Blásitkagreni
- Sigurður Arnarson
- Sep 17
- 7 min read
Í nokkrum pistlum okkar um grenitegundir, sem ræktaðar eru á Íslandi, höfum við fjallað um tegundir sem ættaðar eru frá Ameríku. Margar þeirra eru svo skyldar hver annarri að þær geta auðveldlega myndað saman frjó afkvæmi. Ein af þeim tegundum sem við höfum fjallað um er blágreni, Picea engelmannii. Það er skylt bæði sitkagreni, P. sitchensis og hvítgreni, P. glauca. Í náttúrulegum heimkynnum skarast útbreiðsla blágrenis og hvítgrenis og þar flæðir erfðaefni á milli tegundanna án vandræða. Hvítgreni og sitkagreni vaxa líka saman og hafa blendingar þeirra lengi verið ræktaðir á Íslandi. Í Kanada eru þeir mjög vinsælir í ræktun.
Lengst af var talið að blágreni og sitkagreni gætu ekki myndað náttúrulega blendinga vegna þess að tegundirnar voru ekki taldar vaxa saman. Aftur á móti höfðu menn af öllum kynjum áttað sig á því fyrir löngu að tegundirnar gátu sem best myndað frjóa blendinga þar sem þær báðar voru ræktaðar saman. Í þessum pistli fjöllum við um þessa blendinga milli blágrenis og sitkagrenis. Annars vegar segjum við frá því að þeir hafi meðal annars orðið til á Íslandi. Hins vegar segjum við frá því að tiltölulega nýlega kom í ljós að við sérstök skilyrði geta blágreni og sitkagreni sem best vaxið svo nærri hvert öðru að erfðaefnið getur flætt á milli þeirra, rétt eins og hjá blágreni og hvítgreni.

Skyldleikinn
Lengi vel var vaninn sá að telja að í náttúrulegum heimkynnum sínum væri blágreni mjög skylt öðrum grenitrjám í vesturhluta Norður-Ameríku. Í fræðigrein um skyldleika grenitegunda eftir fimm kínverska vísindamenn sem birtist í tímaritinu New Phytologist árið 2019 (Feng o.fl. 2019) var þróunarfræðilegur skyldleiki 27 grenitegunda skoðaður út frá erfðafræði. Þar voru sumar hugmyndir manna um skyldleikann staðfestar. Þar segir meðal annars frá því að blágreni og hvítgreni séu náskyldar tegundir.. Næst í skyldleikaröðinni við blágrenið er sitkagreni. Þessi hópur grenitrjáa er talinn vera af sama meiði og evrópska rauðgrenið, P. abies og nokkrar asískar grenitegundir. Frá þessu greindum við í þessum pistli okkar um blágreni en okkur þykir rétt að rifja þetta upp.
Blágreni blandast auðveldlega við hvítgreni eins og áður segir enda eru tegundirnar náskyldar. Blendingurinn er svo algengur að hann hefur hlotið sérstakt fræðiheiti, P. x albertiana.
Færri vita að blágreni getur einnig blandast sitkagreni. Um það höfum við ágæt dæmi á Íslandi. Þessi blendingur á ekkert sérstakt fræðiheiti en skrá má það sem Picea sitchensis x engelmannii.

