top of page

Trjágróður á Akureyri

Updated: Mar 17

Þeir, sem eiga leið um Akureyri eða hafa viðdvöl þar, munu veita því athygli, hve trjágróðurinn er áberandi í bænum, svo að vart mun annar fjölbýlisstaður á landinu standa Akureyri framar á því sviði.“ Þetta eru upphafsorðin í ritgerð sem Ármann Dalmannsson skrifaði í Garðyrkjuritið árið 1978 og bar sama titil og þessi pistill. Þar fer hann með lesandann í ferðalag í gegnum bæinn frá Kjarnaskógi og að hinu nýja Glerárhverfi og segir frá því helsta sem fyrir augu ber.

Það er fróðlegt að renna yfir pistilinn og bera hann saman við þann gróður sem nú er í bænum. Hér er þó ekki hugmyndin að endurskrifa allan pistilinn heldur stikla á stóru og birta glefsur úr ritgerðinni. Við skoðum í leiðinni hvort og hvernig áhersla á trjágróður í bænum hefur breyst frá því að ritgerðin var skrifuð og hvernig trén hafa vaxið og dafnað síðan þá. Þess vegna fórum við svipaða slóð og Ármann lýsti og tókum nokkrar myndir. Við birtum þær og sumar af myndunum sem voru í gömlu greininni og sýna okkur tré í bænum fyrir 45 árum síðan.


Víða eru falleg tré á Akureyri. Mörg njóta sín best á haustin. Mynd: Sig.A.


Orsakir

Áður en Ármann fór með lesendur sína í hið ímyndað ferðalag um bæinn tilgreindi hann fjórar ástæður eða orsakir þess að á Akureyri er svona ljómandi fínn trjágróður. Þótt við að þessu sinni endursegjum ekki allan þann hluta er sjálfsagt að nefna þetta fernt. Í fyrsta lagi er „veðurfar í Eyjafirði milt og hagstætt flestum gróðri“ eins og Ármann orðar það. Í öðru lagi þakkar hann nokkrum áhugasömum dugnaðarmönnum, dönskum og íslenskum, sem trúðu því „að trjágróður gæti vaxið hér og gerðu tilraunir með að gróðursetja í garða við hús sín“ fyrir aldamótin 1900. Í þriðja lagi nefnir hann stofnun Ræktunarfélags Norðurlands árið 1903 en þá „tók trjárækt, sem önnur ræktun, mikinn fjörkipp“. Í fjórða lagi þakkar hann Skógræktarfélagi Eyfirðinga fyrir skógræktina í Kjarna og að félagar þess hafi ákveðið að klæða einnig brekkurnar í bænum skógi. Rökin fyrir þessu má finna í títtnefndri grein Ármanns.

Trjágróður í brekkunum ofan við Innbæinn á Akureyri haustið 2023. Mynd: Sig.A.

Frá Kjarna að Gömlu gróðrarstöðinni

Ármann hefur ferðalagið í Kjarnaskógi. Í greininni nefnir hann að Kjarni sé innan lögsagnarumdæmis bæjarins og að Kjarnaskógur sé orðinn útivistarsvæði bæjarbúa. Hann nefnir nokkrar tegundir í skóginum en segir að það væri nægilegt efni í sérstakan pistil að fjalla um það sem þar er að finna. Getum við vel tekið undir það. Svo segir hann: Á leiðinni frá Kjarna og norður að Gróðrarstöð sjáum við í brekkunum nokkrar gróðursetningar, sem ennþá láta lítið yfir sér. Það er birki, fura og bastarður af sitka- og hvítgreni. Við gerum okkur vonir um, að þessi bastarður nái sæmilegum þroska. Árssprotarnir nú eru 30 til 60 sm.“ Má fullyrða að þessar vonir hafi ræst.


Brekkurnar norðan við Kjarna eru nú af flestum taldar hluti Kjarnaskógar. Þessa mynd birtum við áður í pistlinum Af hverju er skógurinn grænn? og er einmitt tekin á þessum slóðum. Mynd: Sig.A.

Í greininni segir Ármann lítillega frá gróðrarstöðinni sem nú gengur undir nafninu „Gamla gróðrarstöðin“. Hann segir að hún verðskuldi sérstakan pistil rétt eins og Kjarnaskógur. Samt getur hann ekki stillt sig um að nefna nokkrar af þeim trjátegundum sem þar er að finna og í brekkunum þar í kring. „Sumum finnst þeir vera komnir í reglulegan skóg, þegar þeir koma í þessa brekku.“ Meðfylgjandi mynd, úr grein Ármanns, sýnir okkur hversu stór sá skógur var.


