top of page
Writer's pictureSigurður Arnarson

Dvergreynir

Reyniættkvíslin, Sorbus, er stór og fjölbreytt ættkvísl af rósaætt. Hún er svo stór að halda mætti úti þættinum „Reynir vikunnar“ ef vilji væri fyrir hendi. Merkilega margar tegundir ættkvíslarinnar þrífast með miklum ágætum á Íslandi. Svona stór ættkvísl inniheldur vitanlega allskonar tegundir. Flestar eru þær ýmist tré eða nokkuð stórir runnar. Ein tegund sker sig nokkuð úr hvað stærð varðar. Hún er það lítil að það er í besta falli hæpið að fjalla um hana eins og hvert annað tré. En þar sem hún er vissulega trjákennd heiðrum við þennan dverg með því að útnefna dvergreyni (Sorbus reducta) sem #TrévikunnarSE.


Dvergreynir er, eins og nafnið bendir til, dvergvaxinn. Samkvæmt erlendum ritum getur hann togast upp í um einn metra með tíð og tíma. Hér á landi er tegundin sárasjaldgæf og í raun aðeins til hjá söfnurum. Sá sem þetta ritar hefur hvergi séð hana hærri en um 40 cm eða þar um bil. Má þó vera að hún geti orðið hærri. Dvergreynir er ættaður frá Kína og vex villtur í Norð-Vestur Yunnan og Sichuan héruðum. Hann er aðeins þekktur frá um sex stöðum á þessum slóðum. Dvergreynir getur myndað fræ án undangenginnar frjóvgunar. Það er reyndar nokkuð algengur eiginleiki hjá reyniættkvíslinni. Þó er talið að villtur dvergreynir myndi fræ með hefðbundinni kynæxlun.


Tegundin er öll mjög smávaxin og hefur fá og smá smáblöð. Hann blómstrar nokkuð hefðbundnum reyniblómum og ber hér stundum ber. Þau eru bleikrauð á litinn. Eins og svo margar aðrar reynitegundir fær hann glæsilega haustliti.


Ólíkt öðrum reynitegundum er hægt að fjölga dvergreyni með svokölluðum rótargræðlingum. Einnig er hægt að fjölga honum á hefðbundinn hátt með fræjum sem myndast í berjunum. Að auki er hann stundum ágræddur og seldur þannig.


Myndin sem hér fylgir er haustmynd af þessum fallega reyni og er tekin í garði í Síðuhverfi. Hann er einnig til í Lystigarðinum og eflaust víðar í Eyjafirði.


71 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page