top of page

Kaldi geitahirðir og sigurför kaffis

Lengi hefur verið samgangur milli Austur-Afríku og Suður-Arabíu yfir Rauðahafið. Þar sem það er þrengst er það ekki nema um 40 km. Návígið hafði áhrif á samfélög beggja vegna hafsins og reyndar alveg stórkostleg, örvandi áhrif á heimssöguna. Öfugt við marga stórviðburði komu hvorki konungar né hermenn við þessa sögu.

Þessi heimssögulegi viðburður varð þegar kaffibaunir voru fluttar í fyrsta skipti yfir Rauðahafið frá Eþíópíu til Jemen. Fyrir það getum við verið þakklát því þarna var grunnurinn lagður af heimsyfirráðum kaffisins. Nú er svo komið að milljónir manna um allan heim byrja dag hvern á að drekka kaffi.


Ber á kaffirunna og glansandi græn, gagnstæð blöð. Myndin er frá Wikipediu.


Villt kaffi

Í suðvestur hluta þess landsvæðis sem við nú köllum Eþíópíu, en hefur meðal annars verið kölluð Abbesinía, er mikil háslétta með háum fjöllum, eins og kunnugt er. Þar eru miklir skógar. Þar hefur lengi vaxið villt ein plöntutegund sem hefur trjákenndan stofn eða stofna og sígræn, glansandi, gagnstæð og vaxkennd blöð. Þetta er lítið tré eða stór runni og getur orðið um 9-12 metrar á hæð. Best þrífst plantan í skugga stærri og meiri trjáa í skóginum. Planta þessi myndar smágerð, hvít blóm sem lykta vel. Ef allt gengur vel þroskast í blóminu lítið ber. Það er fyrst grænt og verður síðan rautt eða rauðleitt þegar það þroskast. Í hverju beri eru tvö fræ. Við köllum þau kaffibaunir þótt strangt til tekið séu þau ekki baunir. Enginn veit með vissu hvenær eða hvernig maðurinn uppgötvaði þessa gjöf náttúrunnar. Litlu fræin bera með sér undraverða eiginleika þó þau líti ekki merkilega út. Við vitum ekki einu sinni hvaða þjóð eða þjóðarbrot á hálendi Eþíópíu áttaði sig fyrst á gagnseminni.


Ilmandi blóm á kaffirunna. Myndin er frá Wikipediu.

Þjóðsagan

Til er þjóðsaga sem segir til um hvernig maðurinn uppgötvaði mikilvægi kaffitrésins. Í fyrsta þætti sínum um sögu Eþíópíu í þáttaröðinni Í ljósi sögunnar segir Vera Illugadóttir (2020) frá henni.

Sagan segir að einhvern tímann á 9. öld hafi geitahirðir nokkur af þjóð Úrúnóa, sem er hirðingjaþjóð sem lengi hefur flakkað um sunnanverða Eþíópíu, veitt athygli ákveðinni hegðun geita sinna. Geitahirðir þessi hét, samkvæmt sögunni, Kaldi. Hefur það nafn ekkert með bjór að gera. Kaldi sá að geiturnar sem hann gætti virtust öllu hressari en vanalega er þau höfðu tuggið lauf og rauðleit ber á plöntu nokkurri sem óx þarna á hálendinu. Ekki nóg með það. Geiturnar beinlínis stukku um af kæti eftir berjaátið. Minnti það helst á villtan dans. Þetta þótti geitahirðinum svo merkilegt að hann ákvað að prófa berin sjálfur. Hann áttaði sig á því að þegar hann hafði tuggið og borðað nokkur ber hresstist hann allur við og varð miklu kvikari og frjórri í hugsun. Hann fann að hér hafði hann eitthvað alveg sérstakt í höndunum. Sumar sagnir herma að þetta berjaát geitahirðisins hafi fengið hann til að semja ljóð og syngja og dansa af tómum fögnuði með geitunum sínum.

Einhverjir hafa bent á að maður þurfi reyndar að innbyrða heil ósköp af berjum kaffiplöntunnar til að finna fyrir einhverjum örvandi áhrifum í líkindum við þau sem við fáum af einum, sterkum morgunbolla. Hversu mörg ber þarf að tyggja til að taka upp á því að dansa eins og stökkvandi geit er með öllu óþekkt. Berin sjálf hafa reyndar takmörkuð áhrif. Það eru fræin, sem inni í þeim eru.

