top of page

Jóhannesarbrauð

Updated: Jun 26, 2023

Jóhannes Ceratonia reif upp úr pússi sínu litla, fallega öskju þegar hann kraup á kné. Hann rétti öskjuna upp að hinni fögru og fátæku Siliqua Oreothauma um leið og hann opnaði hana (hér er átt við öskjuna, ekki hina fögru og fátæku ungu stúlku).

„Kæra Siliqua“ sagði hr. Ceratonia og það var ekki laust við skjálfta í röddinni. „Viltu gera mér þann heiður að giftast mér og verða móðir barna minna?“

Siliqua starði stóreygð á litlu öskjuna sem innihélt gullhring með fagurslípuðum demanti efst á baugi. Hún varð bæði undrandi og upp með sér. Hinn glæsilegi dr. Ceratonia hafði beðið hennar! Ekki nóg með það! Þessi demantur var örugglega ekki undir fjórum karötum að stærð. Hún leit djúpt í augun á hr. Seratonia og sagði. . .


Þetta gæti verið kafli úr ástarsögunni Dularfulli háls- nef- og eyrnalæknirinn ef sú saga hefði verið skrifuð. Svo er ekki. Ótal bækur hafa verið skrifaðar um skurðlækna, heimilislækna, hjartalækna og ýmsa aðra lækna á meðan háls- nef- og eyrnalæknar sitja óbættir hjá borði. En hvað um þessi karöt eða Carat eins og það heitir á erlendum tungumálum? Hvað er það og hvaðan kemur það?


Mynd: Jóhannesarbrauð á ítölsku eyjunni Sardeníu.


Ættkvíslin Ceratonia

Háls- nef og eyrnalæknirinn í sögubrotinu hér að ofan ber nafnið Jóhannes Ceratonia. Skírnarnafn hans vísar í íslenskt heiti trésins en ættarnafnið er hið sama og á ættkvíslinni sem hér er til umræðu. Sú ættkvísl er reyndar mjög lítil. Hún inniheldur aðeins tvær tegundir. Jóhannesarbrauð, C. siliqua og C. oreothauma sem ekki á sér íslenskt heiti. Latínunöfnin eru nöfn hinnar íðilfögru í sögunni hér að ofan.


Mynd: Eins og sjá má eru tré af þessari ættkvísl sígræn. Önnur tré á myndinni hafa þarna fellt laufin.


Ceratonia tilheyrir hinni stóru belgjurtaætt, nánar tiltekið undirættinni Caesalpinioideae. Engar tegundir þeirrar undirættar þrífast á Íslandi og því eru engar náskyldar tegundir Ceratonia sem þrífast utan dyra á Íslandi. Sumrin eru einfaldlega of svöl fyrir þær. Áður hefur verið fjallað um ýmsar belgjurtir á þessum síðum en þetta er í fyrsta skiptið sem tegundir af Caesalpinioideae rata á þessar síður. Rétt er að geta þess að samkvæmt alþjóðareglum ber að rita tegunda- og ættkvíslarheiti með óskáletri en ekki nöfn ætta og undirætta.

Öfugt við þær belgjurtir sem hér vaxa eru þessar tvær tegundir þeirrar náttúru að bera annað hvort kk. blóm eða kvk. blóm. Þær belgjurtir sem hér þrífast eru alltaf tvíkynja.


Mynd: Kvenblóm á Jóhannesarbrauði. Karlblómin birtast á öðrum trjám. Eðli málsins samkvæmt birtast bara aldin á kventrjánum.


Nafnið á ættkvíslinni er komið úr grísku. Þar eru orðin Ceratonia, ceronia og ceratea notuð jöfnum höndum yfir plöntuna sem á íslensku kallast Jóhannesarbrauð. Þau gætu verið dregin af gríska orðinu ceras sem merkir horn. Það á þá að vísa í fræbelgina sem eru langir og harðir sem horn þegar þeir eru fullþroska.

Báðar tegundir ættkvíslarinnar eru sígræn og mynda ýmist tré eða runna. Þeir vaxa í runnavist við Miðjarðarhafið jafnt á mjög þurrum svæðum sem í ögn meiri raka nær sjónum.

Af þessum tveimur tegundum ættkvíslarinnar er önnur mun þekktari en sjálfsagt er að segja aðeins frá þeim báðum.


Ceratonia oreothauma

Hin minna þekkta tegund af ættkvíslinni getur orðið um 4 til 8 metrar á hæð. Það vex aðeins á tveimur aðskildum stöðum. Annars vegar í Óman á Arabíuskaganum og hins vegar handan Adenflóa í Sómalíu. Það er nokkuð merkilegt ef tréð finnst ekki líka í Jemen, sem er þó á milli þessara ríkja. Í Óman vex tegundin aðeins í einum dal í fjöllunum í austurhluta landsins. Þar finnst það í 900-2000 metra hæð yfir sjávarmáli. Handan flóans vex það í 1500-1800 metra hæð í fjöllum í Sómalíu. Lítið er vitað um ástand trjánna í Sómalíu en í Óman er talið að trén eigi mjög undir högg að sækja því geitur eru sólgnar í þau.


Lesa má meira um þetta lítt þekkta tré hér. Myndir af trénu eru vandfundnar á netinu en á þessari tékknesku síðu má sjá myndir. Samkvæmt þeim eru fullþroskaðir belgir mun ljósari á litin en á næstu tegund.


