top of page

Sparilundur í Vaðlaskógi

Updated: Dec 3, 2023

Vaðlaskógur blasir við öllum Akureyringum og þeim sem heimsækja bæinn. Fjöldi fólks heimsækir skóginn á hverju ári en samt er það svo að hann hefur verið heimsóttur mun minna en Kjarnaskógur. Vaðlaskógur er samt heimsóknarinnar virði enda hefur Skógræktarfélag Eyfirðinga séð um skóginn frá 1936. Að vísu var svæðið alveg trjálaust þegar félagið tók við landinu og því ef til vill ofmælt að segja að félagið hafi séð um „skóginn“ frá 1936. Látum það liggja á milli hluta í bili, en ljóst er, samkvæmt gögnum félagsins, að snemma var litið á svæðið sem vænlegt til útivistar.

Eftir að vatnslögn var lögð í gegnum skóginn frá Vaðlaheiðargöngum að Skógarböðunum varð aðgengi að norðurhluta skógarins betra en áður. Því þykir okkur rétt að segja nánar frá þessu svæði. Þessi pistill er í pistlaröð um skóginn en þegar hafa birst pistlar sem finna má hér, hér og hér. Nú fjöllum við um einskonar drög að trjásafni í skóginum. Gengur það undir nafninu Sparilundur.


Í Sparilundinum þann 24. maí 2023. Alaskasýprus í forgrunni en síberíuþinur þar á bak við. Lerkið allt um kring. Mynd: Sig.A.


Lerkilundurinn

Þar sem Sparilundurinn er núna var upphaflega plantað lerki árið 1951. Samkvæmt gagnagrunni skógræktarfélagsins var um 2000 plöntum af kvæminu Hakaskoja plantað á þessu svæði. Lifun var góð og því varð skógurinn mjög þéttur. Eitt af því sem reglulega þarf að gera í skógum er að grisja. Aðgengi að þessum hluta skógarins var lengi vel frekar slæmt. Að auki voru aðeins til handverkfæri til grisjunar en ekki keðjusagir eins og síðar varð. Þrátt fyrir góðan vilja og töluverða vinnu sjálfboðaliða upp úr miðri síðustu öld tókst því ekki að grisja skóginn eins mikið og best hefði verið, því dróst úr hófi að grisja lundinn nægilega vel.


Góður slóði var gerður um skóginn seint á 9. áratug síðustu aldar og þá varð öll umhirða auðveldari. Fram að því hafði verið unnið þarna eins og hægt var með góðu móti, en það hefði þurft að gera enn meira. Lerkið stóð því allt of þétt og króna var aðeins efst á trjánum. Það var því ekki fyrr en árið 1990 sem farið var í umfangsmikla vinnu við að grisja reitinn almennilega. Sennilega var grisjunin helst til hraustleg og gerði ekki ráð fyrir hinu svakalega roki sem gekk yfir landið þann 3. febrúar 1991. Þá féllu mörg tré í nýgrisjuðum lerkilundinum. Þetta var auðvitað áfall, en fátt er svo með öllu illt að ekki boði eitthvað gott. Hér var kominn mjög skjólsæll staður í skóginum með rými fyrir allskonar fágæt tré, sem best vaxa í skógarskjóli. Því má halda því fram að þarna sé að vaxa upp mjög merkur og hugþekkur trjásýningareitur, eða Arboretum eins og það er kallað í hinum stóra heimi.


Mun hér verða fjallað lítillega um þennan hluta skógarins. Seinna höldum við áfram að segja frá öðrum merkum trjám sem þarna er að finna.


Þegar komið er að lerkilundinum verða á vegi okkar tveir fjallaþinir af Skagwaykvæmi. Mynd: Sig.A.


Veðrið

Rétt er að geta þess að veðrið þann 3. febrúar 1991 var ekkert venjulegt veður. Áður en við segjum frá helstu tegundum í lundinum er rétt að segja frá því.


Kortið hér að neðar sýnir veðrið þennan dag kl. 15 og er úr þessari grein eftir Trausta Jónsson frá árinu 2012.


