top of page
Writer's pictureSigurður Arnarson

Ýviður Taxus baccata, L.

Updated: Jun 6, 2023

Ýviður er lítið ræktaður á Íslandi enn sem komið er. Ef til vill verður breyting þar á þegar fram líða stundir enda eru til mjög góð dæmi um ræktun hans á Íslandi. Eftir því sem skógar vaxa á landinu skapast meira skjól sem hentar prýðilega fyrir ývið. Hann er því ein af þeim tegundum sem líklegt er að muni í framtíðinni verða notaður í auknum mæli í garðrækt og til að auka fjölbreytni í yndisskógum þessa lands Því þykir okkur við hæfi að fjalla aðeins um hann. Svo merkileg er þessi tegund á allan hátt að ekki dugar að fjalla bara um tegundina í einum pistli. Þessi fyrsti pistill verður einskonar inngangs- eða kynningarpistill. Eins og oftast áður, þegar við höfum tekið fyrir einhver þemu í nokkrum pistlum, munum við dreifa þeim á margar vikur og birta aðra pistla á milli. Þetta höfum við til dæmis gert þegar við höfum fjallað um íslenskar víðitegundir (5 pistlar), akasíur (3 pistlar) og tré á Íslandi fyrir ísöld. Þar var þessi inngangspistlill en enn er óvíst hvað greinarnar verða margir þegar upp verður staðið.


Hér á eftir fjöllum við fyrst og fremst um tegundina ývið en eins og í Íslendingasögunum byrjum við á ættfræði. Í þeim er ekki óalgengt að aðalpersónan fæðist ekki fyrr en um þriðjungur er liðinn af sögunni.


Dæmigerður, eldgamall ýviður með hvelfda krónu í Evrópu.

Ættfræði

Til eru margar ættir og margir ættbálkar barrtrjáa. Misjafnt er hvenær þær og þeir komu fram á sjónarsviðið en ætt ýviða er talin tilheyra frumættbálki barrviða. Án efa er ýviður, eða ýr, eins og hann kallast líka, aðaltréð í sinni ætt enda kallast hún ýviðarætt á íslensku en Taxaceae (eftir ættkvíslarheitinu Taxus) á latínu. Innan þeirrar ættar eru taldar fimm eða sex ættkvíslir með 23 tegundum sem flestar vaxa á norðurhveli jarðar (Tudge 2005). Að auki finnast örfáar á suðurhveli jarðar, meðal annars ein tegund á hinni afskekktu Nýju Kaledóníu. Það er eyríki sem alla alvöru barrtrjáaáhugamenn langar til að heimsækja.


Langþekktasta ættkvísl ættarinnar eru ýviðir, Taxus. Hún er líka eina ættkvíslin sem á sér víðfeðmt útbreiðslusvæði. Nú er talið að um þrettán tegundir vaxi í heiminum af ýviðum auk fjölmargra nafngreindra afbrigða og yrkja. Nöfn tegundanna má nálgast hér og hér. Þær finnast í Norður-Ameríku og suður til Hondúras og í Evrasíu allt suður til Malasíu og Indónesíu. Af þessum tegundum hefur evrópski ýviðurinn, Taxus baccata L., mesta útbreiðslu. Sumar heimildir segja að nær sé að tala um sjö eða átta tegundir, frekar en þrettán. Svo eru það þeir sem segja að réttast sé að segja að allur ýviður tilheyri aðeins einni tegund sem skipta megi í mismunandi afbrigði eða stofna. Ástæða þess er sú að svo virðast sem allar tegundirnar geta æxlast saman og búið til frjó afkvæmi. Þessi tillaga nýtur ekki hylli helstu grasafræðinga. Þó er ljóst að allur ýviður er innbyrðis mjög skyldur. Sennilega var þetta allt saman ein tegund áður en ísöld gekk í garð. Þá einangruðust mismunandi stofnar vegna loftslagsbreytinga og vegna landreks. Sú einangrun mismunandi stofna getur hafa orðið fyrir hundruðum árþúsunda. Ef til vill skiptir ekki máli hvort við teljum þessa stofna tilheyra einni eða fleiri tegundum þótt mismunandi hópar hafa mismunandi einkenni. Það er í raun mannanna verk að ákveða hvar mörk tegunda liggja. Náttúrunni er slétt sama.


