Fjölmargar trjátegundir er að finna í íslenskum skógum. Sumum þeirra er plantað til að framleiða við, binda kolefni eða til skjólmyndunar á meðan öðrum er plantað til skrauts og yndisauka. Oftast fer þetta saman. Höfum við í pistlum okkar fjallað um allskonar tré út frá fjölbreyttum sjónarhornum.
Nú skoðum við eitt af algengari trjám í íslenskri skógrækt. Gengur tegundin undir nafninu stafafura eða Pinus contorta. Tegundin hefur verið hér í ræktun frá 1940 þegar fyrstu furunum var plantað í Atlavíkurstekk á Hallormsstað af kvæmi sem kallast Smithers (Hákon Bjarnason, 1978). Í gegnum tíðina hafa ýmiss nöfn verið notuð á þessa furutegund. Slíkt getur valdið allskonar misskilningi og sem betur fer erum við fyrir löngu búin að sættast á ljómandi fínt nafn. Tréð heitir stafafura og engin ástæða til að breyta því.
Í þessum pistli segjum við frá öllum þeim nöfnum sem við höfum heyrt og séð sem reynt hefur verið að nota yfir þetta tré.

Á hverju ári gefst almenningi tækifæri til að ná sér í jólatré í skóginn á Laugalandi á Þelamörk. Stafafuran er vinsælust. Mynd: Sig.A.
Pinus contorta
Fræðiheiti stafafurunnar er Pinus contorta. Almennt má segja um latínuskotnu fræðiheitin að gott getur verið að kunna skil á þeim. Það er alveg sama hvaða tungumál við lesum, fræðiheitið er alltaf það sama. Eða þannig á það að vera. Því getur það hjálpað okkur að þekkja nöfnin eða að kunna að nota þau til að finna íslensk nöfn á tegundirnar og upplýsingar á erlendum síðum.
Fyrri hluti fræðiheitisins vísar til furuættkvíslarinnar; Pinus. Allar furur í heiminum heita Pinus eitthvað. Viðurnafnið, sem er seinni hluti heitisins, er contorta. Það merkir snúin(n). Ef við vildum þýða latínuheitið beint yfir á íslensku mætti furan heita snúningsfura. Það nafn hefur hvergi rekið á okkar fjörur.
Orðið contorta vísar í það að algengt er á meginlandsafbrigði stafafurunnar, Pinus contorta var. latifolia, að barrnálarnar séu nokkuð snúnar. Strandafbrigði stafafurunnar (Pinus contorta var. contorta) hefur ekki eins snúnar nálar en það hefur oft mjög snúnar greinar, svo snúningsnafnið getur líka vísað í það.
Fyrst við erum búin að skýra latínuheitið er rétt að taka frekari snúning á því.

Sjálfsánar stafafurur ásamt einu lerki í skógarrjóðri. Svo er að sjá sem þarna sé um tvo meginatburði að ræða. Sennilega tilheyrir furan að mestu tveimur árgöngum. Mynd: Sig.A.
Strandfurur og innlandsfurur
Tvö afbrigði, sem sumir telja undirtegundir, eru ræktuð á Íslandi. Afbrigði þessi eru oftast nefnd strandafbrigði, Pinus contorta var. contorta og innlandsafbrigði eða meginlandsafbrigði, Pinus contorta var. latifolia. Í þessum pistli sleppum við því að ræða um þriðja afbrigðið, Pinus contorta var. murrayana. Áhugasömum lesendum er bent á þennan pistil ef þeir vilja fræðast um muninn á þessum afbrigðum og þróun þeirra.
Stundum, þegar ætla má að engin hætta sé á ruglingi, hefur skógræktarfólk talað um strandfurur og innlandsfurur. Þau orð eru ekki notuð sem tegundarheiti heldur sem nöfn yfir tvo ólíka hópa af stafafuru. Bæði strandfurur og innlandsfurur eru stafafurur. Orðin vísa bara í hvar þær er að finna á heimaslóðum og hvar heppilegast sé að rækta þær. Ef til vill er þetta sambærilegt og að tala um framherja og varnarmenn í sama fótboltaliðinu. Þeir geta sem best báðir verið Haukamenn, þótt annar sé framherji og hinn varnarmaður.

