top of page

Skóglaus Kjarni

Updated: Jan 25

Í Kjarnaskógi er fagurt, enda er þar upp vaxinn einn fegursti skógur landsins. Því fer þó fjarri að þarna hafi alltaf verið skógur. Við landnám hefur verið þarna þéttur birkiskógur. Ef til vill var gulvíðir í jöðrum mýrlendis og án efa hafa reynitré skreytt skóginn og jafnvel hugsanlegt að blæösp hafi verið þarna líka.

Birki í Kjarnaskógi. Við landnám gæti svæðið hafa litið út eitthvað svipað þessu. Mynd: Sig.A.


Svo hvarf skógurinn. Það voru þær fórnir sem fátæk þjóð þurfti að færa til að lifa af á harðbýlu landi. Þegar Skógræktarfélag Eyfirðinga fékk umsjón með svæðinu árið 1947 örlaði ekki á trjáplöntum í Kjarnaland. Svipaða sögu má reyndar segja um flesta reiti félagsins. Það var til dæmis enginn trjágróður í Vaðlaheiðinni þar sem Akureyringar sjá fagran skóg er þeir líta yfir Pollinn. Nú er sótt að þeim skógi úr ýmsum áttum svo hægt sé að græða peninga á starfi þeirra sjálfboðaliða sem lögðu grunninn að þeim yndisreit sem þar er að finna, en það er utan við efni þessa pistils. Engar blikur eru á lofti með Kjarnaskóg. Akureyrarbær og allur almenningur styður við starfið sem þar fer fram og félagið hefur yfir öflugum og áhugasömum starfsmönnum að ráða sem leggja metnað sinn í að hafa skóginn sem fallegastan.


Tvær myndir úr Kjarna af lerkitrjám sem plantað hefur verið í áður skóglaust land. Fyrri myndin, tekin 1984, er úr safni SE. Seinni myndin tekin inni í skóginum árið 2019 af Sig.A. Þarna er að vaxa upp skógur sem bindur mikið kolefni og laðar að gesti.


Upphafið

Jörðin Kjarni tilheyrir landi Akureyrarbæjar frá árinu 1910. Hún er innan þess svæðis sem á 13. öld var talið kjarninn í landnámi Helga magra. Það land sem hann á að hafa haft undir bú sitt náði frá Merkigili í suðri og að Glerá í norðri og er það sama svæði og átti sókn til Hrafnagilskirkju á seinni öldum. Snemma bar á því að landinu var skipt upp (Adolf og Orri 1996). Þeir Adolf og Orri benda á að „jarðirnar norðan við Kristnes eru allar fremur litlar og eiga ekki land nema stuttan spöl upp í fjallshlíðina en síðan tilheyrir fjallið þar ofanvið Kristnesi. Bendir þetta til að þessum jörðum hafi öllum verið skipt út frá Kristnesi. Þær eru nær allar litlar eða meðalstórar bújarðir eftir hundraðatali og „minnir þetta fyrirkomulag mest á lóðaúthlutun. Þeir benda þó á að Kjarni á land langt upp í fjall, ólíkt hinum jörðunum.


Kartöfluupptaka í skóglausu Kjarnalandi árið 1960. Mynd úr safni SE, sennilega tekin af Jóni Dalmanni Ármannssyni.


Kjarna er hvergi getið í miðaldaritum að sögn Adolfs og Orra (1996). Þeir telja þó enga ástæðu til að ætla að Kjarni hafi byggst seinna en aðrar í kring enda nánast tilviljun hvaða jarðir rötuðu í miðaldaritin. Jörðin hefur alltaf verið í flokki betri jarða. Þeir félagar segja að á þessu svæði hafi verið þéttbýlt miðað við aðrar sveitir hinar síðari aldir og að Kjarni hafi verið þungamiðja í þeirri byggð. Þeir Adolf og Orri telja að byggð hafi verið komin í Kjarna strax á 10. eða 11. öld.


Kjarnaskógur árið 1981. Myndir úr safni SE. Búið er að setja upp ljósastaura sem enn standa. Á þessum tíma stóðu staurarnir upp úr trjágróðrinum en það hefur heldur betur breyst.