Víða í Evrópu má sjá mikið klipptan ývið. Þessi mynd er úr garðinum við Levens Hall sem á sér sína eigin Facebooksíðu og er myndin fengin þaðan.

Nafnið

Latneska heiti tegundarinnar er Taxus baccata L. Var það sænski grasafræðingurinn Carl Linnaeus sem gaf tegundinni þetta nafn árið 1753. Bókstafurinn L á eftir latínuheitinu á að upplýsa okkur um það. Merking ættkvíslarheitisins, Taxus, er nokkuð á reiki. Diana Wells (2010) gefur upp tvær tilgátur um uppruna heitisins í riti sínu Lives of the Trees. Báðar gera ráð fyrir að orðið sé komið úr grísku. Fyrri tilgátan er að nafnið merki eitur. Á sumum málum er talað um toxic sem eitur. Það passar ágætlega við það að ýviður er eitraður. Til forna nýttu Grikkir sér gjarnan eitur á örvarodda til að tryggja að þær væru banvænar. Eitur úr ývið var oft nýtt í þessum tilgangi og kölluðu Grikkirnir slíkar örvar toxicon.

Tilgáta númer tvö byggir á því að Grikkir nota orðið taxon yfir boga. Heitið Taxus getur því einfaldlega merkt bogviður. Nánar verður fjallað um fornar, grískar sögur um ývið í öðrum pistli.

Lowe nefnir í sínu riti um ývið frá árinu 1897 þessar tvær tilgátur og bætir við hinni þriðju. Hann segir að gríska orðið geti merkt að skipuleggja. Á þá heitið að vísa til þess hversu reglulega nálarnar raðast á sprotana. Þessa tilgátu er hvergi að finna í yngri heimildum.


Grein af ývið.
Barrið á ýviðum raðast mjög reglulega á upprétta sprota. Hér er það japansýr, Taxus cuspidata. Mynd: Sig.A.

Viðurnefnið baccata merkir með berjum. Það er ekkert sérstaklega lýsandi fyrir tegundina því allur ýviður myndar einskonar ber í stað köngla. Hinum sænska Linnaeus hefur oft tekist betur til í nafngjöfum sínum heldur en með þetta viðurnefni.


Tré af ættkvíslinni eru, enn sem komið er, ekki mikið ræktuð hér á landi. Hér finnast samt fleiri tegundir en Taxus baccata. Þær verða að bíða frekari umfjöllunar nema hvað fáeinar myndir af öðrum ývið er að finna í þessari grein. Rétt er að geta þess að meðal garðyrkjuáhugamanna gengur ýviður gjarnan undir latínuheitinu og er einfaldlega kallaður Taxus.

Seinna munum við fjalla frekar um nöfnin sem tengjast þessari tegund. Við getum þó upplýst að þau eru mörg og eiga sér merka sögu.



Lýsing

Ýviður er sígrænt barrtré sem oftast hefur blágrænt eða dökkgrænt barr sem er mjúkt viðkomu. Til eru yrki með gulgrænum nálum. Barrið er að jafnaði kransstætt, sem merkir að það raðar sér nokkuð reglulega á sprotana. Myndar það oft einskonar spírala þegar það vex út úr greinunum. Á láréttum greinum sveigjast nálarnar aðeins í átt að ljósinu og myndar þá gjarnan tvær raðir út úr sprotunum. Lóðréttir sprotar eru aftur á móti alveg eins hvar sem á þá er litið. Á þeim sést betur þetta einkennandi spíralaform. Efra- og neðra borð barrsins er ekki alltaf eins. Er það stundum notað sem greiningaratriði til að greina í sundur tegundir eða nafngreind yrki. Börkurinn er brúnleitur eða rauðbrúnn og flagnar auðveldlega með aldrinum.


Ýviðurinn ´David´ er einn af þessum sem hafa gult barr. Guli liturinn verður að jafnaði meira áberandi á björtum stöðum. Svo geta yrki, sem eiga að bera grænt barr, orðið dálítið gul af áburðarskorti. Mynd: Jakob Axel Axelsson.

