top of page

Regntré

Updated: Oct 26, 2023

Ímyndaðu þér, kæri lesandi, að þú sért á göngu í heitu landi. Sólin skín lóðbeint ofan í hvirfilinn á þér. Þarna gengur þú í hitanum klæddur í stuttbuxur og hlýrabol, berfættur í sandölum. Það er ekki ónýt tilhugsun á miðjum þorra. Til hliðar við þig sérðu grasflöt og á henni miðri vex stórt og myndarlegt tré með breiða krónu. Hún minnir einna helst á opna regnhlíf í yfirstærð eða risastóra bjöllu. Undir krónunni er svalur skuggi. Heimamenn gætu nýtt sér hann og sest undir tréð en það gerir þú, sólþyrstur Íslendingur, ekki. Þig undrar hversu vel grasið sprettur þarna undir trénu, þrátt fyrir skuggann.

Þá finnur þú allt í einu að ský dregur fyrir sólu. Þú finnur það, frekar en sérð, því geislar sólarinnar verða ekki alveg jafn steikjandi. Það er samt allt of heitt fyrir dæmigerðan Íslending. Skýin hrannast upp og eins og hendi væri veifað fer að hellirigna. Rigningin í heitu löndunum er engin smásúld. Þetta er almennilegt skýfall og þú svona klæddur! Þá manstu eftir stóra trénu á grasflötinni og tekur sprettinn þangað til að fá skjól fyrir rigningunni. Þegar þangað er komið áttar þú þig á því að þú tókst ranga ákvörðun.


Mynd: Víða í hitabeltinu má finna tré eins og þetta. Það veitir svalan skugga í sólskininu en er ekki hentugt skjól í rigningu.


Ættfræði

Áður hefur verið fjallað um belgjurtir á þessum síðum enda eru þær þeim er þetta pikkar hugleiknar. Belgjurtum er stundum skipt í þrjár undirættir. Engar plöntur af tveimur þeirra þrífast utan dyra á Íslandi. Þetta tré tilheyrir annarri þeirra: Mimosoideae. Undirættin er nefnd eftir mímósum, Mimosa pudica, sem stundum eru ræktaðar í stofugluggum á Íslandi og gáfu blómabúð í Sunnuhlíð á Akureyri nafn sitt. Eins og kemur fram í Belgjurtabókinni á bls. 41 eru mímósur hálfrunnar frá Brasilíu. Þar eru mímósur nokkuð algengar þar sem birtu nýtur svo sem í rjóðrum og skógarjöðrum. Þær eru meira að segja taldar til illgresis á sykurplantekrum. Það sem gerir þessar plöntur að vinsælum plöntum á heimilum eru mjög sérstök varnarviðbrögð. Þegar komið er við lauf plantnanna falla þau saman. Eftir því sem hlýrra er, þeim mun hraðari verða viðbrögðin. Þessi viðbrögð eru reyndar alltaf miklu hraðari en vænta mætti af hefðbundum blómum og því vekja þau furðu. Talið er að þessi sérkennilegu varnarviðbrögð séu til þess ætluð að gera laufin ólystug í augum skordýra sem leggja sér laufblöð til munns. Þegar skordýrið lendir á plöntunni falla laufin saman og líta þá hreint ekki út sem girnileg máltíð. Því fer skordýrið annað í leit að magafylli.


Mynd: Mímósa fellir saman lauf sín við snertingu.

Tréð, sem þú varst svo óheppinn að leita skjóls undir í inngangskaflanum, er sömu eiginleikum búið. Þegar fór að rigna féllu laufin saman og tréð veitti ekkert skjól fyrir vatninu sem beinlínis fossaði niður á milli greinanna og vökvaði bæði þig og grasið undir trénu. Eftir þessum eiginleika er tréð nefnt.


Mynd: Nautgripir leita í skuggann af regntré í Venúsúvela. Það sést á grasleysinu hversu átroðningurinn er mikinn. Ef ekki væri fyrir hann yxi þar grænt gras.


Tréð sver sig í belgjurtaættina á margan hátt. Það bindur nitur úr andrúmsloftinu með aðstoð Rhizobium-gerla á rótunum þannig að það bætir jarðveginn í kringum sig. Blöðin eru fjöðruð eins og algengast er innan ættarinnar og fræin eru í fræbelgjum. Þeir eru að vísu nokkuð stærri en við þekkjum á Íslandi.


Mynd: Fræbelgir regntrjáa eru ætir.


Aftur á móti eru blómin hjá Mimosoideae dálítið frábrugðin þeim hefðbundnu ertublómum sem við þekkjum. Það er höfuðeinkenni undirættarinnar. Til eru þeir grasafræðingar sem telja að þessa undirætt beri að kljúfa frá belgjurtum vegna þess hve blómin eru ólík.

Rétt er að segja frá því að akasíur, sem við þekkjum úr náttúrulífsmyndum af sléttum Afríku, eru líka af þessari undirætt þótt blöðin búi ekki yfir sömu varnartækni. Full ástæða er til að fjalla sérstaklega um þær í öðrum pistli.


Mynd: Regntré á árbakka í kvöldsólinni í Laos.


