulegir skógar landsins verið til muna snauðari af tegundum en áður var. Á síðustu öld var aftur reynt að rækta ýmsar tegundir á Íslandi. Ein af þeim var einmitt hjartatré. Og viti menn: Það tókst. Hjartatré er tré vikunnar.
Japanskt hjartatré sem gróðursett var í Vín í Austurríki árið 1910. Ætli hjartatrén í Lystigarðinum verði svona myndarleg eftir eina öld? Myndina tók Jürgen Schuller og birti á Facebooksíðunni Big Tree Seekers.
Náttúrusaga
Fyrir 15 milljónum ára mátti finna hjartatré í Asíu, Norður-Ameríku og Evrópu. Sjálfsagt hefur þá mátt greina ættkvíslina í hinar ýmsu tegundir sem hver um sig hefur haft sín sérkenni. Við vitum ekki nákvæmlega hvernig íslenska hjartatréð leit út eða hvort það myndaði sérstaka tegund. Það gæti hafa borist hingað hvort heldur sem er frá Ameríku eða Evrópu eins og öll flóran á þeim tíma. Hugsanlegt er að landbrúin hafi verið sokkin að mestu fyrir 15 milljónum ára þegar elstu plöntuleifar sem fundist hafa á Íslandi urðu til. Þegar Atlantshafið stækkaði og landbrúin hvarf í hafið hefur hjartatréð sjálfsagt einangrast hér á landi og ef ekki hefði kólnað svo mikið að tréð dó út væri afkomendur þessa trés sjálfsagt enn hér á landi og myndaði þá einlenda tegund sem væri hvergi til nema einmitt hér. Breytingar á veðurfari komu í veg fyrir það. Það tók að kólna og búsvæði sem hentuðu hjartatrénu drógust saman og hurfu að lokum alveg. Með þeim hurfu trén og önnur kulvís tré sem áður mynduðu fjölbreytta skóga á landinu. Hjartatrén hurfu ekki bara á Íslandi. Þau dóu út í Ameríku, Evrópu og á stórum hluta Asíu. Nú eru aðeins ein eða tvær tegundir ættkvíslarinnar til. Þær vaxa austast í Asíu. Önnur er á latínu kennd við Japan og kallast Cercidiphyllum japonicum. Hin kallast C. magnificum. Hún er af sumum talin afbrigði þeirrar fyrri en nú orðið er hún af flestum talin sérstök tegund. Í næsta kafla skoðum við þær aðeins nánar.
Stærðin á þessu glæsilega hjartatré má ráða af fólkinu sem stendur undir því. Tréð er í Connecticut í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Myndina tók Amy Howansky og birti á Facebooksíðunni Big Tree Seekers.
Núverandi útbreiðsla
Þessi áður útbreidda ættkvísl á nú aðeins einn eða tvo fulltrúa í heiminum. C. japonicum vex villt í tempruðum skógunum sem finna má í Japan, Suðaustur-Kína og Kóreu. Stundum er það nefnt japanshjartatré. Hitt tréð heitir C. magnificum, sem kalla má fjallahjartatré. Það er lægra tré með stærri laufum og vex aðeins á Honshu eyju í Japan. Þar vex það í fjalllendi ofan við útbreiðslusvæði japanshjartatésins (Friðgeir og Leifur 2008). Það er auðvitað dálítið skemmtilegt að önnur tegundin er kennd við Japan en vex víðar á meðan hin vex eingöngu í Japan en heitir eitthvað allt annað. Íslensku heiti þessara tegunda eru fengin úr grein eftir Friðgeir Grímsson og Leif A. Símonarson í Skógræktarritinu 2008. Flestar aðrar heimildir kalla japanshjartatréð einfaldlega hjartatré, en þegar greina þarf á milli þeirra er sjálfsagt að nota nöfn þeirra Friðgeirs og Leifs. Nú hefur fyrrgreindu