top of page

„Blómstrandi“ lerki

Updated: Apr 10, 2023

Mikilvægustu og mest ræktuðu tegundir trjáa í íslenskum skógum eru af ættkvíslunum birki, ösp, fura, greni og lerki. Á undanförnum árum hefur heldur dregið úr ræktun lerkis á landinu. Meginástæða þess er skortur á fræi. Nú gæti orðið breyting þar á ef allt fer að óskum.


Rauðbleik blóm á rússalerki ofan við Skautahöllina á Akureyri. Mynd: Sig. A.


Að vera eða vera ekki lerkiblóm

Nú er það svo að lerki tilheyrir berfrævingum (stundum nefnd barrtré) en ekki dulfrævingum (stundum nefndar blómplöntur). Því er það svo, svona strangt til tekið, að lerki myndar alls ekki blóm. Ef málið væri svona einfalt lyki þessum pistli hér.

Lerki, rétt eins og önnur tré, stunda æxlun til að mynda fræ. Þótt grasafræðingar geti vissulega bent á að barrtré, eins og lerki, myndi ekki eiginleg blóm mynda þau samt líffæri sem gegna sama hlutverki. Til að einfalda málið skulum við bara kalla þessi líffæri „blóm“. Má vera að það fari í taugarnar á einhverjum og getur sá hinn sami þá sent inn munnlega kvörtun til Skógræktarfélagsins á kvöldin á milli klukkan 19.30 og hálfátta.


Karlblóm (neðan á grein) og kvenblóm (ofan á grein). Mynd: Sig. A.


Lerkifræár

Sumarið í fyrra var einstaklega gott á Norður- og Austurlandi, þótt vorið hafi ekki verið upp á marga fiska. Þetta góða sumar virðist hafa gert það að verkum að nánast öll tré virðast ætla að blómstra óvenju mikið þetta vorið. Elri, birki, ýmsar víði- og reynitegundir, ösp og fleiri tré hafa nú þegar myndað mikla blómvísa. Svo er einnig um flestar þær lerkitegundir sem finna má hér í ræktun.


Nokkrar tegundir lerkis hafa náð að sá sér út á Íslandi og má víða finna sjálfsánar lerkiplöntur. Svo er að sjá að flest ár nái lerki að mynda eitthvert fræ en sjaldan í mjög miklum mæli. Aftur á móti gerist það á einhverra ára fresti að sumar trjátegundir, eins og lerki, framleiða mjög mikið fræ. Til þess að það gerist þarf mikla blómgun á vorin, gott frjó sem ekki skemmist í frostum og sæmilegt eða jafnvel gott sumar svo fræið geti þroskast. Við vitum auðvitað ekkert um hvernig sumarið verður. Við vitum heldur ekki hvort hið væga næturfrost sem verið hefur að undanförnu er nægilega mikið til að skemma frjóið. Það sem við vitum er að önnur eins blómgun hefur ekki sést í háa herrans tíð hér á landi eins og sjá má í lerki vorið 2022.


Mynd: Sig. A.


Síðasta góða lerkifræár á Íslandi var árið 1995. Þá var miklu fræi safnað, einkum á Austurlandi, en ef allt fer vel núna verður enn meira fræi safnað haustið 2022 og þá bæði á Norður- og Austurlandi. Því eru spennandi tímar fram undan og vert að skoða þessi „blóm“.


Eins og svo mörg önnur lerkitré er þetta nánast alveg þakið lerkiblómum. Mynd: Sig. A.


Blómgun

Um kynlíf trjáa hefur áður verið fjallað á þessum síðum. Lerki tilheyrir þeim hópi trjáa sem bera bæði karlkyns og kvenkyns æxlunarfæri á sömu trjánum. Þau leyfum við okkur að kalla blóm. Hvert tré er því bæði karlkyns og kvenkyns.


Karlblóm á lerki ásamt lerkinálum og rauðu kvenblómi. Mynd: Sig. A.


