top of page

Trjáverur á degi íslenskrar náttúru

Updated: Jul 18, 2023

Formáli formanns Skógræktarfélags Eyfirðinga:


Á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands, sem fram fór í Mosfellsbæ fyrstu vikuna í september í boði Skógræktarfélags Mosfellsbæjar, var margt um fróðleg erindi og fagnaðarfundir skógræktarfólks sem ekki hafði hist í 3 ár. Á meðal erinda var „Predikun fyrir trúaða“. Kyngimögnuð hvatning til þeirra sem á hlýddu að bregðast við þeirri vá sem aukið magn gróðurhúsalofttegunda veldur á plánetunni okkar, hlýnandi lofthjúp jarðar og öfgafullum loftlagsbreytingum.


Það þarf ekki að útskýra kolefnisbindingu trjáa fyrir skógræktarfólki en þetta var þörf hvatning til að gera enn betur. Skógræktarfélag Eyfirðinga telur að þessi hvatning eigi að heyrast sem víðast og fengum við góðfúslegt leyfi höfundar og flytjanda, Benedikts Erlingssonar leikara og leikstjóra, að birta þessa predikun á vefsíðu félagsins á degi íslenskrar náttúru.


Hárbrúða og rjúpnalauf þjóðarblómsins holtasóleyjar. Ljósm. SHP

Predikun fyrir trúaða - eftir Benedikt Erlingsson


Við, þetta mannkyn sem kringlu þessa byggjum, stöndum nú frammi fyrir mikilli aðsteðjandi ógn. Margir óttast um sjálfa tilvist okkar.


En samkvæmt fornri grískri goðsögn er þetta ekki í fyrsta skipti sem svo hefur staðið á. Einu sinni í fyrndinni stóð til að útrýma mannkindinni.


Við höfðum víst sjálf komið okkur í þessi vandræði og Al-faðir, Seifur á Ólympstindi, var okkur reiður og vildi að við hyrfum af yfirborði jarðar. Hann hafði orðið fyrir miklum vonbrigðum með okkur, þennan skyni gædda apa í skóginum. Þessa trjá-veru sem kallar sig nú Hómo Sapiens Sapiens.


Trjávera er það sem við erum í raun réttri. Í skógunum fyrir 200 þúsund árum, á milli trjánna, eigum við upphaf okkar. Gangandi trjávera á tveimur fótum og með ímyndunarafl í höfðinu. Okkar fyrsta heimili, heimavöllur og varnarþing, er því tréð sjálft. Þar fundum við skjól frá veðri og vindum og upp í tréð flúðum við frá óvinum og óargardýrum. Það var úr tré sem við skópum fyrstu verkfæri okkar og veiðarfæri. Kylfuna, spjótið, bogann. Og það var úr trénu sem við reistum okkur þak yfir höfuðið.


Og seinna þegar þessari trjáveru datt í huga að smíða sér farartæki, þá var fellt tré og það beygt og sveigt í meiða undir sleða eða hjól undir vagn.


Og þegar á vegi okkar varð fljót eða vatn, þá felldum við tré og holuðum að innan og fleyttum okkur yfir, og einn daginn smíðuðum við margra hæða seglskip með þremur möstrum úr stórviði sem blés okkur í aðrar heimsálfur.

Hinn forsögulegi tími sem kenndur hefur verð við steininn og nefndur steinöld og svo jafnvel bronsöld er í raun réttnefndur trjá-öld eða tré-öld. Það eina sem hefur hinsvegar varðveist er steinninn: steingerðir hlutir, steingerð bein og steingerð tré: Steingert kolefni.


Og þó tréð sé eitt af grundvallar táknum allra trúarbragða mannkynsins þá hefur vitund okkar gleymt því hversu miklar trjáverur við erum.


En undirvitund okkar man það.


Því þó við reisum okkur ekki bara tréhús lengur heldur líka úr steini þá ræktum við trjágarða í kringum húsin okkar svo okkur líði betur.