Varnarmenn og sóknarmenn í Haukabúningum fagna marki í útlöndum. Myndin fengin héðan þar sem því er haldið fram að búningurinn tilheyri ensku liði frá Bítlaborginni.
Kontortafura
Stundum hefur það gerst að trjátegundir hafa fengið íslensk heiti með því að gera latínuheitin íslenskuleg. Þannig varð til heitið kontortafura. Slík nöfn verða sjaldan langlíf í íslensku en hverfa þegar betri nöfn koma fram. Meðal svona nafna má nefna júkalyptus fyrir ættkvíslina Eucalyptus og nokkur önnur sambærileg nöfn. Stundum lifa slík nöfn lengur í tali manna en í rituðum heimildum. Þannig tala sumir ennþá um þújur eða tújur í stað lífviða, en ættkvíslin nefnist Thuja á fræðimálinu. Í rituðum heimildum er miklu algengara að sjá hið ágæta nafn lífviður en þújur. Um þessa nafngift er meðal annars fjallað hér. Til eru fleiri dæmi um að fræðileg viðurnefni séu löguð að íslensku og rati þannig á tegundir. Þetta er sjálfsagt af sama meiði og þegar tökuorð eins og jepp eru íslenskuð svo úr verður jeppi. Stundum eru hljóðlíkingar notaðar til að búa til orð sem hafa allt aðra merkingu. Má sem dæmi nefna meyjarós sem kallast Rosa moyesii á fræðimálinu.
En aftur að kontortafurunni.
Á Norðurlöndum hafa sambærileg heiti verið brúkuð yfir stafafuru. Íðorðabanki Árnastofnunar segir okkur að á finnsku kallist stafafuran kontortamänty. Þrátt fyrir ákaflega takmarkaða finnskukunnáttu þess er þetta ritar, þá áttar hann sig á fyrri hluta orðsins. Sambærilegt orð er til í sænsku. Myndin hér að neðan er af sænskri síðu þar sem stafafuran er kölluð Contortatall. Tall er sama orðið og þöll á íslensku. Það merkti upphaflega fura og er enn notað þannig í sænsku. Upphaflega merkingin sést einnig í orðinu þallarætt sem notað er yfir Pinaceae. Þrjú dæmi finnast um notkun orðsins kontortafura á tímarit.is. Það elsta frá 1952 en það yngsta frá 1956. Ári síðar kom orðið stafafura fyrst á prent og þá hvarf þetta orð algerlega úr prentmiðlum.

Þessi stafafura í Svíþjóð er greinilega innlandsafbrigði hennar. Myndin fengin héðan þar sem tegundin er kölluð Contortatall. Mynd: Björn Svensson/SKOGENbild.
Lodgepole pine
Vestur í Ameríkuhreppi er stafafuran kölluð þessu nafni. Stundum er fyrra orðinu skipt upp og ritað sem lodge pole. Einkum á þetta nafn við um innlandsafbrigðið P. contorta var. latifolia. Það afbrigði stafafurunnar eru gjarnan með granna og beina stofna sem getað hentað prýðilega sem stoðir eða pole.
Í bókinni A Natural History of North American Trees (Peattie 2007) er sagt frá þessari nafngift. Þar kemur fram (bls. 70 og áfram) að nafnið sé dregið af því hvernig frumbyggjar í Klettafjöllunum nýttu tréð. Þeir hjuggu granna stofnana í um það bil þriggja til fimm metra langa stólpa og barkarflettu þá. Þá voru þeir ekki nema um 5 cm í þvermál. Þetta gerðu þeir á sumrin og létu stofnana liggja og veðrast yfir veturinn. Næsta vor náðu þeir í þessa „stafi“ eða „rafta“ og þá höfðu þeir þornað og voru mjög léttir og meðfærilegir en samt sterkir miðað við þyngd og næstum ómögulegt að kljúfa þá. Þessir stofnar voru meðal annars notaðir sem burðarvirki í barkarklædd hús og sléttuþjóðirnar ferðuðust langar leiðir til að ná í svona stofna og nota sem stoðir í sín frægu tjöld.

Barkarhús eða wigwam hjá Ojibwe þjóðinni. Spýturnar væntanlega úr stafafuru eins og hefðin mælir fyrir um. Málverk frá 1846 eftir Paul Kane. Myndin er héðan.
Þessir stofnar voru einnig nýttir til flutninga. Þeir voru bundnir aftan í hesta (þegar þeir komu) eða hunda sem drógu þá á eftir sér eins og hjólalausa sleða. Oft kom það í hlutverk kvenna að draga slíka „sleða“ ef engir voru hundarnir.
Peattie (2007) segir líka frá því að þegar bleiknefjarnir komust í tæri við þessi tré voru þau gjarnan nýtt í girðingar og í stoðir húsa. Seinna voru þau einnig nýtt sem rafmagns- og símastaurar. Einnig voru stofnarnir nýttir sem stoðir í námugöngum og margt fleira.
Þess vegna eru þessar furur kallaðar lodgepole pine á ensku.