Þar segir Trausti um þetta veður: „Þennan dag varð mesta tjón sem orðið hefur á mannvirkjum í einu fárviðri hér á landi, að þávirði meir en 1 milljarður króna. Á kortinu sést næstmesta þriggja klukkustunda ris loftvogar sem vitað er um hér á landi eða 30,7 hPa á Keflavíkurflugvelli. Fárviðri var bæði af suðaustri og suðvestri/vestri.“ Frekari lýsingar á þessu veðri má finna hér. Þetta var meira en nýgrisjaður lerkilundurinn þoldi.

Veðrið kl. 15 þann 3. febrúar 1991 var heldur í hvassara lagi samkvæmt upplýsingum af síðu Trausta Jónssonar veðurfræðings. Kortið sýnir þriggja klukkustunda ris loftvogar.


Skógur milli lækja

Eins og sjá má á meðfylgjandi uppdrætti Helga Þórssonar er lerkiteigurinn aðeins lítill hluti þess lands sem við köllum „milli lækja“. Full ástæða er til að fjalla nánar um það svæði og þær fjölmörgu trjátegundir sem þar er að finna. Nú þegar höfum við fjallað um hvítþininn sem þarna er en umfjöllun um aðrar tegundir kemur vonandi síðar.


Riss af svæðinu á milli lækja. Sparilundurinn er merktur inn sem sparirjóður sem er ágætis nafn. Á kortið eru nokkrar aðrar, merkilegar tegundir merktar. Mynd: Helgi Þórsson.


Sparilundurinn

Lerkið, sem þarna vex, er núna ljómandi fallegt og veitir öllum þeim trjám, sem þarna eru, gott skjól. Þegar þetta er skrifað er það orðið tæpir 19 metrar á hæð. Gestir skógarins njóta vitanlega einnig þessa skjóls. Slóðinn sem gerður var í gegnum lundinn til að bæta umhirðu er þarna enn. Neðan við lundinn er hinn nýi hjólastígur og liggja slóðarnir saman að hluta sem skapar ákjósanlegar gönguleiðir. Tilvalið er að ganga þarna hring til að skoða lundinn.


Verður nú sagt frá helstu tegundum sem finna má í lerkirjóðrinu og gróðursettar voru í kjölfar grisjunarinnar og stormfallsins. Mest var gróðursett árið 1992.


Þarna sitja þeir félagar Sigurður Arnarson og Helgi Þórsson í Sparilundinum. Helgi er að upplýsa Sigurð um mismunandi greinabyggingu þintrjáa. Ætla mætti að Sigurður væri að blása á þessa þekkingu, en svo er ekki. Hann er að sjúga hana að sér. Mynd: Ingólfur Jóhannsson.


Barrtré

Fjallaþinur (Abies lasiocarpa) er tegund frá vesturströnd Norður-Ameríku frá Alaska og Yukon í norðri (64°N) til fjallasvæða New Mexico og Arizona í suðri. Hæstu trén okkar eru 11,4 metrar á hæð en líklega munu þau ná því að verða um 20 metrar með tíð og tíma. Nokkur tré standa í jaðri teigsins, rétt við göngustíginn, hin eru í sjálfum reitnum. Þau eru öll af Skagway-kvæmi frá Alaska. Þau þekkjast á því að flest trén hafa nánast 90° greinahorn. Þau virka því frekar gisin. Tré sem hafa uppréttari eða meira hangandi greinar virka miklu þéttari.


Fjallaþinur í lundinum með nánast 90° greinahorn. Mynd: Sig.A.


Hvítþinur (Abies concolor). Í eða við lundinn stendur eitt tré eftir af kvæminu Rio Grande National Forest. Þekkist hann frá öðrum þintrjám á sínum löngu barrnálum. Ekki fjöllum við meira um hann í þessum pistli en bendum á umfjöllun og mynd af trénu í þessum pistli.


Síberíuþinur (Abies sibirica) Þegar skógrækt hófst á Íslandi var síberíuþinur meðal þeirra tegunda sem reyndar voru. Til eru meira en aldargömul eintök, meðal annars í Grundarreit. Svo féll hann úr tísku. Eintökin í Sparilundinum eru mjög falleg. Barrið er ljósara en á öðrum þin í reitnum, trén eru þétt og falleg og hafa náð 12 metra hæð. Það gerir hann að hæstu þintegund skógarins. Merkilegt má telja að hvítþinurinn í Grundarreit hefur náð um 14-15 metra hæð á 120 árum, þannig að nú er bara spurning um tíma hvenær þinurinn í Sparilundinum nær honum í stærð. Þó munar 90 árum á þeim.


