top of page
Writer's picturePétur Halldórsson

Tré fyrir næstu kynslóð - Garðahlynur í Naustaborgum

Updated: Jun 10, 2023

Skógrækt er vinna í þágu komandi kynslóða. Þegar tré er gróðursett er gott að hugsa til þeirra sem á eftir okkur koma en hlakka um leið til að fá að fylgjast með trénu vaxa og dafna. Það er huggandi gagnvart endanleika okkar að vita til þess að eftir okkar dag muni trén sem við gróðursettum halda áfram að vaxa, afkomendum okkar og öðrum til heilla og hamingju. Þetta má sannarlega segja um tré vikunnar sem er garðahlynur í Naustaborgum. Tré þetta lætur ekki mikið yfir sér og ekki er það stórt þótt fáeinir áratugir séu liðnir frá því að það var gróðursett. Það hefur þó náð nokkurra metra hæð og virðist vera að spretta úr spori því ársptotarnir nú í sumar eru sumir allt að 70 sentímetra langir.


Garðahlynur er upplagt tré í garða og stendur því sannarlega undir nafni. Reyndar þarf að velja tegundinni góðan stað þar sem það getur breitt úr sér, helst næstu 200 árin eða meira. En svo er þetta líka ljómandi gott tré til að stinga niður í skógarrjóðri eða á stöðum í skóginum þar sem ætlunin er að verði samkomustaður, áningarstaður eða sérstakur staður sem gefur skóginum aukið gildi. Sunnar í Evrópu er hlynurinn svolítið eins og reyniviðurinn í skóginum okkar, skýtur víða upp kollinum og jafnvel kveður svo rammt að því að sumir flokka hann sem hvert annað illgresi og sendir eru út hreinsunarflokkar til að hreinsa hann burtu. Nokkuð er í að hlynurinn fái slíka stöðu á Íslandi ef að líkum lætur. En hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér.


Meðfylgjandi eru myndir af hlyninum unga í Naustaborgum. Hann hefur greinilega gengið í gegnum súrt og sætt og því þéttur og marggreindur. Þá verður hann bara enn glæsilegri í framtíðinni fyrir vikið. Vilji fólk finna tréð er best að ganga eða hjóla inn í Naustaborgir við norðausturhliðið ofan við Sómatún, taka fyrsta skógarstíg til hægri þegar komið er yfir reiðveginn, ganga upp fyrir Hundatjörn og áfram sem leið liggur, aftur yfir reiðveg og upp brekkuna. Þá ætti fólk að finna rjóðrið með hlyninum á vinstri hönd. Nánar á meðfylgjandi korti. Með fylgir líka mynd af einum stærsta og myndarlegasta hlyninum á Akureyri. Sá stendur á frábærum stað á horni Eyrarvegar og Ránargötu. Vonandi verður honum leyft að standa þar um ókomna tíð enda mikil bæjarprýði og auk þess bústaður ótal fugla og annarra lífvera.



28 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page