Almennt má skipta trjám og runnum í annars vegar sígræn og hins vegar lauffellandi. Svo verða alltaf til einhverjar undantekningar sem passa ekki alveg í annan hvorn hópinn.
Eins og stundum áður leyfum við runnum að fljóta með þegar við fjöllum um #TrévikunnarSE. Að þessu sinni veljum við sígrænan OG lauffellandi runna. Þetta er geislasópur (Cytisus purgans) sem einmitt núna er svo víða í fullum blóma á Akureyri og sjálfsagt víðar. Hann hefur grænar greinar allt árið og getur því flokkast sem sígrænn runni ef eingöngu er farið eftir litnum. Á vorin laufgast hann og á haustin fellur hann laufið rétt eins og aðrir lauffellandi runnar. Laufið er í alveg sama lit og greinarnar sem standa naktar allan veturinn.
Þrjár myndir af geislasóp. Hann myndar mikið blómahaf og á það til að blómgast aftur á haustin, en þá mun minna eins og sjá má á þriðju myndinni.
Lýsing
Geislasópur er fíngerður og marggreindur runni og myndar lágvaxið þykkni, 20 til 100 cm á hæð og verður þakinn skærgulum blómum á vorin. Hann á það reyndar til að blómstra aftur á haustin en það gerir hann ekki árvisst. Blómin hafa sterka og áberandi lykt sem fellur fólki misjafnlega vel. Geislasópur er langsamlegast og harðgerðasti sópurinn (Cytisus) sem ræktaður er hér á landi þrátt fyrir að eiga suðlægan uppruna. Hann er ættaður frá Suður-Frakklandi, Spáni og Norður-Afríku.
Þessi tegund er af ætt belgjurta og hin gulu blóm eru dæmigerð fyrir alla ættina. Eins og aðrir fjölskyldumeðlimir þrífst geislasópur best ef hann er smitaður af viðeigandi rótarhnýðisbakteríum sem vinna nitur beint úr andrúmsloftinu. Sjaldnast er reynt að smita sópa í ræktun en það er eins og þeir nái samt nánast alltaf að mynda viðeigandi sambýli.
Þar sem geislasópur er snemmblómstrandi verður oft lítið úr blómgun ef hann er klipptur á haustin. Þá er hætta á að blómvísarnir verði klipptir í burtu. Betra er að klippa þá strax eftir blómgun eða taka heilar greinar innan úr ef ástæða er til.
Geislasópi hefur víða verið í landi Akureyrar. Síðasta myndin sýnir sjálfsánar smáplöntur í Síðuhverfi.
Notkun
Geislasópur er fyrst og fremst notaður sem garðplanta og á opnum svæðum en sjaldnar í skógrækt nema sem bryddingar í útivistarskógum. Hann kýs þurran, sendinn jarðveg og bjartan stað. Fullorðnar plöntur eiga það til að fara illa í flutningum og því er best að koma þeim strax fyrir þar sem þeim er ætlaður framtíðarstaður. Runninn myndar frjótt fræ og hann hefur sums staðar sáð sér út. Oftast í görðum en þess finnast dæmi að hann hafi sáð sér í íslenskri náttúru þótt ekki sé það algengt.
コメント