Barrið á alaskasýprusnum (fremst á myndinni) er gjörólíkt barrinu á síberíuþininum (aftar á myndinni). Mynd: Sig.A.


Alaskasýprus (Cupressus nootkatensis syn. Chamaecyparis nootkatensis). Árið 1985 fór Óli Valur Hansson í trjásöfnunarleiðangur til Alaska og náði í fræ af þessari tegund. Skógræktarfélagið fékk einn bakka af plöntum. Þeim var flestum plantað norðan við lerkireitinn en tvær voru settar í potta og síðar gróðursett í Sparilundinn. Lifunin var ljómandi góð en þessar tvær, sem hlutu framhaldsuppeldi áður en þeim var plantað, eru stærstar og fallegastar. Þær eru núna 5 metra háar og standa framan við síberíuþin.


Lífviðurinn hugar að næstu kynslóð í maí 2023. Mynd: Sig.A.


Lífviður eða risalífviður (Thuja plicata). Ein planta af þessari tegund er á áberandi stað í rjóðrinu. Við höfum áður fjallað almennt um tegundina. Þar var ekki fjallað um þennan eina sem stendur í Sparilundinum. Ekkert er að finna í gögnum félagsins um uppruna þessa eintaks en fræið kom frá Danmörku og var plantað um leið og flestum hinna trjánna. Nú er lífviðurinn um 2 metrar á hæð og á nokkuð langt í land með að teljast til risa.


Önnur barrtré vaxa þarna á „milli lækja“ en ekki með lerkinu. Má nefna rauðgreni, sitkagreni, broddgreni, lindifuru, skógarfuru, stafafuru og jafnvel eitthvað fleira. Við geymum umfjöllun um þau tré í bili.


Helgi Þórsson (til vinstri) og Ingólfur Jóhannsson skoða lífviðinn og velta uppruna hans fyrir sér. Til hægri, bak við Ingólf, má sjá glæsilegan síberíuþin. Beint aftan við lífviðinn er álmur með ljósgráan stofn og dæmigert vaxtarlag fyrir sína tegund. Hann var ekki farinn að laufgast þegar myndin var tekin. Mynd: Sig.A.


Eðallauftré

Í Sparilundinn hefur verið plantað þremur tegundum lauftrjáa. Þau standa nálægt hvert öðru og aðeins eitt af hverju. Teljast þau öll til svokallaðra eðallauftrjáa. Önnur lauftré má finna þarna allt í kring. Reynir (Sorbus aucuparia) sáir sér sjálfur út og sunnan við reitinn má finna tvö kvæmi af birki (Betula pubescens). Annarsvegar frá Bæjarstaðaskógi og hins vegar frá Vöglum.

Bergsveinn Þórsson klippir frá broddhlyninum sumarið 2019. Mynd: Sig.A.


Broddhlynur (Acer platanoides) er evrópsk hlyntegund sem finna má allt frá Noregi og suður til Tyrklands. Hann er mun minna ræktaður hér en garðahlynur (A. pseudoplatanus). Broddhlynurinn er hið laglegasta tré og er nú 5,2 metrar á hæð.


Broddhlynur að opna brum sín þann 24. maí 2023. Á bak við hann sést hvítþinur. Mynd: Sig.A.


Hjartalind (Tilia cordata) er mjög fátítt í ræktun á Íslandi en óx villt á Íslandi áður en ísöldin eyddi nær öllum gróðri. Nú vex það villt í Evrópu og vestasta hluta Asíu. Okkar eintak er um 2,5 metrar á hæð. Þekkist það helst á því að blöðin eru hjartalaga. Getur verið skemmtilegur fjölskylduleikur að finna lauf í Sparilundinum sem er eins og hjarta í laginu. Takist það, hafið þið fundið hjartalindina fágætu. Þessi lind er af fræi sem hingað kom frá Danmörku. Það gefur góð fyrirheit um að til séu kvæmi sem geta þrifist hér með ágætum.