Jarðabókin

Þegar við reynum að gera okkur grein fyrir hvernig umhorfs var í Kjarna áður en skógrækt hófst verður fyrir okkur Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1712. Þá tilheyrði Kjarni, ásamt hjáleigunum Litla-Kjarna og Steinagerði, Hrafnagilshreppi. Þeir félagar voru staddir að Hrafnagili þann 21. og 22. september þetta ár og skráðu þá niður upplýsingar um bæina „eftir almúgans tilsögn og undirrjetting“. Í Jarðabókinni er alltaf tiltekið ef jarðir eiga einhverjar skógarnytjar en á þær er ekki minnst einu orði í Kjarna. Um Kjarna, sem þá gekk undir nafninu Stærre Kiarne „síðan kotið var bygt við bæinn“ segir að jörðin sé eign „kóngleg Majestat, en lögrjettumaðurinn Erlendur Jónsson að Sökku hefur byggingarráðin“. Samkvæmt bókinni var jarðarmatið á Kjarna og hjáleigunum tveimur, Litla-Kjarna og Steinagerði, samtals 36 hundruð. Sennilega segir það nútíma lesendum ekki mikið en samkvæmt Fornleifaskráning í Eyjafirði VI var meðaljörð metin á 24 hundruð. Til að lesendur geti betur áttað sig á verðgildinu setjum við hér inn jarðarmat nokkurra býla til samanburðar. Nágrannajarðirnar Naust, Hamrar og Hvammur voru allar metnar á 11 hundruð hver. Dýrleiki þeirra samanlagt er heldur minni en Kjarna og teljast þær, samkvæmt þessu, litlar jarðir. Stórbýlið Kristnes var aftur á móti metið á tíutíu (það köllum við hundrað í dag) hundruð með Reykhúsum og sama mat er á Grund ásamt Grundarkoti. Kjarni hefur því verið alldýr jörð á þessum tíma en þó ekkert í líkingu við stórbýlin innar í Eyjafirði.


Tvær myndir úr Kjarnaskógi. Sjá má auðþekktan klett á báðum myndum sem sumir segja að minni á indíánaandlit. Sá klettur sannar að þetta er sama svæðið. Fyrri myndina tók Eiríkur Sveinsson sem var sérstakur áhugamaður um skógrækt. Myndin tekin árið 1978 ef marka má aldur systranna sem eru á myndinni. Þetta eru dætur Eiríks þær Björg og Anna Sigríður, sem horfir í myndavélina. Þær höfðu farið í gönguferð með föður sínum upp á klettana ofan við Kjarnaskóg. Seinni myndina tók Sig.A. árið 2018 þegar hann var í göngu á sömu slóðum. Þar sem áður voru gróðurlausar skriður er nú að vaxa upp skógur.


Eins og títt er í Jarðabókinni bera bændur sig nokkuð aumlega þegar kostir jarða eru tíundaðir. Væntanlega til að koma í veg fyrir óhóflegar álögur. „Engið er fordjarfað af sjáfarflæðum, sem borið hafa sand og leir í rótina til stórskaða og eyðileggíngar, því á þessari jörðu hafði áður verið engjatak mikið, en jafnan hefur heyinu verið hætt fyrir sjáfarflæðum, og stundum af því skaði orðið. Úthagarnir eru bjarglegir. Hætt er kvikfje fyrir Brunná og Gunnsteinskíl.“

Vekur það nokkra athygli að hætta skuli stafa af Brunná. Rennur hún enn í gegnum Kjarnaskóg og væri nær að kalla hana læk en á. Ekki liggur fyrir hvar Gunnsteinskíll var. Líklega hefur hann verið nærri Eyjafjarðará. Af þessari tilvitnun má sjá að Kjarnalandið nær niður að ánni en samkvæmt öðrum heimildum tilheyra hólmarnir á móts við jörðina ekki landareigninni.


Örugg göngubrú yfir hina fyrrum stórhættulegu Brunná. Áin sú hefur mikið aðdráttarafl fyrir gesti skógarins, einkum börnin. Hengibrúin var byggð árið 1987. Fyrri myndin úr safni SE og er tekin af Aðalsteini Svani Sigfússyni. Seinni myndina tók Sig.A. Grenið hefur vaxið mikið frá því aö brúin var reist.



Teikning af tóftum Gamla-Kjarna úr Fornleifaskráning í Eyjafirði VI. (Adolf og Orri 1996).