Karlblóm

Karlblómin eru miklu minni en kvenblómin. Þau hanga neðan á greinunum og eru full af frjói. Framan af þroskun þeirra eru karlblómin nokkuð þétt í sér. Þegar tími er til kominn að dreifa þroskuðu frjói opnast blómin örlítið og verða eins og dálítið reittir eða úfnir könglar. Þá þarf afar lítið til að frjóið feykist út í loftið. Örlítil gola eða ferðamaður sem rekst utan í blómin getur búið til myndarleg, gul ský, full af örlitlu lerkifrjói. Þegar karlblómin hafa lokið hlutverki sínu losar tréð sig við þau. Nú fer því hver að verða síðastur að skoða þau á trjánum.


Karlblóm fullt af frjói. Mynd: Sig. A.


Lerkið, eins og aðrir berfrævingar, treystir á að vindurinn skili frjóinu rétta leið. Að vísu er miðið ekkert sérlega gott þegar vindinum er treyst fyrir þessu mikilvæga hlutverki. Til að takast á við það framleiða trén alveg heil ósköp af frjói sem vindurinn puðrar upp í loftið. Langstærsti hlutinn hittir aldrei á neitt kvenblóm en það gerir ekkert til. Ef nægilega mikið er framleitt þá gengur þetta allt saman vel.


Blóm af báðum kynjum. Myndir: Sig. A.


Til þess að lerkifrjóið geti gegnt hlutverki sínu við frjóvgun þarf það að vera í lagi. Þess vegna hefur Valgerður Jónsdóttir, verkefnastjóri að Vöglum, verið að skoða frjóið og meta gæði þess. Hún er öllu skógræktarfólki að góðu kunn og starfaði lengi hjá Skógræktarfélagi Eyfirðinga. Skemmst er frá því að segja að það frjó sem skoðað hefur verið er vel frjótt. Gefur það góð fyrirheit um framhaldið. Frjó hefur hún fengið sent allt frá Skagafirði til Héraðs og allt lofar það góðu.


Smásjármynd af lerkifrjói í Fræhöllinni á Vöglum. Lifandi frjó dregur í sig raka í prófunum og tútnar út. Dautt frjó er eins og með hjúp um sig. Í þessu sýni er nóg af lifandi frjói. Mynd: Valgerður Jónsdóttir.


Kvenblóm

Kvenblómin eru stærri og meira áberandi en karlblómin. Þau þroskast síðar í harða köngla sem geyma fræ, ef allt hefur farið eins og náttúran ætlaðist til. Frjóið þarf að lenda á kvenblómunum til að það geti gerst og þegar svona mikið er af bæði karl- og kvenblómum aukast líkurnar verulega.


Litur kvenblómanna fjölbreyttari. Allt frá ljósgrænu yfir í bleikt og djúprautt.


Mynd: Sig. A.


Til eru nokkrar tegundir af lerki í ræktun á Íslandi. Sjá meðal annars hér. Það er því spennandi að skoða hvort ekki sé upplagt að greina tegundirnar í sundur eftir lit og lögun blómanna. En ekki er náttúran til í að gera okkur það auðvelt. Það er hreint ekki hægt að treysta á lit blómanna til að greina í sundur tegundir. Þó er það oftast svo að blóm evrópulerkis eru rauð eða bleik. Blóm rússa- og síberíulerkis eru oftast ljósgrængul eða bleikrauð. Sjaldan jafn dökk og á evrópulerkinu. Blómlitur á japanslerki og blendingum þess er líkur og á rússalerki en blómin eru ögn flatari og má nota það sem greiningareinkenni. Er það nokkur huggun. Að vísu er mjög lítið um japanslerki (og syfjalerki, sem er blendingur þess og evrópulerkis) í ræktun á Íslandi svo lítið er á því að græða. Ef síberíulerkið (sem stundum er skipt í rússa- og síberíulerki) er skoðað sérstaklega er ekki hægt að greina tegundir eftir lit en græni liturinn virðist vera algengari hjá því lerki sem kallað er rússalerki.


Gulgræn kvenblóm. Mynd: Sig. A.


