top of page

Töfratré

Updated: Sep 21, 2023

Á þessum árstíma er lífríkið allt að vakna til lífsins, svona smám saman. Eitt af því sem gleður augað á þessum árstíma er töfratré eða Daphne mezerum eins og það er kallað á máli grasafræðinnar. Töfratré blómstrar ljómandi fallega, eins og sjá má. Það blómstrar fyrir lafugun þannig að blómin eru mjög áberandi. Á haustin myndar tegundin rauð aldin sem eru eitruð. Sagt er að 10-12 ber geti verið banvæn fyrir fullorðið fólk. Því er rétt að planta ekki töfratrjám þar sem óvitar gætu tínt berin upp í sig. Reyndar eru þau afskaplega bragðvond þannig að ólíklegt er að fólk nái að borða banvænan skammt. Hér á landi myndar tegundin oft frjótt fræ og getur sáð sér út. Það getur þó tekið allt að 2-3 ár fyrir fræið að spíra. Einnig er hægt að fjölga töfratrjám með græðlingum. Það er alltaf gert ef fjölga skal ákveðnum yrkjum.

Töfratré telst frekar vera runni en tré en þar sem það ber þetta nafn er tilvalið að velja það núna sem #TrévikunnarSE. Það verður sjaldan meira en 1 metri á hæð og kann best við sig á sólríkum stað. Þá vekur það gjarnan undrun og aðdáun þegar það blómstrar svona snemma, stundum jafnvel um miðjan apríl. Blómin mynda einskonar spíral á greinum fyrra árs og eru oftast bleikrauð en til eru einstaklingar sem bera hvít blóm. Ef það nýtur minni sólar getur það þrifist ágætlega en blómstrar þá minna.

Fræðiheitið, Daphne mezerum, er samsett af grískum og persneskum orðum. Fyrra nafnið vísar í goðafræði Grikkja en Daphne var grísk gyðja sem breyttist í lárviðartré þegar guðinn Appolon gerðist of nærgöngull við hana. Seinna nafnið, mezereum, kemur úr persnesku og þýðir að drepa og vísar í hin eitruðu ber. Þó ber þess að geta að fuglar éta þessi ber án þess að verða meint af, enda kunna þeir ekki persnesku.

Myndirnar eru úr garði í Síðuhverfi og teknar á sumardaginn fyrsta árið 2019.
326 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page