tegundinni verið plantað víða í almenningsgörðum í Evrópu og Norður-Ameríku. Trénu hefur einnig verið plantað á Íslandi og má meðal annars finna það í Lystigarðinum á Akureyri. Er ekki annað að sjá en að það þrífist þar ágætlega þótt ekki sé líklegt að það nái hér sömu hæðum og sunnar í álfunni eða austur í Asíu. Það verður líka að geta þess að trén verða gjarnan fyrir minni háttar kali í Lystigarðinum. Því verður að telja það tryggara að setja þau niður á góðum stöðum. Seinni tegundin, C. magnificum, hefur líka borist í Lystigarðinn. Þar er það ekki kallað fjallahjartatré eins þeir Friðgeir og Leifur stinga upp á, heldur brauðtré. Hvorugt heitið er að finna á lista Íslenskrar málstöðvar. Tíminn mun skera úr um hvort heitið verður ofaná. Þessi ræktuðu tré á Íslandi eru að sönnu ekki sömu trén og uxu hér á tertíer, en þau eru af sömu ættkvísl. Sjálfsagt er hægt að deila um það hvort ræktun þessara trjáa teljist til endurheimtar horfinna ættkvísla á Íslandi, eða hvort við teljum tegundina framandi. Hvort heldur sem er getur hjartatré tæplega talist ógnun við íslensk vistkerfi eins og í tísku er að segja um duglegri trjátegundir. Hér vex tegundin varla nema vel sé hugsað um hana.
Tvær myndir af hjartatré úr kínverska garðinum í Grasagarðinum í Edinborg. Laufblöðin farin að gulna örlítið, enda styttist í haustið. Þarna má sjá stærsta safn kínverskra trjáa í Evrópu. Myndir: Sig.A.
Fundur á Íslandi
Leifur A. Símonarson og Thomas Denk segja frá fundi hjartatrésins í grein í Náttúrfræðingnum árið 2007. Þar kemur fram að leifar hjartatrjáa hafi fundist í 15 milljón ára gömlum setlögum í Þórishlíðarfjalli í Selárdal í Arnarfirði á Vestfjörðum. Þórishlíðarfjall er án efa frægasti fundarstaður plöntusteingervinga frá þessum tíma en undir því er bærinn Uppsalir þar sem Gísli bóndi bjó á sínum tíma.
Laglegt hjartatré í Lystigarðinum er auðþekkt á laufunum. Myndir: Sig.A.
Í Þórishlíðarfjalli hafa fundist steingerð laufblöð sem varðveist höfðu í mjög glerríkum sandsteini. Setlögin eru um 20 metra þykk og virðast hafa myndast á fremur háttliggjandi svæði og hugsanlega í fjallshlíð. Hátt hlutfall ljóss vikurs og gjósku í setlögunum gæti bent til nálægðar við eldkeilu. „Svo virðist sem hjartartréð hafi verið frekar áberandi í plöntusamfélaginu í Selárdal“ segja þér félagarnir á bls. 87 í Náttúrufræðingnum. Í Plöntusamfélaginu í Selárdal virðist samt sem arnbeyki, Fagus friedrichii, hafi verið mest áberandi. Um þá tegund höfum við áður fjallað og má sjá þann pistil hér. Annars endurspeglar flóran sumar- og sígræna laufskóga í hálendishlíðum. Vatn hefur streymt í gegnum jarðveginn en ekki safnast saman í mýrum. Þarna hefur, fyrir 15 milljónum ára, verið harðviðarskógur í heittempruðu og röku loftslagi líkt og nú má finna í Appalachiafjöllum í austurhluta Norður-Ameríku. Sambærilegt loftslag má finna við norðan- og austanvert Svartahaf, sunnanvert Kaspíahaf og í Japan og Mið- og Austur-Kína (Leifur og Denk 2007).
Annað hjartatré í Lystigarðinum á Akureyri. Myndir: Sig.A.
