top of page

Vaðlaskógur

Updated: Sep 17, 2023

Skógræktarfélag Eyfirðinga hefur umsjón með 11 skógarreitum í Eyjafirði og má fræðast um þá og staðsetningu þeirra hér. Flaggskipið í flotanum er Kjarnaskógur. Hinir reitirnir eru ekki eins fjölsóttir en hver og einn hefur sinn sjarma.


Grisjað fyrir nýjum hjólastíg í október 2021. Þrítugur rússalerkiskógur rétt norðan við skógarböðin. Glæsilegur lundur af góðu kvæmi sem vaxið hefur upp í skógarskjóli. Þetta gæti orðið ágætis timbur. Mynd: Helgi Þórsson


Í kjölfar þess að Skógarböðin hófu starfsemi sína í jaðri Vaðlaskógar urðu breytingar á aðgengi skógarins. Flytja þurfti vatn úr Vaðlaheiðargöngum að böðunum. Farið var með leiðsluna í gegnum skóginn og búinn til göngu- og hjólastígur í leiðinni. Að auki má gera ráð fyrir að sumir gestir baðanna vilji fara í gönguferðir um skóginn áður eða eftir baðið. Því þykir okkur rétt að kynna þennan skógarreit aðeins betur fyrir lesendum. Það ætlum við að gera í nokkrum pistlum, en við byrjum á að endurbirta grein sem Aðalsteinn Svanur Sigfússon skrifaði í bókina: Ásýnd Eyjafjarðar. Skógar að fornu og nýju. Sú veglega bók var gefin út á 70 ára afmæli félagsins árið 2000 í ritstjórn Bjarna E. Guðleifssonar. Enn er hægt, fyrir áhugasama, að nálgast eintök í skrifstofu félagsins í Kjarnaskógi. Töflur og flestar myndir í þessari grein eru aðrar en í bókinni. Flestar myndirnar í pistli dagsins tók Helgi Þórsson í Kristnesi. Hann á einnig myndatexta sinna mynda og vann myndirnar úr bókinni Ásýnd Eyjafjarðar svo við gætum birt þær aftur. Að auki bjó Helgi til kortin sem hér má finna. Bróðir hans, Bergsveinn Þórsson, starfsmaður SE, bjó til töflurnar upp úr gagnagrunni félagsins. Fá þeir allir okkar bestu þakkir fyrir hjálpina og ýmsar upplýsingar og ábendingar. Það sem er í hornklofa hér að neðan er viðbót eða nánari upplýsingar við uppaflegu greinina. Annars er greinin orðrétt úr bókinni, nema skáletraðir myndatextar.


Gestir næra sig í Vaðlaskógi í júní 2019. Mynd: Ingólfur Jóhansson.


Síðan skógrækt hófst í Vaðlaskógi hafa áherslur félagsins breyst og þróast. Meginverkefni félagsins eru samt enn þau sömu og alla tíð: Að rækta skóg sem Akureyringar og nærsveitamenn geta notið.


Glæsilegt en sjálfsmíðað hlið við innkomuna í gamla Hakaskojalerkið, milli lækja. Birkihliðið er þannig tilkomið að myndarlegur furtoppur hefur fallið á birkitré og sveigt það niður í jörð, akkúrat yfir miðjum göngustíg.

Mynd: Helgi Þórsson.


Forsagan

[Hér hefst grein Aðalsteins]

Í fundargerðabók Skógræktarfélags Eyfirðinga er að finna eftirfarandi bókun: „Ár 1936, 13. febrúar, var stjórnarfundur haldinn í Skógræktarfélagi Eyfirðinga á Hótel Gullfossi kl. 2 e.h. Á fundinn voru mættir 5 bændur frá jörðunum Varðgjá, Veigastöðum og Hallanda. Auk þess var mættur á fundinn Ólafur Thorarensen bankastjóri. Tilefni fundarins var að fala land af bændum þessum til skógræktar. Eftir allmiklar umræður samþykktu bændurnir að láta af hendi til Skógræktarfélagsins landspildu neðan af landareign allra fyrrgreindra jarða með sérstökum fyrirmælum og yrði gerður um það sérstakur samningur, undirskrifaður af öllum aðiljum.“ Það var svo þann 9. apríl sama ár að þessi samningur var undirritaður. Samningurinn er ótímabundinn og enn í fullu gildi. Með honum afsala landeigendur umráðarétti yfir landi þessu til Skógræktarfélagsins með nokkrum skilyrðum, meðal annars því að landið verði einungis notað til skógræktar.