Þegar við fórum að reisa okkur borgir úr steypu, stáli og gleri þá skipulögðum við þessar borgir í kringum trjágarða sem allur almenningur þurfti að hafa aðgang að og kölluðum „lungu“ borgarinnar.


Og þessi mannapi sem býr nú á hellissyllu inni í stein- og glerfjalli uppi á 7. hæð, hann fyllir skúta sinn með tré. Tré á gólfum, tré á veggjum, borð, stólar, skápar, rúm úr tré og úti í glugga er svo planta í potti eða tré-gervill til að minna á gróður jarðar og skóginn. Svo þessari trjáveru í glerhellinum sínum líði nú betur og haldi geðheilsu.


——


En það var víst frændi Seifs á Ólympstindi, títani að nafni Prómeþeus eða Prómeþeifur eins við köllum hann, sem í algjöru óleyfi bjargaði þessari trjáveru frá útdauða með því að kenna henni að kveikja í… tré.


Og eldurinn leysti úr læðingi orku trésins sem umbreytti eðli hlutanna. Orku sem vermdi, eldaði, hitaði, herti og bræddi, og svo að lokum og einn daginn fundum við leið til að umbreyta þessum hita í hreyfingu og fengum hreyfiafl sem fleytti okkur alla leið hingað. Fram á hengiflug velsældarinnar.


Seifur sat eftir með sárt enni. Hann hafði hugsað sér að skapa pláss fyrir eitthvað nýtt og betra. En eftir svik Prómeþeifs var ekki aftur snúið. Manneskjan uppfyllti jörðina og losaði sig að lokum við guði eins og Seif.


Og ennþá stöndum við, þessar trjáverur, með þessa eldspýtu í höndum og finnum upp á nýjum leiðum til að kveikja í og umbreyta hlutunum okkur til hagsbóta.


Og ennþá stendur tréð í miðju alls sem við tökum okkur á hendur.


Við höfum fundið leiðir til að grafa og dæla upp úr jörðinni gömlum trjám og jurtaleifum frá öðrum tímaskeiðum. Gömlum lífmassa, fljótandi leðjugerð tré eða steingerð tré sem við köllum kol og olíu, og knýjum þannig eldflaugina sem hefur skotið okkur, á rétt um 250 árum, á nýja plánetu: Hinn iðnvædda nútíma.


Prómeþeifi var reyndar refsað grimmilega. Hlekkjaður við bjarg svo örninn stóri sem Seifur sendi honum á hverjum degi geti étið úr honum lifrina, til eilífðar.


Kannski er það fyrst núna sem við skiljum af hverju Seifi gramdist svona mikið.


Í dag er það þannig að við, þessar fornu trjáverur, gröfum og dælum upp úr gömlum jarðlögum óheyrilega miklu magni af gömlum trjám og jurtaleifum. Þetta gamla tré sem við brennum, þetta jarðefnaeldsneyti, þessi gamli lífmassi eða þetta kolefni sem við kveikjum í og brennum á hverju ári vegur hundraðfalt meira en allur núverandi lífmassi jarðarinnar. Núverandi lífmassi er allt það sem lífsandann dregur á yfirborði jarðar í plöntu-, sveppa- og dýraríkinu. Allt það sem nú lifir vegur því bara eitt prósent af því sem það vegur, þetta kolefni sem við kveikjum í og brennum á einu ári og sendum upp í háa loft.


Hann er því töluverður reykurinn sem stígur upp í hæstu hæðir, upp fyrir Ólympstind og myndar þar ósýnilegt teppi sem heldur hita á jörðinni og hindrar eðlilega kælingu.


Og það er von að Seifi hafi orðið heitt í hamsi gagnvart frænda sínum ef hann sá þetta fyrir í Skuggsjánni.


