3+30+300
- Sigurður Arnarson
- 59 minutes ago
- 8 min read
Norræna ráðherranefndin er opinber samstarfsvettvangur norrænu ríkisstjórnanna. Á heimasíðu nefndarinnar segir að hún vinni að sameiginlegum norrænum lausnum sem skila sýnilegum árangri fyrir alla þá sem eiga heima á Norðurlöndum.
Óhætt er að fullyrða að fátt er ráðherranefndinni óviðkomandi er við kemur lausnum sem ætlast er til að nýst geti öllum íbúum svæðisins. Má nefna að í ár eru 30 ár síðan farið var að veita Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs. Hér segir frá því markmiði að Norðurlönd eigi að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims á árunum fram til 2030. Einn þáttur í þeirri viðleitni er skýrsla sem heitir Yggdrasil – The Living Nordic City, eða: Yggdrasill - hin lifandi norræna borg. Þetta er hluti af stærra verkefni sem kallast Náttúrumiðaðar lausnir fyrir norrænar borgir. Í þessari skýrslu eru sett fram viðmið um innleiðingu lausna sem stuðla eiga að grænni og betri borgum. Byggt er á meginreglu sem kallast 3+30+300. Þessi regla setur fram skýr viðmiðunarmörk fyrir lágmarksfjölda trjáa í þéttbýli. Við mælum með þessari fróðlegu skýrslu. Hér má sjá samantekt á íslensku.

Þumalputtareglan 3+30+300
Meginregla, sem við köllum þrír, þrjátíu, þrjúhundruð, á að styðja við líffjölbreytileika og ekki síður að stuðla að bættri heilsu íbúanna. Reglan ber þetta nafn því samkvæmt henni ættu allir að geta séð að minnsta kosti þrjú stór tré frá hverjum dvalarstað, svo sem vinnustað, skóla eða heimili. Ekki er tiltekið hversu stór þau þurfa að vera og má vera að það sé æði misjafnt í huga fólks eftir því hvar við berum niður. Að auki ætti að vera að minnsta kosti 30% laufþekja í hverju hverfi og hvergi ætti að vera lengra fyrir íbúa en 300 m í næsta græna svæði. Þetta er ný þumalputtaregla fyrir trjárækt og grænar lausnir í þéttbýli á Norðurlöndum og hana á að nota allstaðar þar sem því verður við komið. Þessar meginreglur þarf að hafa í huga við allt skipulag og þegar kemur að þéttingu byggðar er mikilvægt að geta dregið trýnið upp úr trogi efnishyggjunnar þannig að það séu fyrst og fremst þarfir íbúanna sem hafðar eru í huga. Þétting byggðar á alltaf að fara fram á forsendum meginþorra íbúa.
Þar sem því verður við komið er mælt með því að nota innlendar trjátegundir eins og hægt er í nafni líffræðilegs fjölbreytileika. Aftur á móti teljum við að þar sem flóran er fátækleg sé heppilegt að auka fjölbreytileikann með því að planta heppilegum, innfluttum trjám. Í skýrslunni segir að vegna skorts á innlendum trjátegundum í Færeyjum, á Íslandi og Grænlandi, verði að leggja mat á raunhæfa nálgun við að uppfylla markmið 3+30+300 meginreglunnar.

Kuming-Montreal
Eitt af þeim markmiðum sem skýrsluhöfundar hafa sett sér er að benda á leiðir og setja fram leiðbeiningar þannig að öll Norðurlöndin geti innleitt Kunming-Montreal markmiðin um líffræðilega fjölbreytni fyrir grænar borgir. Á ensku kallast þetta Kunming-Montreal Global Biodiversity Framework og má lesa um verkefnið hér. Sérstaklega er bent á tólfta markmiðið sem felur í sér að auka beri verulega flatarmál grænna svæða í þéttbýli og að bæta aðgengi almennings að þeim. Það á að gera með því að auka verndun og sjálfbæra nýtingu og tryggja að borgarskipulag taki mið af líffræðilegri fjölbreytni með það að markmiði að bæta heilsu og auka vellíðan íbúanna með bættri tengingu við heilnæma náttúru. Allt borgarskipulag á að taka mið af þessu.

Kuming-Montreal byggir á 23 tölusettum markmiðum en í skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar er sérstaklega bent á mikilvægi markmiðs númer 12 sem nefnt er hér að ofan en einnig er bent á markmið 8 og 11 enda hjálpa þau til við að ná 12. markmiðinu. Bæði þessi markmið lúta að innleiðingu náttúrumiðaðra lausna og vistkerfisþjónustu. Markmið 8 er að lágmarka áhrif loftslagsbreytinga og byggja upp seiglu eða þanþol vistkerfa með náttúrumiðuðum lausnum. Markmið 11 er að endurheimta, viðhalda og efla vistkerfisþjónustu til hagsbóta fyrir náttúru og allan almenning. Ekki verður betur séð en þumalputtareglan 3+30+300 henti prýðilega til að stuðla að þessum markmiðum.

