Arnold Arboretum
- Sigurður Arnarson
- 15 minutes ago
- 5 min read
Eitt af því sem vér Íslendingar gerum svo gjarnan er að fara til útlanda. Þær ferðir má nýta til að víkka sjóndeildarhringinn á einn eða annan hátt. Fyrir áhugafólk um gróður og garða er tilvalið að heimsækja grasagarða sem víða er að finna. Hver þeirra hefur sín sérkenni og þar sem gróður er misjafn eftir árstíðum er oft vel þess virði að heimsækja suma þeirra eins oft og kostur er.

Við mælum með því að heimsækja sem flesta garða í útlöndum til að skoða tré og annan gróður. Kosturinn við grasagarðana er meðal annars sá að þar eru flest trén að jafnaði merkt með fræðiheiti tegundanna. Sum okkar átta sig þá strax á ættkvíslinni og stundum má rekast á óvænta kunningja í heimi trjáa. Það er ekki ósvipuð tilfinning og að rekast á gamla vini. Upplagt er að taka myndir af fallegum eða sérkennilegum trjám og taka einnig myndir af skiltunum með merkingunum. Þá er hægt að skoða myndirnar seinna og fletta upp tegundunum og finna um þær upplýsingar. Annar kostur við grasagarða er sá að þar er hægt að skoða líkar og skyldar tegundir. Plöntum og trjám er raðað eftir kerfum sem auðvelda gestum samanburðinn. Þessi pistill er sá fyrsti í umfjöllun okkar um erlenda grasagarða. Ef móttökurnar eru góðar þá verða þeir fleiri.

Lifandi safn
Eins og flesta grasagarða má líta á The Arnold Arboretum of Harvard University, eins og hann heitir fullu nafni, sem lifandi safn. Garðurinn er í Boston og er 113,7 hektarar að stærð. Til samanburðar má nefna að Lystigarðurinn á Akureyri er 3,7 hektarar. Því má ætla sér góðan tíma til skoðunar. Rétt er þó að geta þess að ekki eru allir þessir hektarar samliggjandi. Garðurinn er hluti af kennslu- og rannsóknargögnum Harvard háskóla sem leggur metnað sinn í að gera hann sem aðgengilegastan og fróðlegastan fyrir allan almenning jafnt sem nemendur og fræðimenn við skólann.
Mikill fjöldi hlyntegunda og -yrkja er í garðinum. Þær eru sérstaklega áberandi þegar fer að hausta. Myndirnar sýna Acer shirasawanum frá Japan sem heitir stjörnuhlynur á íslensku eftir laufblöðunum.
Grasafræðingar og nemar á vegum háskólans eru stundum sendir heimshorna á milli til rannsókna og þegar þeir taka með sér sýnishorn til baka er þeim gjarnan komið fyrir í garðinum. Við sögðum frá dæmi um slíka söfnun í pistli okkar um næfurhlyn. Í þeim pistli má sjá nokkrar myndir sem teknar eru í garðinum.
Auðvelt er að taka lest úr miðbænum að garðinum. Aðgangur að honum er ókeypis fyrir allan almenning og boðið er upp á dagskrá fyrir alla aldurshópa.
Acer triflorum tilheyrir sérstakri deiild innan hlynættkvíslarinnar. Kallast hún trifoliata. Við höfum áður sagt frá henni í þessum pistli.
Hvað er í garðinum?
Í garðinum er eitt stærsta safn trjáa og runna í heimi af tegundum sem þrífast í tempraða beltinu. Sérstök áhersla er lögð á plöntur frá austurhluta Norður-Ameríku og austur Asíu. Auk lifandi gróðurs eru þarna bókasöfn og skjalasafn til að styðja við rannsóknarhlutverk garðsins. Þangað koma fræðimenn hvaðanæva að úr heiminum en fyrir okkur almenning er alveg nægilegt að njóta garðsins.
Sá sem þetta ritar var svo heppinn að fá að heimsækja þennan garð 2. október árið 2012. Þá var sem garðurinn logaði í glæsilegum haustlitum. Sérstaklega voru það nokkrar hlyntegundir, bæði frá Ameríku og Asíu, sem voru ótrúlega glæsilegar. Allar myndirnar í þessari grein eru úr þeirri heimsókn. Við verðum einnig að geta þess að í nokkrum pistlum okkar um tré höfum við birt myndir úr garðinum af tilteknum trjám.

