top of page
mainLong-1.png
  • Facebook

Ættkvísl þintrjáa

Updated: Oct 15, 2023

Ein af þeim ættkvíslum sem finnast innan þallarættarinnar er ættkvísl þintrjáa (Abies). Innan ættkvíslarinnar eru hátt í fimm tugir tegunda og sumar þeirra vaxa prýðilega á Íslandi. Margar eru að auki enn óreyndar en gætu eflaust þrifist hér. Flestar finnast þær villtar í fremur svölu loftslagi, gjarnan til fjalla og mynda þar sums staðar nánast hreina skóga en vaxa stundum með öðrum trjám. Öfugt við margar ættkvíslir ættarinnar eru þintré að jafnaði síðframvindutré. Þinirnir koma oftast inn í skógana þegar frumherjarnir hafa komið sér fyrir. Þeir eru því skuggþolnir og kjósa frjóan jarðveg. Þetta ber að hafa í huga þegar þeim er valinn staður. Best að gefa þeim gott skjól og dekra dálítið við þá. Einkum í æsku. Hátt til fjalla eru þó til tegundir sem vaxa í rýrara landi. Að jafnaði verða þintré hávaxin og einstofna tré með keilulaga krónu nema þar sem skilyrði eru slæm. Tegundir innan ættkvíslarinnar eru meðal algengustu jólatrjáa í heimi enda sérlega barrheldin. Hæstu þinir í heimi tilheyra tegundinni Abies grandis sem með réttu kallast risaþinur á íslensku. Getur hann vel náð allt að 100 metra hæð í heimkynnum sínum.


Fljótt á litið getr verið erfitt að greina þin frá greni enda líkjast tegundirnar hvor annarri. Vert er þó að benda á þrjú atriði sem greina á milli. Hið fyrsta er að barrið á þin er að jafnaði mjúkt viðkomu en ekki stingandi eins og hjá greni. Í annan stað verða greinar og sprotar sléttir eða með lítilsháttar örum ef og þegar nálar falla af þeim en á greni eru alltaf einskonar nabbar sem verða eftir ef nálar falla. Greinar og sprotar þintrjáa eru því miklu sléttari en greinar grenis. Hið þriðja er að þegar könglar myndast á þintrjám standa þeir bísperrtir upp í loftið í stað þess að hanga á greinunum eins og flestir aðrir könglar innan þallarættarinnar. Þegar fræið í þeim þroskast detta þeir í sundur og sleppa bæði fræi og köngulhreisti. Eftir standur miðstrengurinn úr könglinum.


Tegundir

Mest ræktaða tegundin á Íslandi innan ættkvíslarinnar er fjallaþinur, Abies lasiocarpa. Til þeirrar tegundar telst einnig korkfjallaþinur, A. lasiocarpa var. arizonica sem finnst á stöku stað. Mjög líklegt verður að teljast að fjallaþinur verði valinn sem #TrévikunnarSE fyrr eða síðar. Aðrar þekktar tegundir á Íslandi eru balsamþinur, A. balsamea sem ekki hefur sýnt hér mikil tilþrif í vexti, síberíuþinur, A. sibirica með ilmandi og sérlega mjúkar nálar og greinar, hvítþinur, A. concolor, eðalþinur, A. procera með sitt bláleita barr og nordmannsþinur (eða norðmannsþinur) A. nordmanniana. Sú síðast talda virðist þrífast illa á Íslandi nema helst á Suðurlandi. Aftur á móti er mikið magn af nordmannsþin flutt inn til landsins fyrir hver jól með öllum þeim óværum sem geta fylgt slíkum innflutningi og borinn inn í stássstofur landsmanna. Myndirnar hér að neðan sýna síberíuþin, fjallaþin og hvítþin.





168 views0 comments

Recent Posts

See All

Commentaires


bottom of page