top of page
Writer's pictureSigurður Arnarson

Eikin sem hélt hún væri akasíutré

Updated: Apr 10, 2023

Út um allan Eyjafjörð eru merkileg tré. Stundum höfum við fjallað um gömul og virðuleg tré sem eru vel þekkt. Sjaldnar höfum við skoðað yngri tré, en það gerum við nú. Á Akureyri eru fjölmörg fræg tré. Flest eru þau úr eldri hverfum borgarinnar en mörg efnileg tré er að finna í yngri görðum. Tré vikunnar að þessu sinni er eik í garðinum við Móasíðu 5a. Núverandi eigendur hússins fluttu þangað árið 2007 og hófu þá þegar að rækta fjölbreyttan gróður við húsið. Þá voru tvö tré í garðinum, reyniviður og birki. Áður höfðu verið aspir þarna líka en þær höfðu verið felldar. Nú er fjöldi trjáa í garðinum sem sum hver sjást ekki víða.

Eikin í Móasíðu.

Blátoppur í forgrunni og rauður sunnubroddur og vatnsberi undir trénu.


Tegundin

Eikin í Móasíðu er af tegundinni sumareik, Quercus robur. Það er mest ræktaða eikin á Íslandi og aðrar eikur á Akureyri tilheyra þessari sömu tegund. Að vísu eru þær ekki mjög margar og, því miður, hefur stórum eikum fækkað. Umfjöllun um hinar vel þekktu Akureyraeikur er hér. Önnur þeirra er nú fallin. Eikur geta orðið mörg hundruð ára gamlar og verða bæði háar og umfangsmiklar með tímanum. Á Íslandi hafa þær varla slitið barnsskónum, ef svo má segja um rótföst tré.



En er dálítið langt í að við sjáum svona eikur á Íslandi. Þessi er á golfvelli í Skotlandi.


Tré vikunnar verður að líkindum eldgamalt, stórt og virðulegt er fram líða stundir. Um tíma leit þó ekki út fyrir að svo yrði. Þá leit hún út eins og vasaútgáfa af akasíutrjám af sléttum Afríku sem við þekkjum helst úr dýralífsþáttum í sjónvarpinu.


Akasíur í Afríku eru gjarnan flatar að ofan. Þessi mynd er fengin héðan að láni.

Hana tók Amanda Wright.


Hvernig barst tréð í Móasíðuna?

Seint á síðustu öld barst fræ af sumareik frá Jæren á Stavangersvæðinu í Noregi til gróðrarstöðvarinnar Barra á Héraði. Þar sáði Jón Kristófer Arnarson fræinu og upp komu ljómandi fínar plöntur. Bróðir hans, Sigurður, sem einmitt býr í Móasíðunni, var þá skógarbóndi í Skriðdal. Hann gróðursetti dálítið af eik á svæðinu. Þar reyndust þær verða nánast eins og fjölæringar. Þær uxu sæmilega en kól oftast nánast niður í rót. Eftir að skógarbóndinn fluttist í burtu hefur lausagöngufé sennilega étið upp allar þær eikur sem þar voru. Það sama á reyndar við um flest önnur lauftré sem ekki höfðu náð höfuðhæð sauðkindanna á þeim tíma.

Sigurður setti eina af þessum eikum í pott, sem og einn ask. Þessar tvær plöntur þvældust með honum þar til hann settist að lokum að í Móasíðunni árið 2007. Þá plantaði hann eikinni á núverandi stað.



Þrif í Móasíðu

Eikin kunni ekkert sérstaklega vel við sig í potti, frekar en önnur tré. Þegar eikinni var loksins plantað á framtíðarstað þá tók það nokkur ár að koma sér fyrir.


Haustið 2011 var eikin á hæð við sunnubroddinn, Berberis x ottawensis 'Superba', sem stendur við hlið hennar og skýldi henni ásamt blátoppslimgerði. Ágætis árssprotar og má segja að hún sé byrjuð að vaxa.


Eikin árið 2012. Þá stendur hún enn í skjóli af blátopp og sunnubroddi. Undir trénu eru ýmsar plöntur í uppeldi. Upp fyrir blátoppinn vildi tréð ekki vaxa.


Júlí 2009. Eikin á hæð við blátoppinn en þorir ekki að kíkja yfir hann.

Vaxtarlag eðlilegt.

Þar sem tréð stendur núna var það lengi vel í skjóli af rúmlega tveggja metra háu blátoppslimgerði, sem skýldi fyrir norðanáttinni. Svo kom að því að tréð náði sömu hæð og toppurinn. Þá náði norðanáttin að rífa í toppbrumin og í nokkur ár neitaði tréð að vaxa upp fyrir limgerðið. Það var þá nánast alveg flatt að ofan og minnti einna helst á akasíutré á sléttum Afríku. Svo var það einn góðan veðurdag að tréð áttaði sig á því að þetta væri tóm vitleysa. Akasíur vaxa ekki á Akureyri. Þá fór það að vaxa upp á við eins og það hefði aldrei gert neitt annað! Vaxtarlagið ber enn keim af þessari hræðslu trésins við að vaxa í skjólleysi.



Sumarið 2017. Sjá má hvernig tvær eða þrjár greinar hafa ákveðið að vaxa upp úr skjólinu sem blátoppurinn veitir. Aðrar greinar eru jafn háar limgerðinu. Svona vaxtarlag er mun betur þekkt hjá akasíum á sléttum Afríku en eikum í Evrópu.


Fyrir fáum árum var limgerðið sagað niður og er ekki að sjá að það hafi nein áhrif á eikina. Er það mjög í anda þess sem almennt er talið þegar fjallað er um eðallauftré eins og eik. Hún þarf skjól í uppvexti en þegar eikin er komin á skrið þá vex hún bara ljómandi vel. í vikunni mældi formaður Skógræktarfélagsins, Sigríður Hrefna Pálsdóttir, tréð með aðstoð garðeiganda. Reyndist það vera 3,78 metrar á hæð. Sennilega er þetta núna næst hæsta eikin í bænum eftir að eikin í Dalsgerði var felld. Hún var yfir 6 metra há.


Eikin er nú tæpir fjórir metrar á hæð. Vel má sjá á vexti eikarinnar hversu hár blátoppurinn var áður. Á myndinni má einnig sjá í monsjúríubirki, garðahlyn o.fl.



Annað sjónarhorn á sama eikartréð.


Önnur tré í garðinum

Í þessum garði eru óvenju mörg sjaldgæf tré, sem gaman getur verið að skoða. Má þar nefna garðahlyn (405cm), ask (377cm), virginíuhegg (347cm), flipaelri (243cm) og monsjúríubirki, sem nú er reyndar farið að flokka sem hengibirki (381cm). Þarna eru líka yngri og lægri tré eins og broddhlynur (176cm), agnbeyki og lenja. Er þó ekki allt upp talið enn, svo sem hátt í tugur reynitegunda og fleira mætti nefna. Vel má vera að við segjum frá fleiri trjám í þessum garði síðar.


Dæmi um önnur tré í garðinum. Fjallagullregn, askur og garðahlynur.


Texti og ómerktar myndir: Sigurður Arnarson

467 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page