Kaffiberjatínsla í Eþíópíu. Myndin fengin héðan.


Þessi saga er til í nokkrum útgáfum (t.d. Thomas 2023). Nær alltaf heitir hirðirinn samt Kaldi en misjafnt er af hvaða þjóð hann er. Einnig er óljóst, samkvæmt sögunum, hvað gerist næst (Wells 2010). Fer það gjarnan eftir því hverrar trúar menn eru sem segja söguna. Annaðhvort fór Kaldi í næstu kirkju eða í næstu mosku og kynnti runnann fyrir andans mönnum, sem fengu þá snjöllu hugmynd að rista fræin. Í sumum útgáfum er trúarbrögðunum haldið utan við söguna og stundum er það faðir Kalda sem fyrstur manna hóf ræktun á kaffi. Það er þó langur vegur frá því að narta í nokkur þroskuð ber og að búa til gómsætt kaffi. Við getum samt ímyndað okkur samtal þeirra feðga af Úrúnóaþjóð til að sjá hvernig þetta gæti hafa gengið fyrir sig.


Skógar í Eþíópíu. Í þeim eru til villtir kaffirunnar. Myndin fengin héðan.


Tilgátusaga

Einu sinni var bóndi einn á hálendi Eþíópíu. Við skulum segja að hann hafi verið kallaður Einstakur. Sonur hans, geitahirðirinn Kaldi, hafði kynnt kaffiberin fyrir honum en nú var Einstakur kominn með nýja hugmynd.

Kaffidrykkja undirbúin í Eþíópíu. Myndin fengin héðan.

Einstakur: Nú er ég búinn að planta þessum kaffirunnum í heilan akur! Kaldi: Til hvers? Einstakur: Vegna þess að ég ætla rækta kaffi!! Kaldi: Getur þú sagt mér nánar frá því, faðir sæll? Einstakur: Ég ætla að láta kaffirunnana blómstra og bera ber! Kaldi: Ég skil. Ætlar þú að borða berin? Einstakur: Nei, mér þykja þau ekki góð. Ég ætla að hirða fræin úr þeim. Kaldi: Ætlar þú þá að borða fræin? Einstakur: Nei, nei. Ég ætla að rista þau þar til græn fræin verða svarbrún á litinn. Kaldi: Ætlarðu þá að borða ristuð fræ kaffirunnans? Einstakur: Nei, ég ætla að mala þau. Kaldi: Já, ég skil. Svo þú getir bakað eitthvað gott úr þeim? Einstakur: Nei, það er vonlaust að baka úr muldum, ristuðum kaffibaunum. Kaldi: Hvað ætlar þú þá að gera við kaffiduftið? Einstakur: Ég ætla að hella yfir það sjóðandi vatni! Kaldi: Verður þá hægt að borða sullið, eða þarf að matreiða það eitthvað frekar? Verður þetta eitthvert deig? Einstakur: Nei, næst ætla ég að sigta sullið. Kaldi: Hvað ætlar þú að gera við blautar, brenndar og malaðar kaffibaunir þegar þú hefur sigtað þær? Einstakur: Ekki neitt. Ég ætla að henda þeim og kalla þær kaffikorg. Kaldi: Nei, hættu nú alveg. Til hvers ertu eiginlega að þessu? Einstakur: Ég ætla að drekka vökvann sem verður eftir. Kaldi: Nei, nú er ég hættur að botna neitt í þér. Þetta verður ekkert nema vesen og engin framtíð í þessari vitleysu. Ég fæ mér frekar geitamjólk.

Hér má finna lýsingu á Wikipediu á kaffivinnslu fyrir þá sem vilja kynna sér það ferli nánar.

Nýspíraðar kaffibaunir. Myndin fengin héðan.