Vor um Vaglaskóg

Í fræhöllinni á Vöglum eru úrvalstré af rússalerki og evrópulerki höfð saman við stýrðar aðstæður þannig að frjó af rússalerki getur lent á kvenblómum evrópulerkis og öfugt. Þannig fæst fram kynblendingur sem gengur undir nafninu ´Hrymur´. Oft er það svo að þegar skyldum tegundum er víxlað saman kemur fram aukin vaxtarþróttur. Þannig er því einmitt háttað með ´Hrym´. Þess vegna er staðið í þessu og nú stendur jafnvel til að reisa annað fræhús á Vöglum til að auka framleiðsluna enn frekar. Þar sem lerkitrén eru ræktuð í gróðurhúsum er þar heldur hlýrra en í skóginum sjálfum. Því vorar fyrr í húsunum en utan þeirra. Það kemur í veg fyrir að óæskilegt frjó berist lengra að því kvenblómin eru ekki tilkippileg þegar frjó myndast í skóginum.


Kvenblóm í Fræhöllinni í mars 2019. Mynd: Sig. A.


Tegundirnar sem að blendingnum standa eru það skyldar að ´Hrymur´getur myndað frjótt fræ við rétt skilyrði. Þegar það gerist getur faðernið verið hvaða tré sem er. Það fer eftir því hvaða lerkitré leggja til frjóið. Eins og títt er um slíka blendinga (sem þá gætu t.d. verið að ¼ hluta evrópulerki en ¾ hluta rússalerki) eru afkvæmi ´Hryms´ alveg laus við blendingsþróttinn. Slíkir blendingar má ekki undir nokkrum kringumstæðum kalla ´Hrym´ enda er það ekki sá blendingur sem sóst er eftir. ´Hrymur´ verður einungis til við stýrða æxlun í fræhöllinni í Vaglaskógi.


Valgerður Jónsdóttir kynnir lerkikynbótaverkefni fyrir félögum í Garðyrkjufélagi Akureyrar. Mynd: Sig. A.


Kostir við íslenskt fræ

Ef þessi mikla blómgun leiðir til mikillar fræmyndunnar mun á næsta ári verða til mikið magn af fræi af íslensku lerki. Fyrsta kynslóð lerkisins er að jafnaði búin til með erlendu fræi. Einstaklingarnir eru misjafnlega vel aðlagaðir íslenskri náttúru en við grisjun og náttúrulegt úrval fækkar þeim trjám smám saman sem verst eru aðlöguð. Því má gera ráð fyrir að tré af annarri kynslóð séu betur aðlöguð íslenskum aðstæðum en foreldrarnir. Slík tré geta haft hærra hlutfall beinvaxinna og hraðvaxta trjáa og betri lifun en fyrirrennararnir. Þess vegna er alltaf spennandi að safna innlendu fræi.


Könglar á lerki ásamt blómum af báðum kynjum. Snjókorn farin að bráðna og mynda dropa. Mynd: Sig. A.


Gallar við íslenskt fræ

Reynslan hefur sýnt okkur að það er ekki endilega á vísan að róa þótt fræ sé tekið af íslenskum trjám þegar það þroskast. Þannig var það að hluta til síðast þegar gott fræár var hér á landi. Kemur þar tvennt til.

Í fyrsta lagi reyndist fræið ekki hafa eins góða spírunarprósentu og innflutt fræ. Þannig nýttist fræið verr en innflutt fræ, tók meira pláss í ræktun og skilaði færri plöntum. Þegar þetta var ljóst var allt reynt til að auka spírunarhlutfallið. Til eru ýmsar leiðir til að reyna að flokka frjótt fræ frá ófrjóu og hafa frændur okkar á Norðurlöndum stundað það áratugum saman.


Fjörutíuhólfa plöntubakkar í gróðurhúsi. Miklu máli skiptir að spírun fræjanna sé góð þannig að hægt sé að hafa aðeins eitt fræ í hverju hólfi. Mynd: Sig. A.

