Nemendur við Institute for Environmental Research við RWTH í Aachen rannsökuðu ljóstillífun í villtum beykiskógum. Í skóginum er mismunandi jarðvegur með mismikla vatnsheldni og mismunandi næringarástand. Með öðrum orðum: Hvert tré hafði misjafnlega góðar aðstæður til vaxtar. Niðurstöður rannsóknanna komu því á óvart. Öll trén, sama hvar þau voru stödd, ljóstillífuðu jafnmikið. Það er sama hvort trén eru lítil eða stór, grönn eða þykk. Laufblöðin á þeim öllum búa til jafn mikinn sykur með ljóstillífun. Ástæða þess er að skógar sömu tegundar hafa þroskað félags- og heilbrigðiskerfi. Það nýtist heildinni betur ef trén deila lífsins gæðum hvert með öðru (Wohlleben 2016). Þannig geta heilu skógarnir lifað sem ein heild. Samvinnan skiptir meira máli en samkeppnin.
Horft upp í krónu beykitrés að hausti í Skotlandi. Mynd: Sig.A.
Hvers er að vænta?
Við höfum áður fjallað um samhjálp í skógum. Fyrst og fremst er þá um að ræða hjálp óskyldra lífvera. Þann pistil má sjá hér. Þessi pistill er skyldur þeim pistli en hér er fókusinn þrengri en í þeim almenna pistli. Við skoðum hvort það geti verið að tré af sömu tegund hjálpist að, frekar en að keppast um þau lífsgæði sem í boði eru. Við skoðum hvort það geti verið rétt að tré lifi eftir mottóinu: Einn fyrir alla og allir fyrir einn!
Beykitré í Dalkeith í Skotlandi. Þarna keppir það við önnur tré. Mynd: Sig.A.
Hvað er í gangi?
Niðurstöðurnar sem greint er frá í inngangi komu mörgum mjög á óvart. Það ber ekki á öðru en trén hjálpist að. Sterku trén hjálpa þeim veikari. Tré sem hafa aðgang af einhverri gnótt, deila henni með öðrum trjám. Gildir þá einu hvort um er að ræða vatn, næringarefni eða eitthvað annað. Öllu virðist vera deilt. Í sumum tilfellum eru þetta einskonar skipti. Tré sem hefur rúman aðgang að einhverju efni deilir með öðrum og fær í staðinn eitthvað sem því vanhagar um. Í öðrum tilfellum eru tré sem eru bæði lítil og veikluleg. Þau fá hjálp hinna trjánna og eru algerlega háð þeim. Án þeirra yrðu þau undir í samkeppninni og dræpust. Þau komast ekki af án aðstoðar. Þau þurfa aðstoð frá heilbrigðis- og félagsþjónustu skóganna.
Stakstætt beyki í Konunglega grasagarðinum í Edinborg. Það vex á allt annan hátt en beyki í villtum skógum. Mynd: Sig.A.
Fljótt á litið mætti ætla að þetta væri algerlega í þversögn við hugmyndir Darwins um þá hvata sem leiða til samkeppni milli lífvera. Að hinir hæfustu lifi af á kostnað hinna veikari. Svo einfalt er þetta ekki. Darwin fjallaði nefnilega líka um þær lífverur sem lifa í hópum og njóta góðs af því að öðrum af sömu tegund vegni vel. Hver keðja er ekki sterkari en veikasti hlekkurinn. Sama á við um skógana. Hver skógur er ekki sterkari en veikasta tréð. Ef veikluð tré eru skilin eftir þannig að þau tapi í samkeppninni opnast möguleikar fyrir aðrar lífverur að nema þar land og keppa við hin trén. Eyður í skóginum, sem dauð tré geta skilið eftir sig, geta einnig haft áhrif á nærloftslagið. Vindar geta náð sér upp, rakinn gufar hraðar upp og svo framvegis. Það vilja trén ekki, ef þau á annað borð hafa einhvern vilja. Að auki geta undirmálstré orðið gróðrarstía fyrir allskonar pöddur og sveppi sem ráða niðurlögum trésins. Þar getur óværan fjölgað sér og síðan snúið sér að hinum trjánum. Skógurinn er þá ekki lengur sem ein samhent (eða samgreind) heild, heldur samansafn einstaklinga sem hafa það misjafnlega gott. Heildin bíður tjón ef hver hugsar aðeins um sig. Þess í stað getur heill skógur nánast starfað eins og ein lífvera. Það er ótrúlega heillandi hugmynd.
