top of page

Risalífviður

Updated: Jul 5, 2023

Fyrir margt löngu var Hjörtur Oddson fyrstur til að ráða gátu um tré vikunnar. Í verðlaun fékk hann að velja sér umfjöllun um eitthvert tré. Hann valdi risalífvið eða Thuja plicata. Þessi umfjöllun er fyrir Hjört.


Lewis og Clark

Í byrjun 19. aldar fóru þeir félagar Lewis og Clark þvert yfir Norður-Ameríku frá austri til vesturs ásamt fylgdarliði. Var þetta í fyrsta skipti sem farið var í slíka ferð svo vitað sé.

Við rætur Klettafjalla komust þeir ekki lengur áfram með báta sína heldur þurftu að skilja þá eftir og fara að klífa fjöll til að ná til Kyrrahafsstrandarinnar. Þegar yfir hæstu fjöllin var komið fóru þeir að svipast um eftir smíðavið svo þeir gætu gert sér nýja báta og siglt á þeim niður fljótin sem hlutu að renna til hafs. Auðvitað vissu þeir ekkert um þá skóga sem þarna uxi og vaxa enn, í því ríki sem nú er nefnt Idaho, eða hvaða tré væru í þessum skógum. Helst vildu þeir finna stór tré svo hægt yrði að búa til eintrjáninga sem gætu ekki aðeins borið ferðalangana heldur einnig vistir og margvíslegan útbúnað. Viðurinn þurfti að vera eins léttur og unnt væri, því líklegt væri að fossar og flúðir yrðu á leiðinni. Þá þyrftu þeir að taka bátana á land og bera þá fram hjá hindrunum. Þeir höfðu hvorki mikil né merkileg verkfæri með sér svo auðvelt varð að vera að vinna þennan við ef tafir áttu ekki að verða of miklar. Að auki þurfti viðurinn að þola það að velkjast um í straumharðri á. Hvar gætu þeir fundið slík tré?


Horft upp eftir stofni á 60 metra háum risalífvið. Myndin er fengin héðan.


Í bókinni Lewis og Clark og ferðin yfir Norður-Ameríku eftir David Hooloway sem gefin var út á íslensku árið 1976 af Bókaútgáfunni Erni og Örlygi hf. segir á bls 139. Í þýðingu Örnólfs Thorlaciusar: „Meðan þeir voru að ná sér [innskot: Þeir höfðu fengið einhvers konar matareitrun] [komst] Clark í kynni við valdamikinn höfðingja þar um slóðir, Fléttað-Hár. [innskot: Í bandarískum heimildum er hann nefndur Twisted Hair] [. . . ]

Fléttað-Hár fræddi Clark á því að menn hans væru vanir að ferðast niður Columbiufljót á bátum sínum og að nokkrum mílum niður með Kúkúski-fjlótinu yxu furutré svo stór að smíða mætti úr stofnum þeirra eintrjáninga. Í síðust viku september var svo yfirsmiður hópsins, Gass, sendur þangað og með honum þeir sem náð höfðu heilsu. Þar sem þeir tjölduðu kölluðu þeir Barkarbátabúðir. Hinn fjórða október höfðu þeir lokið smíði fimm báta með því að svíða furustofnana hola innan. Fjórir bátanna voru stórir en hinn fimmti lítill, ætlaður til könnunarferða á undan aðalleiðangrinum.“


Risalífviður á Vancouvereyju gæti hentað vel í stóra eintrjáninga. Myndin er fengin af þessari síðu.


Furutrén sem þarna er talað um eru auðvitað engin furutré, heldur risalífviðurinn sem þarna vex. Risalífviðurinn hefur einmitt alla þá kosti sem þeir Lewis og Clark leituðust eftir. Lokaáfangi ferðalagsins til vesturs var framundan.


Lífviðurinn við Puget-sund og nágrenni

Samkvæmt Peatti, 2007 (sjá heimildaskrá) nær risalífviður hvað mestri stærð á Vancouvereyju. Víða er það svo að hann er höggvinn niður löngu áður en hann verður fullvaxinn. En á fyrrnefndri eyju er risalífviður svo stór að fá barrtré í heiminum standast honum snúning. Svo er að sjá að á þessari eyju, og nærliggjandi eyjum og strandsvæðum Bresku Kólumbíu sem og við firðina í suðurhluta ALaska hafi frumbyggjar nýtt lífviðinn meira en víðast hvar annars staðar. Þarna ná fjöllin víða í sjó fram og jöklar prýða hæstu fjöll. Þarna vaxa einskonar regnskógar þar sem þallir, greni, þinur, sýprusviður og lífviður eru aðaltrén. Þarna ná þessir skógar alveg niður að ströndum.