Lýsing

Regntré verða að jafnaði um 15-25 metrar á hæð. Ef krónan fær nægilegt pláss breiðir hún mikið úr sér og myndar þetta dæmigerða hvelda vaxtarlag. Krónan getur vel náð um 30 metra þvermáli og veitt kærkominn skugga. Í sumum tilfellum geta eldgömul tré náð jafnvel tvöfaldri þeirri stærð. Þar sem blöðin eiga það til að falla saman þegar komið er við þau dugar það oftast nær til að nægileg birta berst undir tréð til að ýmsar sæmilega ljóskræfar plöntur, eins og grös, geta þrifist betur undir krónunni en ætla mætti. Í meiri þrengslum breiðir tréð minna úr sér og getur þá teygt sig enn hærra en þegar það stendur stakstætt. Dæmi eru um að þannig nái trén allt að 50 m hæð. Stofninn sjálfur getur orðið um 2 metrar í þvermál í brjósthæð.

Mynd: Sólin skín í gegnum krónu á stakstæðu, stóru regntré.

Mynd: Ef regntré vaxa þétt saman verða þau hærri og með minni krónu. Þannig eru þau gjarnan ræktuð til timburframleiðslu. Blóm regntrjáa eru dæmigerð fyrir undirættina Mimosoideae. Þau eru bleikleit með rauðum og hvítum tónum. Blómin raða sér saman í sveipi og eru um 12-25 í hverjum. Á stórum trjám geta þessir blómsveipir skipt þúsundum og nánast þakið allt tréð.

Mynd: Blóm regntrjáa eru dæmigerð fyrir undirættina Mimosoideae en ólík þeim ertublómum sem við þekkjum á Íslandi.


Utan um fræin myndast stórir fræbelgir sem eru ætir. Þeir eru límkenndir og sætir á bragðið. Sagt er að börn sækist mjög eftir að borða þá. Þegar þeir eru fullþroskaðir verða þeir dökkbrúnir á litinn og geta orðið um 10-20 cm að stærð.


Mynd: Grænir fræbelgir á regntré. Þegar þeir þroskast breytia þeir um lit.


Laufblöðin eru stór og samsett. Smáblöðin eru mörg á hverju laufblaði eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Eins og áður segir falla þau saman ef komið er við þau en þau gera það einnig á kvöldin þegar skyggja tekur. Þetta hefur gefið trénu hið skemmtilega nafn Pukul Lima í Malasíu. Það merkir klukkan-fimm-tré. Það er einmitt þá sem tekur að skyggja í Malasíu. Sum regntré vaxa þar sem þurrkar ríkja hluta ársins. Þar missa trén gjarnan laufin á þurrkatímum en ef úrkoma er næg teljast þau sígræn.

Talið er að það sé vegna þessara sérstöku eiginleika laufblaðanna að mjög mikill fjöldi ásæta getur lifað á regntrjám. Alls konar burknar og orkideur eru algengar á þeim ef rakinn er nægur.


Mynd: Regntré þakið fjölskrúðugum ásætum. Þetta er ein af ástæðum þess hve skemmtileg þau þykja sem götutré.


Tréð getur orðið að minnsta kosti 200 ára og sumir segja að það geti orðið allt að fimm alda gamalt. Til eru gömul og fræg tré í ýmsum löndum sem þykja svo merkileg að þau hafa sérnöfn.


Fræðiheiti

Heimildum ber ekki alveg saman um hvort kalla skuli tréð Albizia saman eða Samanea saman. Samkvæmt hinni stóru bók Legumes of the World eru til rúmlega 20 tegundir af Albizia (bls. 211) en aðeins 3 tegundir af Samanea (bls. 210) ef sú ættkvísl er skilin frá Albizia ættkvíslinni. Ef það er gert eru ættkvíslirnar náskyldar en það eru bara þau sem kallast Samanea sem fella laufin saman þegar komið er við þau. Það er á þeim grundvelli sem sumir vilja skilja ættkvíslirnar að. Hinar tvær tegundirnar eru nánast ekkert ræktaðar og því ekkert meira um þær að segja.

Eldri heimildir kalla þetta tré stundum Mimosa saman. Það heiti er ekki lengur viðurkennt en vel skiljanlegt þar sem laufin haga sér á sama hátt og hjá þeirri ættkvísl.

Mynd: Lauf á regntré að falla saman. Þá veitir krónan lítið skjól.


Mynd: Laufblöð regntrés eftir að þau falla saman.


Viðurnefnið, saman, er alveg prýðilegt, enda falla laufin saman þegar komið er við þau. Það er samt ekki fengið úr íslensku heldur úr máli innfæddra íbúa á eyjum karabíska hafsins. Þar má finna tungu sem er blanda af frönsku og máli innfæddra og samkvæmt bókinni Legumes of the World er þetta tré kallað saman eða zamang á þessu tungumáli. Það merkir einfaldlega regntré. Eftir að hafa flett í gegnum Alnetið vekur það nokkra furðu hversu algengt það er á hinum ýmsu síðum að halda því fram að uppruni heitisins sé ókunnur. Eins og svo oft áður gleyma menn að fletta upp í bókum sem kunna að geyma svörin.