Á stefnuskránni er að skrifa pistil um þessa tegund en óvíst er hvenær hann birtist.


Hjartalind fær nafn af laufum sínum sem eru hjartalaga. Hér í haustlitum. Mynd: Sig.A.


Álmur (Ulmus glabra) er meira ræktaður sunnan heiða en norðan. Þó eru til ljómandi falleg eintök á Akureyri og fjölluðum við um eitt þeirra í þessum pistli þegar það myndaði mikið fræ, sem því miður spíraði illa eða ekki. Á sama tíma komu fræ á álminn í Sparilundinum. Álmur er ættaður frá svipuðum slóðum og hjartalindin en er almennt talinn harðgerðari og vex betur. Okkar eintak er 7,5 metrar á hæð.


Álmurinn sumarið 2019. Mynd: Sig.A.


Annað merkilegt

Í Sparilundinum má sjá móta fyrir gömlum garði ef vel er að gáð. Er talið að hann hafi verið reistur utan um uppeldisreit á upphafsárum skógræktarstarfsins á sínum tíma. Svo er að finna þarna tegund sem ekki er algeng í íslenskum skógum.


Lyngrós, nánar tiltekið dröfnulyngrós (Rhododendron catawbiense ´Grandiflorum´), er áberandi runni sem stendur þarna rétt við alaskasýprusinn og síberíuþininn. Hún var gróðursett þarna um 1992 og hefur dreifst lítillega út án þess að teljast ágeng. Okkur rekur ekki minni til þess að hún hafi blómstrað.


Fleiri runnar eru á svæðinu, einkum rifs (Ribes rubrum) sem fuglar hafa sáð þarna í töluverðu magni. Þeir hafa einnig verið duglegir við að dreifa reynivið í skógarbotninn eins og áður greinir.


Lyngrósin er sígræn og lífgar upp á umhverfið allt árið. Mynd: Sig.A.

Við þetta má bæta þremur barrtrjátegundum sem plantað hefur verið á þessum áratug. Framtíðin mun skera úr um hvort og hvernig þeim tegundum mun vegna.

Nemendur úr Síðuskóla gróðursettu eitt degli (Pseudotsuga menziesii) og einn hvítþin (Abies concolor) í rjóðrið fyrir fáum árum. Trén voru gróðursett þar sem áður var uppeldisreitur félagsins og enn mótar fyrir. Skammt frá þessum ungu trjám voru nýlega gróðursettir tveir ungir glæsiþinir (Abies fraseri) úr ræktun Helga Þórssonar. Gaman verður að fylgjast með vexti þessara tegunda þar sem hægt verður að skoða fjórar þintegundir á litlu svæði. Vel má vera að við bætum við það safn.


Samantekt

Að ofansögðu má ljóst vera að þarna er margt fróðlegt að skoða. Þó er enn ekki allt nefnt sem í skóginum er að finna. Með því að stækka hringinn sem genginn er má sjá fleiri tegundir og njóta þess fjölbreytta gróðurs sem þarna er að finna. Einfalt er að skoða blæöspina í leiðinni ef gestir hætta sér yfir þjóðveginn. Um hana höfum við áður fjallað. Seinna segjum við frá fleiri töfrum sem þarna er að finna.



Heimildaskrá


Trausti Jónsson (17.12.2012) Eftirminnileg veðurkort. Borin fram á fati. Sjá: https://www.vedur.is/vedur/frodleikur/greinar/nr/2512 Sótt: 23.04.2023,


Trausti Jónsson (25.9.2016 ): Fárviðrið 3. febrúar 1991. Sjá: https://trj.blog.is/blog/trj/entry/2180802/ Sótt: 23.04.2023.


Aðalsteinn Svanur Sigfússon, Helgi þórsson, Bergsveinn Þórsson, Valgerður Jónsdóttir og Ingólfur Jóhannsson jusu öll úr viskubrunnum sínum við gerð þessa pistils. Þær villur sem kunna að hafa læðst inn eru þó á ábyrgð Sigurðar Arnarsonar.

314 views

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page