top of page

Saga skóga á Íslandi

Updated: Sep 20, 2023

Nú er mikið undir. #TrévikunnarSE er ekki bara tré vikunnar heldur mun lengri tíma.


STIKLAÐ Á MJÖG STÓRU Í SÖGU SKÓGA Á ÍSLANDI

Fyrir um 10-15 milljónum ára, á seinni hluta tertíer, óx skógur á því svæði sem nú heitir Ísland. Þá var Atlantshafið ekki sá farartálmi fyrir gróður sem það síðar varð. Þessi skógur hefur sennilega verið svipaður þeim sem nú vex í suð-austurhluta Bandaríkjanna. Steingervingar segja okkur að þá hafi vaxið hér magnolíutré, túlípanatré, lárviður, valhnota, álmur, eik o.fl. Á míósentímabilinu, sem lauk fyrir meira en fimm milljónum ára voru hér barrtré eins og fenjatré, lerki, þinur, greni og fura auk fleiri trjáa. Þá tók að kólna og við tók tímabil sem kallast plíósen á síðari hluta tertíer. Veðurfar hér hefur þá að líkindum verið svipað og nú er um vestanverða Mið-Evrópu og gróðurfar tók mið af því. Þá höfðu barrskógar yfirhöndina eins og nú má sjá t.d. í Ölpunum og víðar.


Ísöld

Fyrir um þremur milljónum ára kólnaði verulega. Ísöld gekk í garð. Það var þó ekki samfelldur kuldatími heldur skiptust á hlýskeið og jökulskeið. Þau voru misjafnlega löng og hitafarið misjafnt. Á kuldaskeiðum ísaldar hurfu ýmiss tré. Fyrst dóu út hin hitakærari tré og á hlýskeiðum náðu þau ekki að nema land aftur enda hafði Atlantshafið stækkað og landbrú sokkið. Fura, elri (ölur) birki og ýmsar víðitegundir tórðu hvað lengst en svo fór að furan og elrið hvarf líka. Elrið er niturbindandi tegund eins og belgjurtir. Á Ísöldinni virðast nær allar belgjurtir hafa horfið, ef þær voru hér áður.

Fyrir um 12.000 árum fór að hlýna í Evrópu en þau hlýindi náðu seinna til norðurhluta álfunnar. Á norðurlöndum tók við tímabil sem stundum hefur verið nefnt hafþyrnitímabilið. Hafþyrnir varð víða ríkjandi og batt mikið nitur í líffélagið sem enn nýtist öllu vistkerfinu. Hann komst ekki sjálfur hingað eftir að ísöld lauk frekar en svo margar aðrar niturbindandi tegundir. Hér á landi fór hlýinda að gæta fyrir alvöru fyrir um 10.000 árum. Þúsöld seinna virðist hafa verið fremur þurrt og hlýtt á Íslandi. Vaxtarskilyrði birkis voru góð og það breiddist út um landið án þess að stórir grasbítar hindruðu það eða tefðu fyrir. Þeir voru ekki til á landinu. Landið var frjósamt og skógi vaxið.


Hafþyrnir í skógarjaðri. Í lok ísaldar batt hafþyrnir mikið nitur á norðurlöndum þegar ís tók að hopa. Það nitur er enn í vistkerfinu þar. Á myndinni má einnig sjá aðrar niturbindandi jurtir s.s. lúpínu og elri (öl).


Birkiskeiðin tvö

Þetta hlýskeið stóð yfir í um tvær þúsaldir og hefur verið nefnt birkiskeiðið hið fyrra. Þá tók við svalara tímabil í aðrar tvær þúsaldir. Þá stækkuðu mýrar og votlendisgróður sótti á. Er það tímabil kallað mýrarskeiðið hið fyrra. Þá tók aftur að hlýna. Síðan eru liðin ein fimm þúsund ár. Þá var veðurfar hér mun hlýrra en síðar varð og sennilega hefur nánast allt landið klæðst gróðri. Birki varð útbreiddara en áður. Þetta er kallað birkiskeiðið hið síðara. Sverir birkilurkar sem víða finnast í mýrum eru oftast frá þessum tíma. Þessi gósentíð stóð í um tvær og hálfa þúsöld. Birkiskógar náðu þá hátt til fjalla. Nú er það svo að birki breytir veðurfari í nærumhverfi sínu. Svokallað míkróklíma er annað í birkiskógum en utan þeirra.


Eins og kunnugt er fjölgar birki sér bæði með fræi og teinungi frá rótum. Myndun teinunga er sú aðferð sem birkið treystir á í vel grónu landi. Það gerir það að verkum að þegar kólna tók gat birkið haldið sér við mun hærra til fjalla en ætla mætti ef hitasumman er skoðuð. Það gerði það ekki með fræi heldur rótar- eða stubbskotum enda hefur fræframleiðsla á þessum jaðarsvæðum sjálfsagt verið lítil á köldum árum. Ætla má að frá þessum tíma séu þær skógarleifar sem enn finnast á stöku stað á Íslandi allt upp í 600 metra hæð yfir sjávarmáli.

Birki nemur land á Skeiðarársandi.