Fyrir komu bleiknefja bjuggu þarna þjóðir eins og Tlingitar, Haidas og Tsimshians. Þær eru meðal annars frægar fyrir tótemsúlur sínar úr risalífvið.


Karlmaður af ætt Tsimshian sker út tótemsúlu til heiðurs forfeðrum sínum. Á súlunni liggur grein af risalífvið. Myndin er fengin héðan. Þar má lesa meira um list þessara frumbyggja.


Frumbyggjarnir bjuggu einnig til hverskonar stríðstól úr honum. Hjálmar, bogar og örvar, spjót og fleira var allt búið til úr þessum trjám. Kom sér þá vel hversu léttur viðurinn er og hversu auðvelt er að kljúfa hann.Til að hafa samskipti sín á milli notuðu þessar þjóðir eintrjáninga sem þeir sigldu ekki bara á eftir fljótunum, heldur með ströndum fram og á milli eyja og fjarða. Þeir bjuggu til langstærstu eintrjáninga sem þekktir eru. Svokallaðir fjölskyldueintrjáningar voru 20-25 fet að lengd (6 til 7,5 metrar) og gátu borið heilu fjölskyldurnar ásamt húsmunum, verslunarvöru og annan varning. Burðargeta þessara eintrjáninga er talin vera allt að tvö tonn. Ekki nóg með það. Þeir byggðu líka skip sem gátu verið allt að 65 fet að lengd (hátt í 20 metrar) og höfðu 1-3 möstur sem segl voru strengd á. Samt er það svo að skipsskrokkurarnir voru í hverju tilfelli búnir til úr aðeins einu tré. Þessi stóru eintrjáningar gátu borið 30-40 manns hver. (Peatti 2007)

Skreyttur eintrjáningur úr risalífvið. Myndin er fengin héðan.


Reynsla á Íslandi

Lengi vel töldu margir að það væri alveg óþarfi að reyna þetta tré á Íslandi. Aftur á móti hefur reynslan kennt okkur að við réttar aðstæður getur tréð vel þrifist hér á landi. Skjól er algert lykilatriði en minna máli skiptir þótt risalífviður fái ekki mikla birtu í uppvexti sínum.

Risalífviður við Jökullæk á Hallormsstað. Sennilega eru þetta stærstu tré tegundarinnar á Íslandi. Árið 2021 mældist hæsta tréð 11,4 m með þvermál 26,9 cm. Hann var gróðursettur árið 1963 en óx hægt fyrstu áratugina. Frá aldamótum hefur hann vaxið hratt og örugglega. Upplýsingarnar fengnar af Facebooksíðu trjáræktarklúbbsins. Mynd: Pétur Halldórsson.



Hér á Akureyri eru aðeins til fáein tré sem standa sig vel. Á heimasíðu Lystigarðsins segir að þar séu til plöntur sem keyptar voru seint á síðustu öld. Þau hafa þrifist með prýði í garðinum og kala lítið.

Risalífviður í Lystigarði Akureyrar sem er innan við 2 m á hæð.

Mynd: Sigurður Arnarson


Stjórnarmaður í SE, Pétur Halldórsson er með eitt tré í sínum garði sem aldrei hefur kalið og lítur mjög vel út. Vel mætti reyna þessi tré víðar ef og aðeins ef þau fá gott skjól í æsku sinni. Bestum þroska hefur tegundin náð á Hallormsstað. Má lesa nánar um það hér. Einnig eru til efnileg tré við Höfðavatn hjá Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar og sjálfsagt víðar.

Ung planta af risalífvið í garði Péturs Halldórssonar á Akureyri. Mynd: Pétur Halldórsson.


Ættfræði

Risalífviður, Thuja plicata, er af ættkvísl lífviða; Thuja spp. Sem dæmi um fleiri tegundir af þeirri ættkvísl má nefna kanadalífvið, T. occidentalis sem er víða ræktaður í görðum. Til eru mörg nafngreind yrki af risalífvið en þau eru mun minna ræktuð á Íslandi heldur en yrki af kanadalífvið. Þau eru fjölmörg og má finna þau víða. Þessar tvær tegundir koma hingað frá Norður-Ameríku. Risalíviðurinn vestan vert en kanadalífviður um álfuna austanverða. Hinar tegundir ættkvíslarinnar vaxa í norð-austur Kína, Kóreu, Japan og í Taívan. Tvær af þeim; kóreulífviður, T. koraiensis, (sem vex bæði í Kóreu og Kína) og japanslífviður, T. standshii, hafa verið reyndar hér í görðum. Þá eru nánast allar tegundir ættkvíslarinnar nefndir nema T. sutchuensis frá samnefndu héraði í Kína. Hann var talinn útdauður en fannst seint á síðustu öld alveg sprelllifandi í Daban Shan fjöllum í norðurhluta Kína. Samtals eru því fimm tegundir innan ættkvíslarinnar, auk afbrigða af kanadalífvið.