Vöxtur

Ýviður vex hægt og rólega en getur orðið mjög gamall. Með tíð og tíma getur hann myndað nokkuð státin tré sem oft og tíðum verða mikil um sig ef ekki er þrengt of mikið að þeim. Á norðurhluta útbreiðslusvæðisins myndar hann aðeins lága runna eða einhvers konar beðjur í skjóli gamalla beyki- eða álmskóga. Þegar sunnar dregur getur hann orðið hærri. Suðlægari kvæmi hafa verið flutt norðar og mynda þá tré án vandkvæða (Hafsteinn 2016). Það gefur okkur, hér á Íslandi, góða von um að ýviði megi rækta meira en nú er gert og jafnvel fá hann til að mynda tré. Annars er Ísland eina landið í Evrópu þar sem ýviður vex ekki villtur. Þá undanskiljum við að vísu borgríki eins og Páfagarð.

Skemmtilega snúinn börkur á ývið í Cavandone á Ítalíu sem er um það bil 400 ára gamall. Myndina tók Antonio Ettore Biscuso og birti á Facebooksíðunni Unique Trees.


Blómgun

Flest barrtré, sem ræktuð eru í skógum Íslands, tilheyra þallarætt eða Pinaceae. Sú ætt hefur það þannig að á hverju tré birtast bæði kven- og karlblóm á sama trénu. Ýviðurinn hefur annan hátt á, enda tilheyrir hann annarri ætt eins og áður er nefnt. Hvert tré er annað hvort karlkyns eða kvenkyns. Kallast það sérbýli. Blómgun á sér stað snemma á vorin. Karlblómin eru ljósgul og bera frjó sem berast þarf á kvenblómin. Aðeins kventrén bera aldin, eins og vænta má. Þau verða fullþroska á einu sumri. Sum yrki hafa náð að þroska aldin á Íslandi en aðeins ef bæði kyn eru til staðar.

Karlblóm á ývið í marsmánuði í Skotlandi. Í Lystigarðinum á Akureyri má sjá karlblóm núna í maí. Þau eru minna áberandi en þessi. Frjó ýviða eru sögð ofnæmisvaldandi. Mynd: Sig.A.

Sama tré og hér að ofan. Gulbrúna slikjan stafar af frjókornunum sem tréð framleiðir. Slæmar fréttir fyrir Skota með frjókornaofnæmi en góðar fréttir fyrir tilkippilegar kvenplöntur. Mynd: Sig.A.

Ekkert er samt svo einfalt að ekki megi flækja það með útskýringum. Þannig eru til stöku tré sem tilheyra báðum kynjum og sagnir eru til um ævagamla ýviði sem skipt hafa um kyn. Frægastur þessara ýviða stendur við fjörðinn Perth í bænum Fortingall í Skotlandi. Hann er eldgamall en lengst af var hann karlkyns. Nálægt aldamótunum fór hann allt í einu, öllum á óvart, að mynda aldin! Þeim hefur verið sáð af skoskum skógræktarmönnum og upp hafa vaxið fullkomlega eðlileg tré (Hafsteinn 2016). Þegar þetta gerist er það oftast þannig að ein og ein grein ber blóm af öðru kyni en restin af trénu. Sumir hafa gert að því skóna að þetta kunni að vera viðbrögð við einhverju stressi í umhverfinu eða áfalli sem tréð hafi orðið fyrir.


Hinn frægi kynskiptiýviður í kirkjugarðinum í bænum Fortengall. Myndin fengin héðan en hana tók Paul Hermans.


Fleiri dæmi eru þekkt um svona kynleiðréttingarferli. Yrkið ´Fastigiata´ er kvenkyns og hefur verið í ræktun í nokkrar aldir. Til eru sagnir frá Norwich um að þar hafi ein planta af þessu yrki tekið upp á því að framleiða karlblóm (Lowe 1897). Þetta hefur sá er þetta ritað ekki séð staðfest í yngri heimildum en samt má sjá að það er víðar en hjá mannfólkinu þar sem skilgreining á kynjum er ekki alltaf einföld.


