Þessa dagana er mikill fjöldi runna og blóma farinn að blóstra. Blómgun í trjám og runnum er óvenju mikil, þökk sé góðu sumri í fyrra og áfallalausu gróðurvori.
Einn af þeim blómfallegu runnum sem nú eru að hefja blómgun er yrki af gullsóp sem kallast ‘Roter Favorit’. Hann veljum við sem tré vikunnar að þessu sinni, þótt hann sé runni en ekki tré.
Greinarnar geta orðið nær algerlega þaktar blómum.
Gullsópur
Venjulegur gullsópur (Cytisus scoparius) er líkur geislasóp (Cytisus purgans) sem við þekkjum svo vel, nema hvað hann er örlítið grófari í byggingu. Villtar plöntur bera gul blóm og er honum oft ruglað saman við geislasóp. Ekki bætir úr skák að stundum er nöfnunum líka ruglað saman. Til eru yfir 80 yrkisheiti af gullsóp og að minnsta kosti tvö þeirra má finna á nokkrum stöðum á Akureyri. Annað þeirra er þó sínu algengara, enda er það framleitt í bænum og er til sölu á hverju ári. Heitir það ‘Roter Favorit’. Hitt yrkið heitir ‘Lena´ en er ekki í framleiðslu. Það kann þó að breytast. Svo má einnig finna á nokkrum stöðum gullsópa með gulum blómum. Þeir minna mjög á geislasópinn sem alltaf hefur gul blóm. Í einhverjum tilfellum hafa þeir verið fluttir inn sem geislasópar.
Gullsópur ‘Lena´er til í nokkrum görðum á Akureyri. Blómin eru tvílit, rauð og gul.
Almennt má segja að gullsópur sé ekki eins harðgerður og geislasópur. Hann þarf meira skjól og hlýjan vaxtarstað til að ná góðum þroska. Öll yrki gullsóps blómstra á vorin eða snemma sumars. Tegundin myndar blómvísa á haustin sem opnast þegar sólin fer að verma á vorin. Ef klippa þarf sópinn er rétt að gera það strax eftir blómgun. Ef það er gert á haustin verður oft lítið úr blómgun, því þá eru blómvísarnir klipptir af. Á vorin þarf ekkert að klippa nema kalkvisti, ef þeir eru fyrir hendi.
Laufblöð gullsópa eru alltaf þrífingruð, nema á árssprotum. Þar eru þau einföld. Má nota þessa þekkingu til að greina gullsópa frá öðrum sópum.
Purpurasópur, Cytisus purpureus, er með rauð blóm. Ársprotarnir hafa þrífingruð laufblöð. Það sýnir að hann er ekki geislasópur. Þessi planta stóð í Lystigarðinum en er nú horfin.
Gullsópur í Skotlandi. Villtir gullsópar eru nær alltaf gulir.
Af hverju „sópur“?
Kalla má gullsóp aðaltegund ættkvíslarinnar á heimsvísu. Á latínu heitir hann Cytisus scoparius og er sú tegund sópa sem gefið hefur ættkvíslinni sitt íslenska heiti. Scope merkir nefnilega sópur eða kústur á latínu. Stífar greinar hans voru áður fyrr notaðar í þeim tilgangi að búa til þetta mikilvæga verkfæri.
Að vera eða ekki vera sígrænn
Oft er sagt að runnar og tré séu annað hvort blaðfellandi eða sígrænir. Blaðfellandi runnar fella lauf sitt á haustin og laufgast að nýju á vorin. Hinir halda laufunum allan veturinn. Flestir þeir sópar sem ræktaður eru á Íslandi geta ekki alveg ákveðið hvorum hópnum þeir eiga að tilheyra og gera því tilraun til að vera í báðum hópum. Á það við um ‘Roter Favorit’ eins og aðra. Hann er vissulega lauffellandi runni en lifandi greinar eru grænar að lit allt árið. Hann er því bæði lauffellandi og sígrænn.
Greinarnar eru sígrænar en ný lauf spretta á hverju vori.