Mynd af Gömlu gróðrarstöðinni fengin úr grein Ármanns Dalmannssonar árið 1978. Þarna hefur Skógræktin (áður Skógrækt ríkisins og frá næstu áramótum Land og skógur) aðsetur sitt á Norðurlandi.Innbærinn

Ármann segir að nánast við hvert hús í Fjörunni séu stórvaxin tré. „Við húsið Aðalstræti 68 gnæfa Alaskaaspir upp í 13,5 m hæð með ummál 95 sm.“ Fyrr í greininni nefnir hann að þar sem hann tali um ummál trjáa sé miðað við ummál stofna í brjósthæð. Ekkert bólar á þessum öspum í dag. Svo er reyndar einnig með nokkur önnur tré sem hann nefnir við Aðalstræti. Margstofna og krónumikið reynitré við Aðalstræti 54A er horfið. Einnig margstofna hlynur við Aðalstræti 8 og nokkur fleiri nafntoguð tré.


Úr Minjasafnsgarðinum. Trén hafa stækkað mikið á 45 árum og hús safnsins hefur skipt um lit. Fyrri myndin er úr grein Ármanns Dalmannssonar en þá seinni tók Sig.A. nú í haust.


Ármann nefnir einnig nokkur tré við Aðalstræti sem enn standa. Hann segir frá lerkinu við Aðalstræti 52 og Aðalstræti 19 sem við höfum skrifað sérstaklega um. Um hið síðara segir hann að það taki „af allan vafa um, hvort skógartré geta vaxið á Íslandi“. Það var 13,5 m á hæð þegar greinin var skrifuð og þá talið hæsta tré bæjarins. Það tré er enn sérlega glæsilegt og mældist tæpir 17 metrar á hæð árið 2021 þegar við skrifuðum um það.


Lerkið við Aðalstræti 19 var á sínum tíma hæsta tré Akureyrar. Það er enn mjög glæsilegt eins og sjá má. Fyrri mynd úr grein Ármanns en þá voru trén tvö eins og sjá má. Sú seinni úr grein Skógræktarfélagsins um tréð frá 2021.


Við Hafnarstræti nefnir Ármann sérstaklega trjágarða við hús númer 6, 21 og 25. Svo segir hann: „Brekkan ofan við þau og út að hvamminum við skátahúsið er skógi klædd, aðallega birki, en þó er sitkagreni, fura og alaskaösp inn á milli og í jöðrunum. Skógræktarfélagið gróðursetti í þessar brekkur milli 1950 og 1960. Hæstu sitkagreniplönturnar þar eru 7 til 8,5 m.“ Óhætt er að segja að trén í þessari brekku hafi vaxið með ágætum í þessi 45 ár síðan greinin var skrifuð.Við Hafnarstræti 21 var fallegur trjágarður árið 1978. Það ár nefnir Ármann samt ekki þetta glæsilega greni sem er þar enn og hefur án efa bætt miklu við sig á 45 árum. Brekkurnar að baki húsunum eru glæsilegar sem forðum. Mynd: Sig.A.


Göngustígurinn neðan við Spítalastíg er enn umvafinn trjám. Svarthvít mynd: Ármann Dalmannsson, litmynd: Sig.A.


Sitkagrenið hefur heldur betur sprett úr spori. Fyrir 45 árum skrifaði Ármann: „Skógræktarfélagið gróðursetti í þessar brekkur milli 1950 og 1960. Hæstu sitkagreniplönturnar þar eru 7 til 8,5 m.“ Samkvæmt mælingum Bergsveins Þórssonar árið 2020 var hæsta tréð komið upp í 24, 5 metra hæð. Trén voru mæld með Vertex laser hornamæli sem á að vera með því skársta í svona mælingar. Mynd og upplýsingar: Bergsveinn Þórsson.


Lunda- og Gerðahverfi

Lundahverfi og Gerðahverfi voru nýbyggð þegar greinin var skrifuð fyrir hálfum fimmta áratug. Um Lundahverfið segir Ármann: „Hefur það verið byggt upp á síðustu árum og má segja, að jafnóðum hafi verið gengið frá húsagörðum þar.“ Sama á við um Gerðahverfi, sem hann nefnir svo.