Ef skuggsjá Seifs hefur verið jafn öflug og nýjustu ofurtölvu reiknilíkön og spátæki vísindamanna nútímans, þá hefur hann séð: að EF meðalhiti hækkar um 4 gráður, sem allt stefnir í, þá hefst óstöðvandi atburðarrás sem leiðir til 11 gráðu hækkunar á mjög skömmum tíma.


Niðurstaðan gæti orðið 97 prósent niðurskurður á öllu sem lífsandann dregur.


Ég vona að þið fyrirgefið mér þennan bölmóð en þetta var sú sviðsmynd sem fékk allar þessar iðnvæddu og kapítalísku þjóðir til að skrifa undir Parísarsamkomulagið. Samkomulag um að minnka hagvöxt. Samkomulag um að draga úr velsæld sístækkandi mannkyns. Því annars…


—-


Og hvað gerum við nú?


Við, þessi hættulega trjávera með ímyndunarafl, þar sem við stöndum undir bjarginu og heyrum kvalaópin í velgjörðarmanni okkar, Prómeþeifi, skiljum afhverju honum var refsað.


Getum við ímyndað okkur eitthvað sem reddar málunum? Látið okkur detta eitthvað sniðugt í hug? Fundið upp risastóra ryksugu sem getur sogað niður þennan reyk? Og dælu sem dælir honum niður í undirdjúpin þar sem hann fær að steingerast.


Getum við hætt að kveikja í? Horfið frá eldinum og brunanum og valið vindinn, vatnið og sólina í staðinn?


Getum við virkjað tunglið með hjálp sjávarfallanna?


Og getum við stækkað lífmassa jarðarinnar með því að rækta skóga á stærð við landsvæði Ástralíu á næstu 7 árum?


Getum við það?


„Kjósið mig og ég skal sjá til þess að þið fáið minna af öllu.“ Getum við kosið þannig leiðtoga? Á meðan okkur fjölgar á hverri sekúndu?


Svarið er já, við sjálfsagt getum það og líklega verðum. Og við verðum að framkvæma ekki bara eitt af þessu sem hér var nefnt heldur allt. Og helst á næstu 7 árum.


Og gagnvart okkur einstaklingunum sem stöndum máttvana gagnvart þessu gígantíska verkefni stendur tréð. Hið táknræna tré. Tréð í miðju vandans og miðju lausnarinnar. Tré sem er ekkert annað en kolefni sem það sýgur úr loftinu og myndar þannig sjálft sig.


Öflugustu aðferðirnar til að stækka lífmassa jarðarinnar er að rækta skóga og skapa votlendi og með því að planta tré þá hefjumst við handa. Og „þegar við hefjumst handa fæðist vonin“, svo ég vitni í hana Grétu Thunberg.


Eins og þið vitið manna og kvenna best sem hér sitjið er Ísland upplagt til stórfelldrar skógræktar, því með skógrækt hér verður til lífríkur jarðvegur og af lífmassa-ríkum jarðvegi er ekki nóg á þessum uppblásna mel sem við köllum fósturjörð okkar.


Þessar trjáverur sem hingað komu í árdaga eða svokallaðir landnámsmenn og -konur sem hér námu þetta skógi vaxna land áttu við lífsstílsvanda að stríða og átu upp skóginn á sirka 100 til 200 árum. Við höfum því þurft að lifa hér sem grasbítar síðustu þúsund ár í stöðugri baráttu við uppblástur og sandfok.


Og nú eftir skógrækt í heila öld eru einungis tvö prósent af landinu okkar skógi vaxið.


Allt tal á móti stóraukinni skógrækt á forsendum líffræðilegs fjölbreytileika er hlægilegt í ljósi þess hvaðan við komum og hvað er í húfi.


Og kannski eigum við að þora að ímynda okkur stærri skala, stórtækari aðferðir.