Mýrarskeiðið hið síðara

Fimm hundruð árum fyrir okkar tímatal, eða þar um bil, fór að kólna aftur. Þá hófst mýrarskeiðið hið síðara sem enn stendur yfir. Mýrar breiddust út og lurkalögin urðu til þar sem áður var birkiskógur. Þegar landnám hófst var því skógurinn viðkvæmur, einkum til fjalla. Skógar þöktu þá um 25-40% landsins. Mismunurinn ræðst af því hversu hátt menn telja að hann hefi náð og hversu stórir hlutar sandanna hafa verið birki vaxnir.


Landnámið

Við landnámið breyttist allt. Landnámsmenn fluttu með sér þá tækni og búskaparhætti sem þeir voru vanir. Það sem þeir vissu ekki að landið hér var mun viðkvæmara fyrir rofi og uppblæstri en það land sem þeir þekktu áður. Eldfjallaaska er almennt talin fremur frjó en hún gerir landið viðkvæmt fyrir uppblæstri. Ósjálfbærir búskaparhættir höfðu því meiri áhrif hér en í Noregi. Annað atriði sem skiptir máli er nánast alger skortur á niturbindandi plöntum á Íslandi miðað við Noreg. Landið er því lengur að byggja upp frjósemi heldur en víða annars staðar.

Frjókornagreiningar í mýrum hafa sýnt okkur að undraskjótt breyttist gróðurinn. Birkifrjóum snarfækkaði en hlutdeild grasfjróa jókst. Það virðist ekki hafa tekið nema um 100 til 250 ár að eyða stórum hluta skóganna og þegar skógarskjólið skorti hófst uppblástur. Hægt er að mæla þykkt jarðlaga milli aldursgreindra öskulaga og má þá sjá að áfok vegna uppblásturs hófst skömmu eftir landnám. Jarðvegsþykknun snarjókst við landnám. Allt er á sömu bókina lært. Ari fróði hafði rétt fyrir sér með sínum frægu ummælum sem allir þekkja.


Víða um land má sjá mikinn mun á afgirtu og landi og óafgirtu. Þar sjást áhrif beitar. Hér er það girðingin utan um Leyningshóla.

Við sjáum líka í Íslendingasögunum að þar er sums staðar talað um skóga sem eru horfnir á tímum söguritara. Annars staðar er talað um skóga sem greinilega er ætlast til að lesandinn kannist við. Við sjáum allskonar örnefni sem benda til fornra skóga. Orðsyfjar og málshættir segja einnig sína sögu. „Oft er í holti heyrandi nær“ er illa skiljanlegt nema ef menn vita að holt merkti skógur (sbr. þýska orðið Holtz). Orðið heiði hefur væntanlega merkt skóglaust svæði. Svæði sem snemma hafa orðið skóglaus eftir landnám eða voru það e.t.v. þá þegar.


Litla ísöld

Þótt veðurfar á Íslandi hafi verið heldur kaldara við landnám en þegar birkiskeiðið hið síðara stóð sem hæst var tíð engu að síður góð. Hún var ekki ósvipuð því sem nú er, eða ögn kaldara. Litla ísöld var ekki hafin og eldgos hófust ekki við landnám. Auðvitað hafði kólnandi veðurfar áhrif á gróður. Það gerði hann viðkvæmari. Því er athyglisvert að skoða hvar landinu hefur farið einna mest aftur. Það var ekki endilega á þeim stöðum sem veðrið er hvað kaldast. Þannig er t.d. landeyðingin meiri í Krýsuvík en á Hornströndum. Það liggur því fyrir að litla ísöld er ekki sá stóri áhrifavaldur sem sumir telja þegar kemur að eyðingu skóga. Skógleysi landsins og uppblástur stafar ekki af vondum veðrum eða eldgosum heldur landnáminu sjálfu, manninum og húsdýrum hans. Landið var skógi vaxið og það getur orðið það aftur.


Birki, víðir og fleiri tegundir nema land í Krossanesborgum eftir að þær voru friðaðar fyrir beit.

Skipulögð skógrækt

Skipulögð skógrækt á Íslandi á sér meira en 100 ára sögu. Nú, þegar veðurfar er milt, eru mikil tækifæri í henni. Með aukningu skógræktar er hægt að bæta landið og fjölga atvinnutækifærum í sveitum landsins. Stór svæði hafa verið friðuð fyrir búfjárbeit og breytingin er víða ótrúleg. Þar sem vistkerfi hafa hrunið vegna rányrkju fyrri alda gerast breytingarnar hægt en þar sem virkni þeirra er meiri fer landi hratt fram. Víða eru birki, reynir og víðir að nema land en einnig furur, greni, lerki og fleiri tegundir. Sumar þeirra hefa ekki verið villtar á Íslandi frá því fyrir ísöld! Við í Skógræktarfélaginu fögnum þessum breytingum.

Helsta heimild: Sigurður Blöndal og Skúli Björn Gunnarsson. Íslandsskógar. Hundrað ára saga.


Horft yfir Kjarnaskóg og tjaldstæðið á Hömrum yfir Akureyri.


Plantaður blandskógur austur í Skriðdal.

1,066 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page