Hjáleigurnar

Í Jarðabókinni eru hjáleigurnar Litli-Kjarni og Steinagerði nefnd til sögunnar. Hvor jörð er haldin fjórðungur af landi Kjarna. Um hina fyrri segir: „Litle Kiarne heitir lítill bær bygður við heimabæinn upp úr geldnautafjósi, fyrir hjer um 60 árum. . .“ Um þá seinni segir: „Steinagerde, hjáleiga eður partur af jörðinni. Byggt fyrir manna minni í úthögum, út og niður frá heimajörðinni.“ Það vekur athygli nútíma lesanda að ábúandi á Steinagerði hét Jórunn Guðmundsdóttir. Það er næsta fátítt að konur séu nefndar sem ábúendur í Jarðabókinni.




Dýrahald árið 1712.

Miðað við jarðdýrlega var Kjarni nokkuð dýr jörð eins og áður segir en þó ekki í hópi dýrustu jarða. Hvernig var skepnuhaldi háttað á þessum tíma á svona jörð? Jarðabókin tiltekur mjög nákvæmlega dýrafjölda á hverju býli. Samkvæmt henni voru árið 1712 fjórar kýr, eitt naut, tvævetra, 33 ær, 26 sauðir, 15 lömb, 1 foli tvævetra og ein unghryssa á Kjarna. Litli Kjarni: tvær kýr, 20 ær, 8 sauðir tvævetrir og eldri, 1 veturgamall. 8 lömb, 2 hross, 1 hestur og 1 foli þriggja vetra. Steinagerði: 1 kýr, 13 ær, einn sauður tvævetur, og annar veturgamall. 5 lömb og 1 hross.

Hjá öllum jörðunum er tiltekið hversu margar skepnur hægt er að fóðra með túnslægjum og er það í öllum tilfellum minna en búpeningurinn segir til um. Því virðist hafa verið treyst á útigang allra skepna, bæði stórgripa og sauðfjár. Hjáleigan Kjarnakot er hvergi nefnd í Jarðabókinni en hún er nefnd hér síðar. Ekki er ljóst hvort það er sérstakt kot eða samheiti á Litla-Kjarna.


Dýrahald í Kjarnaskógi er með öðru sniði en áður var. Fjöldi fugla er í skóginum og svo auðvitað kanínur. Þær valda töluverðu tjóni en reynt er að verja viðkvæmustu tegundirnar eins og sést á fyrstu myndinni. Þrátt fyrir tjónið sem kanínur valda verður því ekki á móti mælt að þær eru óhemju krúttlegar og sætar. Myndir: Sig.A.


Briem sýslumaður

Sennilega var vegur Kjarna mestur þegar Gunnlaugur sýslumaður Briem bjó þar snemma á 19. öld. Sýslumenn bjuggu alltaf á góðum jörðum.

Í Ferðabók frá 1814 lýsir Englendingurinn Ebeneser Henderson heimilisgarði við bæinn. Þá bjuggu þar hjónin Gunnlaugur og Valgerður kona hans en heimilismenn voru um tveir tugir. Garðurinn virðist hafa verið haganlega gerður og lýsir Ebeneser því hvernig bæjarlæknum var veitt inn í garðinn til að vökva hann. Var vatnið tekið við myllu sem var í læknum en nú er með öllu óvíst hvar hún var (Hallgrímur og Aðalsteinn 2000, Erlingur 1981, Adolf og Orri 1996). Ebeneser segir að í tíð  Gunnlaugs hafi verið framkvæmd gagngerð viðgerð á bænum og að loftræsting hafi verið góð. Hann heillast mjög af bókakosti bæjarins, samkvæmt Erlingi (1981). „Á frú Valgerður Briem um eitt hundrað bindi og voru það mest guðsorðabækur.“ Svo hrósar hann sýslumanni fyrir að hann skuli hættur að lesa íslenskar fornsögur á kvöldin en lesi í þeirra stað Biblíuna og á hverju kvöldi er sunginn sálmur, að sögn ferðamannsins.


 Ebeneser Henderson skrifaði lýsingu á Kjarna árið 1814. Myndin fengin frá Wikipediu.


Gaman að lifa

Í bókinni Gaman að lifa, sem Erlingur Davíðsson (1981) skráði segir Jóhann Ögmundsson, leikari með meiru, frá ýmsum minningarbrotum. Þar á meðal segir hann frá gamla stórbýlinu Kjarna. Jóhann var í Kjarna í 10 sumur hjá afa sínum er þar bjó áður en skógrækt hófst „og á fjölda góðra minninga þaðan.“ Hér verða tiltekin nokkur valin atriði úr þessari bók þar sem sagt er frá Kjarna. Jóhann var vel að sér og vissi gjörla hvað skráð var í eldri heimildir og segir frá þeim. Meðal annars segir hann frá mörgu af því sem er í Jarðabókinni en óþarfi er að endurtaka það. Þessi frásögn er ein aðalheimildin sem notuð var við fornleifaskráningu í landi Kjarna nokkrum árum síðar.