Upphaf útbreiðslunnar

Sennilega varð þetta samtal hér að ofan aldrei til, enda kunna Úrúnóar sjaldan neitt í íslensku. Þótt Kaldi geitahirðir af ætt Úrúnóa hafi, samkvæmt sögunni, verið fyrstur til að átta sig á eiginleikum kaffis urðu straumhvörf í kaffiframleiðslu löngu síðar. Á hálendi Eþíópíu var hefðin lengi vel sú að tyggja kaffibaunirnar hráar til að njóta áhrifanna. Hvernig, hvar eða hvenær í ósköpunum einhverjum datt annað framleiðsluferli í hug, er með öllu óþekkt. Það er ekki einu sinni víst að það hafi gerst í Eþíópíu, heimalandi kaffisins. Kemur þar til, eins og áður er getið, að Rauðahafið var lengi eins og þjóðbraut til suðurhluta Arabíu. Þar hafa skip lengi siglt þvers og kruss. Það er miklu sjaldgæfara að ganga yfir það þurrum fótum.

Kaffi. Myndin er fengin héðan þar sem talað er um kaffifíkn.


Talið er að skipuleg ræktun kaffirunna hafi ekki hafist í Eþíópíu, heldur handan Rauðahafsins. Líklegast voru það íslamskir kaupmenn sem fluttu kaffibaunirnar til Jemen. Í frjósömum jarðvegi fjallanna þar í landi er talið að hin fyrsta almenna kaffirækt hafi hafist. Frá Jemen barst síðan kaffið, brennt og bruggað, um allan hinn íslamska heim og þaðan til gjörvallrar heimsbyggðarinnar. Hafi múslimar ævarandi þökk fyrir það. Mun það hafa verið svo snemma sem á 16. öld sem „arabavín“ eins og kaffið var kallað þá, var kynnt fyrir Evrópubúum (Wells 2010, Ragnheiður 1982). Lengi vel var borgin Mocha í Jemen miðstöð útflutningsins. Er það nafn sem allir, sannir kaffidrykkjumenn þekkja, enda hefur nafn borgarinnar lengi lifað í tengslum við kaffirækt og tiltekinn kaffidrykk.

Kaffiakrar í fjöllunum í Jemen. Myndin fengin héðan úr grein eftir Shruti Arun. Takið eftir steinandlitinu sem brosir yfir akrinum.

Þannig misstu heimamenn í Eþíópíu af heiðrinum af því að breiða út fagnaðarerindi sinnar eigin undraplöntu. Svo kirfilega tókst íbúum á Arabíuskaganum að eigna sér plöntuna að á latínu er hún kennd við Arabíuskagann. Til eru fleiri tegundir af kaffirunnum og verður um þær fjallað í seinni pistli okkar um kaffirækt.


Margar aldir liðu áður en skipuleg kaffirækt hófst í Eþíópíu. Á síðari árum hafa Eþíópíumenn endurheimt sess sinn sem kaffiræktarþjóð meðal þjóða. Nú er kaffi meðal mikilvægustu útflutningsvara Eþíópíu og kaffið þaðan nýtur mikillar virðingar meðal kaffiþyrstra nautnaseggja. Samkvæmt Shostak & Bentley (2023) stendur kaffi fyrir fjórðungi útflutningstekna íbúa Eþíópíu.


Græn, gagnstæð og glansandi blöð á Coffea arabica ásamt berjum.


Koffín

Mikki mús þarf að sjálfsögðu að fá sér kaffi til að koma sér í gang. Myndin fengin héðan en hana á Pamela Mata

Það sem gerir kaffi svona vinsælt, fyrir utan bragðið, er hið örvandi efni; koffín, sem baunirnar framleiða. Berin og laufblöðin framleiða líka koffín en í miklu minna mæli en fræin. Má nefna að te framleiðir mun meira koffín í sínum blöðum en kaffið (Wells 2010). Margar aðrar tegundir runna framleiða einnig koffín í laufum sínum og er talið að það eigi að vera vörn gegn skordýraáti. Koffín leggst á taugakerfi dýra. Svo eru til tegundir af kaffiættkvíslinni, Coffea spp., sem framleiða ekki koffín. Fáum dettur í hug að rækta þær til manneldis.


