top of page

Alaskaösp

Updated: Sep 19, 2023

Um miðja 20. öldina fór skógræktarfólk á Íslandi að að horfa mjög stíft í kringum sig í leit að trjátegundum sem gætu lifað og vaxið hér á landi #TrévikunnarSE . Menn sáu að veðurfar á suður strönd Alaska er með svipuðu móti og hér og því voru menn sendir þangað til að sækja fræ og græðlinga, sem í þá tíð voru kallaðir stiklingar. Það orð verður notað hér á eftir. Árið 1944 fór Hákon Bjarnason, þáverandi Skógræktarstjóri, til Alaska og kom m.a. með 30 stiklinga af alaskaösp (Populus trichocarpa) frá Kenaiskaganum og gróðursetti í Múlakoti í Fljótshlíð. Eftir því sem best er vitað er þetta fyrsta Alaskaöspin sem var gróðursett á Íslandi. Mjög fljótlega kom í ljós að alaskaöspin getur vaxið vel og á 6 árum hafði þessi ösp náð 4,5 metra hæð. Síðan þetta var hefur verið farið oft til Alaska og sóttir stiklingar af alaskaösp og nú má finna glæsilegar alaskaaspir um allt land.


Alaskösp er lauftré af víðiætt. Hún er sérbýlistré sem þýðir að á hverju tré eru annað hvort karlblóm eða kvenblóm. Einnig er hún þeirrar náttúru að það er fremur auðvelt að fjölga henni með stiklingum. Stiklingur er einfaldlega greinarbútur sem tekinn er af móðurtrénu að vetri og stungið í mold að vori. Þessi stiklingur myndar rætur og blöð og verður að nýju tré. Þetta nýja tré er nákvæm eftirgerð af móðurtrénu, það er með sama erfðaefni og verður því eins líkt móðurtrénu og veðurfar og jarðvegur leyfir. Þeir sem hafa lesið sér til um skosku kindina Dolly eða séð myndina Pokémon I vita að þetta er það sem kallað er klónn. Öll tré sem ræktuð eru sem stiklingar (klónar) af sama móðurtrénu eru nánast eins. Hægt að þekkja í sundur mismundi klóna t.d. á lögun laufblaða, greinarhorni, hvort trén er beinvaxin eða kræklótt, bosmamikil eða nett o.s.frv. Klónar af alaskaösp er margir og hafa þeir sem eru mest notaðir fengið nöfn sem sum eru lýsandi fyrir útlit klónsins eins og ´Súla´ sem er frekar beinvaxin og nett, aðrir klónar fá nöfn eftir staðsetningu á þekktu móðurtré t.d ´Hallormur´, ´Grund´, ´Grænugötuösp´. Asparklónarnir fá karl- eða kvennöfn eftir því hvors kyns trén eru.


Á Akureyri er fjöldinn allur af gömlum og glæsilegum alskaöspum. Hér koma myndir af nokkrum klónum af Alaskaöspum á Akureyri sem er ágætt að þekkja.

Bergsveinn Þórsson tók allar myndirnar.


Þessi er kölluð Hamarsstígsöspin. Þekkt fyrir það hvað krónan er breiðvaxin. Öspin var mæld á alla kanta um 1990 og þá var hæð og þvermál krónu u.þ.b. hið sama eða milli 11 og 12 m. Aldur segir að um sé að ræða Kenai ösp eins og elstu Akureyraaspirnar. Síðan þessar mælingar voru gerðar hefur framkvæmdarstjóri SE verið kallaður að minnsta kosti tvisvar til leiks af viðkomandi húsráðendum til að fella tréð og í bæði skiptin hefur tekist að breyta þeirri ákvörðun og þyrma trénu. Slík ráðgjöf er vissulega ábyrgðarhluti, tréð er umfangsmikið og þungt en rótarkerfi er heillbrigt og króna hefur verið grisjuð til að minnka vindálag. Ekki er víst að Hamarstígsöspin verði jafn heppin næst þegar vörubílsstjóri í verkefnaleit bankar upp á og býðst til að fjarlægja hana. Slík tré þurfa öfluga málsvara úr nærsamfélagi og helst raunhæfa lagalega vernd hjá viðkomandi sveitarfélagi.


Klónn sem kendur er við Grænugötu. Auðþekktur klónn á mjög kvössu greinarhorni. Hefur verið notaður svolítið í gegnum tíðina og má sjá tré af þessum klón á nokkrum stöðum á Akureyri. t.d. smá þyrping ofan við kirkjugarðinn og tré við bílastæði við sundlaugina. Klónninn er í framleiðslu hjá Sólskógum en sennilega hvergi annars staðar.


Þetta Klónninn Keisari sem stendur við Vanabyggð 15. Falleg króna fremur hægvaxta en virðist harðger, Er úr svokölluðu C klónasafni sem var sótt til Alaska 1963. Á Akureyri er ekki mikið um klóna úr þeirri söfnun.


Þetta er klónninn Randi og er trúlega algengasti klónninn á Akureyri. Sem ungt tré er hann beinvaxinn og greinanettur en þegar hann eldist skiptir hann um ham og verður groddalegur risi, Þetta tré á myndinni er eitt hæsta tré Akureyrar og stendur við Oddeyrargötu 28.


Þetta er klónn sem heitir Hringur. Jöfn og falleg króna. Ekki mjög algengur. Þetta tré er við Kvistagerði 4.


233 views

Recent Posts

See All
bottom of page