Horft yfir Kjarnaskóg árið 1978 eða þar um bil. Skógurinn hefur vaxið og stækkað á alla kanta síðan myndin var tekin. Mynd: Eiríkur Sveinsson, en dóttir hans, Björg Eiríksdóttir, veitti leyfi fyrir birtingunni.



Kjarni er ekki lengur bújörð með fólki og fénaði og landið er að verða óþekkjanlegt. Þar vex nú upp skógur sem áður var berangur og þar má finna ágætt skjól hvaðan sem vindurinn blæs. Um skógarsvæðið eru vegir fyrir bíla og göngugötur fyrir þá sem leggja vilja land undir fót.

 Enn eru bíla- og göngugötur um allan skóginn. Jóhann Ögmundsson sá samt ekki fyrir sér að gerðir yrðu torfærir hjólastígar ofarlega í skóginum fyrir þá sem vilja leggja land undir hjól frekar en fót á þar til gerðum fákum. Mynd: Sig.A.


Gamla stórbýlið Kjarni

Þetta kaflaheiti er úr bókinni Gaman að lifa, sem áður er nefnd. Svo er að sjá sem tilfinningar Jóhanns til þeirra breytinga sem átt höfðu sér stað frá því að jörðin fór í eyði hafi verið blendnar. Hann fagnar skógræktinni en sér eftir víðsýninu. „Það var fagurt um að litast á Kjarna. Bærinn stóð hátt og þaðan var víðsýnt. Það sást niður á hið fríða og breiða undirlendi við Eyjafjarðará og að baki eru fríð fjöll með hallandi klettabeltum. Kjarni var með stærstu bújörðum og oft var þar búið stórt. Þar var sýslumannssetur um skeið.“


 Nýja grillhúsið á Birkivelli er ekki mjög langt frá einni af hjáleigunum. Hét hún Litli-Kjarni. mynd: Sig.A.


Hann heldur áfram og enn má sjá bæði söknuð eftir hinu liðna og ánægju yfir breytingunum.

Því miður eru bæjarhúsin öll horfin og allt sem á þau minnir. Jarðýta er stórvirk og stundum er henni beitt af lítilli gætni og engri virðingu fyrir því sem gamalt er. Í stað þess sem var, vex nú upp skógur í Kjarnalandi og um hann liggja vegir, gangar og götustígar til að auðvelda umferð sem flestra um þetta stóra og fagra útivistarsvæði Akureyrarkaupstaðar. En Akureyrarbær hefði e.t.v. átt að varðveita eitthvað af gamla bænum á Kjarna, þeim mannanna verkum, sem tengja söguna nútíðinni og varðveita minningu staðarins. [. . .] Enn er þó tími til að kortleggja landareignina og merkja inn örnefnin, sem óðum eru að hverfa, svo fæstir vita lengur hvar bæjarhús höfuðbólsins stóðu og hvar bæir, byggðir í Kjarnalandi stóðu.“


Myndir úr bókinni Ásýnd Eyjafjarðar. Báðar eru þær teknar af Lönguklettum þar sem horft er yfir Kjarnaskóg. Fyrri myndin er tekin árið 1961 en sú síðari 1979. Höfundar mynda ókunnir.


Síðar í kaflanum segir Jóhann: „Ekki get ég hugsað mér annað en upp verði sett merki hvar bærinn á Kjarna stóð, en einnig Litli-Kjarni, Steinagerði og Kjarnakot.“ Í kaflanum um fornleifaskráningar hér á eftir komum við aðeins inn á þessa frómu ósk. Við áttum okkur samt ekki alveg á hvað átt er við með heitinu Kjarnakot. Sumir telja að það kunni að vera sama kot og Litli-Kjarni en samkvæmt tilvitnuninni hér að ofan er það ekki svo. Í gömlum ritum er einnig getið um Soffíugerði en óvíst er hvenær það á að hafa verið í byggð.


 Vatnsbrunnur var settur upp á Steinagerðisvelli fyrir nokkrum árum. Mynd úr safni SE. Á myndinni má sjá Kristinn Björnsson, Tryggva Hallgrímsson og Óla Þór Jónsson. Sá síðastnefndi er nú stjórnarmaður í félaginu.