Samkvæmt áðurnefndri þjóðsögu um geitahirðinn Kalda voru það prestar (breytir engu hvort þeir voru kristnir eða múslimar) sem fóru fyrstir að drekka kaffi. Var það gert til að halda þeim vakandi að næturlagi, ef á þurfti að halda. Örvandi áhrif kaffis hafa því lengi verið þekkt. Árið 1573 lýsti þýski grasafræðingurinn og landkönnuðurinn Leonard Rauwolf áhrifum kaffis sem „sérlega líflegum“. Hann sagði einnig að Tyrkirnir (sem þá var víðara hugtak en síðar varð) drykkju þennan drykk opinberlega án þess að óttast að til þeirra sæist. Þannig hefur það ekki alltaf verið. Á ýmsum tímum hefur kaffidrykkja verið bönnuð, bæði af múslimum og kristnum mönnum. Hámarki náði það bann sennilega í Konstantínópel þegar sett var í lög að kaffidrykkjufólk skyldi vera sett í poka og hent í sjóinn (Wells 2010). Lengi vel bannaði eþíópíska kirkjan kaffineyslu í hvaða formi sem var. Líklegt er að hræðslan við kaffidrykkju meðal kristinna manna þar í landi eigi sinn þátt í því að í Jemen hófst kaffiframleiðsla fyrir alvöru en ekki í Eþíópíu. Í því sambandi má geta þess að eþíópíska kirkjan er talin vera næst elsta ríkiskirkja í heimi. Aðeins armenska kirkjan er talin eldri (Vera 2020). Þótt elstu skrif Evrópubúa um kaffi séu frá 16. öld eru til eldri heimildir um kaffi frá Arabíu. Ragnheiðar Viggósdóttur sagði frá því í erindi árið 1982 að elstu rituðu heimildirnar um kaffi séu arabískar og meira en þúsund ára gamlar. Svipaða sögu segir Thomas (2023) í sínum hlaðvarpsþætti.

Tilhlökkun þessara karla í Jemen leynir sér ekki þegar þeir hella upp á kaffi. Myndin fengin héðan úr grein eftir Shruti Arun.


Útbreiðsla í Evrópu

Þegar fjallað er um útbreiðslu kaffis má annars vegar fjalla um drykkinn og hins vegar plöntuættkvíslina. Almennt má þó fullyrða að veðurfar í Evrópu hentar illa til kaffiframleiðslu svo óþarfi er að eyða tíma í þann hluta.


Á miðöldum þekktist kaffi varla í Evrópu. Á árunum 1535 til 1605 var kaffið farið að berast til kristinna þjóða álfunnar og var þá talið munaðarvara. En fyrir þann tíma þekktu Evrópubúar drykkinn bara af afspurn og töldu hann heiðingjadrykk. Þá skoruðu margir klerkar á Klement páfa VIII (1536 – 1605, páfi frá 1592) að leggja bann við notkun þess. Páfi vildi þó fá að takast á við þennan dímon og bragða drykkinn áður en hann bannfærði hann. Er hann hafði bragðað á honum er mælt, samkvæmt Ragnheiði Viggósdóttur (1982), að hann hafi hrópað: „Þessi Satansdrykkur er svo dásamlegur að það væri synd að láta heiðingjanna sitja eina að honum“. Hann venti því sínu kvæði í kross (mjög viðeigandi orðanotkun um páfa) og í stað þess að bannfæra kaffið, þá blessaði hann það. Upp frá því vann kaffidrykkja verulega á við hirð konunga í Evrópu en var aðeins á færi ríka fólksins.


Stytta af Klement VIII. í Róm. Myndin fengin frá alfræðiriti Britannica. Sennilega er hann ekki að blessa kaffi á myndinni.


Í Evrópu varð kaffidrykkja nokkuð almenn er líða tók á sautjándu öld. Kaffihús urðu þá vinsæl um nánast alla álfuna og smám saman fór almenningur að neyta þess. Skáld, rithöfundar og tónskáld fóru að lofa drykkinn og prísa. Sem dæmi má nefna Kaffikontentu eftir Johann Sebastian Bach (Wells 2010, Ragnheiður 1982). Hér má hlusta og horfa á flutning hennar. Upptakan er frá 1984 og þar fer sópransöngkonan Janet Perry á kostum.

