top of page

Einkennistré Kænugarðs: Каштан

Updated: Apr 10, 2023

Í fornum sögum er sagt frá borginni Kænugarði sem í erlendum fjölmiðlum er nefnd Kív (með mismunandi stafsetningu). Kæna merkir skip og garður bær. Skipabærinn Kív er nú höfuðborg Úkraínu.



Valdimar gamli og nafnar hans

Árið 988 (kristintaka var lögtekin á Íslandi rúmum áratug síðar) tók fjölskylda Valdimars gamla eða Valdimars mikla, prins af Kænugarði, skírn. Valdimar hafði þá stjórnað ríki sem kallað hefur verið „Kyiv Russ“ og átti eftir að gera það allt til ársins 1015. Orðið „rúss“ er væntanlega upphaflega úr norrænu og vísar til ræðrara. Kyiv-Rúss merkir því ræðrarar frá Kænugarði. Í gömlum bókum gengur þessi prins undir ýmsum útgáfum af nafninu. Á máli heimamanna er hann kallaður Володимир Святославич eða Volodymyr Sviatoslavych ef við notum letur sem við skiljum. Myndir af honum prýða nú peningaseðla bæði í Rússlandi og Úkraínu.


Kyiv Russ var einhverskonar laustengt sambandslýðveldi sem var til allt fram á 13. öld. Rússar, Hvítrússar og Úkraínumenn sækja sögulega arfleifð sína til þessa ríkis. Norrænum mönnum virðist hafa þótt mikið til þess koma hversu margir bæir og þorp voru á svæðinu. Því nefndu þeir landið Garðaríki. Skömmu áður en fjölskylda Valdimars var skírð hafði hann tekið skírn suður á Krímskaga. Við þessa atburði er jafnan miðað sem upphaf nýrrar kirkjudeildar sem oftast gengur undir nafninu Rússneska rétttrúnaðarkirkjan. Alla tíð síðan hefur Kænugarður skipað stóran sess í menningarsögu þessara grannþjóða. Það var ekki fyrr en á 14. öld að biskupsstóllinn var fluttur frá Kænugarði til Moskvu.


Svo var það að nafni Valdimars gamla gerði óskiljanlega árás á Úkraínu í febrúar 2022 og höfuðborg hennar Kænugarð. Þessi nafni hans ber ættarnafnið Pútín og er forseti stærsta ríkis í heimi. Hann býr í höfuðborg sinni Moskvu á meðan hersveitir hans skjóta sprengjum á ýmsar borgir Úkraínu. Þar á meðal er höfuðborgin Kænugarður sem var sögufræg borg löngu áður en Moskva varð til. Forseti Úkraínu, sem hefur ættarnafnið Zelensky, er líka nafni Valdimars gamla þótt skírnarnöfn hans og Pútíns séu rituð öðru vísi.


Hugur okkar flestra er hjá þessari stríðshrjáðu þjóð og því veljum við einkennistré Kænugarðs sem #TrévikunnarSE.



Þjóðarblóm og þjóðartré

Flest ríki eiga sér eitthvert þjóðarblóm og þjóðartré. Þjóðarblóm Úkraínu er sólblóm, en tvær ættkvíslir trjáa teljast þjóðartré landsins það er víðiættkvíslin (Salix) og viburnumættkvíslin (Viburnum) sem eflaust hefur betra nafn á íslensku. Plöntur af þeirri ættkvísl kallast alltaf -runnar, svo sem úlfarunni, lambarunni o.s.frv. Báðar ættkvíslirnar eiga fulltrúa sem vaxa með prýði á Íslandi.



Svo eru til borgir sem eiga sér einkennistré. Höfuðborg Úkraínu, sem þarf nú að þola látlausar sprengjuárásir voldugra nágranna sinna, á sér eitt slíkt. Það er kastanía. Samkvæmt myndum er það þó frekar hrossakastanía, Aesculus hippocastanum, en eiginleg kastanía, Castanea sativa. Bæði trén eru innflutt í landinu. Fyrst heimamenn gera ekki greinarmun á þessum tveimur tegundum í daglegu tali gerum við það ekki heldur og tölum í þessum pistli um kastaníur, hvor tegundin sem það er.



Nafnið

Latínuheiti kastaníutrjáa er Castanea sativa. Það er eitt af fáum trjám þar sem við á Íslandi notum fræðiheitið sem íslenskt nafn. Við höfum bara aðeins lagað stafsetninguna að okkar máli. Reyndar er það svo að með þetta tré er það oftast leiðin sem hefur orðið fyrir valinu, hvert sem tungumálið er. Talið er að nafnið vísi til grísku borgarinnar Kastane en þar eru kastaníur algengar. Viðurnefnið sativa er gjarnan notað á tegundir plantna sem ræktaðar eru til matar. Í þessu tilfelli vísa þær í kastaníuhneturnar sem eru herramanns matur.


Hesta- eða hrossakastanía hefur latínuheitið Aesculus hippocastanum. Hnetur þess trés eru ekki nýttar til manneldis. Viðurnefnið hippocastanum er sett saman úr orðunum hippo og castanum. Hippo merkir hross og castanum vísar í kastaníur. Sennilega á nafnið að merkja að hestar fúlsi ekki við hnetum þessara trjáa.


