top of page
Writer's pictureSigurður Arnarson

Reyniviður í vetrarbúningi

Updated: Oct 12, 2023

Reyniviður, oftast bara nefndur reynir en stundum ilmreynir eða íslenskur reynir (Sorbus aucuparia) er mikið uppáhaldstré hjá mörgum. Það ber þessi flottu, fingruðu laufblöð, blómstrar á vorin, laðar að sér fugla seinnipart sumars með fallegum, rauðum berjum og fær oft alveg dásamlega haustliti.


Á veturna stendur tréð nakið og bíður eftir betri tíð. Þá skortir það allt ofantalið og þá getur verið erfitt að greina það frá öðrum trjám. En reynirinn lumar á auðþekktu leyndarmáli sem auðvelt er að greina. Brum reynisins eru nefnilega frábrugðin öllum öðrum brumum. Þau eru meira og minna þakin ljósum hárum. Á máli grasafræðinnar er sagt að þau séu hærð. Oftast væri þó nær að segja að þau væru kafloðin þótt á þeim kunni að finnast skallablettir. Þessi hærðu brum koma auðveldlega upp um tegundina og því er reyniviðurinn útnefndur #TrévikunnarSE í fyrstu viku febrúar.

Hvernig þekkjum við skrautreyni og ilmreyni í sundur?


Annars er það um reyninn að segja að hann er lang útbreiddasta tré sinnar ættkvíslar (Sorbus). Hann getur verið býsna fjölbreytilegur í vexti og kemur þar bæði til mismunandi umhverfisþættir svo og erfðir. Margar tegundir reynis hafa verið ræktaðar á Íslandi og vaxa hér vel. Ein af þeim; skrautreynir (Sorbus decora) getur verið mjög líkur íslenska reyninum en er mun einsleitari í ræktun. Ef þú, lesandi góður, ert í vafa um hvort eitthvert reynitré er skrautreynir eða ilmreynir koma brumin til hjálpar. Brum skrautreynisins eru klístruð. Þau geta að vísu haft örfá hár, fremst á bruminu en eru ekki hvítloðin eins og reyniviðurinn og sá síðarnefndi er laus við allt klístursull á brumum sínum.





106 views0 comments

Recent Posts

See All

Comentarios


bottom of page