Yrkið ´Fastigiata´ er upprétt en hér er það að auki klippt. Það á sér merka sögu sem við segjum frá síðar. Myndin fengin héðan.


Aldin

Á ensku kallast barrtré conifer. Það vísar í þá staðreynd að barrtré bera köngla enda kallast köngull cone á ensku. Aftur á móti er það þannig að náttúran er ekkert endilega sammála þeim skilgreiningum sem mannfólkið hefur búið til handa henni. Þannig minna aldin þessa trés miklu meira á ber en köngla. Því er það að í sumum eldri bókum vilja höfundar ekki kannast við að þetta sé eðlilegt barrtré. Utan um fræin myndast það sem á fræðimáli er kallað aril eða arillus. Samkvæmt Peatti (2007 bls. 474) og Tudge (2005 bls. 125) er það útvöxtur utan um fræ. Hann hefst neðst á fræhulstrinu og vex upp og utan um fræið. Hafsteinn Hafliðason (2023) kallar þetta fyrirbæri fræslíður eða fræmöttul. Þetta er samfelld, holdrík himna utan um einstök fræ eða fræhýði. Ef til vill er óþarfi að eltast við hvað réttast er að kalla þetta. Þetta lítur út eins og ber en ekki köngull. Þetta gegnir líka sama hlutverki og ber. Fuglar sækja í þessi aldin og éta þau en fræin ganga ómelt í gegnum meltingarveginn og fara út með fugladriti sem er prýðilegur áburður. Win, winn dæmi fyrir tréð og fuglinn. Það er líka ákaflega heppilegt fyrir fuglana að fræið fari ómelt í gegn um meltingarveg þeirra, því það er eitrað. Reyndar er tegundin öll meira og minna eitruð, nema þetta áberandi fræslíður. Þroskuð aldin eru bleikrauð á litinn (stundum gul) og mjög áberandi. Auðveldar það fuglum að finna „berin“ og dreifa fræjunum (Miles 2021).


Aldin ýviðartrjáa eru mjög áberandi. Þau virka eins og auglýsingaskilti fyri fugla: „Ókeypis matur fyrir alla!“ Í smáa letrinu stendur: „fræin eru banvæn.“ Myndin er fengin héðan en hana tók Bob Gibbons.


Varúð!

Í náttúrunni er sífelld barátta milli bráðar og afræningja. Tré þurfa að reyna að verja sig með einhverjum hætti gegn þeim sem vilja éta þau. Gildir það jafnt hvort sem afræninginn er fugl, spendýr, padda eða eitthvað annað. Allskonar aðferðum er beitt. Ýviðurinn vex hægt og er því lengi í heppilegri hæð fyrir þau ferfættu dýr sem vilja éta hann. Hann hefur því þurft að grípa til róttækra varnaraðgerða. Hann fer engar krókaleiðir heldur notar kemíska vörn. Hann er eitraður. Allar tegundir af ývið teljast eitraðar. Á það við um barr, börk og fræ. Sumir segja að nafngreind yrki, sem ræktuð eru í görðum, sé ekki eins eitruð. Sá sem þetta ritar telur það ólíklegt. Eins og áður segir er fræhulstrið sjálft, þetta bleikrauða sem er eins og auglýsing fyrir fugla, ekki eitrað. Því verður fuglum ekki meint að því að éta berin (ef nota má það orð) svo lengi sem fræin fara ómelt í gegnum meltingarveginn. Þannig dreifa þeir fræjunum með driti sínu. Eitrið í fræjunum er það magnað að það getur vel drepið stærri dýr ef þeim verður það á að bryðja fræið. Svo eitruð eru þau að eitt magnaðasta plöntueitur sem til er, stryknín, er framleitt úr fræjunum (Attenborough 1995).


Flest dýr eru viðkvæm fyrir þessu eitri. Dæmi eru þekkt af búfé sem hefur drepist af að éta af ýviðum. Sérstaklega á það við um hross og kýr. Sem dæmi má nefna að hér er sagt frá því að fimm kýr og fjórir kálfar drápust af því að éta ýviðargreinar þar sem garðeigandi hafði losað sig við garðaúrgang með því að flegja honum yfir girðingu.


