top of page

Þú ert hér Hugrenningar leiguliða SE á Hálsi í Eyjafjarðarsveit

Updated: Apr 19, 2023


Að frelsast til skógræktar

Ást mín á skógum liggur djúpt og nær aftur til bernsku. Alinn upp í algerlega skóglausri sveit við utanverðan Eyjafjörð á sjöunda og áttunda áratug síðstu aldar varð ég sem krakki fyrir opinberun við að koma með fjölskyldunni í skemmtiferðir í Leyningshóla og Vaglaskóg. Skóginn skynjaði ég sterkt sem ævintýraheim, ægifagran og ilmandi sem hélt svo þétt og hlýtt utan um mann. Um leið dulafullur og framandi, jafnvel skuggalegur á köflum. En skógur var fjarlægur heimur sem tilheyrði ævintýrum og árin liðu við annað sýsl.


Það var svo snemma á þrítugsaldri, eftir nokkur ár á Akureyri, sem ég áttaði mig á að þar í bæ bjó beinlínis fólk sem starfaði í skógi og ég gaf mig ekki fyrr en Hallgrímur Indriðason var búinn að lofa mér sumarstarfi hjá Skógræktarfélagi Eyfirðinga 1982. Þegar þetta var þekkti ég ekki eina einustu trjátegund með nafni, hvað þá að ég vissi nokkurn skapaðan hlut um skógrækt. En kunni að girða og fara með dráttarvélar og verkfæri – var fús að læra um tré og skóga svo ekki varð aftur snúið – ég var frelsaður til skógræktar. Þegar ég svo hætti störfum hjá SE var komið sumarið 1996 og liðin fjórtán ár frá því ég kom til félagsins.Fyrstu skref á Hálsi

Á misserunum áður en ég hætti störfum hjá SE tók ég þátt í undirbúningi, skipulagningu og framkvæmd verkefnisins á Hálsi í Eyjafjarðarsveit sem lesendur geta kynnt sér hér á heimasíðu félagsins og í bókinni Ásýnd Eyjafjarðar. Og ég ákvað að sækja um spildu á leigu til skógræktar. Það stóð svo á endum að á sama tíma og ég hvarf til annarra starfa hóf ég gróðursetningu eigin skógar í spildu 7 á Hálsi með dyggri aðstoð Kötlu dóttur minnar sem var tíu ára þegar við hófum gróðursetningar af krafti 1996.


Á spildu 7 er djúpur, frjór og rakur jarðvegur, þýft og hallar mót austri. Erfitt land yfirferðar með plöntur og búnað, svo mitt fyrsta verk var að leggja göngustíg um landið til að auðveldara væri að sinna gróðursetningum. Myndin var tekin yfir spilduna 6. ágúst 1995.


Í móunum þarna sunnan við gamla bæinn á Hálsi var landið svo illa farið af gegndarlausri beit að gróðurþekja var mjög rofin – móinn nánast opið moldarflag með gróðurtorfum inn á milli. Á fáum árum fullplöntuðum við í þessa tvo hektara en skildum eftir nokkur opin svæði. Myndina tók Sóldís Stefánsdóttir 22. ágúst 1998 af höfundi og Sigurði Ormi tveggja ára.Ég var um fertugt þegar fyrstu gróðursetningar fóru að potast upp úr jörðinni og urðu sýnilegar en hafði engar áhyggjur af að ég hefði byrjað of seint; reynslan hafði kennt mér að við sæmileg skilyrði getur maður gerbreytt ásýnd lands með trjárækt á broti úr mannsævi. Og það kom fljótt í ljós að skilyrði til skógræktar á þessum hluta Hálsjarðarinnar eru eins og allra best gerist á Íslandi. Myndina tók Erlingur Valgarðsson haustið 2002 – sjáið breytinguna á gróðurfari frá myndinni að ofan sem var tekin fjórum árum fyrr. Ekki aðeins sjást trjáplöntur heldur lokast moldarflögin óðum.En til hvers?

Markmið mitt með því að taka land á leigu og hefja eigin skógrækt var alveg skýrt: Að koma mér upp griðastað fyrir mig og fjölskylduna. Í skjóli trjáa – því skjólið er kannski dýrmætasta afurð skóga á Íslandi. Að eiga minn prívatskóg sem ég gæti horfið til hvenær sem mér hentaði og að við myndum fylgjast að gegnum lífið, fjölskyldan og skógurinn, uns afkomendurnir tækju við þegar ég þarf frá að hverfa.


Reiturinn varð griðastaður okkar og gleðigjafi frá upphafi þótt nokkur ár hafi þurft að bíða eftir skjólinu. Ekki síst paradís í huga barna, eins og sést á þessar mynd frá júní 2003.