Þrátt fyrir augljósan söknuðinn yfir því liðna gætir aðdáunar á þeirri skógrækt sem orðið hefur frá því að Jóhann man fyrst eftir Kjarna.

Allir Akureyringar þekkja Kjarnaskóg, þar sem skógræktarmenn með Ámann Dalmannsson skógarvörð í broddi fylkingar hófu starf fyrir fáum áratugum af dugnaði og bjartsýni, eftir að hafa fengið landið hjá Akureyrarbæ til skógræktar. Þar er svo fríður og ört vaxandi skógur að hann dregur nú þegar til sín fjölda bæjarbúa, t.d. heilar fjölskyldur sem kjósa að drekka kaffið sitt undir berum  himni í því skjóli, sem skógurinn veitir. Þar er gaman að fylgjast með því hvernig Kjarnaskógur hefur smám saman opnað augu bæjarbúa fyrir fegurð svæðisins. Þarna er skýldur og friðsæll útivistarreitur, sem býður alla velkomna. Þetta land var ekki frítt, en það hefur breytt um svip og rétt er að benda á, að á einum stað, nálægt alfaraleið fram Eyjafjörð, en þó í Kjarnalandi vex nú beinvaxnasti birkiskógur landsins. Á þeim stað getur það kostað leit að finna kræklótt tré. Það hefur verið Íslendingum opinberun að sjá í landi sínu þroskamikla skógarreiti. Kjarnaskógur er orðinn einn þeirra fögru reita og hann getur talað það skógræktarmál við gesti sína sem þeir örugglega skilja betur en bókleg fræði. En jafnframt því að sleikja sólskinið í Kjarnaskógi og njóta þess er þar verður notið, sakar ekki að rifja upp söguna. Þarna var fyrrum eitt mesta höfðingjasetur við Eyjafjörð og kom til tals að setja þar upp búnaðarskóla.“


Gamli Kjarnavegur árið 1961. Mynd úr safni SE, sennilega tekin af Jóni Dalmanni Ármannssyni. Faðir hans, Ármann Dalmannsson, er lengst til hægri á myndinni að ná í grjót.

Við þetta má bæta að hugmyndin um bændaskóla var til umræðu upp úr aldamótunum 1900. Svokölluð milliþinganefnd, sem starfaði að málinu, komst að þeirri niðurstöðu að heppilegra yrði að setja skólann niður að Hólum í Hjaltadal (Hallgrímur og Aðalsteinn 2000).


Í skóginum má finna fjallahjólabraut. Myndin fengin úr frétt hjá akureyri.is


Gamla lindin

Við höldum áfram að glugga í bókina Gaman að lifa. Gamla lindin suður af bænum týndist en ég fann hana í fyrrasumar og mun setja við hana merki svo hún týnist ekki öðru sinni. Vatn lindarinnar er dásamlegt drykkjarvatn, ískalt og tært. Afi minn hafði mikla trú á vatni úr þessari lind og lét stundum sækja vatn handa sér þangað er eitthvað var að honum. Hann hafði trú á því, að vatn þetta hefði lækningarmátt.“ Ef Jóhann hefur látið verða að þessu eru þær merkingar löngu týndar og við höfum ekki hugmynd um hvar þessa lind er að finna.

 

Skógurinn og vetrarbirtan. Mynd: Sig.A.


Bæjarhúsin í Kjarna

Enn leitum við í smiðju þeirra Erlings Davíðssonar (1981) og Jóhanns Ögmundssonar. Erlingur skráði eftir Jóhanni: „Við Kolbeinn bróðir höfum stundum farið suður í Kjarnaskóg, staðið þar sem gamli bærinn var fyrrum og rifjað upp húsaskipan og annað, sem nú er horfið nema úr huga þeirra er þekktu. Bæjarþilin snéru á móti austri og voru bæjardyr fyrir miðju. Er komið var inn í bæjardyrnar, voru dyr til vinstri og voru að Suðurstofu. En til hægri voru dyr að Norðurstofu og auðsjáanlega var Norðurstofa viðhafnarstofa, eins og við Kolbeinn munum hana. Hún var þiljuð í hólf og gólf og á veggjum var brjóstpanel sem kallað var og hef ég hvergi séð þann frágang nema í þessari stofu á Kjarna. Norðurstofan var gömul, líklega byggð af Gunnlaugi Briem sýslumanni 1807-1815. Heimildir eru til um það, að Gunnlaugur hafi bætt mjög húsakynni á Kjarna er hann bjó þar. Ég held að segja megi að stofan hafi verið skrautmáluð á fyrri tíð en enn mátti, þegar ég man eftir, sjá útflúr á málningunni á veggjum.“


Kjarnaskógur árið 1979. Mynd úr safni SE og trúlega tekin af Jóni Dalmanni Ármannssyni.