Sauðfé og geitfé er ekki eins viðkvæmt og verður að jafnaði ekki meint af þótt það narti aðeins í ývið. Svo eru það dádýrin. Einhverra hluta vegna virðast þau alveg ónæm fyrir eituráhrifum ýviðarins. Þeir éta hann með bestu lyst og verður ekki einu sinni bumbult.


Þegar Sesar var að dunda við að leggja undir sig stóra hluta Evrópu, lýsti hann því í riti sínu um Gallastríðin að margir Keltar hefðu frekar kosið að láta lífið en að gefast upp fyrir Rómverjum. Þeir sviptu sig þá lífi, annað hvort með sverði eða ýviðareitri að sögn Sesars.


Ýviður í Lystigarðinum á Akureyri 13. maí 2023. Mynd: Sig.A.

Sami ýviður tveimur dögum síðar. Mynd: Sig.A.

Lækningamáttur

Stryknín er ekki eina eitrið sem ýviðurinn framleiðir sér til varnar. Þrátt fyrir það hefur hann verið nýttur til lækninga. Við mælum samt ekki með því að almenningur geri á sér tilraunir með inntöku. Gæti það haft óafturkræf, óæskileg og varanleg neikvæð áhrif. Samt sem áður hefur ýviður í litlum mæli verið notaður til að meðhöndla jafn ólíka sjúkdóma og flogaveiki, ógleði, svima, gigt, liðagigt og vandamál tengd lifur og þvagláti (Miles 2021).


Kyrrahafsýr, Taxus brevifolia, þrífst ekki eins vel á Íslandi og sumar aðrar tegundir af ývið. Þessi vex í Óregon í Bandaríkjunum.

Myndin er fengin héðan.


Árið 1962 uppgötvuðu bandarískir vísindamenn efni í kyrrahafsývið, Taxus brevifolia, sem fékk nafnið Taxol eftir ýviðarættkvíslinni. Taxol hefur verið notað til lækninga við krabbameini. Þetta efni uppgötvaðist í berki trjánna. Vandamálið var að mjög lítið er af þessum efnum í ýviðnum svo mikið af berki þurfti til að framleiða fremur lítið af efninu. Hver sjúklingur þarf efni úr berki af um tug trjáa sem náð hafa 200 ára aldri. Gekk því nokkuð hratt á kyrrahafsývið upp úr miðri síðustu öld. Stefndi allt í hörð átök milli þeirra sem höfðu áhyggjur af því að trjánum yrði útrýmt og hinna sem vildu lækna sem flesta af krabbameini áður en trén hyrfu alveg. Sú deila leystist þegar í ljós kom að efnið er líka að finna í barri trjánna. Var þá hægt að nálgast efnið án þess að drepa trén. Evrópski ýviðurinn framleiðir náskylt efni í sínum berki. Með efnafræðilegum aðferðum tókst að breyta því í Paclitaxel árið 1995. Með öðrum lyfjum hefur það verið nýtt til að meðhöndla bæði brjósta- og lungnakrabba (Miles 2021, Wells 2010).


Taxol og Paclitaxel eru krabbameinslyf sem eiga tilvist sýna og nafn ývið að þakka. Myndunum stolið af auglýsingasýðum sem við hirðum ekki um að nefna.

Reynsla á Íslandi

Lítil reynsla er af ývið á landinu. Þó eru til nokkur ljómandi falleg eintök á vel skýldum stöðum hér og hvar um landið, meðal annars í grónum kirkjugörðum og til eru nokkur yrki af ývið sem ræktuð eru í skjólgóðum görðum. Betur hefur gengið að rækta japansýr, Taxus cuspidata, á Íslandi en evrópska ýviðinn, T. baccata. Einnig hafa blendingar þessara tveggja tegunda reynst sæmilega. Heita þeir Taxus x media á fræðimálinu og er nefndur garðaýr á íslensku. Í Lystigarðinum á Akureyri má finna allar þessar tegundir og fleiri en eitt yrki af sumum.

