top of page

Sycamore Tree

Updated: Apr 10, 2023

Þegar þetta er skrifað er íslenskur dúett í 3. sæti vinsældarlista Rásar tvö með lag sem sungið er á frönsku. Hljómsveitin, eða dúettinn, heitir ensku nafni eins og algengt er í bransanum. Lagið heitir La flamme og hljómsveitin er Sycamore Tree. Þessi fjölþjóða blanda verðskuldar umfjöllun. Því er #TrévikunnarSE að þessu sinni tileinkað nafni hljómsveitarinnar Hvaða tré er þetta Sycamore Tree? Svarið við því fer eftir því hvern þú spyrð.


Hljómsveitin

Áður en við snúum okkur að trénu er rétt að líta aðeins á hljómsveitina. Eins og áður segir er þetta íslenskur dúett. Hann skipa leikkonan og söngvarinn Ágústa Eva Erlendsdóttir og Agusta Eva og tískuhönnuðurinn og tónlistarmaðurinn Gunni Hilmarsson. Meðfylgjandi mynd af dúettinum er fengin af Facebooksíðu hljómsveitarinnar.


Frekari upplýsingar má nálgast hér.

Lagið La flamme má hlusta á hér á Youtube. og hér á Spotify


Bandaríkin

Þótt sama tungumál sé talað í Bandaríkjunum og á Bretlandseyjum hafa stöku orð mismunandi merkingu í löndunum. Þar á meðal er tré vikunnar. Nafnið Sycamore Tree er í Bandaríkjunum notað yfir ættkvísl trjáa sem á latínu kallast Platanus. Upp á íslensku hefur ættkvíslin verið nefnd platanviður. Einkum er það P. occidentalis sem gengur undir þessu hljómsveitarnafni. Í Orðabanka Árnastofnunar er tegundin nefnd ameríkuplatan. Myndin hér til hliðar er fengin af þessari síðu.


Annað tré af sömu ættkvísl, P. racemosa, vex einnig í Bandaríkjunum og er oftast nefnt Western Sycamore. Sá platanviður hefur ekki íslenskt nafn. Þessi tré þrífast ekki utan dyra á Íslandi.

Hvorug tegundin er sérstaklega algengt skógartré í Bandaríkjunum en hin fyrrnefnda þó mun algengari. Henni er oft plantað í borgarumhverfi enda falleg, með fallegan börk og þolir mengun vel.

Platanviður er auðþekktur af einstökum barkarlit. Allar tegundir ættkvíslarinnar hafa svona skrautlegan börk.


Bretland

Á þeirri ensku sem töluð er á Bretlandseyjum er Sycamore Tree notað yfir allt annað tré. Það þrífst prýðilega á Íslandi og kallast garðahlynur. Latínuheiti þess er Acer pseudoplatanus. Orðið Acer er notað yfir allar hlyntegundir en viðurnefnið pseudopltatanus er allrar athygli vert. Það er sett saman úr orðunum pseudo og platanus. Fyrri orðhlutinn, pseudo, merkir falskur eða gervi. Orðhlutinn er oft notaður í latínuheitum þegar tiltekin planta líkist einhverri annarri. Seinni hluti orðsins, platanus, er latínuheitið á trénu sem í Bandaríkjunum er hið umtalaða tré. Garðahlynur heitir því í eitthvað í ætt við „hlynur sem líkist platanvið“. Líkindin eru ekki hvað síst í laufblöðum tegundanna. Garðahlynur telst innflutt tegund á Bretlandseyjum en er þar mjög algeng og hefur sáð sér víða. Rétt er að geta þess að í Bandaríkjunum er garðahlynur stundum nefndur Sycamore Maple. Maple er einmitt hlynur á ensku, svo þetta nafn er ákveðin tilvísun í latneska fræðiheitið.

Þessi mynd sýnir garðahlyn í Englandi. Myndin er héðan.


Latína

Áður en Sycamore var notað yfir platanvið í Bandaríkjunum og garðahlyn á Bretlandseyjum var orðið notað á aðra og óskylda tegund. Það er til í enskum Biblíuþýðingum og tengist pálmasunnudegi. Í íslenskum þýðingum þeirrar frásagnar er jafnan látið duga að múgurinn hafi fagnað Jesús með því að veifa pálmagreinum og jafnvel að leggja þær í götu hans. Af því ber dagurinn nafn sitt. Sá sem þetta ritar verður að játa kunnáttuleysi sitt í enskum biblíuþýðingum en í bókinni A History of Trees eftir Simon Wills (gefin út árið 2018 af Pen & Sword Books Ltd) segir að enskum útgáfum Biblíunnar hafi lýðurinn stráð pálmagreinum og -laufi í götu Guðssonarins ásamt laufum annarra trjáa. Einkum á það að hafa verið af fíkjutré einu sem kallast Ficus sycomorus á latínu. Það er aldeilis kunnuglegt nafn! Á íslensku heitir þessi tegund mórfíkjutré. Í bókinni segir að margir trúhneigðir menn hafi á fjórtándu og fimmtándu öld plantað þessari fíkjutegund við hús sín og kölluðust þau auðvitað Sycamor fig eða Sycamore Tree.

Til að bæta við einu tungumáli í viðbót má nefna að mórfíkjutré hefur að minnsta kosti þrjú heiti á þýsku. Eitt þeirra er Sykomore.

Myndin af mórfíkjutrénu er fengin héðan.

Það er því ekkert eitt einfalt svar við því hvað nafnið á dúettinum merkir enda er ekkert í veröldinni svo einfalt að ekki megi flækja það með útskýringum.

637 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page