Jóhann segir síðan frá göngunum sem voru þiljuð alveg inn að baðstofu sem einnig var „öll þiljuð í fjórum hólfum og öll máluð“. Þarna var hlóðaeldhús, búr og undir því kjallari. „Undir allri baðstofunni var fjósið og voru í því átta básar. Þeir halda áfram að lýsa húsum og segja: „Að sunnan að sjá voru þrjár burstir á bænum, tvær gluggalausar. Aðeins á burst yfir Suðurstofu var gluggi.“ Jóhann sagði líka frá fjósi, fjárhúsum og eldiviðarkofa í kringum bæinn en við sleppum þeim lýsingum í bili.

Rétt eftir 1950, að sögn Jóhanns, var þessi gamli bær jafnaður við jörðu og mun innrétting Norðurstofu hafa lent í árefti í fjárhúsþaki norður við Glerá. „Þar með var allt sem minnti á þennan merka bæ þurrkað út.“ Bærinn fór í eyði nokkrum árum áður eða 1942 samkvæmt fornleifaskráningu (Adolf og Orri 1996).


Löngu eftir að bærinn í Kjarna var jafnaður við jörðu bjuggu skátar til sólúr á bæjarhólnum þar sem bærinn stóð áður. Mynd úr safni SE.


Í bókinni Ásýnd Eyjafjarðar (2000) er að sjálfsögðu kafli um Kjarnaskóg. Þar kemur fram að síðasti ábúandi á bænum hafi verið Jóhann Frímann Jóakimsson. Bærinn stóð þar sem nú er sólúrið í Kjarnaskógi. Meðfylgjandi mynd er úr þeirri bók.


Kjarni. Fyrir dyrum stendur síðasti ábúandinn; Jóhann Frímann Jóakimsson. Höfundur myndar er ókunnur.


Kjarni um miðja öldina sem leið

Um það leyti sem bærinn í Kjarna var rifinn skrifaði Steindór Steindórsson frá Hlöðum merka grein í Ársrit Skógræktarfélags Íslands. Birtist greinin árið 1951. Greinin heitir Skógar í Eyjafirði, Drög til sögu þeirra. Greinin er mjög fróðleg og má sjá í heild sinni á bls. 49-81 hér.

Greininni er skipt í fjóra hluta auk inngangskafla og lokaorða. Fjórði hlutinn er lýsing á skógum Eyjafjarðar eins og þeir voru á ritunartímanum árið 1950.

Ekki er minnst þar einu orði á skóga eða skógarleifar í Kjarnaskóg. Ástæða þess er einföld. Um miðja síðustu öld var ekki neinn skógur þar sem nú er skógarparadísin Kjarnaskógur. Þegar greinin var rituð hafði Skógræktarfélagið nýhafið skógrækt á svæðinu. Fyrir þann tíma var landið þrautpínt beitiland og hvergi örlaði á trjágróðri. Ekkert tré í Kjarna er eldra en frá miðri síðustu öld.


Rauðgreni sem plantað var í Kjarnaskógi árið 1955. Það er fjórum árum síðar en Steindór nefndi engan skóg í Kjarna. Mynd: Sig.A.


Fornleifaskráning

Glöggt kemur fram í bókinni Gaman að lifa að Jóhann Ögmundsson hefur áhyggjur af því að fornar minjar í Kjarnaskógi gleymist. Undirbúningur undir fornleifaskráningu í landi Akureyrar hófst sumarið 1995 eða þegar bókin var komin á fermingaraldur. Ári síðar var gefin út  sjötta hefti af Fornleifaskráningu í Eyjafirði. Þar sem minjar Hamra, Nausta og í Kjarna voru skráðar (Adolf og Orri 1996). Samkvæmt skráningunni mótar ekki fyrir bæjarhúsunum á Kjarna þar sem sólúrið stendur nú, enda var hann jafnaður við jörðu á sínum tíma. Aftur á móti mótar fyrir sumum af rústunum í kringum bæinn þar sem stóðu útihús. Er sjálfsagt að varðveita þær og gaman væri að merkja þessar rústir og gera þeim hærra undir höfði. Mikill kálgarður er þarna sjáanlegur og er honum lýst svo í skráningunni: „Kálgarðurinn hefur verið all stæðilegt mannvirki og sjást nú 8 m af norðurvegg, 10 m af vesturvegg og um 1 m af suðurvegg vestast. Vegirnir standa um 1- 1,5 m, og eru um 1,5 m á þykkt“. Hægt er að skoða teiknaða uppdrætti rústanna í tenglinum hér ofar.


