Enn er gróður að mestu í sumarskrúða þótt senn komi haust með sinni litadýrð. Sumar trjáplöntur skrýðast þó haustlitum á undan öðrum. Ein af þeim sem er mjög áberandi þessar vikurnar eru rauð yrki virgeníuheggs (Prunus virginiana).
Rauði liturinn ræðst af stökkbreyttu geni
Villtur virginíuheggur ber að jafnaði græn blöð eins og flestar aðrar tegundir heggs. Stundum koma þó fram einstaklingar með stökkbreytt litagen þannig að blöðin verða óvenju rauð. Slík yrki eru gjarnan tekin til frekari ræktunar enda óvenju falleg. Þetta þekkist hjá nokkrum tegundum ættkvíslarinnar. Reyndar er það svo að hjá virginíuhegg að það eru eingöngu hin rauðblaða yrki sem eru fáanleg í gróðrarstöðvum hér á landi. Þessi eiginleiki ræðst af einu geni og er ríkjandi. Það merkir að hafi heggurinn þetta gen verða blöðin rauð. Ef berjum af rauðum virginíuhegg er sáð má búast við að því sem næst helmingur afkomendanna hafi þetta gen og þar með rauð blöð. Hinn helmingurinn er laus við genið og rauða litinn. Ekki er hægt að sjá að hin rauðblaða yrki vaxi neitt minna en hin venjulegu grænu. Ein myndin sem hér fylgir er einmitt af sáðplöntu sem ber rauð blöð.
Grænir sprotar og rauð blöð
Hin rauðu yrki virginíuheggs eru nokkuð frábrugðin hinum rauðu yrkjum venjulegs heggs (Prunus padus). Þau yrki eru jafnan nefnd blóðheggur og eru miklu algengari í ræktun en virginíuheggurinn. Blóðheggur er þeirrar náttúru að blöð hans eru rauðleit allt frá því þau birtast snemma á vorin. Virginíuheggur hefur annan háttinn á. Fyrstu laufin eru alltaf græn . Þegar þau eldast roðna þau en nývöxturinn heldur áfram að vera grænn. Því er það svo að frá miðju sumri og fram á haust eru rauð yrki virginíuheggs í raun tvílit. Grænir sprotar og djúprauð eldri blöð. Rauði liturinn verður jafnvel enn dýpri en á venjulegum blóðhegg, einkum á sólríkum stöðum. Það er þessi tvílita króna sem gerir virginíuhegginn svo glæsilegan upp úr miðju sumri. Þegar líður lengra á haustið hættir plantan vitanlega að vaxa. Þá verður engum grænum nývexti til að dreifa og þá verður allur heggurinn smám saman vínrauður. Um þessar mundir er hann víðast að ná því stigi, smátt og smátt.
Helstu yrki
Nokkur yrki virginíuheggs eru í ræktun á Íslandi. Má þar nefna ´Lúsífer´, 'Schubert' og 'Canada Red'. og hafa þau flest reynst vel og ekki er ástæða til að gera upp á milli þeirra að þessu sinni. Öll eru þau glæsileg og eftirsótt af mönnum til skrauts og skordýrum til átu. Sumir telja það reyndar galla hvað hann fellur ýmsum möðkum vel í geð en smáfuglarnir eru því ósammála.
Comments