Mynd: Horft upp í krónu á stóru regntré.


Heimkynni

Tréð er talið eiga uppruna sinn í norðurhluta Suður-Ameríku og í Mið-Ameríku en hefur verið plantað mjög víða í hitabeltinu, bæði til skrauts og gagns. Víðast hvar sem því hefur verið plantað hefur það sáð sér út. Oftast í sátt við íbúa og flóru þeirra landa þar sem það finnst. Á tveimur eyjum, Vanúatú og Fiji-eyjum, er hún talin ágeng tegund.

Þessi mynd er fengin af síðu Kew Gardens. Græni liturinn táknar þau lönd þar sem tréð vex villt en eins og sjá má hefur því víða verið plantað.


Notkun

Regntré eru til margra hluta nytsamleg. Víða eru þau gróðursett sem götutré enda bæði sérstök og fögur. Að auki eru þau nýtt í praktískum tilgangi. Þeim er meðal annars plantað í akra til að mynda hæfilegan skugga og binda nitur úr andrúmsloftinu sem nýtist því sem rækta á. Tréð má meðal annars finna á ökrum þar sem kakó, kaffi, te og pipar eru ræktað. Að auki þykja þessi tré heppileg þar sem regnið fellur tiltölulega jafnt undir trénu og nýtist því þeim plöntum sem eru ræktaðar í skjólinu. Nokkur önnur tré af belgjurtaætt eru notuð á sama hátt á ökrum. Binda nitur og varpa skugga. Ein af þeim er planta sem á íslensku er kölluð kakófóstra. Hún er einmitt mjög gjarnan ræktuð á kakóökrum í Mið-Ameríku. Kakófóstra hleypir vatni ekki eins greiðlega í gegnum sig og regntré en hún hefur annan eiginleika sem gagnast kakóbændum. Hún framleiðir baneitruð fræ og börk sem hvoru tveggja hentar prýðilega sem rottueitur. Plantan heitir Gliricidia sepium á latínu. Nafnið er dregið af latínuheitunum Glis, sem merkir rotta og caedo sem merkir að drepa. Nagdýr verða því oftast nær ekki mjög langlíf eða til teljandi tjóns á kakó- eða kaffiökrum þar sem sú planta vex.Áður hefur verið fjallað um gúmmítré á þessum síðum. Regntré er ekki gúmmítré en engu að síður er stundum unnið gúmmí úr trjánum. Það þykir þó ekki eins gott og gúmmí af gúmmítrjám.


Myndir: Eins og algengt er með tré sem bera fremur lítil lauf eru regntré stundum ræktuð sem bomsai-tré.


Fræbelgirnir eru nokkuð stærri en þeir fræbelgir sem vaxa á belgjurtum sem vaxa hér á landi. Myndir af þeim má sjá hér ofar. Þeir eru ætir og stundum nýttir til áfengisgerðar og átu. Einn hektari af regntrjám getur gefið efni í 1.150 lítra af hreinu alkóhóli á ári. Hvert tré getur borið allt að 100-150 kg af ætum fræbelgjum á ári. Það verður að teljast allgóð búbót.

Viðurinn á trjánum er einnig nýttur. Hann er brúnn þegar tréð er fellt en verður gulbrúnn við þurrkun með ljósari æðum. Þessi litríki viður er verðmætur í hvers kyns útskurð, rennismíði, húsgagnagerð og panelklæðningu. Viðurinn er léttur og mjúkur en samt talinn mjög sterkur og endingargóður. Við þurrkun rýrnar hann sáralítið svo ekki er talin hætta á að hann springi. Því er hægt að smíða úr ferskum við og þurrka síðan munina.Mynd: Viður regntrjáa er gjarnan nýttur í borð eins og þetta í heimahúsum, veitingastöðum og skrifstofum enda sérlega fallegur viður.


Regntré eru einnig notuð sem eldiviður og lauf og sprotar sem fóður fyrir búfé. Kemur þar sér vel að trén vaxa fljótt upp aftur frá rót ef þau eru höggin niður. Dregið hefur úr notkun viðarins til eldiviðar og kolagerðar því viðurinn er dýr. Það fæst einfaldlega meira fyrir hann ef viðurinn er seldur sem smíðaviður.


Úr trjánum hafa einnig verið unnin náttúrulyf. Efni sem talið er gagnast gegn niðurgangi og magaverk eru unnin úr innri lagi barkarins. Fræin eru tuggin til að lækna særindi í hálsi og laufin má nota í hægðalyf.


Mynd: Regntré þola ágætlega að vaxa á flæðilöndum þar sem tímabundina flóða gætir.

Heimildir

Í texta er vísað í netheimildir eftir því sem þurfa þykir.

Aðrar heimildir: Lewis, Gwilym o,fl. (ritstj.) 2005; Legumes of the World. Royal bls. 210-211. Botanic Gardens, Kew. 576 blaðsíður.


Sigurður Arnarson 2014; Belgjurtabókin. Sumarhúsið og Garðurinn.

220 views

Recent Posts

See All

Commentaires


bottom of page