Kjarnaskógur árið 1956. Þarna eru nú gróðurhús Sólskóga. Mynd úr eigu SE. Sennilegast er að Jón Dalmann Ármannssnni hafi tekið myndina.


Steinagerði stóð nálægt þeim stað þar sem gamla grillhúsið stendur. Tóftir sjást þar enn og gætu verið af bænum en þó líklegra að þær tilheyri útihúsum. Það svæði gengur enn undir nafninu Steinagerði eða Steinagerðisvöllur. Er það vel til fundið að heiðra söguna á þann hátt. Tóftir er einnig að finna nálægt svokölluðum Birkivelli, þar sem nýja grillhúsið stendur (Bergsveinn Þórsson 2024). Það gætu verið rústir sem tengjast Litla-Kjarna. Fleiri fornar menjar má finna í skóginum. Þar eru rústir af stekk, svokölluðum Kjarnastekk og tóftir beitarhúss finnast líka. Í fornleifaskráningunni eru fleiri fornar minjar nefndar á nafn og er full ástæða til að vernda þær og merkja. Er það eitt af fjölmörgum verkefnum sem við í Skógræktarfélaginu viljum svo gjarnan ráðast í.


 Gamla grillsvæðið er á þeim slóðum þar sem hjáleigan Steinagerði stóð. Er svæðið nú nefnt Steinagerðisvöllur. Myndin fengin frá Wikipediu en Berserkur er skráður fyrir henni.

 

Upphaf skógræktar í Kjarna

Árið 1910 keypti Akureyrarbær Kjarna ásamt hjáleigum. Lítur út fyrir að tilgangurinn hafi fyrst og fremst verið að eignast grasnytjar fyrir þá bæjarbúa sem stunduðu búskap.

Árið 1946 fékk Skógræktarfélagið hluta af þessu landi til erfðafestu og hóf þar skógrækt ári síðar. „Fyrir þann tíma var landið þrautnýtt beitiland og hvergi örlaði á trjágróðri. Fyrsta ræktunarstarfið fór fram í landi Steinagerðis í Kjarnalandi þar sem eldra grillhúsið stendur nú. Voru þetta 14 ha. Þetta sama ár keypti félagið erfðafestuland Gunnbjarnar Egilssonar norðan við Brunná upp á tæpa fjóra hektara. Upphaflega skógræktarlandið var því einir 18 hektarar. Smám saman hefur svo landið stækkað og skógurinn vaxið og dafnað (Hallgrímur og Aðalsteinn 2000).


Mynd úr bókinni Ásýnd Eyjafjarðar sem sýnir unglingavinnuflokk við gróðursetningu í Naustaborgum árið 1991. Þarna er nú skógur. Mynd: Aðalsteinn Svanur Sigfússon.


Allan ársins hring er Kjarnaskógur eitt vinsælasta útivistarsvæði Akureyringa, nærsveitunga og þeirra er bæinn heimsækja. Það er nú um 800 ha að stærð. Plantað hefur verið um hálfri annarri milljón skógarplantna. Þar er fjöldi tegunda, mikil gróðursæld og alltaf logn. Skógurinn ber þess glögg merki að félagið hefur verið heppið með góða og metnaðarfulla starfsmenn sem breytt hafa svæðinu í þá útivistarparadís sem þar er að finna.

Í skóginum eru leiksvæði með fjölda leiktækja. Má þar nefna klifurkastala, rennibrautir, ærslabelg, völundarhús, aparólu og rólur. Ein af þeim er sérstaklega ætluð fyrir hjólastóla.


Aparólan að vetri til og skíðamaður í logninu. Myndir: Sig.A.