Mynd: Þeir hjá Kew Gardens vilja auðvitað skoða þessa fágætu tegund og hafa sáð til hennar eins og hér má sjá. Fyrstu laufblöðin sem myndast heita kímblöð. Á tvíkímblöðungum (eins og öllum belgjurtum) eru þau tvö. Þau geta verið gjörólík þeim laufum sem seinna birtast. Þannig er það hjá belgjurtum. Kímblöð allra belgjurta eru mjög áþekk, hver sem tegundin er. Kímblöðin má sjá undir fjöðruðu laufblöðunum á þessari mynd. Þau eru farin að sölna og eru aðeins gulari en yngri blöðin.


Ceratonia siliqua

Þessi tegund heitir Jóhannesarbrauð á íslensku og verður allt að 15 m á hæð. Það er upphaflega frá löndunum við austanvert Miðjarðarhafið og vex villt í löndum eins og Kýpur, Ísrael, vestur hluta Sýrlands, Líbanon og suðurhluta Jórdaníu. Það vex einnig á Arabíuskaganum og í Túnis og Líbíu í Norður-Afríku. Tegundin er ræktuð víða við Miðjarðarhafið og hefur dreift sér töluvert út frá ræktun. Tegundin er einnig ræktuð víða annars staðar en á þá erfiðara með að sá sér út.


Mynd: Fræbelgir Jóhannesarbrauðs á tré í Tyrklandi.


Jóhannesarbrauð er fyrst og fremst ræktað vegna fræjanna og fræbelgjanna en viðurinn er einnig nýttur. Bæði fræ og fræbelgir eru trefjaríkir, sætir og næringarríkir. Vitað er að tréð hefur lengi verið ræktað til manneldis. Sem dæmi má nefna að í vöruhúsum í Pompei hafa fundist belgir þessarar tegundar. Eins og kunnugt fór Pompei í kaf í miklu gjóskugosi úr Vesúvíusi árið 79 e. Kr. Þá þegar hefur Jóhannesarbrauð verið borðað í ríki Rómar.


Mynd: Þurrir fræbelgir Jóhannesarbrauðs. Þá má borða beint af trénu.


Hið íslenska nafn tegundarinnar er dregið af því að sagt er að Jóhannes skírari hafi lifað af fræbelgjunum er hann dvaldi langdvölum fjarri mannabyggðum. Sjá t.d. hér.





Fræin hafa einnig verið notuð til að brugga úr þeim líkjör (einkum á Sikiley og Möltu) og úr þurrkuðum fræbelgjum hefur verið búið til mjöl sem stundum er nýtt til að bragðbæta kaffi og súkkulaði, svo dæmi séu tekin. Mjölið er einnig notað í allskonar uppskriftir. Bæði kökur og drykkir innihalda mjölið. Mjöl þetta má stundum fá í heilsubúðum á Íslandi og kallast þá karobmjöl (oftar þó skrifað með c í stað k). Hér má sjá uppskriftir úr þessu mjöli. Úr fræjunum sjálfum er einnig unnið aukaefnið E410.




Belgirnir eru mjög sætir. 30-50% þurrefnisins eru sykrur. Það eru einmitt þær sem eru eftirsóttar. Hver fræbelgur verður um 18-30 cm að lengd.

Samkvæmt Wikipediu er Portúgal mesti framleiðandi af fræbelgjum og fræjum Jóhannesartrés í dag.





Heimsframleiðslan er sögð vera 136.540 tonn og um 30% af því er framleitt þar í landi. Einnig er mikið framleitt á Ítalíu, Marokkó, Tyrklandi og Grikklandi.


Það tekur um eitt ár fyrir plönturnar að þroska fræbelgina til fullnustu. Þá er þeim safnað með því að lemja þá niður úr trénu með löngu priki. Verður þá að gæta þess sérstaklega að skaða ekki blómin sem þá hafa myndast. Ef blómin skaðast verður lítið úr uppskeru næsta árs.

Myndir: Þessar þrjár myndir af vörum eru fengnar frá Wikipediu.



Karat

Fullþroskuð fræ úr fræbelgjum eru ótrúlega einsleit að stærð og þyngd. Áður en alþjóðlegar, staðlaðar einingar urðu viðurkenndar til að mæla stærð og þyngd hinna margvíslegu hluta reyndu menn með ýmsum hætti að staðla mælieiningar. Talið er að mælieiningin Karat (Carat), sem enn er notuð til að meta massa eðalsteina eins og demanta, sé komin frá Jóhannesarbrauði. Árið 1907 var karat staðlað sem 200 mg og skammstafað Ct. Í upphafi er talið að arabískir kaupmenn hafi notast við þessi fræ sem mælieiningu. Þá á eitt karat að hafi verið jafngildi þyngdar fjögra þurrkaðra fræja af Jóhannesarbrauði. Seinna breyttist það og eitt fræ varð eitt karat. Reyndar er fræið að jafnaði 0,18 grömm en ekki 0,2 grömm eins og nútíma staðall segir til um. Demantur sem er fjögur Ct. er því 0,8 grömm að þyngd.

Orðið er vitanlega dregið af latínuheiti Jóhannesarbrauðs sem er ættarnafn hins glæsilega háls- nef- og eyrnalæknis í upphafsorðum pistilsins.


Mynd: Fræ og fræbelgir. Fræin eru svo einsleit að nýta má þau sem mælieiningar fyrir massa.


Heimildaskrá

Í netheimildir er vísað í texta. Annars er mest af upplýsingum fengið úr þessari bók:

Lewis, Gwilym o,fl. (ritstj.) 2005; Legumes of the World. bls. 133. Royal Botanic Gardens, Kew. 576 blaðsíður.

141 views0 comments

Recent Posts

See All

Kommentarer


bottom of page