top of page

'Grænagata'

Updated: Oct 12, 2023

Í síðustu viku fjölluðum við lítillega um asparklóninn ´Randa´ sem er algengur á Akureyri og auðþekktur. Nú höldum við okkur á sömu slóðum og tökum fyrir annan asparklón sem er í ræktun í bænum og ólíkur öðrum öspum. Það er klónninn ´Grænagata‘ sem við veljum nú sem #TrévikunnarSE.


Við Grænugötu 4 hér í bæ er stór og mikil ösp. Hún er vel þekkt meðal ræktunarmanna og kennd við götuna. Í daglegu tali er hún kölluð Grænugötuöspin. Hún er af tegundinni alaskaösp sem lengst af hefur verið skrifað sem Populus tricocarpa á máli grasafræðinga. Nú eru konur farnar að líta á alaskaösp sem afbrigði balsamaspar. Þá er það skrifað Populus balsamifera ssp. trichocarpa á latínu. Þá mætti skrá fullt heiti þessa klóns sem Populus balsamifera ssp. trichocarpa ´Grænagata´. Þetta er vissulega nokkuð langt heiti svona í daglegu tali. Því skulum við bara kalla hana Grænugötuösp.


Þegar aspir eru ræktaðar í skógum er gjarnan sóst eftir hraðvaxta og beinum klónum sem gefa góðan við. Það verður að segjast alveg eins og er að Grænugötuöspin er hreint ekki þannig. Hún er vissulega mikil um sig og bindur heilmikið kolefni. En því fer fjærri að hún myndi aðeins einn beinan stofn. Það gerir þessa ösp frábrugðna flestum öðrum sem eru í ræktun. Tréð er stórvaxið og krónan fyrirferðamikil og marggreind. Það verður eiginlega egglaga með tímanum en vöxturinn framan af æfinni minnir á kertaloga. Þessi týpa getur hentað vel í stóra garða eða opin svæði og getur tekið sig mjög vel út í trjágöngum þar sem vaxtarlag hennar fær að njóta sín. Grænugötuöspin getur einnig hentað í sumarbústaðalönd og yndisskóga.


Meðfylgjandi eru tvær myndir. Önnur er af Grænugötuöspinni sjálfri í garðinum við Grænugötu 4. Hún er ættmóðir allra þeirra eintaka sem í ræktun eru. Hin myndin sýnir eina af fjölmörgum afkomendum hennar í bænum. Hún er dæmigerð fyrir afkomendurna sem finna má í bænum. Hvorug hefur einn, beinan stofn en vaxtarlagið er ólíkt öðrum öspum í ræktun.



Fyrri myndin sýnir móðurplöntuna. Alaskaösp sem stendur við Grænugötu. Hin sýnir afkomanda í miðbænum.


171 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page