Gamall beykiskógur í Þýskalandi. Það er heppilegt fyrir trén að undirgróðurinn er lítill og veldur ekki samkeppni. Myndin fengin héðan.
Hvernig?
Í skógum er heilmikið neðanjarðarhagkerfi. Það stendur saman af rótum trjáa og allskonar sveppum. Sveppirnir geta verið að ýmsum gerðum. Margar tegundir sveppa lifa í sambýli við beyki í beykiskógum. Allt þetta jafnaðarstarf, í formi félags- og heilbrigðiskerfis, fer fram neðanjarðar. Trén deila því sem þau þurfa í gegnum sveppræturnar sem tengjast öllum trjánum. Það eru sveppirnir sem eru starfsmenn félags- og heilbrigðiskerfisins. Án þeirra yrði engin samhjálp. Þeir sameina öll trén í eina heild. Þeir deila því sem þarf til þeirra sem þurfa meira. Sveppirnir gera þetta samt ekki af tómri góðmennsku, eða ættum við frekar að segja góðsveppsku. Þegar þeir deila vatni og næringarefnum jafnt á alla geta öll trén ljóstillífað jafnt. Það eru þau sem sjá sveppunum fyrir heppilegum sykrum. Það eru launin sem þeir fá fyrir aðstoðina. Án trjánna yrði ekkert til fyrir sambýlissveppina. Þeir eru háðir kerfinu. Meðal þeirra sveppa sem skipa þessar starfstéttir á Íslandi eru vel þekktir svepprótarsveppir eins og berserkur, Amanita muscaria, og aðrir serkir. Kóngssveppur, Boletus edulis, kúalubbi, Leccinum scabrum, og aðrir lubbar. Allar lektur, Lactarius tegundir og allar hneflur, Russula tegundir sem og Cortinarius tegundir.
Sjálfsánar birkiplöntur í Krossanesborgum. Einnig má sjá sveppinn kúalubba, Leccinum scabrum, á myndinni. Mynd: Sig.A.
Þéttleiki
Í skipulagðri skógrækt er reynt að grisja skóga reglulega. Ávinningur grisjunar er mikill. Það er þó ekki efni þessa pistils að lýsa því öllu nema að því leyti sem það kemur félags- og heilbrigðiskerfinu við. Eitt er það að hvert tré fær aukið vaxtarrými. Ætla má að hver hektari ljóstillífi álíka mikið, hvort sem trén eru fá eða mörg. Næringarefnunum fjölgar ekkert við grisjun en þau deilast á færri stofna. Afleiðingin er sú að hver stofn vex hraðar og verður bæði hærri og breiðari en í ógrisjuðum skógum. Þar með aukast verðmætin sem skógarnir gefa af sér. Hér aðeins neðar komum við aftur að þessu atriði.
Lerkireitur að hausti til í Leyningshólum. Þessi reitur hefur verið grisjaður. Sjá má hvernig trén deila vaxtarrými sínu jafnt. Krónurnar víxlast ekki þannig að þær skyggi hver á aðra. Þannig nýtir teigurinn ljósið best.
Mynd: Sig.A.
Villtir skógar eru sennileg ekkert mikið að pæla í því hvort viðurinn í þeim er verðmætur í augum þeirrar dýrategundar sem kallar sig vitiborna. Þeirra forsendur eru allt aðrar. Það gagnast skógum alveg jafn vel að standa þétt og vinna saman. Skógurinn er ekkert að pæla í því að auka lífsrými hvers einstaklings á kostnað heildarinnar. Skógarnir trúa ekki á brauðmola-hagfræði. Þeir vita sem er að ef sumum trjánum vegnar óvenju vel þarf það ekki endilega að gagnast heildinni. Kaka næringarefna og vatns stækkar ekkert við það að vera misskipt. Þess vegna geta sumir villtir skógar verið ákaflega þéttir. Krónurnar í slíkum skógum eru hvorki breiðar né umfangsmiklar. Þvert á móti. Þær eru litlar og grannar. Hvert tré vex bæði lítið og hægt en skógurinn vex vel. Einkum á þetta við um skóga eða skógarlundi þar sem ein tegund er ríkjandi. Ef fleiri tegundir er að finna í skóginum eykst samkeppnin og að lokum ná sum tré að skyggja önnur út. Þá má búast við að við fáum ekki eins þétta skóga heldur tré sem hafa meiri og stærri krónu.