Blendingar á Íslandi
Þar sem blágreni og sitkagreni vaxa víða nálægt hvort öðru á Íslandi er ekkert undarlegt þótt tegundirnar hafi myndað blendinga. Það sem helst kemur í veg fyrir þá er sú staðreynd að blágreni myndar miklu sjaldnar kynhirlsur á Íslandi en sitkagreni. Til að blendingar verði til þurfa báðar tegundir að „blómstra“ (ef nota má það orð um tegundir sem ekki mynda eiginleg blóm) á sama tíma. Sennilega er réttara, svona út frá grasafræðinni, að segja að tegundirnar þurfi að mynda karl- og kvenkynhirslur á sama tíma og frjó að berast þar á milli. Það getur vel gerst og ef vel er leitað má efalítið finna svona blendinga í íslenskum skógum. Víkur nú sögunni til Suðurlands.
Á Tumastöðum í Fljótshlíð er frægur skógarreitur. Þar hafði Skógrækt ríkisins, sem seinna varð Skógræktin, starfsaðstöðu á Suðurlandi. Eftir að Landgræðslan og Skógræktin sameinuðust heitir þessi stofnun Land og skógur. Við Skógarvarðarbústaðinn á Tumastöðum stendur voldugt blágreni. Fyrir um aldarfjórðungi tóku starfsmenn á Tumastöðum eftir nokkrum könglum á trénu. Þótt blágreni sé almennt talið frjósamt tré í Ameríku myndar það ekki köngla árlega á Íslandi. Því þótti þetta góður fengur. Könglunum var safnað og fræinu úr þeim var sáð. Upp uxu álitlegar plöntur. Plönturnar voru ræktaðar í 40 hólfa bökkum og voru tvö ár liðin frá sáningu þegar Hafn Óskarsson plantaði þeim nálægt síðustu aldamótum. Gróðursett var á besta stað í gamalt tún sem gert hafði verið eftir að Kollabæjarmýrin var ræst fram á sínum tíma. Grasinu þurfti að halda niðri með sérstökum ráðum framan af æfi trjánna svo þau kæmust á legg. Þessum trjám var plantað á nokkuð stóru svæði á hægri hönd þegar ekið er í átt að gróðrarstöðinni frá þjóðveginum og komið er inn fyrir hliðið á Tumastöðum. Fljótlega kom í ljós að þessi tré höfðu einkenni þess að vera blendingar blágrenis og sitkagrenis. Trén hafa vaxið afar vel og eru nú hin stæðilegustu. Nokkrum sinnum hafa árssprotar mælst yfir 1m á lengd og hæstu trén eru komin yfir 15 metra hæð. Því miður hefur greniryðsveppur verið áberandi í trjánum síðastliðin fjögur ár, rétt eins og í öðru blágreni sums staðar á Suðurlandi (Aðalsteinn 2025 og Hrafn 2025).

Afkomendur Tumastaðatrjánna
Myndin sem er hér að neðan var tekin af þessum trjám árið 2007 og þá má sjá að þessir blendingar eru farnir að bera köngla. Hér á landi bera ung blágrenitré ekki köngla, en sitkagrenitré eiga það til. Þann eiginleika hafa blendingarnir erft. Hrafn Óskarsson, starfsmaður Lands og skógar, safnaði fyrir nokkrum árum könglum af þessum blendingum og sáði fræinu í gróðrarstöðinni á staðnum. Upp spruttu tré sem eru annarrar kynslóðar blendingar. Í fræskrám eru þeir gjarnan merktir sem F2. Annaðhvort hefur systkinahópurinn æxlast innbyrðis eða frjó hefur borist frá nærliggjandi sitkagreni. Ef til vill hefur hvoru tveggja gerst.

Aðalsteinn Sigurgeirsson fékk nokkur þessara trjáa sem þarna urðu til og gróðursetti þau í sendinn jarðveg á Hafnarsandi í Ölfusi. Samkvæmt hans næma auga virðast flest trén hafa orðið til við bakvíxlun við sitkagreni. Þá má ætla að erfðaefni þessara blendinga sé komið að 1/4 frá blágreni en 3/4 frá sitkagreni.
Lifunin hjá þessum ungu trjám er góð og þau virðast nú hafa komið sér vel fyrir og á næstu árum fara þau að sýna hversu vel þau geta vaxið. Hér fyrir neðan eru myndir sem Aðalsteinn tók af þessum ungu trjám í upphafi ársins 2025.
Myndir af ungum trjám sem kalla má blásitkagreni á Hafnarsandi. Sennilega er meira af erfðaefni sitkagrenis í trjánum en blágrenis. Myndir: Aðalsteinn Sigurgeirsson.
Kynslóðir blendinga
Hér að ofan er sagt að trén á myndinni séu af annarri kynslóð blendinga eða F2. Því er rétt að útskýra það aðeins betur. Hér er stuðst við skrif Aðalsteins Sigurgeirssonar (2025), sem er doktor í þessum fræðum. 1) P (foreldrakynslóðin): Tveir hreinræktaðir einstaklingar af ólíkum stofnum eða tegundum eru æxlaðir saman. Í þessu tilfelli var móðirin blágreni, faðirinn sitkagreni.
2) F1 (fyrsta kynslóð blendinga): Afkvæmi P-kynslóðarinnar. Þau eru oft erfðafræðilega einsleit og sýna oft svokallað hybrid vigor eða blendingaþrótt. Allir lerkiblendingar sem ganga undir nafninu 'Hrymur' eru af F1.
3. F2 (önnur kynslóð blendinga): Verður til þegar tveir einstaklingar úr F1-kynslóðinni æxlast saman. Í F2-kynslóðinni verður meiri erfðafræðileg fjölbreytni, þar sem genin frá upprunalegu foreldrunum blandast á nýjan hátt. Því verður spennandi að fylgjast með trjánum á Hafnarsandi í framtíðinni. Ef bakvíxlun F2 verður við tré af P kynslóð hefur erfðaefni einnar tegundar laumað sér inn í erfðamengi annarrar tegundar. Þannig hefur til dæmis erfðaefni fjalldrapa laumað sér inni erfðamengi birkis á Íslandi.