‘Roter Favorit’
Gullsópur er ættaður frá Mið- og Vestur-Evrópu en er ræktaður víða um heim. Yrkið ‘Roter Favorit’ kom fram í ræktun í Þýskalandi árið 1959 og er nú víða ræktað. Þess vegna ber hann þetta þýska heiti. Það ber glæsileg, rauð blóm. Blómin eru samt ekki alveg hreinrauð og má sjá gula og bleika tóna ef vel er að gáð. Það er full ástæða til að skoða þau náið til að njóta fegurðarinnar. Þessi sópur þrífst best á sólríkum og skýldum stöðum og kann vel við fremur rýran, þurran jarðveg.. Gott getur verið að skýla ‘Roter Favorit’ yfir veturinn fyrstu árin. Hann þrífst allvel á skýldum og hlýjum stöðum og getur orðið þakinn blómum. Á allra bestu stöðum er hann vel á annan metra á hæð með tíð og tíma en algengara er að hann verði eitthvað lægri. Oftast er verður hann álíka breiður og hann er hár.
Ef saman fer óheppilegur staður og lélegt sumar má búast við töluverðu kali.
‘Roter Favorit’ hefur stundum verið nefndur purpurasópur vegna blómanna en það er nafn á annarri tegund sem er mun viðkvæmari.
Almennt um sópa, Cytisus
Sópar tilheyra belgjurtaætt. Um 35 til 65 tegundir runna tilheyra þessari ættkvísl eftir því hvernig talið er. Þeir finnast villtir í Suður- og Mið-Evrópu, Norður-Afríku, Litlu-Asíu og yfir til Rússlands. Þeir eru víða ræktaður utan þess svæðis. Stundum er ættkvíslinni Chamaecytisus (sem telur um 30 tegundir) skellt inn í Cytisus ættkvíslina og þannig er hærri talan (um 65 tegundir) fengin. Sú lægri (um 35) á við ef svo er ekki. Grasafræðinganna í Kew Garden telja þetta sömu ættkvíslina en báðir grasagarðarnir á Íslandi halda þeim aðskildum og sennilega er það algengara. Allar tegundir af Chamaecytisus ættkvíslinni eru fremur viðkvæmar.
Gullsópur myndar fræ sín í belgjum eins og þeim sem sjá má af myndinni. Svona belgir gefa ættinni nafnið belgjurtir.
Sópar eru fíngerðir og marggreindir runnar sem blómstra flestir á vorin eða snemmsumars. Flestar aðaltegundirnar bera gul blóm en aðrir litir hafa komið fram við ræktun. Að jafnaði eru gulblóma afbrigðin harðgerðari en hin en miklar framfarir hafa verið í ræktun þessara tegunda á undanförnum árum.
Á Íslandi eru plöntur ættkvíslarinnar fyrst og fremst notaðar sem garðplöntur og á opnum svæðum, til dæmis hjá Akureyrabæ. Stundum má sjá plöntur sem bryddingar í útivistarskógum og við sumarbústaði. Tegundirnar eru ekki nægilega harðgerðar til að hægt sé að mæla með þeim til landgræðslu í stórum stíl, þrátt fyrir að þær bindi nitur eins og aðrir fjölskyldumeðlimir. Erlendis er notkun svipuð og hér en stærri tegundir eru þar ræktaðar til skjóls og til að verja jarðveg.
Flestir sópar eru auðræktaðir ef þeir þrífast á annað borð. Þeir kjósa þurran, sendinn jarðveg og bjartan stað. Það er alveg óþarfi að spandera áburði á sópana. Fullorðnar plöntur eiga það til að fara illa í flutningum eftir að þær hafa komið sér vel fyrir, þótt dæmi séu til um hið gagnstæða. Það telst öruggara að færa litlar plöntur.
Fræðiheitið er fengið úr þjóðtungu Grikkja og er þar almennt notað á runnakenndar belgjurtir þar í landi en ekki endilega á þessa ættkvísl. Allar tegundir ættkvíslarinnar innihalda varnarefnið cytisin sem er eitrað.
Höfundur tók myndirnar.
Comentários