top of page

Öspin í Garðsárreit

Updated: Apr 23, 2023

Skógræktarfélagið hefur umsjón með nokkrum skógarreitum í Eyjafirði. Einn þeirra er Garðsárreitur. Stærsta tréð í þeim reit er voldug alaskaösp. Hún er #TrévikunnarSE að þessu sinni. Í leiðinni viljum við minna á skógargöngu í Garðsárreit næstkomandi fimmtudag, þar sem Helgi Þórsson mun sýna okkur skóginn, töfra hans og umhverfi.


Fyrsta skógræktarverkefni SE var friðun skógarleifa í Garðsárgili. Birkikjarr hafði þá verið í gilinu frá ómunatíð, enda illkleift mönnum og skepnum, eins og Aðalsteinn Svanur Sigfússon segir frá í grein sinni um reitinn í bókinni Ásýnd Eyjafjarðar sem gefin var út árið 2000. Þessi pistill byggir á þeirri grein. Reiturinn var fyrst girtur af árið 1931 til að vernda þessar skógarleifar en ekki kemur fram í gögnum félagsins hvenær farið var að gróðursetja í skóginn. Talið er að um 1950 hafi tré vikunar verið gróðursett og árið 1999 var hún um 14 metrar á hæð. Fróðlegt verður að skoða það tré á fimmtudaginn og reyna að finna út hversu miklu það hefur bætt við sig á síðustu tveimur áratugum.

Meðal annarra tegunda í skóginum má nefna hið sjálfsána birki, sem fór að spretta upp við friðunina auk plantaðs birkis. Mest áberandi eru þó rauðgrenitré sem stóðu snjóaveturinn vel af sér í vetur, sem víða olli miklu tjóni. Þarna má einnig finna sitkagreni, skógarfuru, lerki, bergfuru, blágreni og reynivið, svo eitthvað sé nefnt. Hin síðari ár hafa lerki, fura og birki sáð sér mikið út á mela sem áður voru í skóginum en eru nú að gróa upp.

Á upphafsárum skógræktar á Íslandi var ekki alltaf hirt um að skrá niður framkvæmdir og er sjálfsagt enn víða misbrestur á því. Þess vegna er í raun sáralítið vitað um þessa glæsilegu ösp. Bæði klónn og kvæmi eru óþekkt, sem og gróðursetningarár, þótt reynt hafi verið að giska á það. Það breytir því samt ekki að tréð er mikill karakter og hefur mátt þola margt. Sem dæmi má nefna að neðstu greinar hennar hafa stundum sligast af snjó og jafnvel brotnað. Allt þetta hefur hún staðið af sér og gæti sagt frá mörgu ef hún kynni að tala. Myndirnar eru teknar þann 6. júní sl. Sjón er sögu ríkari. Sjáumst á fimmtudaginn.


48 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page