Staðan
Eins og sjá má á töflunni í lok þessa kafla er staðan best í Finnlandi og næst best í Noregi þegar kemur að því að uppfylla þessa reglu. Ef til vill er þarna einn af lyklunum að því að Finnar eru hamingjusamasta þjóð í heimi enda hafa rannsóknir sýnt fram á að aukinn trjágróður í umhverfi okkar getur dregið úr offramleiðslu á stresshormóninu kortísól. Trjágróður í nágrenni okkar lætur okkur líða vel.
Lengst frá þessum markmiðum eru þéttbýli á Grænlandi og á Íslandi. Það er allrar athygli vert að staðan í Færeyjum er miklu betri en á Íslandi. Á það við um alla þrjá mælikvarðana. Einnig er gott að hafa í huga að Svíþjóð, Noregur og Finnland eru lönd sem öll ná lengra í norður en Ísland. Á þeim breiddargráðum er staðan betri en á Íslandi. Ef við viljum réttlæta þessa slæmu stöðu á Íslandi getum við sagt að Ísland sé norðar en Færeyjar og því sé hægara um vik þar. Einnig að þar sem Ísland er eyja sé málið flóknara hér en í norðurhluta Skandinavíu. Þessi rök eru þó haldlítil ef við skoðum þau saman. Það er enn meira úthafsloftslag í Færeyjum en á Íslandi og norðlæg lega frænda okkar á meginlandinu hindrar ekki trjágróður og kemur ekki í veg fyrir að hægt sé að uppfylla þessi markmið. Við sjáum líka í gróskumiklum hverfum á Íslandi að það er vel hægt að nálgast þessi markmið, ef vilji er fyrir hendi. Samt er það svo að almennt eru miklu færri tré og verri aðgangur að grænum svæðum á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum, að frátöldu Grænlandi. Ef til vill væri það gott fyrsta markmið Íslendinga að ná Færeyingum þegar kemur að borgarskógrækt.
Þrjár myndir frá höfuðstað Færeyja: Þórshöfn. Færeyjar skora hærra í öllum þáttum 3+30+300 þumalputtareglunnar en við Íslendingar. Myndir: Sig.A.
Félagar okkar hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur tóku saman eftirfarandi punkta úr skýrslunni sem sjá má í töflunni hér að neðan.
–Aðeins 40% bygginga á Íslandi uppfylla regluna um að hægt sé að sjá þrjú stór tré þaðan. Hlutfallið er 70-97% annars staðar á Norðurlöndunum.
–Aðeins 4% bygginga eru í hverfum þar sem laufþekjan er 30% samanborið við 92% í Finnlandi, 80% í Svíþjóð og 18,5% í Færeyjum.
–Talsvert lengra er í græn svæði á Íslandi en víðast annars staðar. Á Íslandi eru að jafnaði 328 metrar í næsta græna svæði. Samborið við 23 metra í Finnlandi; 27 í Svíþjóð og 61 metri í Danmörku.
Betur má ef duga skal.

Í skýrslunni kemur fram að þótt mikilvægt sé að öll löndin taki sem virkastan þátt í innleiðingu reglunnar sé greining fyrir einstök sveitarfélög enn mikilvægari en greiningar á landsvísu. Það er meira að segja nefnt að það megi innleiða 3+30+300 regluna í aðalskipulag sveitarfélaga.
Það væri mikill fengur ef íslensk sveitarfélög tækju tillit til þessa og létu greina stöðuna í bæjum í heild og einstökum hverfum þeirra. Það gæti verið hluti af því að bæta lýðheilsu og líffræðilegan fjölbreytileika.

