top of page

Brum reynitrjáa

Að þessu sinni tökum við fyrir heila ættkvísl trjáa; reyniættkvíslina (sorbus) sem svo mjög setur lit á haustið. Mjög margar tegundir tilheyra ættkvíslinni og stundum er ekki auðvelt að greina mismunandi tegundir í sundur. Eitt af því sem getur hjálpað við greininguna eru brumin. Eftir að vexti líkur síðsumars mynda tré brum sem bíða þess í ró og næði að sól fari aftur að hækka á lofti og með henni lofthitinn. Oft getur hjálpað til við að greina í sundur tegundir með því að skoða brumin. Myndirnar sem hér fylgja eru allar af brumum reynitrjáa og fyrirsæturnar eru allar á Akureyri. Flestar í Lystigarðinum en fáeinar í garði í Síðuhverfi. Texti er við hverja mynd þar sem bent er á helstu einkenni hverrar tegundar.


Vonandi geta þessar myndir hjálpað einhverjum að greina í sundur vandgreindar reynitegundir en þær sýna aðeins brot af þeim reynitegundum sem finna má í Eyjafirði.


Brum ilmreynis, Sorbus aucuparia, eru auðþekkt á því hversu mikið hærð þau eru. Ef tekið er utan um þau eru þau ekkert klístruð. Þetta er langalgengasta reynitegund landsins og reyndar alls heimsins.


Þetta brum er einnig af ilmreyni, en þarna er skallablettur. Hin hliðin á bruminu er alveg hærð. Látið það ekki trufla ykkur þótt stöku brum stingi örlítið í stúf.


Kasmírreynir, Sorbus cashmiriana. Rauðleit brum, um 14 mm að lengd. Rauðbrún hár í endann og við brumhlífarblöðin.


Líklegt verður að teljast að þessi tegund verði tekin fyrir sérstaklega sem tré vikunnar fljótlega. Hún er mjög vel aðlöguð íslenskum aðstæðum og er mjög falleg.


Sorbus decora, skrautreynir, er líkur okkur íslenska ilmreyni en nokkuð auðvelt er að þekkja tegundirnar í sundur á brumunum. Brumin á skrautreyni eru mjög dökkrauð eða nær svört og klístruð, stundum mikið klístruð. oftast eru þau eitthvað hærð í endann og oft örlítið hærð við brumhlífablöðin en aldrei jafn hærð og hjá ilmreyni.


Sorbus monbeigii er ekki mikið ræktaður. Honum hefur verið gefið nafnið rjóðurreynir. Brumin eru um 8mm löng og stundum ögn rauðleitari en á þessari mynd. Töluvert hærð með ljósbrúnum hárum. Ljósbrúnu hárin koma upp um tegundina.


Sorbus aucuparia subsp. sibirica. Undirtegund ilmreynis sem til er í Lystigarðinum. Lík venjulegum reyni en öll minna hærð. Brumin eru ekki undantekning. Miklu minna hærð en á okkar venjulega reyni. Varla er sérstök ástæða til að leggja rækt við þessa tegund nema fyrir safnara.


Rósareynir, Sorbus rosea. Brumin mjög lík og á kasmírreyni enda tegundirnar náskyldar. Báðar hafa þessi litlu, brúnu hár í enda brumanna.


Hirðingjareynir, Sorbus tianshanica. Þetta er ein af þeim reynitegundum sem ekki hafa fjöðruð blöð. Brumin þykk og stutt með ljósum hárum í endann.


Úlfareynir, Sorbus x hostii, er mikið ræktuð á Íslandi en dregið hefur úr ræktun hans. Á netinu er lítið að finna um hann á erlendum síðum enda er hann nánast ekkert ræktaður í öðrum löndum. Þetta er blendingstegund sem myndar fræ án kynæxlunar þannig að allir afkomendurnir eru með sama erfðaefnið. Þetta fyrirbæri er nokkuð algengt hjá reyniættkvíslinni. Úlfareynir er með mjög lítil og græn brum. Örlítið hærð.


Sorbus chamaemespilus er ýmisst nefndur gljáreynir eða blikreynir á íslensku. Hann er ekki mikið ræktaður en til er eintak í Lystigarðinum. Hann er lítill runni og talinn annað foreldri úlfareynis. Það er sennilega það áhugaverðast við hann.


Rúbínreynir, Sorbus bissetii, er óvenju falleg tegund. Má gera ráð fyrir að ræktun hans aukist á næstu árum. Dökkrauð 10 mm brum með rauðbrúnum hárum úr endanum og í minna mæli við brumhlífarpörin.


Sorbus pygmaea getur ekki talist til trjáa því hann varður aðeins um 30 cm á hæð. Hann getur verið skemmtilegur í steinhæðum. Önnur mynd af honum er sett í texta hér neðar. Rauðleit brum með ljósrauðbrúnum hárum við endann. Allt við tegundina er lítið.



117 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page