Mörgum mektarmanninum þótti mikil skömm af kaffihúsum og því sem þar fór fram, enda var víst allskonar starfsemi í þessum húsum sem ekki þótti til fyrirmyndar og er almennt ekki tengd nútíma kaffihúsum. Var verslað með allskonar varning og þjónustu í þessum húsum og meðal annars var víða hægt að leigja sér aðgang að kvenholdi þegar menn voru orðnir hressir af drykkjunni (Wells 2010). Napoléon Bonaparte var mikill kaffidrykkjumaður. Kona hans, Joséphine, ólst upp á kaffiplantekru á eyjunni Martinique. Almennt er álitið að á þeirri eyju hafi kaffirækt fyrst verið stunduð á vesturhveli jarðar. Þau gerðu sitt til að auka kaffineyslu í Frakklandi. Að hluta til var það liður í að búa til menningu sem væri ólík enskri menningu en eins og kunnugt er drekka margir Englendingar frekar te en kaffi. Þegar keisaraveldi Napléons hrundi hélt kaffidrykkjan áfram í Frakklandi. Sagt er að á banasænginni hafi hinn útlægi keisari beðið um „þó ekki væri nema teskeið af kaffi“. Læknir hans neitaði þeirri lokabón (Wells 2010).


Kaffi hefur verið mörgum teiknurum hugleikið.


Welss (2010) segir í sinni bók frá nokkrum fleiri frægum kaffidrykkjumönnum. Má þar nefna grasafræðinginn Linnaeus hinn sænska, sem varaði þó við of mikilli drykkju og tónskáldið Ludwig van Beethoven. Hann vildi nota 60 baunir í hvern bolla. Ragnheiður (1982) bætir við nafni franska heimspekingsins Voltaire. Sagt er að hann hafi drukkið að jafnaði 50 bolla af kaffi á dag. Ef það er satt kemur það minna á óvart hversu atburðarrásin er hröð í Birtingi, sem Halldór Laxness þýddi.Frekari útbreiðsla

Þegar kaffidrykkja færðist út um stóran hluta heimsins með evrópskum nýlenduherrum leið ekki á löngu þar til fleiri þjóðir fóru að framleiða kaffi. Í lok 18. aldar voru Hollendingar, Frakkar og Bretar farnir að rækta kaffi í nýlendum sínum þar sem loftslag hentaði. Að jafnaði voru þrælar notaðir við þá ræktun (Wells 2010).


Í Vesturheimi er talið að kaffirækt hafi hafist á eyjunni Martinique. Eins og áður greinir var Joséphine Bonaparte alin upp á þeirri eyju. Kaffi fór ekki að vera almenn neysluvara í Evrópu fyrr en farið var að rækta kaffi í vestan Atlantshafs. Þá lækkaði verðið svo almenningur hafði efni á drykknum.


Sagan segir að Frakkinn Gabriel de Clieu hafi verið fyrstur til að flytja kaffi til Vesturheims. Hann skipti vatnsskammti sínum jafnt á milli plantnanna og sín. Stór hluti kaffiplantna í Ameríku mun vera frá þessum plöntum kominn (Ragnheiður 1982). Um de Clieu má fræðast hér.


Uppreisn Bandaríkjanna gegn yfirráðum Breta tengdist líka kaffidrykkju. Eins og allir vita er ensk menning tengd órjúfanlegum böndum við tedrykkju. Því þótti það alveg sérlega góður vottur um þjóðernishyggju að hætta að drekka te en snúa sér að kaffi þess í stað (Wells 2010). Frægt er þegar heimamenn hentu heilu skipsförmum af tei í höfnina í Boston í desember árið 1773. Ruddi sá gjörningur brautina fyrir kaffidrykkju í Bandaríkjunum. Í bandarísku borgarastyrjöldinni (1861-1865) jókst kaffidrykkja mjög. Þá þótti alveg bráðsnjallt að gefa hermönnum umtalsvert magn af kaffi til að örva og hressa andann í blóðbaðinu. Þessi siður fylgdi svo bandarískum hermönnum í báðum heimsstyrjöldunum á 20. öld. Í kjölfar þeirra beggja jókst kaffiinnflutningur Bandaríkjamanna til Evrópu af Suður-Amerísku kaffi (Thomas 2023).

Nú um stundir er kaffi ræktað víða í heiminum. Einkum eru það í Mið- og Suður-Ameríka, eyjunum í karabíska hafinu og víða í Afríku. Brasilía er nú mesta kaffiframleiðsluríki heimsins. Meira um það í næsta pistli.


