top of page

Nýr snjótroðari á leiðinni

Updated: Jul 4, 2023

Takmarkinu er náð - áfram opið fyrir framlög til 22.02.2022


Þau gleðitíðindi hafa nú orðið að Skógræktarfélag Eyfirðinga hefur safnað þeim 35 milljónum króna sem stefnt var að til að fjármagna nýjan snjótroðara fyrir Kjarnaskóg. Tækið hefur nú verið pantað og von er á því fyrir vetrarlok. Formlega stendur söfnunin þó áfram til 22. febrúar eins og ráðgert hafði verið. Söfnunarfé umfram kostnað við kaup á snjótroðaranum verður notað til að koma þaki yfir nýja tækið, þjálfa starfsmenn við notkun þess, kaupa nauðsynlega varahluti og verkfæri og þess háttar. Áfram verður hægt að fylgjast með söfnuninni á vef félagsins, kjarnaskogur.is.


Markmiðinu náð! Söfnunarskógurinn góði og nýr snjótroðari í sjónmáli!

Í ljósi þess að nýi troðarinn hefur nú verið að fullu fjármagnaður með rausnarlegum framlögum einstaklinga, félagasamtaka, fyrirtækja og sveitarfélaga, hefur nú verið lögð inn pöntun fyrir því tæki sem hentugast þykir til að troða brautir fyrir göngufólk og gönguskíðafólk í Kjarnaskógi. Tækið er af gerðinni Pisten Bully frá framleiðandanum Kässbohrer Geländefarzeug AG í Leppheim í Þýskalandi. Framleiðandinn hefur ákveðið að styrkja Skógræktarfélagið með því að bæta við rafhitakerfi í troðarann sem hitar upp bæði vélina og stjórnklefann. Þetta dregur úr mengun frá tækinu, sparar eldsneyti og eykur endingu vélarinnar. Arctic Trucks hefur umboð fyrir þessi tæki á Íslandi og styrkir söfnunina með því að gefa mjög hagstætt verð. Þá hefur Eimskip ákveðið að flytja tækið til landsins, félaginu að kostnaðarlausu.


Skógræktarfélag Eyfirðinga stendur í mikilli þakkarskuld við alla sem hafa aðstoðað við þetta mikilvæga lýðheilsuverkefni. Kjarnaskógur er lýðheilsumiðstöð sem fólk á öllum aldri, heimafólk og gestir, notar sér til ánægju og heilsubótar. Snjótroðari skiptir sköpum um að skógurinn nýtist sem flestum allan ársins hring. Því má segja að þau gleðitíðindi sem við færum í dag séu mikið fagnaðarefni fyrir alla sem koma í Kjarnaskóg.


Troðnar sleðabrekkur eru vinsælar í Kjarnaskógir. Ljósmynd Ingólfur Jóhannsson.

Þegar söfnun fyrir nýjum snjótroðara var hrundið af stað síðasta vor var ákveðið að hún skyldi standa til 22. febrúar 2022. Dagsetningin var valin af því að hún er skemmtilega samhverf, 22022022. Ákveðið hefur verið að standa við þessa lokadagsetningu, jafnvel þótt markmiðinu um 35 milljónir króna sé nú náð. Dýrt tæki eins og snjótroðari þarf helst að fá þak yfir „höfuðið“ svo að bræða megi af því snjó og klaka á vetrum og svo að veðraöflin vinni hægar á því, hvort sem það er vindurinn, regnið, snjórinn eða sumarsólin. Félagið mun því nýta það fé sem kann að safnast til viðbótar til að byggja yfir troðarann, senda starfsmann á námskeið í notkun og meðferð hans, kaupa tól og tæki sem troðaranum tengjast og nauðsynlega varahluti. Þess má geta að tilbúið er svæði fyrir skemmu á lóð félagsins í Kjarnaskógi og hafa Þverárfeðgar gefið malarflutning og vélavinnu vegna þess. Það er líka þakkarvert framlag sem í raun má telja til snjótroðaraverkefnisins, a.m.k. að hluta.


Síðustu spor Gamla rauðs. Ljósmynd Ingólfur Jóhannsson.

Kennimerki eða logó þeirra sem stutt hafa söfnunina má sjá í borða á vef félagsins. Öll framlög eru mikilvæg, stór sem smá, og færir Skógræktarfélag Eyfirðinga öllum bakhjörlum í þessu stóra verkefni bestu þakkir!


Snjótroðari af gerðinni PistenBully 100 er á leiðinni í Kjarnaskóg. Ljósmynd af pistenbully.com.

1,017 views0 comments

Comments


bottom of page