Sami staður og á myndinni fyrir ofan 1. maí 2017.


Og svo hitt sem ég hef verið heillaður af frá því ég kynntist skógrækt fyrst: Að breyta ásýnd illa farins lands með skógrækt – umbreyta rýru og/eða hningandi landi og gróðurfari í gróskumikinn skóg sem bindur og myndar jarðveg, auðgar allt líf og bætir.


Þótt loftslagsbreytingar og kolefnisbinding skóga hafi mjög verið til umræðu meðal skógræktarmanna strax á tíunda áratug síðustu aldar var það ekki meginatriði í mínum huga við upphaf skógræktar á Hálsi. Það hefur breyst og það eitt að vita af skógi sem maður hefur ræktað binda kolefni í tonnavís hefur bein áhrif á andlega líðan – til viðbótar við umhverfisáhrifin.


Það var skömmu eftir upphaf skógræktar minnar á Hálsi sem ég fór að tala upphátt um að þetta væri það skynsamlegasta sem ég hefði gert um dagana. Aldarfjórðungi síðar hefur það viðhorf bara styrkst. Þökk sé Skógræktarfélagi Eyfirðinga að hafa stigið skefið forðum og bjóði félagsmönnum að leigja landspildu til skógræktar gegn vægu gjaldi.
Við opinn eld og beitta hnífa

Fyrsta mannvirkið á spildunni, auk göngustíganna, var eldstæðið. Í mínum huga eru skógarlíf og opinn eldur samtvinnuð. Sumar eftir sumar fyrstu árin rogaðist ég með alls konar spýtnadrasl á spilduna til að geta setið við varðeldinn á sumarkvöldum og fljótt fór eldri sonurinn, Sigurður Ormur, að fylgja mér í þessu. Hann fæddist sumarið sem gróðursetningar hófust – er jafngamall skóginum. Við njótum þess enn að sitja við eldinn og hann hefur frá frumbernsku borið titil eldstjóra á Hálsi. Ungana mína hef ég alið upp við opinn eld og beitta hnífa enda hafa þau aldrei brennt sig eða skorið svo orð sé á gerandi. „Pabbi, þetta er lífið“, sagði Sigurður við mig eitt kvöldið við eldinn, fjögurra eða fimm ára.


Sonurinn (t.v.) með gesti við eldinn snemmsumar 2003.


Signý mín við eldinn 23. maí 2020. Við sýnum mikla aðgát við eldinn að vorlagi, kveikjum ekki upp nema í logni – sem er reyndar alltaf í skóginum.


Sumarið 2002 keyptum við gamalt, pínulítið hjólhýsi sem við drógum inn í verðandi skóginn. Það hefur borið nafnið Niðurlot með hóflegri reisn í tutttugu ár – þar höfum við gist ófáa nóttina og fátt veit ég betra en vakna þar eldsnemma morguns í júní, striplast út á veröndina fyrir framan og kasta af sér vatni móti morgunsól og fuglasöng út í ilmandi skóginn.


Góðir gestir að Niðurlotum, við leik og söng í júlí 2003.


Hjólhýsið litla er löngu horfið í skóginn og skjólið.

Griðastaðurinn 19. ágúst 2017.


Þúsund kílómetrar

Eftir breytingar á mínum högum flutti ég til Reykjavíkur 2007 og uni þar vel. Þessari breytingu fylgdi þó sá galli að í stað þess að vera tuttugu mínútur að heiman og á griðastaðinn var það orðið þúsund kílómetra ferðalag að koma þangað til að stoppa í einhverja daga. Það liðu ár sem ég kom þangað alls ekki en skógurinn sá um sig sjálfur. Og það leið að því að taka þyrfti til hendinni við fyrstu grisjun á elstu gróðursetningunum áður en þéttleiki skógarins færi að standa honum fyrir þrifum. Eldurinn var sjaldan kveiktur þessi ár, ég saknaði þess sannarlega og held að krakkarnir mínir, sem orðnir voru þrír því Atli Sigfús hafði bæst í hópinn 2003, hafi gert það líka. Kannski leiddi ég hugann að því að segja leigunni upp en það kom aldrei til greina í alvöru.


Höfundur í ógrisjuðum, allt of þéttum og illfærum 20 ára gömlum lerkiteig.