Jafnvel sjávarspendýrin kunna vel við skóg í Vaðlaheiði. Mynd: Sig.A.


Sjötta grein samningsins er athyglisverð og ber vott um þá bjartsýni og trú á viðfangsefninu sem nauðsynleg hefur verið til að ráðast í skógrækt í svo stórum stíl á skóglausu landi á fjórða áratug 20. aldar. Greinin hljóðar svo: „Sem greiðslu fyrir leigu á umræddu landi, ber ábúendum nefndra jarða, helmingur þess skógar, sem höggvinn kann að verða seinna meir á hinu afgirta landi, enda ákveði Skógræktarfélagið sjálft, hvenær og hvernig sú grisjun fer fram, og sje kostuð til jafns af öllum hlutaðeigendum, undir eftirliti Skógræktarfélagsins.“


Íslenski skógarfýllinn. Svolítið sérstakur skógarfugl, yst í Vaðlaskógi. Þar eru klettar og stutt til hafs. Mynd: Helgi Þórsson.


Friðun

Landið var girt um sumarið og strax hafist handa við gróðursetningar. Landspilda þessi liggur í sjó fram, um tveggja kílómetra löng, í misbröttum brekkum út með Pollinum austanverðum. Landslag og gróðurfar er fjölbreytt; mýrar og móar skiptast á við mela og klappir. Nokkrir lækir falla um reitinn og skarta fossum. Staðarvalið gegnt Akureyri er engin tilviljun, enda markmið félagsins með skógrækt á þessum stað skýrt: Að gera Akureyringum og nærsveitafólki mögulegt að njóta alls þess sem skógur býður uppá án þess að leggja á sig langferðir austur yfir Vaðlaheiði eða inn í Leyningshóla, sem á þessum tíma var eini skógurinn í héraðinu sem stóð undir nafni. Þegar þetta er skrifað, 64 árum eftir að skógrækt hófst í Vaðlaskógi, er þetta markmið óðum að nást, þó að Kjarnaskógur hafi tekið forystu sem útivistarskógur Akureyringa.

Þrjár loftmyndir af Vaðlaskógi. Hægt er að smella á þær til að skoða þær betur. Sú fyrsta er frá Google Earth, tekin árið 2007. Hinar tvær teiknaði Helgi Þórsson til að auðvelda okkur yfirsýn yfir hvað þarna er að finna.


Gróðursetning

Þegar ráðist var í þetta stórvirki, að planta til skógar á tæpum 50 hekturum af skóglausu landi, stóðu menn frammi fyrir ýmsum vanda sem ekki er fyrir hendi nú á dögum. Einn var sá að útvega plöntur til gróðursetningar. Það reyndist þrautin þyngri, enda engin trjáplöntuframleiðsla í héraðinu. Varð því að hafa öll spjót úti og framan af voru plöntur útvegaðar með ýmsu móti. Keyptar voru plöntur, aðallega birki, úr trjáræktarstöðinni á Vöglum í Fnjóskadal en einnig voru farnar sérstakar ferðir í Vaglaskóg og teknar upp plöntur úr skóginum og fluttar vestur yfir heiði, „í melarendur og smá flög sem rist var ofan af.“ Gróðursett var í reitinn allt fram á sjöunda áratuginn þegar nær fullplantað var í landið, á þriðja hundrað þúsund plantna.


Myndrit eftir Bergsvein Þórsson sem sýnir hversu mikið hefur verið gróðursett árlega í skóginn. Sjá nánar í texta. Samtals eru þetta rúmlega 235.000 plöntur.


Framan af var öll gróðursetningin unnin í sjálfboðavinnu og innt af hendi með þeim hætti mikið og óeigingjarnt starf eins og víðar í reitum félagsins. Á níunda og tíunda áratugnum var svo plantað til uppfyllingar og viðbótar allmörgum þúsundum plantna.


Mynd eftir ókunnan höfund úr bókinni Ásýnd Eyjafjarðar bls. 171. Undir myndinni stendur í bókinni: „Trjámælingar í Vaðlaskógi 1956. Verið er að mæla Hakaskojalerkið, gróðursett 1951 sem þá þegar lofaði góðu. Lengst til vinstri á myndinni má greina barrtré sem eru dögglingsviður [nú oftast nefnt degli] og sitkagreni, gróðursett um 1940. Meðfram girðingunni og á hólnum sem ber í leirurnar er Vaglabirkið komið vel á veg“. Helgi Þórsson vann myndina fyrir þennan pistil.