Kannski þurfum við þjóðarátak, samstöðu og samtakamátt sem við upplifðum 1975 á kvennafrídaginn. Einhverskonar hugrakkt allsherjar útkall, eins og viðbragð okkar við Vestmannaeyjagosinu bar vitni um. Samhug og þátttöku eins og við upplifum á hverju ári um verslunarmannahelgina þegar við höldum þjóðhátíð um allt land eða í Gleðigöngum Menningarnætur.

Hvað ef við gætum ímyndað okkur þetta?


Að það næðist samstaða um hinn gamla draum að skila landinu eins og við fengum það í hendur. Að við gætum kveikt þennan eld sem Frú Vigdís Finnbogadóttir reyndi að tendra á sínum tíma. Að við öll færum út á akurinn, öll sem vettlingi geta valdið eða á skóflu haldið. Og ræktuðum skóg.


Við gætum ímyndað okkur maí mánuð. Maí mánuður á hverju vori væri tileinkaður skógrækt og skógræktarfræðum í öllum skólum landsins. Leikskólum, grunnskólum, menntaskólum og háskólum. Einskonar fræðilegt, þegnskyldu nám á öllum skólastigum þar sem við lærðum að safna fræjum, rækta upp sprota græðling eða koma til afleggjara og að lokum að gróðursetja rétta tegund á réttum stað. Og hvað á að bera á og hvenær, ef nokkuð.


Að öll börn lærðu um frostlyftingu í melum og hvernig þyrfti að gæta að litlum trjám og endurplanta þeim vorið eftir. Og öll ungmenni með krafta í kögglum lærðu að reka niður staur og strekkja gaddavír. Og svo framvegis, og svo framvegis.


Og svo kæmi að verklega náminu. Stóra deginum í lok maí þegar við látum verkin tala. Skógarhátíðinni stóru, Degi trésins, eða hinni björtu Vigdísarnótt.


Og þá væri öllu þessu mannafli stefnt út að gróðursetja í einu allsherjar útkalli. Ekki bara allir nemendur og allir kennarar heldur allir starfsmenn allra ríkstofnana og sveitarfélaga og jafnvel allt atvinnulífið gæfi frí að kröfu verkalýðsfélaganna.


Og allir marseruðu út á akurinn sem sveitarfélögin og framsýnir landeigendur leggðu til. Afgirt svæði á kostnað stórra fyrirtækja sem hefðu losað mest af kolefni það árið. Og Víkingur Heiðar spilar á flygilinn uppi á Hólmsheiði og Helgi Björns stjórnar brekkusöng í Esjuhlíðum og Björk okkar syngur á stórum palli úti á Stjórnarsandi.


Ef við gætum ímyndað okkur þetta, þá er það hægt.


En ég held að á þessum skala verðum við að hugsa ef við ætlum að mæta verkefninu á raunhæfan hátt á næstu sjö árum, svo gígantískt er það.


Og í raun er þetta ekki spurning um siðferði eða réttlæti heldur sjálfsbjargarviðleitni lítillar þjóðar úti í ballarhafi. Því stærri og meiri skógar eru okkar besta vörn gegn loftslagsbreytingum og öllu því sem þeim kann að fylgja hér á landi. Sterkari vindi og tíðari stormum, stóraukinni úrkomu og aurskriðum, kuldaköstum eða kannski hitabylgjum ef við verðum svo heppin.

Það eru skógarnir sem geta temprað og dempað flest það sem mun skella á okkur.


Og við, þessi hættulega trjávera með ímyndunarafl og eldspýtu í höndunum, stöndum nú undir bjarginu og heyrum kvalaópin í velgörðarmanni okkar, Pómeþeifi og skiljum nú afhverju honum var refsað.


Að rækta skóg og á stórum skala er það besta sem við getum gert úr því sem komið er. Ekki bara til að binda reykinn af lífsstíl okkar og velsæld heldur svo við getum leitað skjóls milli trjánna þaðan sem við eigum upphaf okkar.


BE . September 2022.

688 views

Recent Posts

See All
bottom of page