Sigurður Ormur Aðalsteinsson tók myndina 7. júlí 2017.Grisjun

það var svo haustið 2014 sem ég ákvað að við svo búið mætti ekki standa. Fékk lánaða keðjusög og öryggisgalla og gerði mér nokkurra daga ferð norður til að grisja. Þar með hófst nýtt skeið í skóginum og í mér kviknaði aftur skógarkallinn sem kann að brýna keðjusög og fella og kvista tré. Þremur árum síðar hófst grisjun af alvöru þegar ég dvaldi heilt sumar fyrir norðan. Eignaðist sög og tilheyrandi og hef síðan farið norður vor og haust og tekið vinnuviku í skógi.


Ég tek þessa grisjun alvarlega en leyfi mér að fara mér hægt, velja hvert tré sem fellt er af kostgæfni og ganga frá í skóginum á eftir. Stafla kvistuðum trjástofnum í stæður og draga greinar og toppa eins og kostur er að eldstæðinu. Því um leið og grisjun hófst hefur skógurinn verið sjálfum sér nógur um eldivið og margfalt það.


Innan við 20 árum frá því hún gróðursetti með mér þennan greniteig tók Katla mín til hendinni með keðjusögina við grisjun. Hún er raunar sú eina í fjölskyldunni sem hefur lokið námskeiði í meðhöndlun slíkra tækja.Örverpið mitt, Atli Sigfús, kvistar dauðar greinar af lerki með ævagamalli exi.


Sigurður Ormur, jafnaldri skógarins, er orðinn reyndur grisjunar- og skógamaður og starfar hjá Skógræktarfélagi Eyfirðinga.

Lerkið á myndinni grisjuðum við haustið 2022.


Ég nýt þess að grisja skóg. Veit fátt betra en svitna af streði í logni skógarins, helst síðla hausts við frostmark í þessari óviðjafnanlegu angan þegar saman blandast ferskt lerkisag, bensínbrækjan af söginni og rotnandi lerkibarr í skógarbotninum. Svo brýningarpásurnar þegar álftirnar niðri á Eyjafjarðará spjalla hástöfum, músarrindillin tekur sínar ótrúlegu trillur og kannski svífur branduglan svo lygilega hljóðlaust yfir toppum trjánna sem eftir standa. Bestu trjánna. Þetta er lífið.


Nýgrisjaður, tvítugur og 9–10 metra hár lerkiteigur 27. október 2022.Meira land – meiri skóg

Síðastliðið vor (2022) auglýsti SE nokkrar spildur sem losnað höfðu gegnum árin til leigu á ný. Saman höfum við því bætt við okkur þremur spildum sem liggja að þeirri upphaflegu, þar af tvær fullplantaðar skógi. Alls eru því undir hjá okkur feðgum fimm hektarar og verkefni ærin. Þúsund kílómetra skógarferðunum mun vonandi ekki fækka neitt á næstunni.Þú ert hér

Í skóginum mínum hefur staðið skilti síðan 2004 eða þar um bil, eftir að grínast hafði verið með að innan skamms yrði hætta á að villast í skóginum. Því brá bróðir minn á það ráð að gefa mér þetta skilti svo hver sem að því villist viti upp á hár hvar hann eða hún er. Skiltið skilgreinir ágætlega lífið og tilveruna í skóginum – núvitundina eins og það heitir í seinni tíð. Á því stendur einfaldlega Þú ert hér.


Höfundur með yngsta ungann í fanginu, alltaf sitjandi á sama steini á myndum frá fyrstu árunum. Þarna er skiltið góða nýkomið og stendur upp úr skóginum.


Sautján árum síðar er skógurinn 12–14 metra hár, fyrsta grisjun búin. Ævintýraheimur 27. maí 2021.


Sjálfur er ég kominn á sjötugsaldur og engin leið að vita hversu lengi ég held þreki og lífi til að sinna þessum skógi. En það er ekki efi í mínum huga um að líf og heilsa – andleg sem líkamleg – er betri hafi maður ræktað skóg. Fyrirfram gerði ég mér enga grein fyrir hversu sterk tilfinning það er að gista eigin skóg sem maður hefur ræktað sjálfur. Sú tilfinning er engu lík sem ég þekki.


Það veldur mér engu hugarangri þótt sigi smám saman á seinni hluta lífsferilsins. Sá er jú gangurinn og ég hlakka til að eldast áfram með skóginum mínum unga sem á aldir framundan. Hef nefnt við krakkana mína, sem öll eru nú fullorðið fólk, að þau eigi trúlega eftir að sjá grenitrén gnæfa 40 metra há við himin undir lok þessarar aldar. Því ég veit að krakkarnir munu halda tryggð við þennan griðastað sem er hluti af æsku þeirra og uppvexti, líkt og hann er hluti af mínu lífi.


Meðan skógurinn vex og lifir er ég hér.Myndir eru teknar af höfundi pistilsins nema annað sé tekið fram.

552 views

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page