top of page
Writer's pictureSigríður Hrefna Pálsdóttir

Félaginu stefnt: Ályktun stjórnar

Updated: Dec 1, 2023

Eftirfarandi ályktun var bókuð á stjórnarfundi þann 8. mars 2023 vegna stefnu landeigenda Veigastaða og Halllands í Svalbarðsstrandarhreppi gegn félaginu.


*****


Stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga ályktar:


Vaðlaskógur liggur í landi fjögurra jarða í tveimur sveitarfélögum; Veigastöðum og Halllandi í Svalbarðsstrandarhreppi og Ytri- og Syðri Varðgjá í Eyjafjarðarsveit.


Félaginu hefur nú verið stefnt fyrir Héraðsdóm Norðurlands eystra af landeigendum Veigastaða og Halllands. Stefnan er tilkomin vegna tilrauna landeigenda til að hafa af félaginu umráðarétt yfir landi skógarins.


Árið 1936 létu þáverandi landeigendur áðurnefndra jarða af hendi umráðarétt yfir landi Vaðlaskógar. Félagið hóf strax ári síðar vinnu við að girða af reitinn og rækta skóg, og hefur æ síðan ræktað upp Vaðlaskóg, sinnt grisjun, lagt stíga, brúað læki og sinnt öðrum störfum sem ræktuninni fylgja. Vaðlaskógur er elsti ræktaði skógarreiturinn í umsjón félagsins en þar var ekki að finna eina einustu trjáplöntu þegar ræktun hófst.


Skógrækt krefst þolinmæði og er verkefni margra kynslóða og er í raun eilífðarverkefni. Einmitt þess vegna voru landeigendur og stjórnarmenn árið 1936 svo forsjálir að útbúa umráðaréttarsamninginn án uppsagnarákvæðis. Aðilar samningsins áttuðu sig fyllilega á því að þessu samningssambandi yrði ekki slitið nema í því eina undantekningartilfelli að starfsemi skógræktarfélagsins myndi leggjast niður.


Skógrækt skapar mikil verðmæti. Efnahagsleg- og ekki síst óefnisleg verðmæti s.s. skjól fyrir fólk og fugla, gróður og smádýr. Óeigingjarnt starf skógræktarfélagsins síðastliðin 87 ár hefur orðið til þess að Vaðlaskógur er nú mjög dýrmætur.


Frá upphafi hefur markmiðið með ræktun skógarins meðal annars verið að skapa yndisreit fyrir almenning til að njóta útivistar í skjóli trjánna “...því að einn góðviðrisdagur í skógi er meira virði andlega og líkamlega, en að það verði metið til fjár, að minnsta kosti fyrir þá, sem á mölinni búa, eða hafa mikla innivist og kyrrsetur. Ráðið til að bæta úr þessu, að vísu ekki nema að litlu leyti fyrir okkur, sem nú lifum, er að græða upp nýjan skóg, nær okkur, eða flytja Vaglaskóg inn yfir heiðina. Skógræktarfélag Eyfirðinga hefur nú hafið slíkan flutning og nýgræðslu (ritar Árni Jóhannsson þáverandi formaður SE í 10 ára afmælisrit SE árið 1940).”


Stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga mun þess vegna standa vörð um Vaðlaskóg sem er óviðjafnanleg náttúruperla í hjarta Eyjafjarðar.






857 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page