Göngu- og trimmbrautir ásamt hjólastígum eru mikið notaðir og sama á við um tvo strandblakvelli. Á vetrum eru troðnar skíðagöngubrautir og á félagið nýjan snjótroðara sem félagsmenn og velunnarar söfnuðu fyrir í sameiningu. Gönguskíðabrautirnar í Kjarnaskógi eru stærstu troðnu skíðabrautir í skóglendi á Íslandi. Allt að 20 km skíðaspor er troðið þegar hægt er og þar af eru 6 km upplýstir. Sömu stígar eru gjarnan notaðir í gönguferðir, allan ársins hring.


Strandblakvöllur í Kjarnaskógi. Mynd af heimasíðu SE.


Sérhönnuð fjallahjólabraut á stígum ásamt allskonar pöllum og brúm eru í skóginum og upp af honum.

Tvö yfirbyggð grillhús eru í skóginum. Henta þau jafnt einstaklingum sem hópum. Snyrtingu er að finna á tveimur stöðum og vatnsbrunnur er á einu leiksvæðinu. Er þó aðeins fátt eitt nefnt að því sem finna má í skóginum.


Horft yfir Kjarnaskóg árið 1979. Fjær sér í byggingarnar við Akureyrarflugvöll. Mynd úr safni SE, sennilega tekin af Jóni Dalmanni Ármannssyni.


Skógræktarfélagið er heppið með nágranna. Á myndinni má sjá yfir tjaldstæðið á Hömrum og gróðrarstöðina Sólskóga. Fjær sér í flugvöllinn sem einnig má sjá á efri myndinni. Mynd: Sig.A. 2019.



Við endum þetta á tilvitnun í Aðalstein Svan Sigfússon, sem lengi vann í Kjarna og hefur dáðst að breytingunni sem orðið hefur: „Kjarnaland, með sinni fjölbreyttu náttúru og algerlega manngerðum skógi, er ein dýrasta perla Eyjafjarðar“.



Leiktæki skógarins eru notuð á öllum tímum árs. Myndir: Sig.A.

Þakkir

Þakkir fá Björg Eiríksdóttir fyrir lán á myndum og Hrefna Hjálmarsdóttir fyrir lán á bókinni Gaman að lifa og hvatningu við gerð pistilsins. Án Hrefnu hefði þessi pistill ekki verið skrifaður.

Þakkir fær Ólafur Thoroddsen fyrir að koma myndum frá félaginu á stafrænt form. Þakkir fá einnig allir þeir fjölmörgu sjálfboðaliðar sem lagt hafa hönd á plóg í árana rás við að gera Kjarnaskóg að þeirri útivistarparadís sem þar er að finna.


 Kjarnaskógur er fallegur allt árið. Hver árstíð hefur sinn sjarma, sína birtu og sína liti. Myndir: Sig.A.


Heimildir:


Adolf Friðriksson og Orri Vésteinsson (1996): Fornleifaskráning í Eyjafirði VI. Fornleifar í landi Nausta, Hamra og Kjarna. Minjasafnið á Akureyri og Fornleifastofnun Íslands. Akureyri. Sjá: Fornleifaskráning í Eyjafirði VI. Fornleifar í landi Nausta, Hamra og Kjarna (minjastofnun.is)


Aðalsteinn Svanur Sigfússon (2024): Munnleg heimild í janúar 2024.

 

Árni Magnússon og Páll Vídalin (1712): Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalins. 10. bindi, Eyjafjarðarsýsla bls. 163-175. Gefin út af Hinu íslenska fræðafjelagi í Kaupmannahöfn með styrk úr ríkissjóði Íslands árið 1943. Kaupmannahöfn.

 

 Bergsveinn Þórsson (2024). Munnleg heimild þann 9. janúar 2024.

 

Erlingur Davíðsson skráði (1981): Gaman að lifa. Minningarbrot úr ævi leikstjórans, leikarans og söngvarans Jóhanns Ögmudssonar. Bókaútgáfan Skjaldborg, Akureyri.


Hallgrímur Indriðason og Aðalsteinn Svanur Sigfússon (2000): Kjarnaskógur. Í: Ásýnd Eyjafjarðar. Skógar að fornu og nýju. Ritstj. Bjarni E. Guðleifsson bls. 129-143. Skógræktarfélag Eyfirðinga. Akureyri.

 

Steindór Steindórsson frá Hlöðum (1950): Skógar í Eyjafirði. Drög til sögu þeirra. Í: Ársrit Skógræktarfélags Íslands 1950 bls. 49-81. Reykjavík 1951.

 

626 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments

Couldn’t Load Comments
It looks like there was a technical problem. Try reconnecting or refreshing the page.
bottom of page