top of page

Aspamæður

Updated: Oct 3, 2023

Sum tré eru tvíkynja. Það merkir að hvert tré er bæði með karl- og kvenkyns æxlunarfæri. Þetta á við um reyni og birki svo dæmi séu nefnd. Önnur tré eru einkynja. Það merkir að hvert tré er annað hvort karlkyns eða kvenkyns. Þannig er því til dæmis farið hjá víðiættinni, en til hennar heyra bæði víðir og aspir. Nú er einmitt sá tími þegar alaskaaspir eru að henda fræjum sínum. Það er nánast eins og það snjói á þurrum dögum og fræin þekja stór svæði og fara víða. Þetta er tilraun aspanna til fjölgunar. Þessar aspamæður eru #TrévikunnarSE þessa vikuna. Meðfylgjandi er myndasafn sem sjá má hér. Það inniheldur myndir af sjálfsánum öspum í og við Akureyri og er frá árinu 2016. Sem dæmi má nefna að aldrei hefur verið plantað svo mikið sem einni ösp í hólmana í Glerá. Þeir eru samt meira og minna þaktir öspum, víði og öðrum gróðri. Það má því segja að þessi aðferð aspanna sé nokkuð árangursrík, þótt meirihluti fræjanna fái þann dóm að verða aldrei blóm, eins og skáldið sagði.


Þekkt er að frjó ýmissa tegunda, einkum frjó frá ýmsum grösum og birki, getur kallað fram ofnæmisviðbrögð hjá fólki. Frjótími alaskaaspa er löngu liðinn þetta sumarið. Það eru vitanlega karlaspirnar sem framkalla það. Ef frjóin hitta fyrir frævur kvenblómanna má búast við frjóvgun. Nú eru fræ aspanna fullþroskuð og losna frá mæðrunum og eru tilbúin að mynda næstu kynslóð. Gott er að hafa það í huga að frjókornaofnæmi ná ekki til fræja. Það er algerlega óþekkt að nokkur hafi ofnæmi fyrir asparfræjum, en líklegt að það framkalli hnerra að anda þeim að sér í gegnum nefið.
Svo virðist vera sem ákveðin tilhneiging finnist hjá víðiættinni (aspir og víðir) í þá átt að kvk. plöntur vaxi betur í frjóu landi en kk. plöntur. Þetta virðist snúast við í rýru landi. Þá vaxa kk. plönturnar betur en kvk. plönturnar. Þegar gerðar eru klónatilraunir til að meta vöxt og þrif aspa fara þær að jafnaði fram á fremur frjóu landi. Því er það svo að mun algengara er að þeir klónar sem ræktaðir eru séu kvenkyns. Vilji menn, einhverra hluta vegna, missa af sjónarspilinu þegar fræin svífa til jarðar, er hægt að gera það með því að planta eingöngu karlkyns öspum.


Pistillinn birtist upphaflega á Facebook. Texti og myndir: Sigurður Arnarson.

59 views

Recent Posts

See All

Comentarios


bottom of page