top of page

Sjálfsánar plöntur í Garðsárreit

Updated: Apr 23, 2023

Annað kvöld, fimmtudaginn 23. júlí kl. átta, verður farið í skógargöngu í Garðsárreit. Hér er tengill á viðburðinn þar sem sjá má allar helstu upplýsingar sem á þarf að halda. https://www.facebook.com/events/1632218423603250/ Margt er að sjá í Garðsárreit og mun Helgi Þórsson án efa sýna okkur allt það helsta. Eitt af því sem gaman er að skoða í reitnum eru melarnir sem áður voru í skóginum. Við friðunina (sem ekki hefur alltaf verið alger) hafa þeir gróið smám saman upp og þegar trén fóru að bera fræ sáðu þau sér á melana svo nú eru þeir óðum að klæðast trjágróðri. #TrévikunnarSE þessa vikuna eru sjálfsprottnu trén í Garðsárreit. Þar kennir ýmissa grasa, ef kalla má tré grös. Meðal þess sem finna má eru stafafurur, rússalerki, alaskaösp og ilmbjörk auk víðitegunda. Það gæti verið skemmtilegur leikur fyrir fjölskyldufólk að kanna hver fundið getur minnsta tréð í skóginum! Fyrstu framkvæmdir SE í garðsárreit voru að friða gilið og umhverfi þess til að freista þess að leyfa birkinu, sem í gilinu var, að sá sér út. Það tókst prýðilega. Það var ekki fyrr en síðar að farið var að gróðursetja í reitinn. Um það má lesa í síðasta pistli af tré vikunnar. Meðfylgjandi eru nokkrar myndir sem sýna þessa sjálfssáningu. Svo hvetjum við alla til að mæta annað kvöld.

Garðsárgil. Birkið sáir sér út um allt fái það til þess frið.


Bráðung stafafura.


Beitarskemmdir á ungri stafafuru. Þegar myndin var tekin í vor voru girðingar illa farnar eftir veturinn og ekki fjárheldar. Reiturinn er samt það vel gróinn að stöku skemmdir af þessu tagi skipta þar litlu máli.


Gísli Guðmundsson skoðar sjálfsánar plöntur í Garðsárreit.


Jafnvel alaskaösp sáir sér í beran melinn. Þetta telst þó varla kjörlendi hennar.


Efnileg lerkiplanta í lítt grónum mel.


Nokkrar sjálfsánar plöntur, mest lerki. Sú sem er fyrir miðri mynd hefur lent í áfalli. Við nánari skoðun reyndist það vera nag eftir grasbít sem komist hefur inn í reitinn.

37 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page