Kaffi á Íslandi

Þann 17. ágúst 1982 birti Ríkisútvarpið þátt um kaffi í þáttaröðinni Man ég það sem löngu leið í umsjón Ragnheiðar Viggósdóttur. Þessir þættir hafa verið endurfluttir. Hér að ofan hefur verið vísað í þann pistil.

Í inngangi þáttarins segir Ragnheiður að pistlinum sé ætlað að verða „eins konar lofgjörðaróður til kaffisins“. Það sést meðal annars á nafni pistilsins. Hann heitir: Kaffisopinn er indæll. Það sem hér er sagt um upphaf kaffidrykkju Íslendinga er úr þessum pistli.


Á öllum viðburðum Skógræktarfélagsins er boðið upp á skógarkaffi eða ketilkaffi. Mynd: Sigríður Hrefna Pálsdóttir.


Ekki er vitað fyrir víst hvenær kaffi barst fyrst til Íslands. Samkvæmt Ragnheiði (1982) gæti það sem best verið í tíð Jóns Árnasonar (1665-1743) sem varð biskup yfir Íslandi frá 1722 til dauðadags. Segir Ragnheiður frá því í útvarpserindinu að svo sé mælt að hann hafi veitt höfðingjum kaffi á Alþingi og hafi þess verið neytt með skeið. Síðar kom kaffi til landsins með þeim félögum Eggerti Ólafssyni og Bjarna Pálssyni. Þeir höfðu kynnst kaffi í Danmörku og hafðu það með sér á ferðum sínum um landið er þeir skrifuðu Jarðabókina frægu. Mælt er, að sögn Ragnheiðar, að um 1780 hafi prestar almennt verið farnir að drekka kaffi hér á landi. Því virðist ljóst að kaffi breiddist nokkuð hratt út um landið.

Mánaðarlegur innflutningur á kaffi til Íslands eftir tollskrárnúmerum árið 2022 samkvæmt tollskrá. Mest er flutt inn af brenndu kaffi í <= 2 kg umbúðum (samtals 1.351.785 kg á árinu eða tæplega 1352 tonn) og næst mest af óbrenndu kaffi (846.293 kg). Heimild: Hagstofa Íslands.


Framtíðin

Þetta er fyrri pistillinn af tveimur um kaffi og kaffirunna. Í síðari pistlinum, sem birtist eftir viku, verður fjallað nánar um mismunandi tegundir kaffirunna og um framtíð kaffiræktunar í heiminum.Heimildir:Ragnheiður Viggósdóttir (1982): Kaffisopinn er indæll. Úr þáttaröðinni: Man ég það sem löngu leið. https://www.ruv.is/utvarp/dagskra/ras1/2023-02-19/5287896 Ríkísúrvarpið 17. ágúst 1982, endurflutt 19. febrúar 2023.


Seth Shostak & Molly Bentley (2023): Big Picure Sciencs. The Seriously Hibster Bean is Coffee´s Best Hope for Survival. https://open.spotify.com/episode/6kpJinIFVH5rPoHIn66NE2?si=4ohANkWTSi2PkM_hc3i0AA Prodcasteþáttur frá 30. janúar 2023.


Thomas (2023) My Favorite Trees þáttur nr. The Coffee Tree. Sjá: https://open.spotify.com/episode/0yuj0pdxvQ5tBzKN5fZ65I?go=1&sp_cid=aa2b535fc92461853e1d45a703f97aab&utm_source=embed_player_p&utm_medium=desktop&nd=1 Prodcasteþáttur frá 10. janúar 2023.


Vera Illugadóttir (2020): Í ljósi sögunnar, Eþíópía 1. https://www.ruv.is/utvarp/spila/i-ljosi-sogunnar/23795/7hqkqd Hlaðvarpsþáttur í Ríkisútvarpinu frá 27. nóvember 2020.


Diana Wells (2010) Lives of the Trees. An Uncommon History. Algonquin Books of Chapel Hill. Chapel Hill, North Carolina.


Wikipedia (án ártals) Coffee. https://en.wikipedia.org/wiki/Coffea Sótt 20.02.2023.

Í netheimildr við myndir og töflu er vísað beint í texta.

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page