Enn er trjágróður ekki orðinn hávaxinn í þessum nýju hverfum, en mikla alúð hafa menn sýnt gróðrinum í kringum hús sín og víðast eru trjáplöntur, runnar, limgerði og blómabeð. Svo má heita að sé alls staðar í bænum, en í nýju hverfunum eru garðarnir að jafnaði betur skipulagðir.“


Víða í Lunda- og Gerðahverfi eru fögur tré. „Enn er trjágróður ekki orðinn hávaxinn í þessum nýju hverfum“ var skrifað fyrir 45 árum. Fyrri myndin er úr Grundargerði, sú seinni úr Hólsgerði. Þar hefur alaskavíðir nýlega verið klipptur þegar myndin var tekin, eins og sjá má. Enn er það svo að „víðast eru trjáplöntur, runnar, limgerði og blómabeð.“ Myndir: Sig.A.Mýrahverfin, austan við Mýrarveg

Árið 1978 var mikið af fallegum trjám í görðum, ef marka má greinina. Hæsta alaskaöspin í bænum var við Gilsbakkaveg 11. „Reyndist hæð hennar vera 14m og ummál 1,03sm. Hún hefur vaxið upp af græðlingi sem settur var niður 1951.“ Svo nefnir Ármann hin og þessi tré á þessum slóðum, meðal annars öspina við Bjarmastíg 1 sem hann kallar síberíuösp og höfum við áður fjallað um hana. Var hún 14 metrar á hæð á þessum tíma eða jafnhá hæstu alaskaöspinni í bænum. Voru þetta tvö hæstu lauftré bæjarins „og má því segja, að á þessu sviði hallist ekki á milli Austurs og Vesturs.“


Tré við Austurbyggð og Oddeyrargötu. Öspin á miðri mynd frá Oddeyrargötu gerir tilkall til að teljast hæsta tré bæjarins. Myndir: Sig.A.Þegar greinin, sem pistillinn er byggður á, var skrifuð var Glerártorg ekki til. Þar var verksmiðjuhverfi S.Í.S. Ármann segir að byrjað sé að laga umhverfi verksmiðjuhúsanna og segir: „Við Klapparstíginn vestan við verksmiðjurnar er orðinn vöxtulegur trjágróður.


Vöxtulegur trjágróður við Klapparstíg. Þegar þessum trjám var plantað þótti sjálfsagt mál að fegra umhverfi verksmiðjanna við Glerá með trjágróðri. Mynd: Sig.A.

Þegar bílastæðin við verslunarmiðstöðina voru gerð þótti sjálfsagt að lífga upp á þau með trjám og runnum. Er það til mikillar fyrirmyndar. Síðan Glerártorg var reist hefur önnur verslunarmiðstöð opnað nyrst í bænum. Kallast hún Norðurtorg. Þegar gerð voru bílastæði við hana þótti ekki ástæða til að lífga upp á þau með lifandi trjágróðri eins og sjá má.


Fyrri myndin sýnir bílastæðin við Glerártorg. Þar prýðir trjágróður svæðið, mildar allar línur og lífgar upp á umhverfið. Seinni myndin sýnir bílastæði við Norðurtorg. Þar var bílastæðum ekki fórnað undir tré. Myndir: Sig.A.


Að auki voru skjólbelti við Hörgárbraut fjarlægð þegar uppbyggingin á Norðurtorgi hófst. Það var gert svo hægt væri að sjá dýrðina sem felst í auglýsingaskiltum þegar keyrt er inn og út úr bænum. Þau belti voru í beinu framhaldi af trjánum sem enn eru sunnar við götuna. Þau voru gróðursett þegar Árni Steinar Jóhannsson var garðyrkjustjóri í bænum og hafði þá sýn að þegar keyrt væri í gegnum bæinn ætti alltaf að vera trjágróður á að minnsta kosti aðra hönd. Nú virðist hafa verið horfið frá þessari sýn.

Ofarlega til vinstri sér í skjólbeltin sem eitt sinn náðu því sem næst þangað sem myndatökumaðurinn stendur. Þau hafa verið fjarlægð svo menningaraukinn til hægri sjáist sem best þegar keyrt er inn í bæinn. Mynd: Sig.A.

Annars er það að segja um Árna Steinar að hann var garðyrkjustjóri á Akureyri 1979–1986 og síðan umhverfisstjóri til 1999 er hann tók sæti á Alþingi. Ber bærinn enn falleg merki þess sem gert var í tíð hans.


Myndir sem Bergsveinn Þórsson birti á Facebook 11. desember 2020 þegar beltið hafði verið fellt. Neðri myndin er frá Google Earth. Hér má sjá umræður um þessar myndir og frekari upplýsingar.


Oddeyrin

Á Oddeyrinni eru hávaxin tré við mörg hús og við sumar götur þar eru mjög snyrtilegir húsagarðar.“ Meðal hæstu trjáa á Eyrinni nefnir Ármann alaskaösp við Grænugötu 6. Hún er nú fallin. Reyndar er það svo að mörg falleg tré á Oddeyrinni hafa þurft að víkja á 21. öldinni. Sum reynitrén, sem áður prýddu marga garða, voru orðin gömul og fúin en önnur tré voru orðin svo stór að eigendur húsa létu fella þau. Er eftirsjá af þeim mörgum. Enn er þó víða að finna falleg tré á Oddeyrinni og fá þau vonandi að standa lengi enn. Við viljum í þessu sambandi minna á Eiðsvöll. Þar eru mörg flott tré og hafa myndir af sumum þeirra ratað í pistla okkar.


