top of page

Bjarkeyjarkvistur

Updated: Apr 9, 2023

Eins og stundum áður veljum við runna sem tré vikunnar. Runninn heitir bjarkeyjarkvistur eða Spiraea chamaedryfolia á fræðimálinu. Hann stendur nú víða í fullum blóma á Akureyri. Hann vex villtur til fjalla 600 til 1000 metra hæð í Suðaustur-Evrópu. Að auki vex hann víða í Asíu. Helst er hann þar að finna í Kína, Japan, Kóreu, Mongólíu og Rússlandi. Hér þrífst plantan prýðilega á láglendi og verður um einn til rúmlega einn og hálfur metri á hæð. Sumar plöntur verða þó allt að tveir metrar á hæð.Lýsing

Tegund sem hefur svona víðfemt útbreiðslusvæði getur verið nokkuð misjöfn í útliti. Aftur á móti er svo að sjá sem hingað hafi ekki borist mjög fjölbreyttur efniviður. Bjarkeyjarkvistur er harðgerður hér á landi og dreifist dálítið með stöngulskotum neðanjarðar sem ekki fara langt frá plöntunni. Þau eru hvorki það mikil né það tíð að þau séu til skaða. Ef hann er á stað þar sem hann má dreifa vel úr sér þá þiggur hann það með þökkum og breikkar stöðugt eftir að hafa komið sér vel fyrir. Hann er þéttgreinóttur, vindþolinn og er ekki vandfýsinn á jarðveg. Best þrífst hann samt í frjóum jarðvegi og á tiltölulega björtum stað. Hann þolir þó alveg hálfskugga. Hann hentar sem skrautrunni í garða, hvort heldur sem stakstæður runni eða í þyrpingar og raðir. Hentar einnig til uppfyllingar undir tré þar sem hann má leggja undir sig óræktarhorn og víðar. Ágætur í skógarjaðra og til að þétta skjólbelti að neðan.

Bjarkeyjarkvistur undir reynitré. Þarna fær hann að dreifa úr sér og hefur það gott.


Bjarkeyjarkvistur í óklipptu limgerði.

Blöð og greinar

Greinarnar kvistsins eru strendar og oftast dálítið hlykkjóttar og uppréttar eða örlítið útsveigðar, einkum efst.

Eins og aðrir kvistar eru blöðin stakstæð á greinunum. Þau eru egglaga, egglensulaga eða jafnvel tungulaga, ydd, óreglulega en mjúklega bugðutennt, dökkgræn á efra borði. Stundum örlítið hærð á neðra borði. Oftast 4-5 cm löng. Þegar kvisturinn er ekki í blóma má þekkja hann frá öðrum kvistum (Spiraea) á blöðunum.


Runninn getur fengið mjög fallega gulrauða haustliti. Þeir eru meira áberandi á þurrum stöðum. Þar sem allar myndirnar í þessum pistli eru teknar í júní 2022 er því miður engin haustmynd.

Þessi kvistur á það sameiginlegt með öðrum í sömu ættkvísl að hann eldist fremur hratt. Á innan við tveimur áratugum þarf að yngja hann upp. Það er hægt að gera með því að klippa innan úr honum eldri greinarnar. Ef það er aldrei gert kemur að því að best verður að klippa hann alveg niður. Þarna hjálpar þó til að hann endurnýjar sig dálítið sjálfur með stuttu rótarskotunum sínum.


Bjarkeyjarkvistur getur myndað nokkuð þéttan greinamassa. Eldri greinarnar eru dekkri á litinn.


Blóm

Blómin eru helsta sérkenni bjarkeyjarkvists. Þau eru hvít í hvelfdum hálfsveip á tveggja ára greinum. Fræflarnir áberandi langir og standa vel upp úr blómunum. Það gefur þeim sérstakan svip þannig að þau virka eins og þau séu loðin. Enginn annar kvistur hefur svona langa fræfla.


Bjarkeyjarkvistur þolir að standa í nokkrum skugga en blómstrar þá bæði minna og síðar en í fullu sólskini. Þegar þessi pistill er skrifaður er hann víða í blóma en blómgun er mislangt komin. Ef klippa þarf kvistinn er gott að muna að hann blómstrar á tveggja ára greinum. Því er heppilegt að klippa hann eftir blómgun. Ef reynt er að stytta greinar hans að vori til er viðbúið að blómvísarnir verði klipptir af. Verður þá lítið úr blómgun það sumarið.


Þessi bjarkeyjarkvistur er á björtum stað og er langt kominn með blómgunina. Þá dökkna blómin lítillega.


Bjarkeyjarkvistur er ekkert ólíkur öðrum trjám og runnum með það að þetta sumarið er blómgunin óvenju mikil, enda lagður grunnur að henni á góða sumrinu í fyrra.


Latínuheitið

Viðurnefnið chamaedrifolia er sett saman úr orðunum chamaedri og folia. Folia merkir laufblað. Þetta viðskeyti er oft notað um plöntur ef laufin minna á lauf einhverrar annarrar tegundir. Þetta er því kvistur með lauf eins og chamaedri. Þá þarf bara að átta sig á hvaða planta það á að vera!Að minnsta kosti tvær plöntur hafa viðurnefnið chamaedrys. Önnur þeirra er gömul lækningajurt sem vex allt í kringum Miðjarðarhafið og heitir Teucrium chamaedrys. Hin er völudepla, Veronica chamaedrys, sem vex á Íslandi. Sú fyrrnefnda hefur verið nefnd hertogadraumur eða kóngabætir á íslensku. Hið síðara væntanlega með vísun í meintan lækningamátt. Sú tegund vex í þéttum þyrpingum og þykir blaðfögur. Blöðin ilma og liggja gljáandi við jörð, samkvæmt upplýsingum frá Hafsteini Hafliðasyni.Gríska orðið χαμαίδρῡς sem má skrifa chamaídrȳs. Sennilega er þetta sama orðið. Það er sett saman úr orðunum chamae = lágur eða jarðlægur og drys = gljáandi eða geislandi. Það heiti hefur einnig verið notað yfir eikur á grísku en sennilega er ekki vísað í það í heitinu. Bjarkeyjarkvisturinn hefur laufblöð sem sögð eru líkjast þessum laufblöðum á kóngabæti. Þar er merking viðurnefnisins komin. Ef þið farið í verslun til að kaupa plöntu vikunnar er sennilega betra að biðja um bjarkeyjarkvist en „kvist með laufblöð eins og kóngabætir“. Það er þó merking latínuheitisins Spiraea chamaedryfolia.


Humla smakkar á veisluborðinu sem bjarkeyjarkvisturinn útbýr á hverju ári. Efst til hægri má sjá blóm sem ekki eru að fullu útsprungin.
Allar myndirnar tók höfundur í júní 2022.

Munnleg heimild: Hafsteinn Hafliðason 21. júní 2022


368 views0 comments

Recent Posts

See All

コメント


bottom of page