Hakaskjalerkið frá 1951 og beinvaxið birki sumarið 1990. Þetta er sami staður og myndin hér að ofan. Myndin er úr bókinni Ásýnd Eyjafjarðar bls. 172. Aðalsteinn Svanur tók upphaflegu myndina en Helgi Þórsson vann hana fyrir þennan pistil.


Trjátegundir

Ríkjandi trjátegundir í Vaðlaskógi eru lerki og birki. Elstu gróðursetningarnar eru Vaglabirki syðst í skóginum og meðfram allri girðingunni. Annað birki í skóginum er að mestu ættað úr Bæjarstaðarskógi. Fróðlegt er að bera saman laufgun og lauffall þessara tveggja kvæma. Árið 1940 var rist ofan af dálitlum bletti og birkifræi sáð í reitinn. Þarna er að öllum líkindum kominn fyrsti vísir að trjáplöntuuppeldi Skógræktarfélagsins. Græðireitur þessi var norðarlega í skóginum, suðvestur af Valhöll. Enn markar þar fyrir hlöðnum garði og þar standa hávaxin birkitré sem ættuð eru úr Vaglaskógi og eru líkast til vaxin upp úr græðireitnum. Þar eru einnig nokkur birkitré af Bæjarstaðarkvæmi sem eru einstök að vaxtarlagi, þráðbein, hvítstofna og grannvaxin 10-12 m há. Þau munu hafa verið gróðursett seinna.


Hæð sumra þeirra tegunda sem finna má í Vaðlaskógi. Mælingarnar fóru fram haustið 2013 og í janúar 2023. Hæsta tréð í reitnum er rúmlega 20 metra hátt sitkagreni. Þegar Aðalsteinn skrifaði greinina var hæsta tréð lerki sem náði 14 metra hæð. Athyglisvert er að birkið hefur lækkað á þessum tíma. Er það væntanlega vegna snjóbrots í aðventuhretinu árið 2019. Eins og fram kemur í greininni var hæsta birkið um 12 metra hátt um aldamótin.


Myndrit sem Bergsveinn Þórsson vann upp úr gögnum félagsins um gróðursetningar í Vaðlaskóg. Birki er nær þriðjungur af öllum plöntum. Ríflega fjórðungur eru furur. Af þeim hefur langmest verið plantað af skógarfurum eða 46.670 plöntum. Af þeim eru aðeins fáar uppistandandi.


Fallegar skógarfurur neðst í skóginum sunnanverðum. Eftirlifendur úr stórum gróðursetningum á síðustu öld. Seinna verður birtur sérstakur pistill um þessar furur. Mynd: Helgi Þórsson.


Á sömu slóðum, umhverfis þennan gamla græðireit, er nú rússalerkilundur af kvæminu Hakaskoja, gróðursettur 1951. Hæstu tré lundarins eru um 13 m og meðalhæð yfir 10 m [nú er hæsta lerkið tæpir 19 metrar á hæð]. Viður sem fallið hefur til við grisjun lundarins hefur verið nýttur til smíða. Þessi lerkilundur hefur sáð sér nokkuð út. Í miklu suðvestanverði þann 3. febrúar 1991 féll fjöldi trjáa í þessum lundi og myndaðist þá í honum rjóður sem plantað hefur verið í ýmsum tegundum sjaldséðar eru í skógrækt hérlendis og fróðlegt er að skoða. Síberíuþinur vex þar til dæmis afburðar vel en einnig má nefna garðahlyn, álm, hvítþin, ask og fleira.


Mynd úr lerkilundinum þar sem sjá má þin og sýprus. Nú er farið að kalla þennan stað Sparilund og mun verða fjallað sérstaklega um hann í fyrirhuguðum pistli. Þangað til má lesa um hann hér.

Mynd: Sig.A. í okt. 2021.


Stærstu stafafurugróðursetningar í Vaðlaskógi eru nyrst í skóginum í snarbröttum brekkum upp af fjörunni. Þar standa reisulegir furuteigar, nokkuð snjóbrotnir, norður við skógarjaðarinn. Furan sáir sér út af miklum dugnaði. Ýmsar grenitegundir er að finna í Vaðlaskógi. Sitkagreni dafnar þar vel sem og nokkrir glæsilegir rauðgreinteigar. Broddgreni er víða í skóginum.


Broddgreni í Vaðlaskógi. Víða eru broddgreni í skóglendi í Eyjafirði. En gróðursetningu þess er löngu hætt þar sem það er hægvaxið og kalsækið. En það finnast innan um mjög fallega blágrá tré. Mynd: Helgi Þórsson.