Heimamenn kalla þessi tré kashtan sem er auðvitað nánast það sama og latínuheitið. Breytir þá ekki neinu um hvort tréð er að ræða. Á máli heimamanna er það skrifað Каштан.



Táknið

Íbúar Kænugarðs og reyndar allrar Úkraínu taka það alvarlega að litið er á þetta tré sem tákn borgarinnar. Mynd af trénu má meðal annars sjá á peningum og á hermerkjum hermannanna sem reyna að verja borgina gegn ofríki. Þar má sjá stílfærðan þrífork með laufum kastaníutrjáa allt um kring. Á tímum Sovéttríkjanna voru lauf trésins enn meira áberandi í merki hermannanna eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.


Varla þarf að leita lengi af söngvum, ljóðum eða málverkum af Kænugarði til að rekast á kastaníutré. Sá sem þetta ritar getur að vísu ekki bent á dæmi um söngva eða ljóð á úkraínsku en hefur það fyrir satt vegna þessarar síðu. Á þessari síðu er þó búið að skella lítilli vísu yfir á ensku, sem flestum gengur betur að skilja en úkraínsku. Þar segir að Kænugarðsvalsinn eða Kyiv Waltz hafi verið saminn af Andrei Malyshko og Platon Mayboroda árið 1950. Æ síðan hefur verið litið á valsinn sem einskonar einkennissöng höfuðborgarinnar. Þar má finna þessar línur eftir að þeim hefur verið snarað á ensku

Again chestnuts bloom,

Dnieper Wave beats.

Youth dear -

You are my happiness.


Ímynd kastaníutrjáa hefur einnig verið nýtt af fjölbreyttum hópi listamanna. Má nefna Golden Chestnut Sculpture eftir Petr Oziumenko sem dæmi.


Vatnslitamynd eftir úkraínska listamanninn Ljubov Ponomarеva.


Tákn og merki fyrir einkennistréð má sjá víða í höfuðborginni á margvíslegum varningi. Það hjálpar að hægt er að nota tré, lauf, aldin eða blóm til að vísa í tréð.



Upphaf ræktunar í Kænugarði

Nikulás fyrsti (1796-1855) var keisari Rússlands, konungur Póllands og stórhertogi Finnlands frá 1825 til dauðadags. Hann heimsótti menningarborgina Kænugarð nokkuð oft. Fyrir eina slíka heimsókn var ákveðið að planta blómstrandi kastaníutrjám í hundraða tali beggja vegna við mikla breiðgötu í borginni sem einmitt var búin til að þessu tilefni. Borgaryfirvöld töldu að það gæti verið mögnuð sjón að sjá sjálfan Nikulás keisara fara um breiðgötuna á hestvegni sínum undir fögrum blómum kastaníutrjáa.


Svo fengu borgaryfirvöld bakþanka. Sögum ber ekki alveg saman um af hverju það stafaði. Ein sagan segir að borgarstjórinn hafi verið svo ánægður með framkvæmdina að hann sendi keisaranum boð þar sem henni var lýst. Svo illa vildi til að rétt áður en sendiboðinn hitti keisarann var sá síðarnefndi stungin af býflugu og var því í vondu skapi þegar sendiboðinn kom með fréttirnar og gaf lítið fyrir þær.


Hver svo sem ástæðan var fengu borgaryfirvöld bakþanka. Gæti verið að blómstrandi kastaníutré séu of óformleg og hugguleg fyrir mikinn keisara? Er það ef til vill óviðeigandi að svona mikill keisari þurfi að aka í hestvagni sínum undir ilmandi blómaskrúði? Best væri sennilega að taka enga sénsa með það. Hver sem ástæðan var brugðust borgaryfirvöld við þessu á fremur óvæntan hátt. Nóttina fyrir heimsóknina voru öll kastaníutrén tekin upp og aspir settar í staðinn. Þær gætu ekki móðgað nokkurn keisara með blómskrúði. Þess má geta að enn þann dag í dag standa aspirnar við breiðgötuna.


En hvað átti þá að gera við mörg hundruð kastaníutré? Borgaryfirvöld létu planta þeim hér og þar um borgina og ýmsir borgarbúar fengu eintök og plöntuðu þeim út um alla borg. Síðan hefur kastaníutréð verið mest áberandi tré borgarinnar.


Einkennistré borgarinnar

Löngu síðar, eða árið 1983 héldu borgaryfirvöld í Kænugarði upp á 1500 ára árstíð borgarinnar. Þá var ákveðið að síðasti sunnudagur í maí yrði sérstakur hátíðisdagur borgarinnar og hefur svo verið síðan. Það er ekki tilviljun að þessi dagur varð fyrir valinu því að í lok maí eru hin fjölmörgu kastaníutré borgarinnar, einkum hrossakastaníurnar, í fullum blóma.


Helstu heimildir


Birta Björnsdóttir og Guðmundur Björn Þorbjörnsson útvarpsþátturinn Heimskviður, þáttur #101 19.3.2022


Svitlana Ostrovska: Munnlegar upplýsingar í mars 2022



Í aðrar heimildir er vísað í texta.


292 views

Recent Posts

See All
bottom of page