Kínalífviður, Platyclasus orientalis hefur oftast fengið að fljóta með og er þá sjötta tegundin. Hann var áður flokkaður sem Thuja orientalis en hefur verið fluttur í aðra ættkvísl. Strangt til tekið er kínalífviður því ekki lífviður þótt hann beri þetta nafn.


Kóreulífviður í Lystigarðinum. Mynd: Sigurður Arnarson.


Lífviður er af ætt sem kallast Cupressaceae á latínu. Sú ætt hefur ýmist verið kölluð einisætt, lífviðarætt eða sýprusætt og stundum jafnvel grátviðarætt á íslensku. Auk lífviðar eru sýprusar (Chamaecyparis spp. og Cupressus spp.), einir (Juniperus spp.) af þessari ætt auk hátt í 30 annarra ættkvísla berfrævinga ef ættin Taxodiaceae er meðtalin. Stundum er hún höfð sér með um 10 ættkvíslir og fækkar þá ættkvíslum Cupressaceae sem því nemur. Ekki er alltaf auðvelt að greina allar þessar ættkvíslir að. Sérstaklega á það við um lífvið og sýprusvið sem geta verið vandgreindar í sundur nema fyrir sérfræðinga.


Risalífviður í Bænalundi, Höfðaskógi við Hvaleyrarvatn. Mynd: Skógræktarfélag Hafnarfjarðar. Trén í Höfðaskógi uxu upp af fræi af trjánum við Jökullæk í Hallormsstað.


Lýsing

Lýsing tegundarinnar er fyrst og fremst unnin upp úr bókinni Alaska Trees and Shrubs auk reynslu af Íslandi. Þessi ágæta bók var lengi eins konar Biblía fyrir allt skógræktarfólk sem afla vildi sér upplýsingar um skóga Alaska. Hún er nú löngu uppseld en stendur enn fyrir sínu.


Almennt

Risalífviður ber nafn með rentu. Það er stórt, sígrænt tré sem getur orðið 500 til 700 ára gamalt. Það er mjög skuggþolið en þrífst tæplega á Íslandi nema í góðu skjóli. Einkum á það við um uppvöxt þess framan af ævinni. Það er hægvaxta í byrjun enda liggur því ekki mikið á. Síðar á ævinni er hægt að segja að það sé í meðallagi hraðvaxta tré eða tæplega það.


Stærð

Að jafnaði verður tréð um 20-30 metrar á hæð í heimkynnum sínum en stundum allt að 40 m við bestu skilyrði. Þvermál trjánna getur verið um 60-120 cm í brjósthæð en dæmi eru um tré með allt að180 cm þvermál. Ómögulegt er að segja til um hversu há tegundin getur orðið á Íslandi. Stærstu trén eru við Jökullæk í Hallormsstaðaskógi. Þar eru stærstu trén um 10 metrar á hæð og stórglæsileg.

Myndin er fengin af þessari wikiwandsíðu.


Lauf (barr)

Eins og önnur barrtré hefur risalífviður ekki venjuleg lauf heldur barr. Það er flatt og hreisturkennt og liggur þétt að smágreinum. Dökk grængrátt og glansandi. Hver barrnál verður um 3-6 mm að lengd. Barrið ilmar mikið ef komið er við það. Á veturna verður barrið stundum brúnleitt og tuskulegt en grænkar aftur á vorin ef plantan hefur ekki orðið fyrir skemmdum.


Mynd: Pétur Halldórsson.


Könglar og fræ

Karlkyns blóm eru dökkrauð en kvenblómin verða fullþroska litlir könglar. Þeir eru ekki nema 1-1,5 cm að stærð með þykku og trjákenndu hreistri. Þeir eru aflangir en ekki kringlóttir eins og á frændum þeirra sýprusum (Chamaecyparis spp. og Cupressus spp.). Fræið er með áberandi vængi sem ná allan hringinn utan um fræið. Á Hallormsstað þroskar tegundin frjótt fræ.


Börkur

Börkurinn er grábrúnn að lit. Hann er þunnur til að byrja með en getur þykknað töluvert. Trefjar úr berkinum voru áður nýttar af frumbyggjum Ameríku til körfugerðar og í reipi.


Stofn á risalífvið. Mynd: Pétur Halldórsson.