Á meðal annarra algengra ættkvísla sem uxu með hjartatrénu í beykiskógunum má nefna lind, Tilia spp., álm, Ulmus spp., og kastaníu, Aesculus spp. Einnig platnavið, Platanus spp., magnolíu, Magnolia spp., lyngrós, Rhododendron spp. og toppa, Lonicera spp. Lítið finnst af víði, Salix spp., ösp, Populus spp., og fenjavið, Glyptostrobus spp. Þær þrjár síðasttöldu finnast samt í jafn gömlum setlögum sem myndast hafa á rakari stöðum á láglendi. Þannig hafa plöntusamfélögin verið gjörólík á Íslandi þótt þau séu frá sama tíma og við sama eða svipað loftslag ef aðrar aðstæður eru ólíkar. Jarðlög sem mynduðust fyrir 13,5 milljónum ára sýna okkur mjög svipaða laufskóga og voru í Selárdal (Leifur og Denk 2007). Síðan tók að kólna og þá fækkaði hinum kulvísu tegundum smám saman. Við sjáum samt ekki í okkar gögnum hvenær hjartatréð hvarf af landinu eða hversu gamlar yngstu menjar þess eru. Tré gætu líka hafa vaxið á landinu án þess að skilja eftir sig menjar sem vísindamenn hafa fundið.
Steingervingur úr Selárdal úr Arnarfirði af laufi hjartatrés með fjölda aðalstrengja og hjartalaga botn. Kvarðinn er 3 cm. Myndin úr grein í Náttúrufræðingnum (Leifur og Denk 2007).
Lýsing
Hjartatré geta orðið allt að 30 metrar á hæð (sumar heimildir segja allt að 45m, aðrar aðeins 20 m en við höldum okkur við Tudge) með þvermál stofns allt að 120 cm í brjósthæð. Stundum er tréð einstofna en oft er það margstofna. Með aldrinum verður stofninn oftast snúinn og undinn (Tudge 2005).
Til eru hengiafbrigði af hjartatré. Hér má sjá eitt slíkt. Myndina tók Amy Quarles Galland í garði sínum og birti á Facebooksíðunni Uniq Trees þar sem sjá má fleiri myndir af trénu.
Laufin á hjartatrjám eru nokkuð auðþekkt á hjartalaga botni og bera trén heiti sitt af þessu einkenni. Þau eru rauð fyrst á vorin en verða síðan blágræn. Þau eru dökkblágræn á efra borði en bláleit á neðra borði. þegar líður á sumarið lýsast þau dálítið uns þau verða áberandi skærgul á haustin, Þau fá stundum rauðleita tóna á haustin. Það er eitthvað verulega heillandi við að horfa upp í gegnum laufkrónu hjartatrjáa upp í sólskinið. Á það jafnt við á sumrin þegar margvíslegir grænir og blágrænir tónar blasa við og á haustin þegar laufin verða í allskonar gulum tónum.
Á heimasíðu Lystigarðsins á Akureyri er gefin nákvæmari lýsing á trénu. Má skoða þá umfjöllun hér.
Hjartatré í Lystigarðinum á Akureyri er ljómandi snoturt. Hér er langt liðið á sumarið og laufblöðin farin að lýsast. Mynd: Sig.A.
Nafnið
Á latínu heitir þetta tré Cercidiphyllum japonicum. Þetta vísindaheiti er sett saman úr orðunum Cercis og phylum. Phylum merkir lauf. Cersis er ættkvísl af belgjurtaætt og er þekkt fyrir sín stóru, hjartalaga laufblöð sem eru heldur stærri en á hjartatré. Þegar sólin skin í gegnum laufin á trjám á þeirri ættkvísl minnir birtan á steint gler. Þekktasta tré þessarar ættkvíslar er Cercis siliquastrum sem kallast júdasartré á íslensku. Lauf beggja tegunda gefa frá sér góða, sæta lykt. Helst er það á haustin sem lyktin á hjartatrjám verður áberandi. Mætti helst líkja henni við lyktina af púðursykri.