Við ræktun á ývið á Íslandi er lykilatriði að skýla þeim fyrir þurrum frostvindum og umhleypingum á vetrum. Á það að minnsta kosti við fyrstu árin. Ývið hættir til að brenna og roðna seinni part vetrar ef hann stendur í næðingi og vetrarsól í frosti. Annars er hann laus við hverskyns vanþrif og sjúkdóma í ræktun hér á landi. Í skjólgóðum görðum er engin ástæða til að skýla ývið sérstaklega. Sama á við ef ývið er plantað í skjólgóð skógarrjóður.

Nánar verður fjallað um ývið á Íslandi síðar, en fyrir óþolinmóða má benda á fróðlega og góða grein eftir fróðleiksbrunninn Sigurð Þórðarson sem birtist í Garðyrkjuritinu árið 2023 bls. 40.


Taxus baccata ´Compacta´ er mjög þétt yrki. Hér er það í Lystigarðinum á Akureyri í maí. Örlitlar skemmdir á barri eftir veturinn en runninn mun jafna sig fljótt. Mynd: Sig.A.

Framhaldið

Eins og áður segir er þetta fyrsti ýviðarpistillinn okkar af nokkrum. Í næstu pistli munum við fjalla um vaxtarstaði tegundarinnar ásamt kröfum um skjól og jarðveg. Þá munum við einnig fjalla hinn ótrúlega háa aldur sem trén geta náð og um notkun tegundarinnar í gegnum tíðina. Pistillinn endar á umfjöllun um það sem ýviðurinn er þekktastur fyrir í þeim efnum.

Seinna munum við birta pistla um tengsl tegundarinnar við evrópska menningu, átrúnað og manna- og staðarnöfn. Tíminn verður að leiða í ljós hvort það verða einn eða fleiri pistlar. Síðan munum við segja frá nokkrum eldgömlum og frægum trjám í Evrópu sem vert er að skoða og pistil um ývið á Íslandi.


2000 ára gamall ýviður sem þarf á stuðningi að halda. Hann er á Hayling eyju undan suðurströnd Englands. Mynd og upplýsingar: Denise Hazel.

Helstu heimildir

David Attenborough (1995) Einkalíf plantna. Gróður jarðar. Bókin heitir á frummálinu: The Private Life og Plants, A Natural History of Plant Behavior. Íslensk þýðing: Óskar Ingimarsson. Bókaútgáfan Skjaldborg, Reykjavík.

Donald Culross Peatti (2007): A Natural Historu of North American Trees. Trinity University Press, San Antonio, Texas.


The Gymnosperm Database: Taxus. https://www.conifers.org/ta/Taxus.php sótt 12. maí 2023.

Hafsteinn Hafliðason (2023). Munnleg heimild 2.1. 2023.


Hafsteinn Hafliðason (25. febrúar 2016): Ýviður – tré lífs og dauða, eilífðarinnar, upprisu og endurnýjunar. Sjá: https://www.bbl.is/skodun/a-faglegum-notum/yvidur-%E2%80%93-tre-lifs-og-dauda-eilifdarinnar-upprisu-og-endurnyjunar. Sótt 26.1. 2023


John Lowe (1897): The Yew-Trees of Great Britain and Ireland. AlbaCraft Publishing. Prentað árið 2015.


Archie Miles (2021): The Trees that Made Britain. An Evergreen History. BBC Books. Byggt á samnefndum sjónvarpsþætti BBC2 Sjá: https://www.bbc.co.uk/programmes/b006z75x


Colin Tudge (2005): The Tree: A Natural History of What Trees Are, How They Live, and Why They Matter. Crown Publishers, a division of Random House, Inc, New York.


Diana Wells (2010) Lives of the Trees. An Uncommon History. Algonquin Books of Chapel Hill. Chapel Hill, North Carolina.

The World flora online. An Online Flora of All Known Plants http://www.worldfloraonline.org/ sótt 3. maí 2023.


Sigurður Þórðarson (2023): Taxus. Í: Garðyrkjuritið 2023. Ársrit Garðyrkjufélags Íslands 103. Árgangur. Bls. 40-42.


484 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page