Á Eyrinni eru mörg glæsileg tré eins og þessi hlynur á horni Ránargötu og Eyrarvegs. Mynd: Sig.A.


Glerárhverfið

Norðan við Glerána blasir svo við okkur Glerárhverfið, er sameinað var Akureyri 1955. Þar hefur orðið veruleg breyting síðan. Hefur risið þar upp mikið af nýjum íbúðarhúsum, einbýlishúsum og sambyggingum. Eru þegar komnir í ljós þar margir álitlegir húsagarðar og er trjágróður þar í uppvexti.“ Síðan segir Ármann frá því að kvenfélagið Baldursbrá hafi fengið aðstöðu „í fallegri brekku fyrir trjáreit og stofnaði þar til einskonar lystigarðs fyrir þorpið. Er reitur þessi mikið augnayndi fyrir hverfisbúa og vegfarendur.“ Þessum reit hefur ekki verið sinnt sem skyldi hin síðari ár og nú eru uppi hugmyndir um að fórna honum fyrir stórhýsi.

Hér er horft norður yfir Glerá. Trjágróðurinn setur svip á Glerárhverfi, rétt eins og Ármann bjóst við. Trjágróðurinn veitir skjól, mildar ásýnd og dregur úr ryk- og hljóðmengun í hverfinu. Að auki bindur hann kolefni og dregur þannig úr hamfarahlýnun á heimsvísu. Mynd: Sig.A.

21. öldin

Á síðasta aldarfjórðungi síðustu aldar risu ný hverfi í bænum sem eru nú klædd trjágróðri. Má þar nefna Síðuhverfi og Giljahverfi. Við geymum umfjöllun um þau en skoðum nýjustu hverfin.

Nú er hátt í fjórðungur 21. aldarinnar liðinn. Á þeim tæpa aldarfjórðungi hafa ný hverfi risið. Þar ber helst að nefna hverfi syðst í bænum: Naustahverfi og Hagahverfi. Er þar byggt mun þéttar en í flestum eldri hverfanna og því minna pláss fyrir stór tré. Þó er það svo að í Hagahverfi eru skipulagðir minni trjáreitir sem vonandi geta skýlt hverfunum eitthvað er þeir vaxa upp. Verður það að teljast mjög mikilvægt þar sem litlir garðar bera ekki mjög stór tré. Sums staðar virðist þó vera lítið pláss fyrir götutré í þessum hverfum.

Það verður að teljast til fyrirmyndar að planta trjám á opin svæði sem seinna geta skýlt öllu hverfinu. Þessi trjáreitur er að vaxa upp í Hagahverfi sem enn er í byggingu eins og sjá má. Hverfið er mjög þétt og litlir garðar bera ekki stór tré. Það eykur mikilvægi trjágróðurs á opnum svæðum. Mynd: Sig.A.


Litmynd af Kjarnagötu á Akureyri. Hér má fyrst og fremst sjá malbik og steinsteypu. Það er eins og það vanti annaðhvort trjágróður eða gaddavír á myndina. Mynd: Sig.A.

Lokaorðin árið 1978

Í lokaorðum greinar sinnar segir Ármann: Þessi skyndiferð okkar um bæinn gefur að vísu ekki nákvæma lýsingu á gróðurfarinu og greinir lítið frá einstökum trjátegundum, en yfirlit þetta gefur til kynna, hve Akureyringar hafa snemma tekið ástfóstri við gróðurinn, ekki síst trjágróðurinn og hve hann hefur breiðst út jöfnum höndum og byggingarnar. Akureyri getur státað af því að vera einhver auðugasti bær á landinu af gróðurilmi og sá heildarsvipur, sem trjágróðurinn gefur bænum, er að mati flestra bæjarbúa eign, sem þeir sjá ekki eftir að fórna nokkru fyrir. Við skiljum þessi lokaorð hér eftir, núlifandi bæjarbúum til íhugunar.

Heimildir:


Ármann Dalmannsson (1978): Trjágróður á Akureyri. Í Garðyrkjuritið. Ársrit Garðyrkjufélags Íslands 58. árgangur, 1978 bls. 7-21. Ritstj. Ólafur B. Guðmundsson.


Bergsveinn Þórsson: Munnlegar upplýsingar.

347 views0 comments

Recent Posts

See All

Comentários


bottom of page