Til er mikill fjöldi yrkja af japanshlyn, Acer palmatum. Fyrri myndin sýnir 'Osakazuki' en sú seinni 'Dissectum'.
Í garðinum eru fjölmargar litlar og stórar tjarnir, hæðir og hólar sem hjálpa til við að skapa hverri plöntu ákjósanleg skilyrði. Þessi fjölbreytni gerir garðinn að ákaflega fögrum stað. Gildir þá einu hvort farið er í garðinn til að skoða tré sérstaklega, eða bara til að njóta kyrrðar og fegurðar eins og svo algengt er að upplifa í grasagörðum, bæði hér á landi og erlendis.
Um þessar mundir er sagt að í garðinum séu meira en 17.000 tegundir af 417 ættum.

Saga
Garðurinn var stofnaður árið 1872 þannig að þarna má finna nokkur eldgömul og glæsileg tré. Þetta er elsta trjásafn, eða svokallað arboretum, fyrir almenning í allri Norður-Ameríku. Upphafið var það að maður að nafni James Arnold (1781–1868) gaf 120 ekrur af landi (tæpur hálfur ferkílómetri) til að hægt yrði að efna til framfara í akuryrkju og garðrækt. Landið var gefið Harvard háskóla árið 1842 en formlega var garðurinn stofnaður árið 1872 og var þá nefndur eftir manninum sem gaf landið. Síðan hefur garðurinn stækkað umtalsvert en sumt af þeirri stækkun er utan við sjálfan aðalgarðinn.

Núverandi forstjóri garðsins heitir William Friedman. Mun hann vera áttundi stjóri garðsins. Að auki er hann prófessor í lífveru- og þróunarlíffræði við líffræðideild Harvard háskóla.


Aðrir garðar
Rétt er að geta þess að þótt Arnold Arboretum sé frábær garður er hann ekki sá eini sem almenningur getur heimsótt í Boston. Í borginni eru fleiri almenningsgarðar og græn svæði.
Þekktastur þeirra er frægur almenningsgarður með glæsilegum trjám og fallegum grasflötum á besta stað í borginni. Við eina hlið hans er meira að segja heimsfrægur bar sem heitir Cheers eða Staupasteinn. Upphafsatriði samnefndrar sjónvarpsþáttaraðar var tekið í tröppunum við þennan bar. En nú erum við komin út fyrir efni pistilsins.

Vel má mæla með heimsókn í þennan almenningsgarð og aðra slíka í borginni. Þar er hægt að fylgjast með fjölbreyttri mannlífsfánu, fuglum í trjám og á tjörnum, íkornum í fæðisleit og að sjálfsögðu fögrum gróðri. En garðurinnn er ekki grasagarður. Þess vegna eru trén í honum ekki merkt. Fyrir þau sem vilja kynna sér trjátegundir er því mun betra og skemmtilegra að fara í Arnold Arboretum.

Við getum ekki stillt okkur um að birta fáeinar haustmyndir í viðbót úr garðinum. Þær eru allar teknar 2. október árið 2012.

Til vinstri á fyrri myndinni er sykurhlynur, A. saccharum og enn eitt yrkið af japanshlyn, Acer palmatum 'Osakazuki'. Seinni myndin sýnir lauf af sykurhlyni. Lauf af þessari tegund prýðir fána Kanada.
Haustlitadýrð.
Ekki fara öll tré í haustliti á sama tíma. Í garðinum má á haustin sjá öll tilbrigði við grænt, gult og rautt.
Hægt er að stækka hverja mynd og skoða betur, með því að þrýsta á hana með bendlinum.
Myndir og texti: Sigurður Arnarson.
Comments