Viður

Viður risalífviða hefur lengi verið mikið notaður. Rysjan er hvít og vel afmörkuð frá kjarnviðum. Hann getur verið frá dökkbrúnu og rauðbrúnu yfir í næstum laxableikt nær rysjuviðnum. Við veðrum verður hann silfurgrár. Viðurinn er mjög léttur og gjarnan nýttur í þakskífur og hvers kyns bátasmíði. Eintrjáningar fyrri tíma voru gjarnan smíðaðir úr stórum risalífvið. Það eru til ótrúlegar sögur af stærð slíkra eintrjáninga áður fyrr. Að auki er viðurinn nýttur í allskonar smíði þar sem heppilegt þykir að vera með léttan og meðfærilegan við, svo sem girðingar. Áður fyrr var risalífviður gjarnan notaður í tótemsúlur sem frumbyggjar Norður-Ameríku smíðuðu af miklu listfengi án þess að vera með nokkur járnverkfæri undir höndum. Eins og áður segir er viðurinn mjög léttur og miðast nýtingin gjarnan við það. Aftur á móti þykir hann ekki eins sterkur og þyngri viður og verður að taka mið að því. Þess vegna er viðurinn ekki nýttur í stórar byggingar eða þar sem álag er talið mikið. Aftur á móti er hann gjarnan notaður í minni skýli og stundum í klæðningar. Að auki er viðurinn nýttur í gítarsmíði. Einkum er það bakið á klassískum gíturum sem gjarnan er smíðað úr risalífvið.


Vöxtur

Risalífviður er alltaf einstofna og beinvaxið tré. Ýmiss yrki af frænda hans kanadalífvið eru smávaxnari en hér eru sennilega engin slík yrki af risalífvið í ræktun. Því má gera ráð fyrir að með tíð og tíma verði risalífviðurinn hávaxinn. Krónan er keilulaga og oftast fremur grönn. Greinarnar geta vaxið nokkuð beint út frá stofni en eru nær alltaf uppsveigðar í endann en smágreinarnar hanga gjarnan. Trén verða mjög þétt og falleg.


Lundur af myndarlegum risalífvið við Elgslæk (Moose Creek) í Idaho í Bandaríkjunum. Myndin er fengin héðan.


Vaxtarstaðir

Allur lífviður á það sameiginlegt að vera skuggþolinn, einkum í æsku. Þó er það svo að kóreulífviðurinn vex sums staðar ofan við skógarmörk þar sem lítinn skugga er að finna. Aftur á móti er risalífviður gjarnan síðframvindutré í skógum vestan til í Norður-Ameríku. Sáir sér inn í aðra skóga og vex upp þótt það fái ekki mikla birtu. Aftur á móti er mikilvægt að það fái gott skjól eins og finna má í þroskuðum skógum. Í heimkynnum sínum finnst lífviður stundum í samfelldum breiðum en algengara er að sjá hann sem lundi eða stök tré í öðrum barrskógum. Risalífviður vex til dæmis oft með þöll og sitkagreni í Alaska.

Risalífviður á ættir sínar að rekja til vestanverðrar Norður-Ameríku. Þar vex hann frá suðurhluta Alaska og allt suður til norðurhluta Kaliforníu og að austan frá Bresku Kólumbíu til Washington, Idaho, Montana og norðurhluta Klettafjalla. Allstaðar á þessu svæði lífviðurinn upp í skjóli í frjósömum og rakaheldum jarðvegi. Best líkar honum lífið ef ekki er of heitt og raki nægur.

Í Alaska vex risalífviður frá sjávarmáli og allt upp í rúmlega 900 metra hæð yfir sjávarmáli. Stærstu trén finnast þar í undir 150 metra hæð.



Heimildir og frekari lestur



Íðorðabanki Árnastofnunar https://idordabanki.arnastofnun.is/leit/Thuja%20Plicata sótt 22. mars 2022


Bækur:

Colin Tudge (2005): The Tree: A Natural History of What Trees Are, How They Live, and Why They Matter. Crown Publishers, a division of Random House, Inc, New York.


David Hooloway (1976) Lewis og Clark og ferðin yfir Norður-Ameríku. Þýðing: Örnólfur Thorlasius. Örn og Örlygur hf.


Donald Culross Peatti (2007): A Natural Historu of North American Trees. Trinity University Press, San Antonio, Texas.


Leslie A. Viereek og Elbert l. Little, Jr. (1972): Alaska Trees and Shrubs. Forest Service United States Department of Agriculture. Washington D.C:

513 views0 comments

Recent Posts

See All

Commentaires


bottom of page