Fræg er sagan af gróðrarstöð austur á landi sem sendi fræ til bæði Noregs og Finnlands eftir sumarið 1995. Þarlendir sérfræðingar reyndu þá að flokka fræið á einn eða annan hátt til að auka spírunarhlutfallið. Það gekk heldur treglega. Norðmenn sendu til baka langa skýrslu um hvað reynt var að gera til að ná þessu markmiði. Hverju þrepi var líst nákvæmlega og allt tíundað sem hugsanlega hefði getað skýrt hinn slaka árangur verkefnisins.


Skýrsla Finnanna var heldur styttri. Hún hljómaði nokkurn vegin svona: „Sorry, but this was a nice try.“


Lerkitré framtíðarinnar. Mynd: Sig. A.


Hinn gallinn sem kom í ljós var að á Hallormsstað hafði verið plantað ýmsum tegundum og kvæmum lerkis. Þegar allt blómstraði á sama tíma fauk frjóið á milli kvæma um allan skóg svo úr varð ein allsherjar lerkiorgía.

Nú er það svo að lerkið frá Rússlandi er nokkuð breytilegt. Þaðan eru stór hluti þess lerkis uppruninn sem ræktaður er á Íslandi, annað hvort beint eða óbeint. Oftast kemur fræið úr finnskum eða sænskum frægörðum en þangað kom fræið frá Rússlandi. Lerkið sem ættað er af svæðum vestan Úralfjalla er betur aðlagað aðstæðum á Íslandi en lerkið austan þeirra. Almennt er allt þetta lerki þó talið sama tegundin en það hefur praktíska þýðingu fyrir okkur að greina þarna á milli. Þegar það er gert kallast lerkið vestan fjallanna rússalerki en hitt síberíulerki. Samt er þetta í raun allt sama tegundin sem ætti þá að kalla síberíulerki.


Lerki í slyddu. Mynd Sig. A.

Þegar lerkifræinu var safnað árið 1995 var einungis tekið fræ af lerki sem ættað var vestan Úralfjalla (rússalerki) en í þessari lerkiorgíu var ekki nokkur leið að vita hvaðan frjóið kom. Sumt af því kom að öllum líkindum frá lerki sem af langfeðgatali er ættað austan Úralfjalla (síberíulerki). Nokkrum árum eftir að þessu fína lerki hafði verið plantað kom slæm tíð og henni fylgdi sveppasjúkdómur sem kallast áta. Áta þessi lagðist misjafnlega á lerkið en verst á þau tré sem áttu ættir að rekja til trjáa austan Úralfjalla. Þar á meðal var stór hluti þeirra trjáa sem óx upp af fræi sem tekin voru úr sjálfum Guttormslundi, enda var þaðan stutt í óheppilega feður.


Lerki af fræi úr Guttormslundi drapst úr lerkiátu eftir að hafa farið vel af stað. Sennilega voru feðurnir óheppilegir. Greni og fura vaxa þarna og taka við af lerkinu. Fjær má sjá annað lerki sem lifir góðu lífi. Mynd: Sig. A.


Lærdómur reynslunnar

Ef allt gengur vel og fræmyndun verður mikil og góð þurfum við að læra af reynslunni. Ef fræspírunin verður of lág eins og forðum þarf að vinna í því. Svo vill til að Valgerður á Vöglum er í góðu sambandi við sænska sérfræðinga sem virðast hafa náð betri árangri í flokkun fræja en mönnum tókst áður. Svo verður væntanlega best að tína fyrst og fremst fræ af einstaklingum þar sem langt er í óæskilega feður. Allt er þetta þó háð því að maíhretið skemmi ekki allt saman.


Uppvaxandi lerkiskógur á rýru landi. Myndin frá sama tíma og myndin hér að ofan. Mynd: Sig. A.


Að lokum

Enn vitum við ekkert um það hvort sumarið skilar okkur góðum fræjum. Það mun tíminn leiða í ljós. En við getum farið í göngutúr út í skóg og skoðað þessa ótrúlega miklu blómgun í lerki. Það er ekki víst að við fáum jafn góð tækifæri á næstu árum.


Munnlegar heimildir

Þröstur Eysteinsson Helgi Þórsson Valgerður Jónsdóttir

og fleiri.

517 views0 comments

Recent Posts

See All

Hozzászólások


bottom of page