Ættkvíslarheitið merkir því með-lauf-eins-og-júdasartré. Svona getur þekking á fræðiheitinu auðveldað fólki að þekkja tréð þegar það rekst á það.
Horft upp í krónu hjartatrés í Lystigarðinum. Mynd: Sig.A.
Á mjög mörgum tungumálum gengur tréð undir japanska heiti sínu sem er katsura. Það nafn er til dæmis notað í ensku (katsuratree) og þýsku (Katsurabaum) og þekkist einnig í norsku og dönsku. Þar í landi er þó alveg jafn algengt að kenna trén við hjörtu, eins og gert er hér á landi.
Rómantísk hjörtu á hjartatré sem Như Nhiên birti á Facebooksíðunni Unique Trees.
Stundum hefur bókstafnum r verið skotið inn í íslenska heitið og kallast það þá hjartartré. Það er ekki afleitt nafn enda voru hjartardýr á Íslandi þegar tréð óx hér villt. Er það meðal annars gert í Náttúrufræðingnum í grein frá árinu 2007. Ef vilji er til að kenna tréð við hjörtu er óþarfi að bæta við erri.
Skemmtileg mynd af tvístofna hjartatré í Nýju Jórvík. Myndina tók William Krause og birti hana á Facebooksíðunni Big Tree Seekers ásamt fleiri myndum af trénu.
Framtíðin
Það verður að teljast frekar ólíklegt að endurkoma hjartatrjáa til Íslands marki sérstök tímamót og að þau eigi eftir að verða áberandi í íslenskum skógum. Aftur á móti er þetta fallegt tré og víst að safnarar muni vera til í að planta þessum trjám í trjáreiti sína á skjólsælum og frjóum stöðum með hæfilega rökum og vel framræstum jarðvegi. Best er að koma því sem fyrst fyrir á endanlegum stað því ekki er auðvelt að flytja hjartatré. Hjartatré taka sig alla jafna vel út á stórum grasflötum og vel má nota þau sem götutré. Í þurrkum gæti þurft að vökva tréð ef hægt er. Rannsóknir á plöntuleifum úr íslenskum setlögum gefa til kynna að fyrir 15 milljónum ára hafi loftslagið verið til muna hlýrra en nú er. Þá var hér heittemprað, hlýtt og rakt loftslag (Friðgeir og Leifur 2008). Við þær aðstæður var hér fjölbreytt flóra með allskonar trjám. Þar á meðal var hjartatréð. Full ástæða er til að taka vel á móti ættingjum þessara fornu íbúa Íslands.
Haustmynd af hjartatré sem ber í sykurhlyn, Acer saccharum, sem ber rauð blöð. Trén eru í Illinois í Bandaríkjunum. Myndina tók William Bill Koechling og birti á síðunni Big Tree Seekers.
Heimildir:
Friðgeir Grímsson og Leifur A. Símonarson (2008): Íslands fornu skógar. Í Skógræktarritið 2008, 2. tbl. bls. 14-30. Skógræktarfélag Íslands, Reykjavík. Leifur A. Símonarson og Thomas Denk (2007): Elstu flórur Íslands. Í Náttúrufræðingurinn, 75. árg. 2.-4. hefti 2007. Hið íslenska náttúrufræðifélag. Náttúrufræðistofa Kópavogs.
Colin Tudge (2005): The Tree: A Natural History of What Trees Are, How They Live, and Why They Matter. Crown Publishers, a division of Random House, Inc, New York.
Lystigarðurinn á Akureyri (án ártals): Cercidiphyllum japonicum. Sjá: Garðaflóra | Lystigarður Akureyrar (akureyri.is) sótt 24.10.2023.
Kommentare