Vaðlaskógur varð, eins og aðrir skógarreitir þess tíma, hastarlega fyrir barðinu á furulús, sem drap að heita má alla skógarfurur sem gróðursett hafði verið fram yfir 1960. Eftir standa bersvæði, sem enn má greina, þó nú sé sjálfsáð birki sem óðast að fylla þær eyður. Þó standa enn í Vaðlaskógi óvenjumargar hraustlegar skógarfurur og þar fann Helgi Þórsson árið 1990 fyrstu sjálfsáðu skógarfururnar á Ísland.


Bergsveinn Þórsson við sjálfsánar lindifurur og reynivið í Vaðlaskógi. Lindifurur voru ekki farnar að sá sér sjálfar þegar þessi grein birtist í bókinni Ásýnd Eyjafjarðar. Mynd: Sig.A.


Margar athyglisverðar gróðursetningar eru í Vaðlaskógi og þar er að finna teiga af tegundum sem eru fáséðar í eyfirskum skógum. Lindifuruteigur og bergfura, hvort tveggja frá árunum 1937-1939, ásamt nokkrum skógarfurutrjám frá sama tíma, eru sunnarlega í reitnum. Allt bendir til að þær plöntur hafi félagið flutt, að einhverju eða öllu leyti, lifandi frá Noregi.


Ein af bergfununum sem nefnd er í greininni. Bergfurur geta orðið að prýðilegum klifurtrjám. Reynir sáir sér í skuggann af furunni. Mynd: Sig.A.


Þar stendur einnig ein selja, glæsilegt karltré sem gnæfir upp úr skóginum og sést langt að þegar það blómgast á vorin fyrir laufgun [Þetta á tæpast við lengur. Bæði hefur seljan látið á sjá og aðrar tegundir vaxið meira].


Bergsveinn Þórsson stendur við seljuna sem nefnd er í textanum. Því miður verða seljur ekki mjög langlífar og þessi hefur brotnað og er ekki eins glæsileg og hún áður var. Mynd: Sig.A. 2019.



Rétt norðan við fyrrnefnt Hakaskojalerki er að finna nokkur dögglingsviðartré í þyrpingu, gróðursett 1939 og líklega úr sömu sendingu og fyrrnefndar furutegundir, og sömuleiðis hvítþin frá 1961, hvort tveggja sjaldséð í íslenskum skógum. Sunnar er að finna glæsilegan fjallaþin og nokkur gráreynitré. Allra nyrst í reitnum, rétt neðan vegarins, er síðan blæasparteigur sem hefur valdið miklum heilabrotum. Nú er talið að blæösp þessi sé gróðursett en uppruni er óþekktur [Um blæöspina hefur verið skrifaður sérstakur pistill].


Ólafur Thorarensen, þáverandi formaður Skógræktarfélagsins, gróðursetur ask í Vaðlaskógi þann 22. júní 2019. Mynd: Ingólfur Jóhannsson.


Reiturinn opnast almenningi

Segja má að Vaðlaskógur hafi fyrst opnast almenningi þegar þjóðvegur nr. 1 var lagður gegnum skóginn um miðjan níunda áratuginn. Fram að því var reiturinn óaðgengilegur og nánast lokaður almenningi um árabil. Síðan hefur verið unnið markvisst að grisjun og hirðingu skógarins og vinna við stígagerð er komin vel á veg.


Þann 28. ágúst 1982 var aðalfundur Skógræktarfélags Íslands haldinn á Akureyri. Þá voru fulltrúar á fundinum ferjaðir sjóleiðina yfir í Vaðlaskóg, sem þá var kallaður Vaðlareitur af meðfæddu lítillæti Norðlendinga. Sjá má stafafururnar sem eru nyrst í skóginum. Myndin er á bls. 172 í bókinni Ásýnd Eyjafjarðar og er eftir ókunnan höfund. Helgi Þórsson vann hana fyrir þennan pistil.


Koparreynir og ilmreynir í skógarjaðri við Þjóðveg númer 1 í gegnum skóginn. Ekki eru heimildir til um hvort eða hvenær þessum koparreyni var plantað. Mynd: Sig.A.


Heimild:

Aðalsteinn Svanur Sigfússon (2000): Vaðlaskógur. Í: Ásýnd Eyjafjarðar. Skógar að fornu og nýju. Ritstj. Bjarni E. Guðleifsson. Skógræktarfélag Akureyrar, Akureyri.

398 views0 comments

Recent Posts

See All

Commentaires


bottom of page