Flutningagrindur bundnar við hest og að baki sést í dæmigerð tjöld. Hefðin mælir með stafafuru í hvoru tveggja. Myndin er héðan en þar má sjá fleiri myndir af þessum flutningsmáta.
Orðin lodgepole pine hafa oft ratað í íslensk blöð og tímarit. Oftast er það í ritum sem gefin eru út á ensku eins og The White Falcon, eða að gefin eru upp ensk heiti á tegundinni innan sviga á eftir því íslenska. Stundum er eins og ætlast sé til að lesendur þekki enska heitið. Það gæti bent til þess að í upphafi ræktunar á stafafuru á Íslandi hafi enska heitið verið notað manna á meðal áður en hún hlaut nafn á íslensku.
Indíánafura
Einn af frumkvöðlum skógræktar í Eyjafirði var Eiríkur Hjartarson á Hánefsstöðum. Hann hóf skógrækt á Hánefnsstöðum árið 1946. Eiríkur hélt dagbók í árdaga skógræktar og segir þar frá gróðursetningum og árangri starfsins. Eiríkur hafði engan reynslubanka til að sækja í og því þykir okkur nútímamönnum stundum dálítil bjartsýni í því sem hann reyndi. En smám saman aflaði hann sér reynslu og árangur hans er nú sýnilegur. Eitt árið skrifaði hann í dagbók sína: „Gróðursetti 800 thujur sem allar eru nú dauðar. Indíánafura virðist hins vegar þrífast prýðilega. Þarf að útvega meira fræ af henni“ (Ingólfur 2024).
Það kemur ef til vill ekki á óvart að thujan, sem við nú köllum lífvið, hafi gengið illa. Það er ættkvísl trjáa sem þarf gott skjól til að þrífast. Furan, sem hann kallar indjánafuru er að sjálfsögðu stafafura. Ef til vill hefur hann heyrt eitthvað af því hve gagnleg hún var frumbyggjum Norður-Ameríku eins og lesa má um hér að ofan. Orðið hefur ekki ratað inn á tímarit.is.
Tvær myndir af sömu sjálfsánu stafafurunni. Myndirnar sýna þroskaferil stafafuru yfir sumarið. Sú fyrri er tekin 18.06. 2017 en hin síðari 12.09. sama ár. Myndir: Sig.A.
Stafafura
Sagan um hvernig frumbyggjar Vesturheims nýttu þessa fururtegund barst að sjálfsögðu til Íslands. Orðið stafur getur haft margræða merkingu á íslensku. Orðið getur meðal annars merkt bjálki, stoð eða stólpi. Þessi merking sést til dæmis ágætlega í orðinu stafkirkja. Orðið er einnig notað í samsetningum eins og dyrastafur. Að auki getur orðið merkt bókstafur og stafprik.
Einhverjum snjöllum manni datt því hug að kalla furuna stafafuru. Það má líta á heitið sem þýðingu á enska heitinu en merkingin getur haft víðari skýrskotun. Ágúst H. Bjarnason (2024) benti okkur á að þegar heitið var valið var haft til hliðsjónar heiti yfir tré frá Eggerti og Bjarna. Þeir nefndu tiltekna eikartegund stafaeik. Þetta hafði Ágúst eftir föður sínum, Hákoni Bjarnasyni skógræktarstjóra. Líklegt er að það hafi einmitt verið hann sem stakk fyrstur manna upp á þessu heiti.
Önnur merking kann einnig að liggja þarna að baki. Það má líta á nafnið sem þýðingu á latínuheitinu contorta sem, eins og áður segir merkir snúin(n). Það má líka þýða það orð sem staflaga. Stafprik eru oft bogin í annan endann.

Þriggja ára drengur með stafinn hans afa síns sem er búinn til úr furu. Eins og vera ber er stafurinn staflaga og hentar prýðilega til að berjast með við skrímsli. Mynd: Sig.A.
Samkvæmt tímarit.is sást orðið fyrst á prenti þann 22. nóvember 1957. Þann dag birtist orðið bæði í Morgunblaðinu og Tímanum, en þá voru liðin 50 ár frá því að lög um skógrækt voru sett í landinu. Hákon Bjarnason kom nálægt báðum greinunum og rennir það frekari stoðum (hér væri ef til vill viðeigandi að segja stöfum) undir þá tilgátu að hann hafi smíðað orðið.