Blæaspir í Grundarreit mynda þéttan skóg. Þær fjölga sér með þéttum rótarskotum. Mynd: Sig.A.
Út frá sjónarhóli trjánna (ef tré hefðu sjón) er einn af kostunum við að vaxa svona þétt að lítið sólarljós kemst til jarðarinnar. Þar með minnkar vöxtur þess gróðurs (svo sem annarra trjáa) sem gætu keppt við trén um ljós og næringarefni. Vel má vera að mannfólkið sé ekki alveg með sömu sýn á þetta ljósleysi í skógarbotninum. En trjánum er slétt sama um sýn manna.
Starfsmenn (eða starfssveppir) félags- og heilbrigðisþjónustu skóga í Vaglaskógi eru fjölbreyttir. Þessir eru ekki tengdir rótum trjánna en brjóta niður við og hjálpa þannig til við að endurnýta efnin sem þar er að finna. Mynd: Sig.A.
Heildarvöxtur
Fljótt á litið mætti ætla að heildarvöxturinn í grisjuðum og ógrisjuðum skógum sé álíka mikill en deilist bara á færri stofna. Það þarf ekki endilega að vera þannig. Ef við berum saman vöxt einstakra trjáa í grisjuðum og ógrisjuðum skógum gætum við dregið þá ályktun að heildarvöxturinn minnki í svona þéttum skógum. Þannig er það ekki. Þvert á móti. Peter Wohlleben (2016) greinir frá því í bók sinni að skógfræðingar í Lübeck í Þýskalandi hafi uppgötvað að mjög þéttir beykiskógar framleiði meira og bindi meira kolefni en vel grisjaðir skógar (bls. 16).
Við viljum samt halda áfram að grisja skóga. Þannig verður betra að fara um þá og þeir gefa betra timbur og betri, glæsilegri og verðmætari einstaklinga. Aftur á móti má vel hugsa sér stöku reiti í uppvaxandi skógum sem fá að vaxa án okkar afskipta. Það gæti aukið á heildarfjölbreytnina og upplifunina í skógunum þótt það líti verr út í Exselskjölum.
Grisjaður lerkiskógur í Eyjafirði. Hvert tré fær meira rými og skapar meiri verðmæti. Mynd: Aðalsteinn Svanur Sigfússon.
Hvað með Ísland?
Sá sem þetta ritar veit ekki til að rannsóknir hafi verið gerðar í íslenskum birkiskógum sem svipar til þeirrar rannsóknar sem vísað er til í inngangi. Þó má reyna að spá í hvort þetta geti átt sér samsvörun hér á landi.
Ef ekki væri fyrir skógarstíga væri ekki alltaf auðvelt að fara um birkiskóga eins og þennan. Myndin er úr Vaglaskógi. Mynd: Sig.A.
Á Íslandi eru rétt um tvö prósent landsins vaxinn skógi. Að vísu eru sumir þeirra svo lágvaxnir að þeir uppfylla ekki alþjóðleg viðmið um skóga, en það er utan við þennan pistil. Víðáttumestu skógar landsins eru einhvers konar birkiskógar eða birkikjarr. Samtals er þekur þessi vistgerð um 1,5% landsins eða ¾ af skógum landsins. Restin eru gróðursettir skógar. Margar tegundir sveppa lifa í sambýli við birki. Sumir þeirra lifa reyndar líka í sambýli við víðitegundir enda má líta á víði sem hluta af vistkerfum birkiskóga. Þessir sveppir lifa fyrst og fremst neðanjarðar þar sem þeir mynda sveppþræði. Þeir tengjast rótarendum birkitrjánna (og víðisins) og mynda flutningsleiðir fyrir trén og runnana. Því má gera ráð fyrir að íslenska birkið hagi sér nákvæmlega eins og beyki í beykiskógunum þegar kemur að félagslegri aðstoð.