Tilmæli
Í þessari títtnefndu skýrslu eru sett fram tilmæli sem æskilegt væri að skipulagsyfirvöld tækju til greina. Má þar nefna mikilvægi þess að vernda trjágróður og græn svæði þegar verið er að þétta byggð og að alltaf verði gert ráð fyrir trjám og grænum svæðum þegar hverfi eru skipulögð. Svo er lögð áhersla á að varðveita og hlúa að trjám sem fyrir eru í borgarlandslaginu, sérstaklega eldri trjám enda veiti þau meiri vistkerfisþjónustu en yngri og smærri tré. Í þessu sambandi er rétt að nefna að við í Skógræktarfélaginu erum sammála því að þétta beri byggð á Íslandi svo framarlega sem það sé gert á forsendum íbúanna frekar en peningaaflanna. Við teljum að flest séu því sammála að íbúabyggð eigi ekki að vera svo þétt að trjágróður og græn svæði verði að víkja fyrir steinsteypu. Þegar Árni Steinar Jóhannsson var umhverfisstjóri Akureyrar lagði hann á það áherslu að þegar keyrt væri í gegnum bæinn sæist alltaf samfelldur trjágróður á að minnsta kosti aðra hönd. Þetta tókst honum. Trén hafa síðan vaxið og orðið verðmætari. Því miður hefur borið á því hin síðari misseri að horfið hafi verið frá þessu markmiði og trén verið felld. Í skýrslunni er einnig bent á mikilvægi þátttöku almennings í trjáræktarverkefnum. Þar teljum við að sveitarfélögin í Eyjafirði standi sig vel með því að styrkja Skógræktarfélagið okkar. Hér er hlekkur sem auðveldar lesendum að ganga í félagið. Mælst er til þess í skýrslunni að stefna um trjárækt verði fléttuð inn í skipulags- og þróunarstefnu til að hámarka félagslegan og efnahagslegan ávinning fyrir íbúana.

Forsendur
Það er engin furða að Norræna ráðherranefndin velti þessum hlutum fyrir sér. Miðað við hversu stór hluti íbúa býr í borgum og bæjum þarf að huga vel að borgarumhverfinu. Í grein sem Aaron Sherer og Duncan Slater (2025) skrifaði um borgarskógrækt í Reykjavík og birtu í tímaritinu Arboricultural Journal kemur fram að skógarþekja í Reykjavík er ekki mjög mikil. Þar er skógarþekja um 8,7% í þéttbýlinu. Mest er hún í Hólavallagarði en minnst á Kjalarnesi. Skógarþekja utan borgarmarka, eins og í Heiðmörk er utan þessarar rannsóknar. Í greininni kemur fram að borgarskógrækt veitir margvíslega vistþjónustu. Þar má nefna að hún dregur mjög úr bæði vindi og mengun. Í greininni reyna þeir félagar meira að segja að slá á hversu mörg tonn af svifryki trjágróður í borginni fangar. Það er vel þekkt að skógar og trjágróður hafa góð áhrif á lýðheilsu og erlendar rannsóknir benda til þess að í grænum borgum sé minni glæpatíðni en í borgum þar sem minna er um skóga. Aaron og Duncan skoðuðu ekki bara laufþekju á Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu, heldur einnig í öðrum helstu þéttbýliskjörnum landsins. Það kemur sennilega ekki á óvart að laufþekjan er mest á Egilsstöðum eða 23%. Þar á eftir koma Húsavík og Akureyri. Þetta eru bæir sem draga til sín fólk á sumrin og má ætla að þar eigi skógarþekjan einhvern hlut að máli þrátt fyrir að dálítið vanti upp á að þeir nái þessum 30% mörkum sem mælst er til að þeki öll hverfi á Norðurlöndum. Bæir og hverfi með trjágróðri eru ekki bara heilsusamlegri heldur einnig hlýlegri og fallegri en bæir þar sem skortur er á trjám. Umfjöllun um þessa grein þeirra félaga má meðal annars sjá hér. Þar segir Pétur Halldórsson frá helstu niðurstöðum.

Það er einlæg von okkar að meginreglan 3+30+300 verði innleidd sem víðast í aðalskipulag bæja og borga á Íslandi og að reynt verði eftir föngum að fara eftir reglunni til að bæta umhverfi íbúanna og í leiðinni að stuðla að bættri lýðheilsu í öllum hverfum í borgarumhverfi á Íslandi. Að lokum þökkum við Guðríði Gyðu Eyjólfsdóttur fyrir vandaðan yfirlestur.
Heimildir
Auður Kjartansdóttir (2025): 3-30-300: Grænni og betri borgir. Birt á vefsíðu Skógræktarfélags Reykjavíkur þann 12. febrúar 2025. Sjá: 3-30-300: Grænni og betri borgir - Skógræktarfélag Reykjavíkur.
Pétur Halldórsson (2025): Skóglendi Reykjavíkur 576 milljarða virði. Grein á vefsíðu Lands og skógar frá 15. apríl 2025. Sjá: Skóglendi Reykjavíkur 576 milljarða virði | Land og skógur.
Aaron Z. Shearer & Duncan Slater (2025): Characteristics and benefits of Reykjavik’s urban forest, Iceland. Birt í: Arboricultural Journal í mars 2025. sjá: Characteristics and benefits of Reykjavik’s urban forest, Iceland: Arboricultural Journal: Vol 0, No 0 - Get Access.
TemaNord 2025:520 (2025): YGGDRASIL The Living Nordic City. Implementing nature-based solutions through the 3+30+300 principle. Norræna ráðherranefndin. Sjá: Yggdrasil – The Living Nordic City.
Comments