top of page

Eldvarnir á útisvistarsvæðum

Updated: Apr 10, 2023

Gróðureldar eru ekki nýir af nálinni á Íslandi. Áður tíðkaðist að brenna sinu að vori sem partur af skipulögðum landbúnaði og eitthvað er það stundað ennþá en þarf nú að sækja um leyfi fyrir slíku til sýslumanns og uppfylla ýmis skilyrði. Skipulögðum sinueldum er stýrt og ekki kveiktir nema að veðurskilyrði séu hagstæð þannig að hægt sé að halda hættu í lágmarki.


"Af litlum neista verður oft mikið bál"

Ekki eru allir sinueldar eða aðrir gróðureldar skipulagðir. Ef skilyrði eru rétt þá getur lítill neisti orðið að miklu báli - svo vitnað sé í viðlag vinsæls dægurlagatexta þar sem ástinni er meðal annars líkt við sinueld.


"Ástin er eins og sinueldur. Ástin er segulstál. Af litlum neista verður oft mikið bál. ..." (höfundur texta Af litlum neista er Magnús Haraldsson).


Í samhengi gróðurelda þurfa aðstæður að vera réttar og það er ástæða þess að gróðureldar eru algengari að vori hér á landi en á öðrum árstíðum. Á vorin þegar snjóa hefur leyst en gróður ekki enn vaknaður er mikið af þurrum og visnuðum gróðri á sumum svæðum. Þetta eru kjöraðstæður fyrir neista að verða að báli. Bætum vorvindum glettnum við jöfnuna og summan verður hröð útbreiðsla ef nægur gróður er á svæðinu.


Gróðureldar í Norðurárdal í maí 2020. Mynd fengin af vef Skessuhorns.

Oft verður neistinn til af mannavöldum, stundum af kæruleysi þegar logandi sígarettu er kastað út í þurra sinu í vegarkanti, stundum hugsunarleysi þegar glóðheitt púströr ferðast yfir hávaxna sinu en stundum kviknar neisti af skringilegum ástæðum eins og þegar álft flaug á raflínu með þeim afleiðingum að það kviknaði í henni og hún hrapaði niður í sinu í nágrenninu og úr varð bál!


Slökkviliðsmenn á Suðurlandi slökkva sinueld. Myndin er fengin af vef Sunnlenska þar sem fréttin af áfltinni birtist í apríl 2015.

Forvarnir - enginn neisti!

Forvarnir ættu að vera í fyrirrúmi þegar kemur að gróðureldum. Auðvitað er til fyrirmyndar og nauðsynlegt að vera með áætlanir um hvernig eigi að bregðast við kvikni eldur á tilteknu svæði en hér sem í ýmsum öðrum þjóðþrifamálum ætti að reyna að byrgja brunninn áður en barnið fellur ofan í hann.


Fræðsla

Íslendingar eru ung skógarþjóð. Skógar ýta undir útivist og hreyfingu sem er vel og bætir lýðheilsu en við erum ekki enn orðin vön því að hugsa eins og skógarþjóðir á meginlandinu. Pistill eins og þessi getur vakið fólk til umhugsunar en svo ættu upplýsingaskilti að vera sýnileg á öllum fjölfarnari útivistarsvæðum. Skiltin gætu frætt um hvernig fara á með eld á öruggan hátt til að koma í veg fyrir að neisti verði að báli en einnig um hvernig á að bregðast við ef illa fer.


Aðstaða

Sveitarfélög, félagasamtök eða einkaaðilar sem hafa vinsæl útivistarsvæði á sínum snærum geta líka minnkað hættuna á að neisti hrökkvi í þurran gróður með því að beina fólki á ákveðin svæði þar sem búið er að huga að eldvörnum. Eldstæði sem stendur á miðjum malarpúða er öruggara en eldstæði sem stendur á grasbala svo dæmi sé tekið.


Amboð

Á þessum vinsælu útivistarsvæðum ættu verkfæri að vera aðgengileg svo hægt sé að bregðast við og slökkva litla elda áður en þeir breiðast út. Nálægt upplýsingaskiltinu gætu staðið sinuklöppur og dunkar með vatni og hvoru tveggja staðið nálægt stöðum þar sem vinsælt er að kveikja eld, við grillsvæði eða eldstæði.


Sinuklöppur í sumarbústaðahverfi. Félag húseigenda að Snæfoksstöðum í Árnessýslu hefur komið upp sinuklöppum víða um svæðið. Mynd tekin af vef Grímsnes- og Grafningshrepps.

Þau sem vilja fræðast enn frekar er bent á síðuna grodureldar.is. Þar má til að mynda lesa um hvaða trjátegundir henta sem eldvarnarlínur í skógum og ekki ólíklegt að um þær verði fjallað í sérstökum pistli hér á síðunni áður en langt um líður.

85 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page