Afleiðingar þessa eru að trén í birkiskógum geta vaxið mjög nærri hvert öðru, rétt eins og í erlendum beykiskógum. Þeir sem reynt hafa að ganga í gegnum ógrisjaða, villta birkiskóga vita að það er hreint ekki auðvelt. Það líður þeim er þetta ritar seint úr minni þegar hann reyndi í fyrsta skipti að ganga í gegnum villtan birkiskóg í landi Litla-Sandfells í Skriðdal. Ófærðin var slík að ferðalangurinn trúði því varla þegar út úr skóginum var komið. Hann reyndi því aftur daginn eftir og lenti aftur í alveg jafn miklum hremmingum. Náttúrulegir birkiskógar eru nánast ófærir öllum nema fuglinum fljúgandi.
Íslenskur birkiskógur að hausti. Mynd: Sig.A.
Þróun birkiskóga
Vel er þekkt að þegar birkiskógar nema land á nýjum stöðum sýna þau tré bestan vöxt sem eru á bestum stað. Þetta má meðal annars sjá í Krossanesborgum við Akureyri. Myndin hér að neðan er einmitt tekin þar. Mestur vöxtur er í birkinu þar sem raki er nægur og gott framboð af næringarefnum. Í melunum, sem sjá má á myndinni, er töluvert um ungar birkiplöntur. Í melunum eru næringar- og vatnshringrásir ekki eins og best verður á kosið. Því vaxa þær plöntur mun minna. Merkir það að trén, sem voru svo óheppin að spíra á vondum stöðum, verði alltaf lítil og léleg?
Djáknatjörn í Krossanesborgum. Birkið nær bestum þroska í jaðri mýranna. Þar eru aðstæður bestar. Í klettaborgunum hefur birki einnig spírað en þar líður því ekki neitt sérstaklega vel samanber næstu mynd. Mynd: Sig.A.
Þetta birki á framtíð fyrir sér þegar það fær hjálp frá félögum sínum. Mynd: Sig.A.
Þar sem birkið í Krossanesborgum hefur náð hvað mestum þroska er það mjög þétt. Mun meiri vöxtur er í ungu plöntunum þarna en á myndinni hér að ofan. Mynd: Sig.A.
Til að nálgast svar við þeirri spurningu má skoða eldri skóga. Í Leyningshólum, innarlega í Eyjafirði, er að finna villtan birkiskóg sem sennilega hefur verið þarna frá því löngu fyrir landnám. Þar er mikill munur á frjósemi og magni næringarefna eftir því hvar borið er niður. Myndin hér að neðan er einmitt þaðan. Sumir hólarnir eru það þurrir að þar hefur birkið ekki enn náð sér á strik. Ef fræ spíra þar virðast þau ekki ná tengslum við annað birki og drepast, fyrr eða síðar. Þar sem birkið vex á annað borð er ekki mikill munur á hæð og vaxtarþrótti, hvort sem birkið vex á frjóum stöðum eða á þurrum og ófrjóum stöðum. Þar er að vísu munur á milli einstaklinga, en þar er væntanlega frekar um erfðabreytileika að ræða en um aðgang að vatni og næringarefnum. Það bendir sterklega til þess að íslenskir birkiskógar deili þeim efnum sem í boði eru. Þeir virðast reka bæði félags- og heilbrigðisþjónustu innan síns líffélags, rétt eins og beykiskógarnir í Evrópu.
Lauflaus birkiskógurinn í Leyningshólum í október 2021. Allt birkið er álíka hátt, burt séð frá því hvar það stendur. Mynd: Sig.A.
Mynd úr Leyningshólum 26.09.2021. Mynd: Sig.A.
Heimild:
Peter Wohlleben (2016): The Hidden Life of Trees. What They Feel, How they Communicate. Þriðji kafli. David Suzuku Institute. Greystone Books. Vacouver, BC, Canada.
Comments