Náttúrulegir blendingar
Villt blágreni vex að jafnaði hátt til fjalla. Það vex meira að segja alveg við skógarmörk og sums staðar myndar það runna ofan við eiginleg skógarmörk. Sitkagreni, Picea sitchensis, vex hvergi mjög langt frá sjó. Þegar þetta er haft í huga kemur það ekki á óvart að í flestum heimildum, sem á annað borð fjalla um þetta málefni, er þess getið að tegundirnar vaxi ekki saman. Samt er það svo að samkvæmt útbreiðslukortum er sums staðar stutt á milli þessara tegunda og samkvæmt Earle (2024) gætu slíkir blendingar myndast nyrst í Fossafjöllum (stundum nefnd Strandfjöll eða Cascades upp á ensku) þar sem stutt er á milli tegundanna. Frjó trjáa getur borist nokkuð langt þannig að þetta gefur tilefni til að velta því fyrir sér hvort frjó geti borist á milli tegundanna í náttúrulegum heimkynnum, jafnvel þótt tegundirnar vaxi ekki saman. Það hefur þó hvergi verið staðfest svo við vitum til.
Á vefnum The Gymnosperm Database segir frá því að til séu staðir þar sem blágreni vex neðar í fjöllum en áður var talið. Sums staðar eru staðhættir þannig í fjalladölum að kalt loft, sem er eðlisþyngra en hlýrra loft, getur lekið niður úr háfjöllunum og safnast saman í dældum. Þetta getur valdið staðbundnum frostum í nánast hvaða mánuði ársins sem er. Þetta styttir svo mjög vaxtartíma grenitrjáa að vistin hentar betur fyrir háfjallategund eins og blágreni en aðrar tegundir grenis (Earle 2024).
Hér á Íslandi þekkjum við vel að ekki þýðir að planta sitkagreni í frostpolla. Það hefur þróast nærri sjó og þarf lengri vaxtartíma en blágreni. Það kelur illa ef haustfrost koma snemma, hvað þá frost á vaxtartíma. Í svona kuldapollum í Klettafjöllum og í Fossafjöllum getur blágreni vaxið prýðilega ef fræ þess hafa borist þangað (Earle 2024). Þau geta til dæmis borist með ám og lækjum eða leysingarvatni á vorin en einnig með sterkum vindum. Auðvitað getur fræ blágrenis einnig borist á staði þar sem kröftugra sitkagreni er til staðar, en þar á það ekki mikla möguleika á að komast á legg. Það lætur undan síga fyrir kröftugra sitkagreninu. Öðru máli gegnir ef fræin hafna á stöðum sem reynast sitkagreni erfiðir. Á slíkum stöðum getur blágreni vaxið og myndað litla lundi eða stök tré umkringd öðrum tegundum sem að jafnaði vaxa neðar í fjöllunum en blágrenið. Þess vegna getur það gerst að blágreni finni sér heppilega staði nálægt sitkagreni. Þetta getur ekki gerst í Klettafjöllunum, því þar er ekkert sitkagreni heldur aðrar fjarskyldari grenitegunir. Aftur á móti er mögulegt að þetta gerist í norðurhluta Strandfjallanna samkvæmt Earle (2024).

Fyrir margt ræktunarfólk eru þetta nýjar fréttir og því þykir okkur við hæfi að segja frá þessu í pistlaröð okkar um tré. Að lokum viljum við þakka þeim sem veittu okkur upplýsingar fyrir þennan pistil og Guðríði Gyðu Eyjólfsdóttur fyrir yfirlestur prófarkar.
Heimildir
Christopher J. Earle (2024): The Gymnosperm Database, Picea engelmannii.
Sjá: Picea engelmannii (Engelmann spruce) description. Sótt 1. febrúar 2025.
Shuo Feng, Dafu Ru, Yongshuai Sun, Kangshan Mao, Richard Milne & Jianquan Liu (2019): Trans-lineage polymorphism and nonbifurcating diversification of the genus Picea. Í: New Phytologist (2019) 222: 576–587. Sjá: Trans‐lineage polymorphism and nonbifurcating diversification of the genus Picea - Feng - 2019 - New Phytologist - Wiley Online Library. Sótt 27.10. 2024.
Upplýsingar í gegnum samskiptamiðla snemma árs 2025:
Aðalsteinn Sigurgeirsson
Helgi Þórsson
Hrafn Óskarsson









Comments