Bráðungar stafafurur í bökkum í ræktun hjá Sólskógum, sem er stærsti framleiðandi skógarplantna á Íslandi. Mynd: Sig.A.
Raft(a)fura
Á rannsóknastöð Skógræktar ríkisins, sem nú tilheyrir Landi og skógi, starfaði lengi vel maður að nafni Guðmundur Örn Árnason (1930-2010). Hann var ekki hrifinn af nafninu stafafura og notaði það ekki. Stakk hann upp á því að nota frekar nafnið raftfura og notaði það. Sumir hafa einnig notað orðið raftafura. Orðið er auðvitað þýðing á ameríska heitinu, rétt eins og heitið stafafura. Ef raftfura hefði komið fram á undan heitinu stafafura má vel vera að það hefði unnið sér þegnskyldurétt, en svo er ekki. Nú notar ekki nokkur maður þetta nafn nema til að heiðra minningu Guðmundar Arnar. Hvorki raftfura né raftafura hafa ratað inn á tímarit.is.
Guðmundur Örn á góðum degi. Myndin er fengin héðan en hana tók Einar Gunnarsson.
Andskotafura
Í Evrópu vex fura sem kallast skógarfura, Pinus sylvestris. Á enskri tungu er þessi fura kennd við Skota eða Skotland og kallast Scots Pine eða Scotch Pine. Sumir segja reyndar að þetta sé til heiðurs náttúrufræðingi að nafni Scott. En það er önnur saga. Íslenska heiti þeirrar tegundar er þýðing á latínuheitinu og þarf ekki að breyta því. Ef við vildum láta enskuna ráða þá héti skógarfuran væntanlega skotafura.
Stafafuran hefur fyrst og fremst borist til Íslands frá Skagway í Alaska. Það er eiginlega alveg hinum megin á hnettinum ef við miðum við Skotland. Þess vegna má réttlæta nafnið and-skotafura. Þetta voru rök húmoristans Guðmundar Halldórssonar fyrir þessu nafni þegar ýmsir fóru að andskotast út í stafafuru vegna þess að hún á það til að sá sér út fyrir skógræktargirðingar. Auðvitað ætlaðist Guðmundur ekki til þess að þetta nafn yrði ráðandi, en sagan er góð.
Sennilega kemur það ekki á óvart að orðið finnst ekki á tímarit.is.

Ungar skógarfurur, sem á ensku heita skotafurur, austur í Skriðdal. Furur sem eru andspænis skotafurum á hnettinum eru þá væntanlega andskotafurur. Mynd: Sig.A.
„Menningin vex í lundum nýrra skóga“
Stafafura er ein af þeim trjátegundum sem mest er plantað af á Íslandi, þótt vitanlega sé plantað miklu meira af birki. Sums staðar hefur henni tekist að auka kyn sitt og sá sér út. Sýnir það ágætlega að henni líður hér vel. Hér á hún heima og mun vera hér áfram. Þess vegna er full ástæða til að halda utan um sögur er tengjast henni og er þessi pistill hluti af þeirri viðleitni. Bæði furan og sögur sem henni tengjast eru partur af skógar- og menningarsögu Íslands. Því er við hæfi að fara með þetta erindi úr Aldamótunum eftir Hannes Hafstein.
Sú kemur tíð, er sárin foldar gróa,
sveitirnar fyllast, akrar hylja móa,
brauð veitir sonum móðurmoldin frjóa,
menningin vex í lundum nýrra skóga.
Að lokum viljum við færa öllum þeim er veittu okkur aðstoð við gerð þessa pistils okkar bestu þakkir. Þakkir fær einnig Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir fyrir vandaðan yfirlestur og þarfar ábendingar.
Heimildir:
Ágúst H. Bjarnason (2024): Munnleg heimild í gegnum Facebook þann 18. apríl 2024.
Donald Culross Peattie (2007): A Natural History of North American Trees. Trinity University Press, San Antonio, Texas.
Hákon Bjarnason (1978): Stafafura. Í: Ársrit Skógræktarfélags Íslands 1977 og 1978. Skógræktarfélag Íslands, Reykjavík.
Ingólfur Jóhannsson (2024): Munnleg heimild í gegn um Facebook þann 20. apríl 2024.
Í netheimildir er vísað beint í texta.
Comments