top of page
Writer's pictureArnbjörg Konráðsdóttir

Kjarnafjölskyldan

Updated: Apr 10, 2023

Tré vikunnar eru nokkur lerkitré sem voru gróðursett af Skógræktarfélagi Eyfirðinga árið 1980 í Naustaborgum. Trén standa stutt frá svokallaðri Skjólborg innan um hvalbök (ávalar klappir) sem kíkja upp úr jörðinni hér og þar. Svæðið er að mestu leyti hringlaga og afmarkað af þéttari skógi. Trén standa því nokkuð fá og strjál fyrir miðju þessa litla svæðis.



Sumarið 2021 var hlaðin völustígur (labyrinth) úr steinum á þessum sama stað af 40 sjálfboðaliðum frá Eyjafjarðarsvæðinu og víðar. Ungir sem aldnir tóku þátt og skiptir þátttaka allra máli. Hugleiðslugangan er að erlendri fyrirmynd og er 7 rása en hún fékk nafnið Kyrrðarganga í Kjarna. Nafnið er lýsandi fyrir tilgang göngunnar, þ.e. að ganga hægt og rólega um geometrískt steinhlaðið form að miðju og á táknrænan hátt að innri kjarna. Gott er að setjast niður á afskorin trjábol við miðjutréð og íhuga en Haukur gerði sætið úr 80 ára gamalli ösp sem fella þurfti á Akureyri um haustið.



Til álita kom við upphaf hleðslunnar hvort að þessi lerkitré yrðu að víkja en eftir táknrænan draum sjálfboðaliða í upphafi verks kom í ljós að þessi tré vildu standa og kallast Kjarnafjölskyldan og að hleðslan yrði löguð að staðsetningu trjáfjölskyldunnar.



Allt var unnið í höndunum í hæglæti og í góðum anda sem einkennir þennan stað. Litlu sem engu þurfti að raska en trén fengu umhirðu og fallnar greinar fjarlægðar.



Eitt tré stendur austan við hringinn og er horft þaðan í beinni línu við miðjutréð í vesturátt. Það nefnum við hliðvörð í austri en gengið er inn í austri fyrir framan það sama tré.


Þegar komið er inn í gönguna eru tvö tré yst og innst og nefnast þau öldungar. Tvö tré standa hlið við hlið nálægt miðjunni, rætur þeirra fléttast og eru það foreldrarnir. Við inngönguna til vinstri inn í miðju eru 3 litlar spírur og eru það börnin.



Alls eru 6 hellur á jörðinni í kringum miðjutréð sem hægt er að standa eða sitja á. Þær tengjast ýmsum birtingarformum efnis og anda en samkvæmt hefðinni erlendis frá þá er tengt við eina hellu í einu og byrjað á vinstri hönd frá inngöngunni í eftirfarandi röð. Steinavíddir/heimar, plöntuvíddir/heimar, dýraríkið, englavíddir, álfa- og hulduheimar og svo hið óendanlega/kosmíska. Ekki þarf að tengja við steinana sérstaklega frekar en hver vill og er hægt að fá sér sæti í miðju og íhuga. Margir ganga inn að miðju í leit að innri frið og ganga friðsælli aftur út sömu leið milli trjánna.



Seinasta árið hefur staðurinn fengið margar góðar heimsóknir og sem dæmi fékk miðjutréð gjöf, nánar tiltekið vökvun með vatni frá 500 helgum stöðum í heiminum. Eftir orkumælingar shamans sem heimsótti staðinn er miðjan og staðurinn í frekar hárri hz tíðni í líkingu við staði eins og Stonehenge ofl. þekktra staða sem fólk heimsækir í helgum tilgangi.


Góð hugmynd er að faðma trén á leiðinni eða þakka þeim fyrir í huganum.


Guðrúnu Thors, verkefnakona.


Arnbjörg Konráðsdóttir,

verkefnakona og höfundur mynda og texta.



239 views0 comments

コメント


bottom of page